Geturðu treyst loforðum Guðs?
SKAPARI okkar, Jehóva Guð, hefur alltaf verið sannorður. „Það sem ég tala,“ segir hann, „það læt ég einnig fram koma.“ (Jesaja 46:11) Eftir að hafa leitt Ísraelsmenn inn í fyrirheitna landið skrifaði þjónn Guðs, Jósúa: „Ekkert brást af öllum fyrirheitum þeim, er [Jehóva] hafði gefið húsi Ísraels. Þau rættust öll.“ — Jósúabók 21:45; 23:14.
Frá dögum Jósúa fram til komu Messíasar rættust hundruð spádóma sem voru innblásnir af Guði. Sem dæmi má nefna örlög manns er endurreisti Jeríkóborg. Hann mátti taka út hegningu sem spáð hafði verið öldum áður. (Jósúabók 6:26; 1. Konungabók 16:34) Annað dæmi er loforð sem virtist ógerlegt að uppfylla. Það var á þá lund að hungraðir íbúar Samaríu skyldu fá nægtir daginn eftir að því var spáð. Í 2. Konungabók 7. kafla er hægt að lesa hvernig Guð stóð við loforð sitt.
Uppgangur og fall heimsvelda
Guð innblés biblíuriturum að setja á blað ýmis smáatriði um uppgang og fall heimsvelda. Til dæmis notaði Guð spámanninn Jesaja til að spá því að hin volduga Babýlon yrði unnin. Það var nálega 200 árum áður en það gerðist. Meira að segja voru Medar, sem gengu í bandalag við Persa, nefndir til sögunnar sem sigurvegarar. (Jesaja 13:17-19) Enn undraverðara er að spámaður Guðs skyldi nafngreina Kýrus Persakonung sem fyrirliða þessara sigurvinninga því að Kýrus var ekki einu sinni fæddur er spádómurinn var færður í letur! (Jesaja 45:1) En fleira var sagt fyrir.
Spámaðurinn Jesaja sagði líka fyrir hvernig Babýlon yrði unnin. Hann skrifaði að vatnið, sem verndaði borgina, fljótið Efrat, skyldi ‚þorna upp‘ og að ‚borgarhliðin (í Babýlon) yrðu eigi lokuð.‘ (Jesaja 44:27–45:1) Þessi smáatriði rættust eins og lesa má í frásögn sagnaritarans Heródótusar.
Meðan veldi Babýlonar stóð sem hæst lét Guð spámanninn Daníel greina frá þeim heimsveldum sem á eftir henni kæmu. Í sýn sá Daníel tvíhyrndan hrút sem sigraði öll önnur „dýr.“ Daníel lét engan vafa leika á hvað tvíhyrndi hrúturinn táknaði heldur skrifaði að hann ‚merkti konungana í Medíu og Persíu.‘ (Daníel 8:1-4, 20) Og rétt eins og hann spáði varð tvíeykið Medía-Persía næsta heimsveldi er það vann Babýlon árið 539 f.o.t.
Í sömu sýn frá Guði sá Daníel þessu næst ‚geithafur með afar stórt horn milli augnanna.‘ Í lýsingu Daníels segir: „Ég sá hann hitta hrútinn á síðuna, og hann . . . laust hann og braut bæði horn hans . . . og mátti enginn frelsa hrútinn undan valdi hans. Og geithafurinn framkvæmdi mjög mikla hluti, en er máttur hans var sem mestur, brotnaði hornið mikla, og í þess stað spruttu upp önnur fjögur.“ — Daníel 8:5-8.
Orð Guðs lætur okkur ekki velkjast í vafa um hvað allt þetta merkir. Skýringin er þessi: „Hinn loðni geithafur merkir Grikklands konung, og hornið mikla milli augna hans er fyrsti konungurinn. Og að það brotnaði og fjögur spruttu aftur upp í þess stað, það merkir, að fjögur konungsríki munu hefjast af þjóðinni, og þó ekki jafnvoldug sem hann var.“ — Daníel 8:21, 22.
Mannkynssagan segir okkur að þessi ‚Grikklands konungur‘ hafi verið Alexander mikli. Eftir dauða hans árið 323 f.o.t. skiptist ríkið milli fjögurra hershöfðingja hans — Selevkosar I Nikators, Kassanders, Ptólemeosar I og Lýsímachosar. Eins og Biblían hafði spáð ‚spruttu fjögur aftur upp í þess stað.‘ Og, eins og einnig var spáð, var enginn þeirra jafnvoldugur og Alexander. Svo merkileg er uppfylling slíkra biblíuspádóma að þeir hafa verið kallaðir „fyrirframrituð mannkynssaga.“
Fyrirheitið um Messías
Guð lét ekki nægja að heita Messíasi er frelsa skyldi mennina undan áhrifum syndar og dauða, heldur lét hann auk þess í té tugi spádóma til að menn gætu borið kennsl á þann sem heitið var. Lítum nánar á fáeina þeirra spádóma sem Jesús gat alls ekki látið uppfyllast.
Því var spáð með aldalöngum fyrirvara að hinn fyrirheitni Messías skyldi fæðast í Betlehem og fæðast af mey. (Berðu saman Míka 5:1 og Matteus 2:3-9; Jesaja 7:14 og Matteus 1:22, 23.) Spáð var að hann yrði svikinn fyrir 30 silfurpeninga. (Sakaría 11:12, 13; Matteus 27:3-5) Því var einnig spáð að ekkert beina hans yrði brotið og að hlutkesti yrði varpað um klæði hans. — Berðu saman Sálm 34:21 og Jóhannes 19:36, Sálm 22:19 og Matteus 27:35.
Sú staðreynd er sérstaklega eftirtektarverð að Biblían sagði fyrir hvenær Messías myndi koma fram. Orð Guðs sagði: „Frá þeim tíma, að sú skipun út geingur, að Jerúsalemsborg skuli uppreist og byggð verða og allt til þess smurða, til höfðíngjans, eru sjö sjöundir, og tvær og 60 sjöundir (ára).“ (Daníel 9:25, Biblían 1859) Samkvæmt Biblíunni var tilskipunin um endurreisn Jerúsalemmúra gefin út á 20. stjórnarári Artaxerxesar (Artahsasta) konungs sem veraldleg sagnfræði segir okkur að hafi verið árið 455 f.o.t. (Nehemíabók 2:1-8) Þessum 69 sjöundum ára lauk 483 árum síðar (7 x 69 = 483), árið 29. Það var árið sem Jesús lét skírast og var smurður heilögum anda þannig að hann varð Messías eða Kristur.
Það er eftirtektarvert að samtíðarmenn Jesú væntu þess að Messías kæmi fram um þær mundir, eins og kristni sagnaritarinn Lúkas greinir frá. (Lúkas 3:15) Rómversku sagnaritarnir Tacítus og Súetóníus, gyðingasagnaritarinn Jósefus og gyðingaheimspekingurinn Fílon Júdaeus báru einnig vitni um þessa eftirvæntingu. Jafnvel Abba Hillel Silver viðurkennir í bók sinni A History of Messianic Speculation in Israel að ‚Messíasar hafi verið vænst á öðrum fjórðungi fyrstu aldar okkar tímatals.‘ Hann segir þetta hafa stafað af ‚tímareikningi sem þá var almennt þekktur‘ og var að hluta til sóttur í Daníelsbók.
Í ljósi þessara upplýsinga kemur ekki á óvart að Biblían skuli líka gefa til kynna hvenær Messías snúi aftur til að hefja konungsstjórn sína. Tímatalsupplýsingar í spádómi Daníels tiltaka nákvæmlega hvenær „Hinn hæsti“ myndi afhenda hinum „lítilmótlegasta meðal mannanna,“ Jesú Kristi, völd yfir jörðinni. (Daníel 4:17-25; Matteus 11:29) „Sjö tíðir“ eða sjö spádómleg ár eru nefnd og reiknað hefur verið út að þessu tímabili hafi lokið árið 1914.a
Endirinn er ekki dagsettur
Árið 1914 er einungis upphafsár stjórnar Krists „mitt á meðal óvina [sinna].“ (Sálmur 110:1, 2; Hebreabréfið 10:12, 13) Opinberunarbókin upplýsir að Kristur myndi kasta Satan djöflinum og englum hans niður til jarðar við upphaf stjórnar sinnar á himnum. Biblían segir að áður en hann tekur þessa illu anda úr umferð valdi þeir miklum usla á jörðinni um „nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:7-12.
Það er athyglisvert að Biblían gefur ekki upp hvenær þessi ‚naumi tími‘ tekur enda og Kristur tekur að fullnægja dómi á óvinum Guðs við Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:16; 19:11-21) Eins og bent er á í greininni á undan sagði Jesús mönnum að halda vöku sinni þar eð enginn maður vissi daginn eða stundina. (Markús 13:32, 33) Gangi einhver lengra en Jesús sagði, eins og frumkristnir menn í Þessaloníku gerðu og aðrir síðar, verða spár þeirra rangar eða ónákvæmar. — 2. Þessaloníkubréf 2:1, 2.
Leiðrétting nauðsynleg
Margir kristnir menn bjuggust við að Kristur kæmi aftur og tæki þá til himna á síðari hluta ársins 1914. Til dæmis sagði A. H. Macmillan, sem var Biblíunemandi, í ræðu sem hann flutti 30. september það ár: „Þetta er sennilega síðasta opinbera ræðan sem ég á eftir að flytja því að við förum allir heim [til himna] bráðlega.“ Ljóst er að Macmillan hafði á röngu að standa en þetta var ekki eina skiptið sem vonir hans eða annarra Biblíunemenda rættust ekki.
Biblíunemendurnir, sem hafa kallað sig votta Jehóva síðan 1931, bjuggust líka við að stórfenglegir biblíuspádómar myndu rætast árið 1925. Þeir gátu sér þess til að jarðneska upprisan hæfist það ár og trúfastir menn fortíðar, svo sem Abraham, Davíð og Daníel, myndu þá rísa upp. Margir vottar ímynduðu sér að atburðir tengdir upphafi þúsundáraríkis Krists gætu hafist árið 1975. Þeir byggðu væntingar sínar á þeim skilningi að þá hæfist sjöunda árþúsundin í sögu mannsins.
Þessi röngu sjónarmið þýða ekki að fyrirheit Guðs hafi verið röng, að hann hafi gert mistök. Alls ekki. Mistökin eða ranghugmyndirnar stöfuðu, eins og á fyrstu öld, af því að menn fóru ekki eftir viðvörun Jesú: „Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ Hinar röngu ályktanir komu ekki til af illum hug eða ótrúmennsku við Krist heldur innilegri löngun manna að sjá fyrirheit Guðs rætast meðan þeir væru uppi.
Macmillan sagði síðar: „Ég komst að raun um að við ættum að viðurkenna mistök okkar og halda áfram að leita að frekari upplýsingu í orði Guðs. Hvernig sem við þyrftum að leiðrétta okkur af og til myndi það ekki breyta hinu stórkostlega lausnargjaldi og fyrirheiti Guðs um eilíft líf.“
Fyrirheitum Guðs er svo sannarlega treystandi! Mistökin eru mannanna megin. Þess vegna sýna sannkristnir menn biðlund eins og Jesús sagði að þeir ættu að gera. Þeir halda vöku sinni og eru viðbúnir óhjákvæmilegri komu Krists til að fullnægja dómi Guðs. Þeir láta ekki falskar spár slæva skilningarvitin svo að þeir hætti að taka mark á hinni sönnu viðvörun um heimsendi.
En hvað um þá trú að þessi heimur eigi eftir að líða undir lok? Eru virkilega rök fyrir því að það gerist bráðlega, meðan við lifum?
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð, bls. 138-41, útgefin af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Falli Babýlonar var spáð í smáatriðum.
[Myndir á blaðsíðu 9]
Margir spádómanna um Jesú voru þess eðlis að hann gat engin áhrif haft á uppfyllingu þeirra.