Vísindamenn draga almenning á asnaeyrunum
Eftir fréttaritara Vaknið! á Spáni
TOMÁS SERRANO, aldraður, veðurbitinn bóndi á Spáni, hafði lengi álitið að eitthvað einstakt væri fólgið í jörð á smábýlinu hans í Andalúsíu. Plógurinn hans hafði oft velt upp óvenjulegum beinum og tönnum sem voru örugglega ekki úr búpeningi frá þessum slóðum. En þegar hann talaði um fundi sína gaf enginn í þorpinu sérstakan gaum að því — að minnsta kosti ekki fyrr en árið 1980.
Það ár kom hópur steingervingafræðinga á vettvang til að rannsaka þetta landsvæði. Áður en langt um leið fundu þeir mikla steingervinganámu sem geymdi bein bjarndýra, fíla, flóðhesta og annarra dýra — öll á litlu svæði sem virtist vera uppþornuð mýri. En það var árið 1983 sem þessi auðuga náma komst í heimsfréttirnar.
Lítið en sérstætt höfuðskeljarbrot hafði þá nýlega fundist. Boðað var að þarna væru komnar fram „elstu leifar manna sem fundist hefðu í Evrópu og Asíu.“ Reiknað var út að höfuðskeljarbrotið væri á bilinu 900.000 til 1.600.000 ára gamalt og sumir vísindamenn töldu að fundur þess boðaði „byltingu í rannsóknum á tegundinni maður.“
Steingervingurinn, sem vakti alla þessa hrifningu, var skírður „Orcemaðurinn“ — eftir þorpinu í héraðinu Granada á Spáni þar sem hann fannst.
„Orcemaðurinn“ kemst í heimfréttirnar
Þann 11. júní 1983 var steingervingurinn kynntur opinberlega á Spáni. Kunnir spænskir, franskir og breskir vísindamenn höfðu þegar vottað að hann væri ósvikinn, og pólitískur stuðningur fékkst fljótt. Spænskt tímarit lýsti yfir með mikilli hrifningu: „Spánn, einkum Granada, er nú í fylkingarbroddi fornmenjafunda á stórmeginlandinu Evrasíu.“
Hvernig leit „Orcemaðurinn“ eiginlega út? Vísindamenn lýstu honum sem nýlega komnum innflytjanda frá Afríku. Þessi steingervingur var sagður vera af ungum manni, sennilega um 17 ára gömlum og um 150 cm á hæð. Líklega hefði hann verið veiðimaður og safnari og hefði hugsanlega ekki enn lært að nota eld. Líklega hefði hann verið búinn að þróa með sér frumstætt tungumál og trú. Hann lifði á ávöxtum, korni, berjum og skordýrum, og af og til át hann leifar af dýrum sem hýenur höfðu drepið.
Efasemdir um tegundargreininguna
Þann 12. maí 1984, aðeins tveim vikum fyrir alþjóðamálþing vísindamanna um þennan fund, komu upp alvarlegar efasemdir um uppruna höfuðskeljarbrotsins. Eftir að kalksteinsútfellingar höfðu verið fjarlægðar vandvirknislega innan úr brotinu blasti við steingervingafræðingunum „kambur“ sem kom þeim úr jafnvægi. Höfuðskeljar manna hafa engan slíkan kamb. Málþinginu var frestað.
Dagblaðið El País í Madrid sló upp fyrirsögninni: „Margt bendir til að hauskúpa ‚Orcemannsins‘ sé úr asna.“ Loks var lýst yfir árið 1987 í vísindagrein eftir Jordi Agustí og Salvador Moyà, tvo af steingervingafræðingunum sem höfðu átt þátt í upphaflega fundinum, að röntgenrannsóknir hefðu staðfest að steingervingurinn væri af heststegund.
Hvers vegna létu menn draga sig á asnaeyrunum?
Þetta mikla áfall á sér nokkrar orsakir sem engin á mikið skylt við rannsóknaraðferð vísindanna. Það þykir alltaf merkilegt að finna menjar um forfeður mannsins og vísindamenn fá sjaldan að sitja lengi einir að slíkum fundum. Stjórnmálamenn voru fljótir til að grípa það sem þeir töldu geta orðið sér til framdráttar og vísindaleg nákvæmni hvarf í skuggann af þjóðernishita.
Menningarmálaráðherra Andalúsíu lýsti yfir að það væri stór stund fyrir Andalúsíu að „vera vettvangur svona markverðrar uppgötvunar.“ Þegar sumir hreyfðu efasemdum um fundinn hélt héraðsstjórn Andalúsíu því stíft fram að „menjarnar væru ósviknar.“
Lítilfjörlegur steingervingur eins og þessi (um 8 cm í þvermál) er álitinn gríðarmikilvægur, meðal annars vegna skorts á sönnunum fyrir ímyndaðri þróun mannsins. Þrátt fyrir það að steingervingurinn væri smár var „Orcemanninum“ hampað sem „mesta steingervingafundi síðustu ára og týnda hlekknum milli hins dæmigerða Afríkumanns (Homo Habilis) og elsta mannsins á evrasíska meginlandinu (Homo erectus).“ Frjótt ímyndunarafl og heldur óvísindalegar getgátur nægðu til að fylla í eyðurnar um útlit og lífshætti „Orcemannsins.“
Réttu ári áður en „Orcemaðurinn“ fannst hafði forystumaður vísindamannahópsins, dr. Joseph Gibert, velt fyrir sér því óvænta sem svæðið ætti vafalaust eftir að leiða í ljós. „Þetta er eitthvert þýðingarmesta samsafn frá fyrri hluta kvartertímans í Evrópu,“ fullyrti hann. Og jafnvel eftir að hið sanna eðli steingervingsins kom í ljós sat dr. Gibert við sinn keip: „Alþjóðasamfélag vísindamanna er sannfært um að fyrr eða síðar finnist yfir einnar milljónar ára gamall steingervingur manna á Guadix-Baza-svæðinu [þar sem höfuðskeljarbrotið fannst], og að það verði sannarlega merkur fundur.“ Mikil óskhyggja það!
„Vísindin fást við leitina að sannleikanum“
Einn þeirra sem fann „Orcemanninn,“ dr. Salvador Moyà, viðurkenndi hreinskilnislega í viðtali við Vaknið!: „Við dr. Jordi Agustí áttum mjög erfitt með að sætta okkur við að steingervingurinn væri ekki af frummanni. En vísindin fást við leitina að sannleikanum, jafnvel þótt okkur líki hann ekki.“
Deilan, sem hefur átt sér stað í kringum „Orcemanninn,“ sýnir vel hve erfitt verk það er fyrir steingervingafræðina að grafa fram sannleikann um hina svokölluðu þróun mannsins. Þótt grafið hafi verið í áratugi hafa ósviknar leifar hinna ímynduðu apamanna, sem eiga að vera forfeður mannsins, ekki litið dagsins ljós. Enda þótt sumum vísindamönnum líki það ekki, getur verið að hörgullinn á öruggum sönnunargögnum bendi til þeirrar staðreyndar að maðurinn hafi alls ekki orðið til við þróun þegar öllu er á botninn hvolft?
Óhlutdrægur áhorfandi gæti vel spurt sig að því hvort aðrir nafntogaðir „apamenn“ séu nokkuð raunverulegri en „Orcemaðurinn“ reyndist vera.a Eins og sagan hefur sýnt rækilega fram á geta vísindin leitt menn til sannleikans, en vísindamenn eru engan veginn óskeikulir. Sú hætta er einkum fyrir hendi þegar pólitísk, heimspekileg og persónuleg hlutdrægni villir mönnum sýn — og þegar svona lítið er notað til að reyna að útskýra svona mikið.
[Neðanmáls]
a Ítarlega athugun á öðrum, svokölluðum apamönnum er að finna í 9. kafla bókarinnar Lífið — varð það til við þróun eða sköpun?, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Myndir á blaðsíðu 24, 25]
Að ofan: Eftirmynd af 7,5 cm steingervingi hins ímyndaða „Orcemanns.“
Til hægri: Málverk af ímynduðum „frummanni“ þróunarsinna.