Við studdum ekki hernað Hitlers
Frásaga Franz Wohlfahrts
FAÐIR minn, Gregor Wohlfahrt, þjónaði í austurríska hernum í fyrri heimsstyrjöldinni (1914 til 1918) og barðist gegn Ítölum. Samanlagt voru drepin hundruð þúsunda Austurríkismanna og Ítala. Sú hryllilega lífsreynsla gerbreytti afstöðu föður míns til trúarbragða og stríðs.
Faðir minn sá austurríska presta blessa hersveitirnar, og hann komst að raun um að ítölsku prestarnir hinum megin víglínunnar gerðu slíkt hið sama. Hann spurði því: „Hvers vegna eru kaþólskir hermenn hvattir til að drepa aðra kaþólikka? Ættu kristnir menn að heyja stríð hver gegn öðrum?“ Prestarnir höfðu engin haldbær svör.
Svör við spurningum föður míns
Eftir stríðið kvæntist faðir minn og settist að í austurrísku fjöllunum nálægt ítölsku og júgóslavnesku landamærunum. Ég fæddist þar árið 1920, fyrstur sex barna. Þegar ég var sex ára fluttumst við til St. Martin sem er nokkrum kílómetrum austar nálægt ferðamannabænum Pörtschach.
Meðan við bjuggum þar heimsóttu boðberar votta Jehóva (þá kallaðir Biblíunemendur) foreldra mína. Árið 1929 skildu þeir bæklinginn Wohlfahrt Sicher (Örugg velsæld) eftir hjá föður mínum og svaraði hann mörgum af spurningum hans. Hann sýndi með hjálp Biblíunnar að heimurinn væri undir stjórn ósýnilegs höfðingja sem kallaður er djöfull og Satan. (Jóhannes 12:31; 2. Korintubréf 4:4; Opinberunarbókin 12:9) Það voru áhrif hans á trúarbrögðin, stjórnmálin og viðskiptaheiminn sem ollu þeim hryllingi er faðir minn sá í fyrri heimsstyrjöldinni. Loksins hafði faðir minn fundið svörin sem hann hafði verið að leita að.
Kappsöm þjónusta
Faðir minn pantaði rit frá Biblíu- og smáritafélaginu Varðturninum og tók að dreifa þeim meðal ættingja sinna og hús úr húsi. Hans Stossier, tvítugur piltur úr nágrenninu, byrjaði fljótlega að starfa með honum hús úr húsi. Innan skamms voru fjórir af ættingjum okkar einnig orðnir vottar — Franz, föðurbróðir minn, Anna, kona hans, og síðar sonur þeirra, Anton, föðursystir mín, Maria, og Hermann, maðurinn hennar.
Þetta olli talsverðu uppnámi í litla bænum okkar, St. Martin. Í skólanum spurði nemandi kaþólskan kennara okkar: „Faðir Loigge, hver er þessi nýi guð, Jehóva, sem Wohlfahrt tilbiður?“
„Nei, nei, börn,“ svaraði presturinn. „Þetta er ekki nýr guð. Jehóva er faðir Jesú Krists. Ef þau útbreiða boðskapinn vegna kærleika til þessa Guðs, þá er það mjög gott.“
Ég man að faðir minn fór stundum að heima klukkan eitt á nóttinni með biblíurit og samloku meðferðis. Sex eða sjö stundum síðar var hann kominn út á enda prédikunarsvæðis síns nálægt ítölsku landamærunum. Ég fór með honum í styttri ferðir.
Þrátt fyrir opinbert prédikunarstarf sitt vanrækti faðir minn ekki andlegar þarfir fjölskyldu sinnar. Þegar ég var um tíu ára byrjaði hann reglulegt, vikulegt biblíunám með okkur öllum sex og notaði til þess bókina Harpa Guðs. Stundum var húsið okkar troðfullt af áhugasömum nágrönnum og ættingjum. Áður en langt um leið var kominn 26 boðbera söfnuður í litla bænum okkar.
Hitler kemst til valda
Hitler komst til valda í Þýskalandi árið 1933 og ofsóknir á hendur vottum Jehóva jukust skömmu síðar. Árið 1937 sótti faðir minn mót í Prag í Tékkóslóvakíu. Mótsgestir voru varaðir við þrengingum framundan þannig að þegar faðir minn kom heim hvatti hann okkur öll til að búa okkur undir ofsóknir.
Um þessar mundir, þegar ég var 16 ára, fór ég að læra málaraiðn. Ég bjó hjá málarameista og gekk í iðnskóla. Aldraður prestur, sem hafði flúið Þýskaland til að komast undan ofsóknum nasistastjórnarinnar, sá um trúfræðslu í skólanum. Þegar nemendurnir heilsuðu honum „Heil Hitler!“ setti hann upp vanþóknunarsvip og spurði: „Hvað er að trú ykkar?“
Ég notaði tækifærið og spurði af hverju kaþólskir notuðu titla svo sem „Yðar ágæti“ og „Heilagi faðir,“ því að Jesús sagði að allir fylgjendur hans væru bræður. (Matteus 23:8-10) Presturinn viðurkenndi að það væri rangt að gera þetta og að hann væri sjálfur í vanda staddur af því að hann neitaði að hneigja sig fyrir biskupinum og kyssa hönd hans. Þá spurði ég: „Hvernig er hægt að drepa kaþólska trúbræður sína með blessun kirkjunnar?“
„Þetta er versta smánin!“ svaraði presturinn með áherslu. „Það ætti aldrei að gerast aftur. Við erum kristnir menn og kirkjan ætti ekki að taka þátt í stríði.“
Hinn 12. mars 1938 ruddist her Hitlers hindrunarlaust inn í Austurríki og innlimaði landið fljótlega í Þýskaland. Kirkjurnar voru fljótar að lýsa yfir stuðningi við hann. Innan við viku síðar voru allir hinir sex biskupar Austurríkis, þeirra á meðal Theodore Innitzer kardínáli, búnir að undirrita „hátíðlega yfirlýsingu,“ sem var mjög hliðholl Hitler, þar sem þeir sögðu að í komandi kosningum væri það „nauðsyn og þjóðarskylda oss biskupanna sem Þjóðverja að greiða þýska ríkinu atkvæði vort.“ (Sjá bls. 9.) Haldin var mikil móttökuhátíð í Vínarborg þar sem Innitzer kardínáli var meðal fyrstu manna til að heilsa Hitler með nasistakveðju. Kardínálinn fyrirskipaði að allar austurrískar kirkjur skyldu flagga hakakrossfánanum, hringja kirkjuklukkum og biðja fyrir einræðisherra nasista.
Hið stjórnmálalega andrúmsloft í Austurríki breyttist, að því er virtist á einni nóttu. Stormsveitarmenn í brúnum einkennisbúningum með hakakrossborða á upphandleggnum spruttu upp eins og gorkúlur. Presturinn, sem hafði áður sagt að kirkjan ætti ekki að taka þátt í stríði, var einn fárra presta sem neitaði að segja „Heil Hitler!“ Í vikunni eftir var kominn nýr prestur í hans stað. Fyrsta verk hans, þegar hann gekk inn í stofuna, var að skella niður hælunum, lyfta hendinni í kveðjuskyni og segja: „Heil Hitler!“
Þrýstingur til að láta undan
Allir urðu fyrir þrýstingi nasista. Menn reiddust þegar ég heilsaði með „Guten Tag“ (góðan dag) í stað „Heil Hitler.“ Um 12 sinnum var ég klagaður fyrir Gestapó. Einu sinni hafði hópur stormsveitarmanna í hótunum við málarameistarann, sem ég bjó hjá, og sagði honum að ef ég heilsaði ekki með Hitlerskveðju og gengi í Hitlersæskuna yrði ég sendur í fangabúðir. Málarinn, sem var stuðningsmaður nasista, bað þá að sýna mér þolinmæði því að hann væri viss um að ég myndi taka stefnubreytingu. Hann sagðist ekki vilja missa mig því að ég væri góður starfsmaður.
Með hernámi nasista byrjuðu menn að fara í fjöldagöngur langt fram á nótt og fólk hrópaði slagorð með ofstæki. Daglega glumdu ræður Hitlers, Göbbels og annarra í útvarpinu. Kaþólska kirkjan gerðist æ undirgefnari Hitler og prestar báðu reglulega fyrir Hitler og blessuðu hann.
Faðir minn minnti mig á að ég yrði að taka einarðlega afstöðu og vígja Jehóva líf mitt og láta skírast. Hann talaði líka við mig um Mariu Stossier, yngri systur Hans, nágranna okkar, sem hafði tekið afstöðu með sannleika Biblíunnar. Við Maria höfðum ákveðið að giftast og faðir minn hvatti mig eindregið til að uppörva hana andlega. Hans, bróðir Mariu, skírði okkur í ágúst 1939.
Eftirbreytniverð ráðvendni föður míns
Daginn eftir var faðir minn kallaður í herinn. Enda þótt bág heilsa hans, sem var afleiðing af þrengingum hans í fyrri heimsstyrjöldinni, hefði hvort eð er hindrað hann í að gegna herþjónustu, sagði hann þeim sem töluðu við hann að hann væri kristinn og myndi aldrei aftur taka þátt í stríði eins og hann hefði gert meðan hann var kaþólikki. Vegna þessara orða var honum haldið til frekari yfirheyrslna.
Tveim vikum síðar, þegar Þjóðverjar réðust inn í Pólland sem var upphaf síðari heimsstyrjaldarinnar, var hann fluttur til Vínarborgar. Meðan hann var í haldi þar skrifaði borgarstjórinn yfir héraði okkar og fullyrti að faðir minn bæri ábyrgð á því að aðrir vottar hefðu neitað að styðja Hitler og að þess vegna ætti að taka hann af lífi. Þar af leiðandi var faðir minn sendur til Berlínar og var skömmu síðar dæmdur til dauða. Hann var hafður í hlekkjum dag og nótt í Móabítafangelsinu.
Um þetta leyti skrifaði ég föður mínum fyrir hönd fjölskyldunnar og sagði honum að við værum staðráðin í að fylgja trúföstu fordæmi hans. Faðir minn var ekki vanur að bera tilfinningarnar utan á sér, en við gátum séð hvernig honum var innanbrjósts þegar við sáum tárablettina á síðasta bréfinu hans. Hann var svo glaður að við skyldum skilja afstöðu hans. Hann sendi okkur hvatningarorð og nefndi hvert okkar með nafni og hvatti okkur til að vera trúföst. Upprisuvon hans var sterk.
Auk föður míns voru um 25 aðrir vottar í Móabítafangelsinu. Háttsettir embættismenn Hitlers reyndu árangurslaust að telja þá á að snúa baki við trúnni. Í desember 1939 voru um 25 vottar líflátnir. Þegar móðir mín frétti af aftöku föður míns lét hún í ljós að hún væri Jehóva mjög þakklát fyrir að hafa gefið föður mínum þann styrk sem þurfti til að vera trúfastur allt til dauða.
Prófraunir mínar hefjast
Fáeinum vikum síðar var ég kallaður til vinnuþjónustu en komst fljótlega að raun um að aðalstarfið var herþjálfun. Ég útskýrði að ég myndi ekki þjóna í hernum en myndi vinna önnur störf. En þegar ég neitaði að syngja baráttusöngva nasista urðu foringjarnir ævareiðir.
Næsta morgun birtist ég í borgarlegum klæðum en ekki einkennisbúningi hersins sem okkur höfðu verið fengnir. Liðsforinginn, sem hafði umsjónina, sagðist ekki eiga annars úrkosti en að setja mig í dýflissuna. Þar mátti ég lifa á brauði og vatni. Síðar var mér sagt að haldin yrði fánahylling og ég var varaður við því að ég yrði skotinn ef ég tæki ekki þátt í henni.
Um 300 nýliðar voru á þjálfunarsvæðinu, auk herforingja. Mér var skipað ganga fram hjá foringjunum og hakakrossfánanum og heilsa með Hitlerskveðju. Ég sótti andlegan styrk í frásögu Biblíunnar af Hebreunum þrem og sagði einfaldlega „Guten Tag“ um leið og ég gekk fram hjá. (Daníel 3:1-30) Mér var fyrirskipað að ganga fram hjá aftur. Í það skiptið sagði ég ekkert, brosti aðeins.
Þegar fjórir foringjar fylgdu mér í dýflissuna aftur sögðust þeir hafa skolfið á beinunum af því að þeir bjuggust við að ég yrði skotinn. „Hvernig gastu brosað,“ spurðu þeir, „en við verið svona taugaóstyrkir?“ Þeir sögðust óska þess að þeir hefðu sama hugrekki og ég.
Fáeinum dögum síðar kom dr. Almendinger, háttsettur foringi frá aðalstöðvum Hitlers í Berlín, í búðirnar. Ég var leiddur fyrir hann. Hann útskýrði að lögin væru orðin svo miklu strangari en áður. „Þú gerir þér ekki grein fyrir hvað þú átt í vændum,“ sagði hann.
„Ójú, ég geri það,“ svaraði ég. „Faðir minn var hálshöggvinn af sömu ástæðu fyrir aðeins fáeinum vikum.“ Hann var steini lostinn og þagnaði.
Síðar kom annar háttsettur foringi frá Berlín og enn var reynt að fá mig til að skipta um skoðun. Eftir að hafa heyrt hvers vegna ég myndi ekki brjóta lög Guðs tók hann í höndina á mér og tárin streymdu niður vanga hans er hann sagði: „Ég vil bjarga lífi þínu!“ Allir foringjarnir, sem horfðu á, voru snortnir. Aftur var farið með mig í dýflissuna þar sem ég var alls 33 daga.
Réttarhöld og fangavist
Í mars 1940 var ég fluttur í fangelsið í Fürstenfeld. Nokkrum dögum síðar komu unnusta mín, Maria, og Gregor bróðir í heimsókn. Gregor var aðeins einu og hálfu ári yngri en ég og hann hafði tekið ákveðna afstöðu með sannleika Biblíunnar í skólanum. Ég man að hann hvatti yngri bræður okkar til að vera viðbúnir ofsóknum og sagði að það væri aðeins ein leið, sú að þjóna Jehóva! Þessi dýrmæta klukkustund, sem við notuðum til að stappa stálinu hvert í annað, var síðasta skiptið sem ég sá hann á lífi. Síðar, í Graz, var ég dæmdur í fimm ára þrælkunarvinnu.
Haustið 1940 var ég settur í járnbrautarlest, sem átti að flytja mig til vinnubúða í Tékkóslóvakíu, en mér var haldið eftir í Vínarborg og settur í fangelsi þar. Aðstæður voru hryllilegar. Ég leið ekki aðeins hungur heldur var ég bitinn af stórum skordýrum með þeim afleiðingum að mig sveið og það blæddi úr hörundi mínu. Af ástæðum, sem mér eru ókunnar, var ég fluttur aftur í fangelsið í Graz.
Mál mitt þótti áhugavert fyrir þá sök að Gestapó lýsti vottum Jehóva sem ofstækisfullum píslarvottum sem vildu fá dauðadóm þannig að þeir gætu hlotið himneska umbun. Af því leiddi að í tvo daga fékk ég gott tækifæri til að tala í áheyrn prófessors og átta nemenda frá Graz-háskóla og útskýra fyrir þeim að aðeins 144.000 manns yrði teknir til himna til að ríkja með Kristi. (Opinberunarbókin 14:1-3) Ég sagði þeim að von mín væri sú að öðlast eilíft líf við paradísarskilyrði á jörðinni. — Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 21:3, 4.
Eftir að hafa spurt mig út úr í tvo daga sagði prófessorinn: „Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að þú sért með báða fæturna hér á jörðinni. Þig langar ekki til að deyja og fara til himna.“ Hann lýsti harmi sínum yfir ofsóknunum á hendur vottum Jehóva og óskaði mér alls hins besta.
Snemma árs 1941 var ég fluttur með járnbrautarlest til Rollwald-þrælkunarbúðanna í Þýskalandi.
Erfitt líf í vinnubúðum
Rollwald lá milli borganna Frankfurt og Darmstadt og þar voru um 5000 fangar. Hver dagur hófst með nafnakalli kl. 5:00 að morgni sem tók um tvær klukkustundir meðan foringarnir tóku sér góðan tíma til að uppfæra fangaskrá sína. Við urðum að standa hreyfingarlausir og margir fangar voru barðir óþyrmilega fyrir að standa ekki grafkyrrir.
Morgunverðurinn var brauð gert úr hveiti, sagi og kartöflum sem oft voru rotnar. Síðan héldum við til vinnu í mýrinni og grófum skurði til að ræsa landið fram til akuryrkju. Eftir að hafa unnið í mýrinni allan daginn án viðunandi skófatnaðar voru fæturnir á okkur stokkbólgnir eins og svampar. Einu sinni fékk ég eitthvað sem líktist drepi í fæturna og ég óttaðist að það þyrfti að taka þá af mér.
Um hádegi var okkur borið tilraunasamsull, sem kallað var súpa, þangað sem við vorum við vinnu. Það var bragðbætt með næpum eða hvítkáli og stundum voru í því hökkuð hræ af sýktum skepnum. Okkur sveið í munn og háls og margir okkar fengu stór kýli. Um kvöldið fengum við meiri „súpu.“ Margir fangarnir misstu tennurnar, en mér hafði verið sagt að það væri mikilvægt að halda tönnunum virkum. Ég tuggði flísar úr furu eða hesliviðarsprota og missti aldrei tennurnar.
Hvernig ég hélt mér andlega sterkum
Í því skyni að brjóta niður trú mína einangruðu verðirnir mig frá öðrum vottum. Þar eð ég hafði engin biblíurit rifjaði ég upp ritningarstaði sem ég hafði lagt á minnið, svo sem Orðskviðina 3:5, 6 sem hvetja okkur til að ‚treysta á Jehóva af öllu hjarta,‘ og 1. Korintubréf 10:13 sem heitir því að Jehóva ‚láti ekki freista okkar um megn fram.‘ Með því að rifja upp slíka ritningarstaði í huganum, og með því að halla mér að Jehóva í bæn, fékk ég styrk.
Stundum gat ég hitt vott sem verið var að flytja frá öðrum búðum. Ef við höfðum ekki tækifæri til að talast við hvöttum við hver annan til að vera staðfastir með því að kinka kolli eða lyfta krepptum hnefa. Af og til fékk ég bréf frá Mariu og móður minni. Í einu þeirra fékk ég fréttir af því að minn kæri bróðir, Gregor, væri dáinn, og í öðru, undir stríðslok, að Hans Stossier, bróðir Mariu, hefði verið líflátinn.
Síðar var fluttur fangi í búðirnar okkar sem hafði kynnst Gregor meðan þeir voru saman í Móabítafangelsinu í Berlín. Hann sagði mér í smáatriðum frá því sem gerst hafði. Gregor hafði verið dæmdur til lífláts með fallöxi, en í von um að brjóta ráðvendni hans á bak aftur hafði hinn venjubundni biðtími verið lengdur í fjóra mánuði. Á þeim tíma hafði hann verið beittur alls konar þrýstingi til að fá hann til að láta undan — hann var bundinn á höndum og fótum með þungum hlekkjum og fékk sjaldan mat. Þrátt fyrir það hvikaði hann ekki. Hann var trúfastur allt til enda — þann 14. mars 1942. Þótt fréttirnar hryggðu mig styrktu þær mig til að vera Jehóva trúfastur hvað sem á dyndi.
Síðar frétti ég að yngri bræður mínir, Kristian og Willibald, og yngri systur mínar, Ida og Anni, hefðu verið sett í klaustur í Landau í Þýskalandi er notað var sem betrunarhæli. Drengirnir voru barðir hrottalega fyrir að neita að heilsa með Hitlerskveðju.
Tækifæri til að vitna
Flestir í skálanum, þar sem ég svaf, voru pólitískir fangar og glæpamenn. Oft notaði ég kvöldin til að vitna fyrir þeim. Einn var kaþólskur prestur frá Kapfenberg, Johann List að nafni. Hann hafði verið hnepptur í fangelsi fyrir að segja söfnuði sínum frá ýmsu sem hann hafði heyrt á Bresku útvarpsstöðinni.
Johann átti erfiða daga af því að hann var ekki vanur erfiðisvinnu. Hann var viðkunnanlegur maður og ég hjálpaði honum að vinna sinn skerf til að hann lenti ekki í vandræðum. Hann sagðist skammast sín fyrir að vera fangelsaður af pólitískum ástæðum en ekki fyrir að fylgja kristnum lífsreglum. „Þú líður virkilega sem kristinn maður,“ sagði hann. Þegar honum var sleppt um ári síðar hét hann að heimsækja móður mína og unnustu sem hann og gerði.
Hlutskipti mitt skánar
Síðla árs 1943 fengum við nýjan vinnubúðastjóra sem hét Karl Stumpf, hávaxinn hvíthærðan mann sem gerði sér far um að bæta ástandið í búðunum okkar. Það þurfti að mála sveitasetrið hans og þegar hann komst að raun um að ég væri lærður málari var mér falið verkið. Þetta var í fyrsta skipti sem ég var kallaður frá vinnu í mýrinni.
Eiginkona búðastjórans gat alls ekki skilið hvers vegna ég hafði verið hnepptur í fangelsi, jafnvel þótt maðurinn hennar útskýrði að ég væri þar vegna trúar minnar sem einn votta Jehóva. Hún hafði meðaumkun með mér af því að ég var svo horaður og gaf mér að borða. Hún kom því í kring að ég fengi fleiri verkefni þannig að hægt væri að byggja mig upp líkamlega.
Þegar farið var að kalla fanga úr búðunum til að berjast í fremstu víglínu undir árslok 1943 varð gott samband mitt við Stumpf búðastjóra mér til bjargar. Ég útskýrði fyrir honum að heldur myndi ég deyja en baka mér blóðsekt með þátttöku í stríði. Enda þótt hlutleysisafstaða mín setti hann í erfiða aðstöðu tókst honum að halda nafni mínu utans listans yfir þá sem kallaðir voru til herþjónustu.
Síðustu dagar stríðsins
Í janúar og febrúar 1945 flugu bandarískar flugvélar lágflug yfir okkur og hvöttu okkur með því að varpa niður flugritum þar sem sagt var að stríðið væri að enda. Stumpf búðaforingi, sem hafði bjargað lífi mínu, fékk mér borgaleg föt og bauð mér sveitasetur sitt sem felustað. Þegar ég yfirgaf búðirnar blasti við mér alger ringulreið. Til dæmis sá ég börn í hermannaklæðum, með andlitin fljótandi í tárum, flýja fyrir Bandaríkjamönnum. Af ótta við að ég myndi rekast á SS-foringja, sem vildi fá að vita af hverju ég bæri ekki byssu, ákvað ég að snúa aftur til búðanna.
Ekki leið á löngu áður en búðirnar voru umkringdar bandarískum hersveitum. Hinn 24. mars 1945 lýstu búðirnar yfir uppgjöf og drógu upp hvíta fána. Ég varð mjög undrandi þegar ég uppgötvaði að það voru líka aðrir vottar í búðunum sem Stumpf búðaforingi hafði einnig komið undan aftöku! Þegar Stumpf var hnepptur í fangelsi komu margir okkar að máli við bandarísku foringjana og töluðum máli hans, bæði persónulega og bréflega. Það varð til þess að honum var sleppt þrem dögum síðar.
Mér til undrunar var mér sleppt fyrstum af um það bil 5000 föngum. Eftir fimm ára fangavist fannst mér ég vera að dreyma. Með gleðitár í augunum þakkaði ég Jehóva í bæn fyrir að hafa varðveitt líf mitt. Þýskaland gafst ekki upp fyrr en 7. maí 1954, um sex vikum síðar.
Um leið og mér var sleppt hafði ég þegar í stað samband við aðra votta á svæðinu. Biblíunámshópur var skipulagður og á næstu vikum eyddi ég mörgum klukkustundum í að bera vitni fyrir fólki á svæðinu umhverfis búðirnar. Á sama tíma fékk ég vinnu sem málari.
Heim aftur
Í júlí tókst mér að kaupa vélhjól og þá hófst hin langa ferð heimleiðis. Ferðin tóik nokkra daga því að margar brýr á þjóðveginum höfðu verið sprengdar. Þegar ég kom heim til St. Martin og ók upp veginn kom ég auga á Mariu þar sem hún var að skera upp hveiti. Þegar hún loksins þekkti mig kom hún hlaupandi. Þið getið rétt ímyndað ykkur hve ánægjulegir endurfundirnir voru. Móðir mín kastaði frá sér ljánum og kom líka hlaupandi. Núna, 49 árum síðar, er móðir mín 96 ára og blind. Hún er þó enn skýr í hugsun og er enn þá trúfastur vottur Jehóva.
Við Maria giftumst í október 1945 og höfum notið þess að þjóna Jehóva saman síðan. Við höfum hlotið þá blessun að eignast þrjár dætur, son og sex barnabörn sem öll þjóna Jehóva dyggilega. Gegnum árin hef ég orðið þeirrar gleði aðnjótandi að hjálpa tugum manna að taka afstöðu með sannindum Biblíunnar.
Hugrekki til að þrauka
Ég hef oft verið spurður hvernig ég hafi sem óharðnaður unglingur getað horfst óttalaust í augu við dauðann. Þið megið treysta að Jehóva Guð gefur styrk til að halda út ef maður er staðráðinn í að vera honum trúfastur. Manni lærist mjög fljótt að reiða sig algerlega á hann í bæn. Og sú vitneskja að aðrir, þeirra á meðal faðir minn og bróðir, voru þolgóðir og trúfastir allt til dauða hjálpaði mér líka að vera trúfastur.
Það var ekki bara í Evrópu sem fólk Jehóva tók ekki afstöðu í stríði. Ég man að við Nürnberg-réttarhöldin árið 1946 var einn af háttsettum foringum Hitlers spurður út úr um ofsóknirnar á hendur vottum Jehóva í fangabúðunum. Þá dró hann upp úr vasanum úrklippu úr fréttablaði þar sem sagt var að þúsundir votta Jehóva í Bandaríkjunum sætu í Bandarískum fangelsum fyrir hlutleysi sitt í síðari heimsstyrjöldinni.
Sannkristnir menn fylgja sannarlega hugrakkir fordæmi Jesú Krists sem varðveitti ráðvendni við Guð allt þar til hann dró andann í síðasta sinn. Enn þann dag í dag hugsa ég oft til þeirra 14 sem voru í litla söfnuðinum okkar í St. Martin á fjórða áratugnum og neituðu, vegna kærleika síns til Guðs og náungans, að styðja stríð Hitlers og voru þar af leiðandi teknir af lífi. Það verða stórkostlegir endurfundir þegar þeir verða vaktir upp frá dauðum til að lifa endalaust í nýjum heimi Guðs!
[Mynd á blaðsíðu 8]
Faðir minn.
[Myndir á blaðsíðu 8, 9]
Fyrir neðan og til vinstri: Innitzer kardínáli greiðir atkvæði til stuðnings þýska ríkinu.
Til hægri: Hin „alvarlega yfirlýsing“ sex biskupa um ‚þjóðlega skyldu sína að greiða þýska ríkinu atkvæði sitt.‘
[Rétthafi]
UPI/Bettmann
[Mynd á blaðsíðu 10]
Við Maria trúlofuðum okkur árið 1939.
[Mynd á blaðsíðu 13]
Fjölskylda okkar. Frá vinstri: Gregor (hálshöggvinn), Anni, Franz, Willibald, Ida, Gregor (faðir minn, hálshöggvinn), Barbara (móðir mín) og Kristian.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Með Mariu núna.