Katakomburnar — Til hvers voru þær?
Eftir fréttaritara VAKNIÐ! á Ítalíu
Í dimmum göngum í iðrum hinnar fornu Rómar eru katakomburnar. Hvað eru þær eiginlega? Til hvers voru þær gerðar?
Í STUTTU máli eru katakomburnar gangar sem eru höggnir í berg og ætlaðir sem grafhýsi. Merking orðsins „katakomba“ er óviss, en álitið er hugsanlegt að það merki „við holurnar.“ Það er talið hafa verið staðarnafn ákveðins grafreits við Appíusarveg í grennd við Róm. Með tímanum var farið að kalla öll neðanjarðargrafhýsi þessu nafni. Enda þótt katakombur fyrirfinnist víða við Miðjarðarhaf eru hinar rómversku langþekktastar og stærstar, og er samanlögð lengd þeirra talin nema hundruðum kílómetra. Allt að 60 katakombur hafa fundist, allar nokkra kílómetra utan miðbæjar hinnar sögufrægu borgar, meðfram ræðismannavegunum sem tengdu Rómaborg við héruð landsins.
Kristnir Rómverjar virðast ekki hafa haft eigin grafreiti á fyrstu öld heldur grafið látna meðal heiðinna manna. Um miðbik annarrar aldar, þegar heiðinna hugmynda var tekið að gæta meðal þeirra sem játuðu kristna trú, létu efnamenn, sem tóku trú, í té land undir „kristna“ grafreiti. Þar eð landrými var takmarkað og menn vildu ógjarnan fara mjög langt frá borginni tóku þeir að gera sér neðanjarðargrafir.
Saga katakombanna
Fyrstu katakomburnar voru trúlega grafnar inn í hæðir eða yfirgefnar grjótnámur. „Síðan var hafist handa við að höggva láréttan gang, rétt rúmlega manngengan. Hliðargangar voru höggnir til hægri og vinstri sem síðan var hægt að tengja í endana með öðrum gangi samsíða hinum fyrsta. Þannig myndaðist einfalt neðanjarðarnet sem stækkaði smám saman,“ segja Ludwig Hertling og Engelbert Kirschbaum í bók sinni um katakomburnar.
Mest stækkuðu þær á þriðju og fjórðu öld er það sem kallaðist kristin trú hafði spillst mjög með því að blandast heiðnum kenningum og siðum. Með hinum svokölluðu trúskiptum Konstantínusar árið 313 komust katakomburnar í eigu kirkjunnar í Róm og sumar urðu gríðarstórar með tímanum. Í katakombunum í Róm kann að hafa verið rúm fyrir hundruð þúsunda eða jafnvel milljónir grafa.
Á þessu tímabili voru grafirnar skreyttar og stækkaðar og nýir stigagangar gerðir til að greiða leið vaxandi straumi gesta. Grafir, sem áttu að geyma páfa og píslarvotta, voru orðnar svo víðfrægar (einkum í Norður-Evrópu) að menn flykktust í pílagrímsferðir til að sjá þær. Með falli Rómar og fyrstu innrásum barbaranna í byrjun fimmtu aldar varð mjög hættulegt að vera á ferli í katakombunum þannig að hætt var að nota þær sem grafhýsi.
Á áttundu öld urðu grafirnar illa úti er farið var ránshendi um þær. Þar voru ekki aðeins innrásarherir að verki heldur gerðust „þýskir og frankverskir ábótar æ sólgnari í helga dóma,“ en með þeim vildu þeir auka virðingu dómkirkna og klaustra. „Rómverskir milliliðir lögðust svo lágt“ að útvega slíka muni í stórum stíl, að sögn Hertlings og Kirschbaums. Páli páfa I reyndist um megn að endurreisa eða verja katakomburnar og greip því til þess ráðs að flytja mestan hluta þeirra beina, sem eftir voru, í öruggt skjól innan borgarmúranna. Þar voru síðar reistar miklar basilíkur yfir það sem menn töldu jarðneskar leifar „heilagra píslarvotta.“ Katakomburnar voru yfirgefnar og féllu í gleymsku.
Á sautjándu öld og aftur á þeirri nítjándu tóku fræðimenn að leita að, auðkenna og rannsaka grafir sem voru týndar vegna hruns eða gróðurs. Fornar leiðarlýsingar frá fimmtu öld til þeirrar níundu, sem ætlaðar voru gestum til leiðsagnar um hinar frægu grafir, veittu fræðimönnum dýrmætar vísbendingar. Síðan hafa miklar rannsóknir og viðgerðir farið fram, og núna er hægt að skoða nokkra þessara merku staða.
Katakomburnar sóttar heim
Við erum stödd á Appíusarveginum sem Páll postuli fór um er hann var fluttur sem fangi til Rómar. (Postulasagan 28:13-16) Aðeins þrem kílómetrum fyrir utan gömlu borgarmúrana erum við komin út í sveit þar sem tignarleg furu- og kýprustré vaxa meðal minnismerkja og rústa meðfram þessum áður fjölfarna þjóðvegi.
Eftir að hafa keypt aðgöngumiða göngum við um 12 metra niður brattar tröppur. Leiðsögumaðurinn útskýrir að þessi katakomba sé fimm hæða og nái niður á 30 metra dýpi, en þar fyrir neðan sé grunnvatnsborð. Róm er reyndar umkringd miklum móbergslögum sem eru mjúk og auðvelt að grafa í, en jafnframt sterk og traust.
Við göngum eftir mjóum gangi sem er um metri á breidd og um 2,5 metrar á hæð. Dökkbrúnir veggirnir eru hrjúfir og rakir og bera enn greinileg merki eftir haka verkamannanna sem grófu þessa þröngu ganga. Grafirnar beggja vegna gangsins hafa fyrir löngu verið rofnar og rændar, en í sumum þeirra er enn að finna smá beinabrot. Þar sem við göngum í myrkrinu rennur upp fyrir okkur að við erum umkringd gröfum í þúsundatali.
Hagkvæmasta og hentugasta leiðin til að jarða látna var að grafa út ferköntuð veggskot meðfram veggjunum, hvert ofan af öðru. Á syllunni, sem þá varð til, lá að jafnaði eitt lík en stundum tvö eða þrjú. Hlaðið var fyrir með tigulsteini, marmarahellum eða brenndum leirflísum sem límdar voru saman með kalki. Margar bera engar áletranir. Hægt var að þekkja grafirnar af smáhlutum utan á þeim, svo sem peningi eða sjávarskel sem þrýst var í blautt kalkið. Í Priskillu-katakombunni er lítil brúða úr beini sem harmþrungnir foreldrar ungu stúlkunnar hafa trúlega komið fyrir þar. Margar grafirnar eru svo smáar að þær hafa ekki rúmað nema nýfætt barn.
„Hvernig er hægt að finna út hve gamlar katakomburnar eru,“ spyrjum við. „Það er auðvelt,“ svarar leiðsögumaðurinn. „Sjáið þið merkið hérna?“ Við beygjum okkur niður til að skoða stimpil á stórri leirflís sem notuð er til að loka einu veggskotinu. „Þannig var flísin stimpluð er hún var gerð. Verksmiðjurnar, sem voru margar í eigu keisarans, stimpluðu tigulsteina og flísar til að merkja úr hvaða námu leirinn væri tekinn, hvað verksmiðjan hét, hver verkstjórinn var, hvaða ræðismenn voru í embætti það árið og svo framvegis. Þetta eru mjög gagnlegar upplýsingar til að aldursgreina grafirnar nákvæmlega. Sú elsta er frá miðri annarri öld og sú yngsta frá um 400.“
Hugmyndaruglingur
Sumir þeirra, sem notuðu þessa staði, höfðu greinilega einhverja þekkingu á Heilagri ritningu því að margar grafir eru skreyttar biblíumyndum. Ekki örlar þó fyrir Maríudýrkun eða öðrum myndefnum, svo sem krossfestingunni, sem eru algeng í kirkjulist síðari tíma.
Við sjáum líka myndir sem eiga ekkert skylt við Biblíuna. „Rétt er það,“ viðurkennir leiðsögumaðurinn. „Myndefni í þessum katakombum og fleiri er gjarnan tekið að láni úr heiðinni list. Hér má finna grísk-rómverska hálfguðinn og hetjuna Orfeus; Kúpid og Psykke sem tákna hlutskipti sálarinnar í þessu lífi og því næsta, og vínviðinn og vínuppskeruna sem er velþekkt tákn Díonýsosardýrkunar um alsælu eftir dauðann. Að sögn Jesúítafræðimannsins Antonia Ferrua eru persónugervingar óhlutlægra afla sóttir algerlega í heiðna hjáguðalist: Árstíðirnar fjórar eru táknaðar með vængjuðum börnum, og á flóknari árstíðamyndum er sumarið krýnt kornöxum og liljum og svo framvegis.“
Sum myndefni endurtaka sig aftur og aftur: páfuglinn, tákn ódauðleika því talið var að hold hans rotnaði ekki; goðsagnafuglinn Fönix sem einnig táknar ódauðleika því hann var sagður deyja í logunum en rísa svo upp úr öskunni, og sálir hinna dauðu í veislu eftir dauðann, umkringdar fuglum, blómum og ávöxtum. Þarna blandast heiðnar og biblíulegar hugmyndir saman í einn graut.
Sumar áletranir eru hrífandi trúarjátningar og virðast enduróma þá sannfæringu að dánir sofi og bíði upprisu: „Aquilina sefur í friði.“ (Jóhannes 11:11, 14) En aðrar áletranir stinga í stúf við kenningar Biblíunnar og enduróma þá hugmynd að dánir geti hjálpað eða verið í sambandi við þá sem lifa: „Minnstu eiginmanns þíns og barna“; „Biddu fyrir oss“; „Ég bið fyrir þér“; „Ég hvíli í friði.“
En hvers vegna blandast biblíulegar og heiðnar hugmyndir svona? Sagnfræðingurinn J. Stevenson segir: „Kristin trú sumra kristinna manna var gagnsýrð hugmyndum sem áttu rætur að rekja til heiðinnar fortíðar þeirra.“ Ljóst er að hinir „trúuðu“ í Róm hegðuðu sér ekki lengur í samræmi við þekkinguna sem sannir lærisveinar Jesú höfðu miðlað. — Rómverjabréfið 15:14.
Er við höldum ferðinni áfram sjáum við enn skýrari merki um óbiblíulega lotningu fyrir hinum dánu. Margir þráðu að láta leggja sig til hinstu hvíldar nálægt gröf einhvers sem álitinn var píslarvottur, og var hugmyndin sú að píslarvotturinn gæti beðið fyrir honum af himnum ofan og hjálpað honum að hljóta himneska sælu.
Margir ímynda sér að katakomburnar hafi legið beint undir borginni en svo er ekki. Þær eru allar í nokkurra kílómetra fjarlægð frá miðborginni. Rómversk lög bönnuðu reyndar greftrun innan borgarmúranna. Í lögum taflanna tólf frá fimmtu öld f.o.t. segir: Hominem mortuum in urbe ne sepelito neve urito (Eigi má grafa eða brenna látna innan borgar).
Leiðsögumaðurinn segir: „Yfirvöldum var fullkunnugt um þessar grafir, svo vel að þegar Valeríanus keisari ofsótti kristna menn og meinaði þeim aðgang að katakombunum var Sixtus páfi II tekinn af lífi er hann fannst þar (árið 258).“
Er við beygjum fyrir enn eitt hornið í þessu völundarhúsi sjáum við daufa dagsbirtu við endann á ganginum. Heimsókn okkar er á enda. Við kveðjum leiðsögumanninn og þökkum honum athyglisverðar upplýsingar, og þegar við göngum upp brattar tröppur til að komast upp á yfirborðið leitar hugurinn aftur til þess sem við höfum séð.
Getur þetta verið arfur sannrar kristni? Varla. Biblían spáði að skömmu eftir dauða postulanna myndu kenningar Jesú og lærisveina hans spillast. (2. Þessaloníkubréf 2:3, 7) Það sem við höfum séð, merki um dýrkun hinna dánu og píslarvottanna og hugmyndina um ódauðlega sál, talar skýru máli um sterk, heiðin áhrif meðal fráhvarfskristinna manna í Róm á annarri öld til þeirrar fjórðu, en ekki um trú byggða á kenningum Jesú.
[Innskot á blaðsíðu 18]
Menn þyrptust í pílagrímsferðir til staða sem taldir voru geyma grafir páfanna.
[Innskot á blaðsíðu 19]
Ein katakomba er á fimm hæðum og nær niður á 30 metra dýpi.
[Innskot á blaðsíðu 20]
Katakomburnar bera vitni um fráhvarfið frá sannleika Biblíunnar sem spáð hafði verið.
[Myndir á blaðsíðu 17]
Til hægri: Vissir fuglar voru tákn ódauðleika.
[Rétthafi]
Archivio PCAS
Lengst til hægri: Sumar af katakombunum í Róm voru sannkölluð völundarhús.
Neðst til hægri: Tigulsteinsstimpill sem auðveldar aldursgreiningu grafanna.
[Rétthafi]
Soprintendenza Archeologica di Roma
Að neðan til vinstri: Grafhvelfing páfanna.