Spilafíklarnir — Tapa alltaf
„SPILAFÍKN er sjúkdómur í sama skilningi og drykkjusýki og eiturlyfjafíkn,“ segir prófessor Jean Ades frá Frakklandi. „Hún er fíkn án fíkniefnis,“ segir hann, og „æ fleiri uppgötva að þeir hafa ánetjast.“ Jafnvel eftir að spilafíklar tapa háum fjárhæðum eru þeir oft alteknir þeirri hugsun að vinna upp tapið með því að halda áfram að spila. „Flestir, sem tapa, komast fljótt yfir vonbrigðin. En hjá sumum er spilahvötin svo taumlaus að hún getur eyðilagt líf þeirra,“ segir franskur fréttamaður. „Þeir halda áfram að heita sjálfum sér því að hætta en fíknin hefur alltaf yfirhöndina. Þeir eru spilafíklar.“
Suður-afrískur fjárhættuspilari viðurkenndi: „Spilafíkill útilokar allt annað þegar hann sest við rúllettuhjólið eða spilaborðið. Adrenalínið fossar um æðarnar og maður leggur síðasta sentið undir bara til að sjá hjólið snúast einu sinni enn eða draga eitt spil í viðbót. . . . Adrenalínið gat haldið mér vakandi í nokkra daga og nætur samfleytt, horfandi á spil og tölur og bíðandi eftir gríðarstóra vinningnum sem lét alltaf á sér standa.“ Síðan sagði hann: „Það er til fullt af mönnum eins og mér sem geta ekki hætt eftir nokkur hundruð rand [gjaldmiðill Suður-Afríku] eða jafnvel nokkur þúsund. Við höldum áfram að spila uns við erum blankir og fjölskyldulífið er komið í óleysanlegan hnút.“
Henry R. Lesieur, prófessor í félagsfræði við St. John’s-háskóla í New York, segir að hvort sem menn vinna eða tapa sé spilalöngunin svo sterk að „margir fjárhættuspilarar sofa ekki, borða ekki og fara jafnvel ekki á klósettið svo dögum skiptir. Allt annað víkur fyrir fjárhættuspilinu. Meðan spilarinn bíður eftir niðurstöðu er hann líka í ‚vímu‘ sem einkennist yfirleitt af svita í lófum, örum hjartslætti og ógleði.“
Einn fyrrverandi spilafíkill viðurkennir að það hafi ekki verið vinningsvonin sem viðhélt fíkninni heldur „víman,“ spenningurinn sem fylgir sjálfri spilamennskunni. „Fjárhættuspil vekur óvenjukröftugar tilfinningar,“ segir hann. „Þegar rúllettuhjólið snýst og maður bíður eftir að lukkan felli dóm, þá snarsnýst allt fyrir manni eitt augnablik og það líður næstum yfir mann.“ André, franskur fjárhættuspilari, tekur í sama streng: „Þegar maður hefur veðjað 10.000 frönkum [130.000 ÍSK] á hest og það eru 100 metrar eftir, þá myndi maður ekki depla auga þótt einhver segði manni að eiginkona manns eða móðir væri dáin.“
André lýsir því hvernig hann gat haldið áfram að spila jafnvel eftir að hann hafði tapað stórfé. Hann sló lán í banka, hjá vinum og okurkörlum. Hann falsaði póstbankabækur og stal tékkum. Hann lokkaði einmana konur í spilavítunum og stakk svo af með kreditkortin þeirra. „Þegar hér var komið sögu,“ segir franskur fréttamaður, „stóð [André] á sama um hvort hann gæti nokkurn tíma komið hrikalegum fjármálum sínum á réttan kjöl. Hann flæktist um, rekinn áfram af engu öðru en fíkn sinni.“ Hann gerðist afbrotamaður og lenti í fangelsi. Hjónabandið fór í hundana.
Spilafíklarnir líkjast fíkniefnaneytendum og drykkjusjúklingum að því leyti að þeir halda oft áfram að spila þótt það kosti þá vinnuna, fyrirtækið, heilsuna og loks fjölskylduna.
Margar borgir í Frakklandi hafa nýverið leyft fjárhættuspil. Veðlánabúðir dafna þar sem annar rekstur lagði upp laupana. Eigendur segja að fjárhættuspilararnir tapi oft öllu handbæru fé og veðsetji hringi, úr, föt eða aðra verðmæta hluti til að geta keypt bensín svo að þeir komist heim. Nýjar veðlánabúðir hafa verið opnaðar í sumum strandborgum Bandaríkjanna; sums staðar standa þrjár, fjórar eða fleiri hlið við hlið.
Sumir hafi jafnvel farið út í afbrot til að fjármagna spilafíknina. Prófessor Lesieur segir að rannsóknir hafi til þessa „leitt í ljós margs konar afbrot meðal spilafíkla . . . ávísanafals, fjárdrátt, þjófnað, vopnuð rán, veðmang, fjársvik og sölu þýfis.“ Við þetta má svo bæta stuldi frá vinnuveitendum. Að sögn Gerrys T. Fulchers, forstöðumanns Mennta- og meðferðarstofnunar spilafíkla, viðurkenna 85 af hundraði þeirra þúsunda, sem teljast spilafíklar, að þeir steli frá vinnuveitendum sínum. „Frá hreinum fjárhagslegum sjónarhóli getur spilasýki verið verri en drykkjusýki og fíkniefnaneysla samanlögð,“ segir hann.
Aðrar rannsóknir hafa leitt í ljós að um það bil tveir af hverjum þrem spilafíklum, sem ekki sitja í fangelsi, og 97 af hundraði þeirra, sem sitja inni, viðurkenna að hafa gerst sekir um ólöglegt athæfi til að fjármagna fjárhættuspilin eða greiða spilaskuldir. Árið 1993 voru framin 16 bankarán í borgum meðfram Mexíkóflóa þar sem rekin eru lögleg spilavíti í stórum stíl. Það voru fjórfalt fleiri bankarán en árið áður. Maður nokkur rændi jafnvirði um 5,8 milljóna króna í átta bönkum til að fjármagna spilafíknina. Fjárhættuspilarar, sem þurftu að greiða lánardrottnum háar fjárhæðir, hafa rænt banka með byssu í hönd.
„Þegar spilafíklar reyna að hætta fá þeir fráhvarfseinkenni líkt og reykingamenn eða fíkniefnaneytendur,“ segir The New York Times. En fjárhættuspilarar viðurkenna að það geti verið erfiðara að sigrast á spilafíkninni en annars konar fíkn. „Sumir okkar þekkja líka drykkjusýki og fíkniefnaneyslu,“ segir einn þeirra, „og við erum allir sammála um að spilasýki sé miklu verri en nokkur önnur fíkn.“ Dr. Howard Shaffer við Ávana- og fíknirannsóknamiðstöð Harvardháskóla segir að minnst þrír af hverjum tíu spilafíklum, sem reyna að hætta, „sýni merki um skapstyggð eða fái magakveisu og svefntruflanir, og blóðþrýstingur og púls sé yfir eðlilegum mörkum.“
Jafnvel þótt spilafíklarnir haldi áfram að spila mega þeir búast við „heilsuvandamálum: þrálátum höfuðverkjum, mígreni, öndunarerfiðleikum, verkjakveisum, hjartsláttartruflunum og hand- og fótadofa,“ að sögn dr. Valerie Lorenz, forstöðumanns miðstöðvar fyrir spilasjúklinga í Baltimore í Maryland í Bandaríkjunum.
Og þá eru það sjálfsvígin. Er hægt að hugsa sér nokkuð verra en fíkn, sem á ekki að vera „lífshættuleg,“ en veldur samt dauða? Í einni sýslu í Bandaríkjunum, þar sem nýlega hafa verið opnuð spilavíti, hefur „tíðni sjálfsvíga tvöfaldast án augljósra skýringa, en enginn embættismaður heilsugæslunnar hefur viljað tengja aukninguna fjárhættuspilum,“ að sögn The New York Times Magazine. Í Suður-Afríku sviptu þrír fjárhættuspilarar sig lífi á einni viku. Enginn veit hve mörg sjálfsvíg má rekja til löglegra eða ólöglegra fjárhættuspila og spilaskulda.
Sjálfsvíg er hörmuleg leið til að losa sig úr skrúfstykki spilafíknarinnar. Í næstu grein eru nefnd dæmi um það hvernig sumir hafa fundið betri undankomuleið.
[Innskot á blaðsíðu 15]
Veðlánabúðir dafna — og glæpir líka.