Sjónarmið Biblíunnar
Þörfnumst við í raun og veru presta?
„GJÖRIÐ þakkir fyrir þá gjöf sem prestsembættið er,“ sagði Jóhannes Páll páfi II í árlegu bréfi sínu til presta á skírdag 1992. Bæði kaþólikkar og aðrir hafa orðið sér sárlega meðvitandi um misgerðir sínar. Þeir hafa fundið þörfina á einhverjum, er sé Guði velþóknanlegur, til að segja sér hver vilji hans sé, til að bera fram fyrir hann fórn og tala máli sínu við Guð. Slíkur einstaklingur er kallaður prestur. Þörfnumst við í raun og veru prests til að öðlast fyrirgefningu Guðs?
Hugmyndin um presta og fórnir á ekki rætur sínar að rekja til manna heldur Guðs. Ef ekki væru til neinar syndir gegn Guði væri engin þörf á prestum. Hinn fullkomni maður, Adam, þurfti engan prest í Eden. Hann var skapaður syndlaus. — 1. Mósebók 2:7, 8; Prédikarinn 7:29.
Hverjir voru fyrstu prestarnir?
Við núlifandi menn höfum allir fengið syndsemi í arf vegna þess að Adam syndgaði vísvitandi og við erum afkomendur hans. (Rómverjabréfið 3:23) Abel, sonur fyrsta mannsins, Adams, viðurkenndi það. Biblían segir um hann: „Fyrir trú bar Abel fram fyrir Guð . . . fórn.“ (Hebreabréfið 11:4) Þó svo að Abel og aðrir trúfastir menn fortíðarinnar — svo sem Nói, Abraham og Job — væru ekki kallaðir prestar, færðu þeir Guði fórnir fyrir sjálfa sig eða fjölskyldur sínar. Til dæmis segir Biblían um Job og börn hans: „[Job] fórnaði brennifórn fyrir hvert þeirra. Því að Job hugsaði: ‚Vera má að börn mín hafi syndgað‘“ (Jobsbók 1:5) En hvernig urðu prestar og fórnir almennar innan svo margra menningarsamfélaga?
Lítum á atburði tengda hinum forna ættföður, Nóa. Hann og fjölskylda hans voru einu mennirnir sem lifðu af heimsflóðið. Er þau stigu á hreinsaða jörð reisti Nói altari og bar fram fórn til þakklætis fyrir miskunn Jehóva og vernd. Þar sem allar þjóðir eru afkomendur Nóa fetuðu þær án efa í fótspor hans og þróuðu með tímanum mismunandi siðvenjur tengdar meðalgöngurum og syndafórnum. — 1. Mósebók 10:32.
Meira en öld síðar braust út uppreisn gegn Guði í borginni Babel. Guð ruglaði tungumáli manna og þeir tvístruðust. (1. Mósebók 11:1-9) Sumir prestar, sem stóðu nú að rangsnúnum og spilltum trúarkenningum, þróuðu hræðilega helgisiði í þeim löndum sem þeir dreifðust til. Samt sem áður sá Guð þörfina á að fræða tilbiðjendur sína um að þeir þyrftu að hafa sanna prestastétt með æðstapresti, undirprestum og honum þóknanlegum fórnum.
Hvers vegna Guð skipaði presta
Með tímanum gaf Jehóva Ísraelsþjóðinni presta sem gengdu tveimur grundvallarhlutverkum. Í fyrsta lagi voru þeir fulltrúar Guðs gagnvart þjóðinni sem dómarar og kennarar laga Guðs. (5. Mósebók 17:8, 9; Malakí 2:7) Í öðru lagi voru þeir fulltrúar þjóðarinnar gagnvart Guði með því að færa honum fórnir fyrir hönd þjóðarinnar. Bréf Páls til kristinna Hebrea útskýrir: „Svo er um hvern æðsta prest, sem úr flokki manna er tekinn, að hann er settur fyrir menn til þjónustu frammi fyrir Guði, til þess að bera fram gáfur og fórnir fyrir syndir. . . . Enginn tekur sér sjálfum þennan heiður, heldur er hann kallaður af Guði.“ — Hebreabréfið 5:1, 4.
Páll útskýrir þessu næst að prestastéttin í Ísrael hafi ekki verið endanleg leið Guðs til að sætta menn við sig. Skyldur prestanna voru táknmyndir um eitthvað betra, ‚hið himneska.‘ (Hebreabréfið 8:5) Þegar hið himneska kæmi yrði ekki lengur þörf fyrir táknmyndirnar. Lýsum þessu með dæmi: Þú kannt að geyma auglýsingu um vöru sem þig bráðvantar, en myndirðu ekki henda henni þegar þú hefur útvegað þér vöruna sjálfa?
Löngu fyrir daga Ísraelsþjóðarinnar ásetti Guð sér að koma á fót prestastétt er þjónaði til blessunar, ekki aðeins Ísraelsþjóðinni heldur öllu mannkyninu. Til að byrja með naut Ísraelsþjóðin þeirra sérréttinda að mega leggja til meðlimi þessarar prestastéttar. Þegar Ísraelsþjóðin var mynduð sagði Jehóva henni: ‚Ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega . . . skuluð þér vera mér prestaríki og heilagur lýður.‘ (2. Mósebók 19:5, 6; samanber 1. Mósebók 22:18.) Því miður hlýddi þjóðin sjaldan rödd Guðs. Því sagði Jesús prestunum og faríseunum: „Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess.“ Hverjir eiga núna að þjóna sem prestar mannkyninu til blessunar? — Matteus 21:43.
Hvaða prestastéttar þarfnast kristnir menn?
Þar sem við höfum erft syndina frá Adam er frelsun til eilífs lífs aðeins möguleg fyrir tilstilli hinnar fullkomnu fórnar sem Jesús sá okkur fyrir. (1. Jóhannesarbréf 2:2) Jesús sjálfur hefur milligöngu fyrir okkur sem æðsti prestur, rétt eins og var fyrirmyndað með prestastéttinni í Ísrael. Hebreabréfið 9:24 segir: „Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.“ Framúrskarandi yfirburðir Krists sem æðstaprests gera því mannlega presta óþarfa sem milligöngumenn. Þó er þjónusta undirpresta enn nauðsynleg. Hvernig?
Prestar verða að „bera fram andlegar fórnir, Guði velþóknanlegar fyrir Jesú Krist.“ (1. Pétursbréf 2:5) Páll ritaði varðandi það hvers konar fórnir þetta væru: „Skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara.“ (Hebreabréfið 13:15) Meðan þeir sem munu mynda hið konunglega prestafélag eru enn á jörðu eru þeir þess vegna fulltrúar Guðs fyrir mönnum sem vottar hans, ekki milligöngumenn. Síðar, á himni með Jesú Kristi, verða þeir fulltrúar manna fyrir Guði með því að stýra hagnaðinum af fórn Krists og koma til leiðar lækningu allra meina. — Samanber Markús 2:9-12.
Þótt allir trúaðir menn ættu að bera vitni munu aðeins tiltölulega fáir þjóna í hinu himneska „prestaríki.“ Jesús sagði: „Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.“ (Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 14:1) Þeir verða reistir upp til himna og verða „prestar Guðs og Krists og þeir munu ríkja með honum um þúsund ár.“ — Opinberunarbókin 20:6.
Guð hefur áformað að láta þessa himnesku presta gera, bæði í andlegum og efnislegum skilningi, það sem engin prestastétt hefur verið fær um. Bráðlega, er þeir beita hagnaðinum af lausnarfórn Jesú, geta þeir tekið þátt í að endurreisa allt trúað mannkyn til fullkomleika. Þá fær Jesaja 33:24 dásamlega uppfyllingu. Þar segir: „Enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘ Fólkið, sem þar býr, hefir fengið fyrirgefning misgjörða sinna.“
[Mynd/Rétthafi]
„Blessun hveitisins í Artois,“ 1857, eftir Jules Breton: France / Giraudon/Art Resource, N.Y.