Ungt fólk spyr . . .
Af hverju ætti ég að hlýða foreldrum mínum?
STEFÁN var alinn upp af guðhræddum foreldrum. En 16 ára gamall gerði hann uppreisn. Hann segir: „Mig langaði til að hitta fólk og njóta viðurkenningar þess. Mig langaði til að eiga allt það sama og aðrir áttu.“ Stefán ætlaði sér að ná þessum markmiðum með því að gerast fíkniefnasali. Hann varð auðvitað að ljúga til um hvert hann væri að fara og hvað hann væri að gera og um alla peningana sem hann hafði handa á milli. „Samviskan var dauð,“ segir Stefán.
Jón lét skírast sem kristinn maður 11 ára. „Ég hafði sannleikann eiginlega ekki í hjarta mér,“ viðurkennir hann. „Ég gerði það af því að foreldrar mínir ætluðust til þess. Ég sleppti fram af mér beislinu þegar ég byrjaði í framhaldsskóla. Rokktónlist hafði líka haft slæm áhrif á mig. Ég fór að stunda brimbrettabrun og eyddi heilmiklum tíma á ströndinni með unglingum sem höfðu ekki meginreglur Biblíunnar að leiðarljósi. Það var mikið af fíkniefnum í umferð þar.“ Áður en langt um leið flutti hann að heiman og fór að lifa í algerri mótsögn við allt sem honum hafði verið kennt.
Af hverju unglingar gera uppreisn
Það er eðlilegt fyrir unglinga að prófa hve langt þeir megi ganga og að ná vissu sjálfstæði. En uppreisn og hneykslanlegt eða mannskemmandi hátterni er allt annar hlutur. Hvað býr að baki? Ástæðurnar eru margar og margvíslegar. „Þegar maður er ungur langar mann til að skemmta sér,“ segir Jón. „Mann langar til að njóta lífsins.“ En reysluleysi veldur því að unga fólkið sýnir ekki alltaf góða dómgreind. (Hebreabréfið 5:14) Skynsamir foreldrar setja börnum sínum því sanngjörn takmörk og það eru þessi takmörk sem sumir unglingar berjast harkalega gegn.
Því miður hafa sumir unglingar jafnvel hafnað þeirri fræðslu og því uppeldi sem þeir fengu frá guðhræddum foreldrum sínum. (Efesusbréfið 6:1-4) Jesús sagði að kristnin væri „mjór og ‚þröngur‘ vegur. (Matteus 7:13, 14) Þar af leiðandi geta kristnir unglingar oft ekki gert það sem skólafélagar þeirra gera. Flestir taka hömlunum möglunarlaust og gera sér ljóst að lög Guðs eru í rauninni ekki íþyngjandi. (1. Jóhannesarbréf 5:3) Þessi lög vernda unglinga fyrir erfiðleikum svo sem þungunum utan hjónabands, fíkniefnanotkun og samræðissjúkdómum. (1. Korintubréf 6:9, 10) En sumir unglingar vilja ekki sjá hlutina í því ljósi heldur finnst þeim lög Biblíunnar vera eins og spennitreyja.
Unglingum getur gramist það sérstaklega ef þeim finnst foreldrarnir einum of stífir í sambandi við aga, afþreyingu og skemmtanir. „Mér finnst foreldrarnir of strangir við okkur,“ sagði ung stúlka mæðulega. Það getur vissulega verið gremjulegt að fá ekki að gera það sama og aðrir kristnir foreldrar leyfa sínum börnum. (Kólossubréfið 3:21) Sumir unglingar gefa gremjunni útrás með óhlýðni.
En sumir unglingar fara aftur á móti út á glapstigu af því að foreldrar þeirra bera alls enga virðingu fyrir meginreglum Guðs. „Pabbi var alkóhólisti,“ segir Jón. „Hann og mamma rifust oft af því að hann drakk of mikið. Við fluttum nokkrum sinnum til að komast burt frá honum.“ Alkóhólistar og fíkniefnaneytendur geta hreinlega ekki séð sómasamlega fyrir þörfum barna sinna. Skammir og auðmýking er kannski daglegt brauð unglings sem býr á slíku heimili.
Aðrir unglingar gera uppreisn af því að foreldrar þeirra sinna þeim ekki. Uppreisn virðist þá kannski leið til að ná athygli foreldranna — eða særa þá. „Frá því að ég man eftir mér virtust pabbi og mamma aldrei vera heima,“ segir Taylor, stúlka af efnuðu heimili. „Ég var nefnilega einkabarn og af því að foreldrar mínir voru lítið heima gáfu þeir mér alltaf nóg af peningum.“ Þar eð Taylor var eftirlitslaus fór hún að stunda næturklúbba og drekka. Það var ekki fyrr en hún var handtekin fyrir ölvunarakstur sem foreldrar hennar gerðu sér ljóst að hún átti við vandamál að stríða.
Auk þess ber að nefna það ástand sem Páll postuli benti á er hann spurði hóp kristinna manna: „Þér hlupuð vel. Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum?“ (Galatabréfið 5:7) Oft er slæmum félagsskap um að kenna. (1. Korintubréf 15:33) „Ég valdi mér ranga félaga,“ segir Elísabet sem er á táningaaldri. Hún viðurkennir að hún hafi „byrjað að reykja og nota fíkniefni“ vegna hópþrýstings. „Saurlifnaður var daglegt brauð,“ bætir hún við.
Uppreisn er heimskuleg
Kannski finnst þér aðstæður þínar líka gremjulegar — eða jafnvel þjakandi. Það getur virst freistandi að bjóða foreldrunum byrginn og gera bara það sem þig langar til. En eins og hinn réttláti Job varaði við skaltu ‚ekki láta reiðina ginna þig til spotts og illgirni og gæta þín að snúa þér eigi að ranglæti.‘ — Jobsbók 36:18-21.
Hneykslanleg hegðun sprottin af illgirni kallar eflaust fram viðbrögð frá foreldrunum en það er ekki líklegt að þau verði beinlínis þægileg. Sennilega setja þeir þér bara enn meiri hömlur. Auk þess veldurðu foreldrunum miklum sársauka með því að hegða þér illa. (Orðskviðirnir 10:1) Er það kærleiksríkt? Bætir það hlutskipti þitt? Það er miklu skynsamlegra að ræða málin við foreldrana ef þér finnst þú með réttu hafa undan einhverju að kvarta.a Þeir gætu vel verið fúsir til að taka þig öðrum tökum en fram til þessa.
Annað umhugsunarefni er þau áhrif sem framferði þitt gæti haft á Guð. ‚Á Guð?‘ spyrðu kannski. Já, því að uppreisn gegn foreldrum sínum jafngildir uppreisn gegn Guði sjálfum því að það er hann sem fyrirskipar þér að heiðra foreldra þína. (Efesusbréfið 6:2) Hvað finnst Guði um slíka óhlýðni? Biblían segir um Ísraelsþjóðina: „Hversu oft þrjóskuðust þeir við hann í eyðimörkinni.“ Og hver voru áhrifin? Þeir „hryggðu hann.“ (Sálmur 78:40) Vissulega geturðu verið foreldrum þínum gramur og fundist þeir setja þér allt of þröngar skorður. En langar þig virkilega til að hryggja Jehóva Guð — hann sem elskar þig og vill að þú lifir að eilífu? — Jóhannes 17:3; 1. Tímóteusarbréf 2:4.
„Frelsið“ dýrkeypt
Við þurfum því að hlusta á kærleiksríkan himneskan föður okkar og það er fullt tilefni til þess. Láttu ekki blekkjast af fölskum loforðum um „frelsi.“ (Samanber 2. Pétursbréf 2:19.) Það lítur kannski út fyrir að sumir unglingar komist upp með slæma hegðun. En sálmaritarinn varaði við: „Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja, því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.“ (Sálmur 37:1, 2) Unglingar, sem rísa upp gegn foreldrunum, gjalda hið svokallað frelsi oft dýru verði. Biblían segir í Galatabréfinu 6:7: „Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.“
Tökum Stefán sem dæmi sem minnst var á í greinarbyrjun. Eins og hann vonaðist til varð hann vinsæll meðal hinna ógeðfelldu vina sinna. „Mér fannst ég njóta viðurkenningar,“ segir hann. En fljótlega syrti í álinn. Hann segir: „Ég hef orðið fyrir skoti, verið handtekinn og núna er ég á leið í fangelsi. Ég huga um það eitt hvort þetta hafi verið þess virði.“
Hvað um leit Jóns að „frelsi“? Eftir að hafa verið handtekinn fyrir að hafa fíkniefni í fórum sér var honum vikið úr kristna söfnuðinum. Eftir það hallaði enn meir undan fæti hjá honum. „Ég stal bílum til að komast yfir peninga,“ viðurkennir Jón. „Ég var mjög ofbeldisfullur.“ Jón hagnaðist ágætlega á afbrotum sínum, en hann segir: „Ég sóaði öllu. Það var hreint ótrúlegt sem við neyttum af fíkniefnum.“ Og þegar Jón var ekki að slást, stela eða á fylliríi var hann á flótta undan lögreglunni. „Ég hef verið handtekinn svona 50 sinnum. Oftast höfðu þeir ekki nægar sannanir en einu sinni sat ég þó heilt ár í fangelsi.“ Já, Jón var sannarlega ekki frjáls maður heldur á kafi í ‚djúpi Satans.‘ — Opinberunarbókin 2:24.
Af Elísabetu er svipaða sögu að segja. Hún lenti líka í fangelsi á endanum vegna félagsskaparins við veraldlega vini sína. Hún viðurkennir: „Ég varð ófrísk — og missti barnið vegna fíkniefnaneyslunnar. Fíkniefni voru mín ær og kýr — ég virtist lifa fyrir næstu vímu. Að lokum missti ég íbúðina. Ég gat ekki flutt heim aftur og skammaðist mín jafnvel fyrir að biðja Jehóva um hjálp.“
Mörg svipuð dæmi mætti nefna um unglinga sem hafa hafnað meginreglum Guðs til þess eins að uppskera mikla erfiðleika. Biblían varar við: „Það sem þú heldur vera rétta veginn gæti legið til duðans.“ (Orðskviðirnir 14:12, Today’s English Version) Það er því viturlegast að reyna að láta sér semja við foreldrana og ræða um — en ekki rísa gegn — hverjum þeim hömlum sem þér finnst ósanngjarnar.
En hvað um þá unglinga sem eru þegar djúpt sokknir í ranga breytni, unglinga sem finnst þessar upplýsingar koma of seint fyrir sig? Er einhver leið fyrir þá til að ná sáttum við foreldra sína — og Guð? Fjallað verður um þessa spurningu í næsta tölublaði Vaknið!
[Neðanmáls]
a Margar greinar hafa birst um þetta efni. Sjá til dæmis greinarnar „Ungt fólk spyr . . .“ í enskri útgáfu Vaknið! 8. janúar 1985, 8. ágúst 1992 og 8. nóvember 1992.
[Mynd á blaðsíðu 24]
Uppreisn gegn foreldrunum veitir þér kannski aukið „frelsi,“ en hefurðu hugsað um afleiðingarnar?