Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.7. bls. 25-27
  • Ég stóð við dauðans dyr og læknar lærðu af því

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ég stóð við dauðans dyr og læknar lærðu af því
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Fæðing ákveðin
  • Ég hafna blóðgjöfum afdráttarlaust
  • Líf mitt hangir á bláþræði
  • Læknarnir læra
  • Er blóðgjöf eina bjargráðið?
    Vaknið! – 1991
  • Ég tileinkaði mér viðhorf Guðs til blóðs
    Vaknið!: Ég tileinkaði mér viðhorf Guðs til blóðs
  • Ég er dreyrasjúkur
    Vaknið! – 1987
Vaknið! – 1996
g96 8.7. bls. 25-27

Ég stóð við dauðans dyr og læknar lærðu af því

UM MIÐJAN maí 1991 komumst við að raun um að fjórða barnið væri á leiðinni. Yngsta barnið okkar, Mikael, var þá níu ára og tvíburasysturnar Maria og Sara 13 ára. Við höfðum ekki ætlað okkur að fjölga í fjölskyldunni en vöndumst tilhugsuninni fljótt.

Kvöld eitt á þriðja meðgöngumánuði fékk ég skyndilegan verk í annað lungað. Daginn eftir gat ég varla gengið. Læknirinn sagði að ég væri með lungnabólgu og gaf mér penisillín. Líðanin skánaði eftir tvo til þrjá daga en ég var mjög máttfarin. Þá fékk ég skyndilega verk í hitt lungað og fékk sömu læknismeðferð.

Næstu daga gat ég varla lagst út af sökum öndunarerfiðleika. Rétt um viku eftir fyrra sársaukakastið varð annar fóturinn blár og bólginn. Þá var ég lögð inn á spítala. Læknirinn upplýsti mig um að verkirnir í lungunum hefðu ekki stafað af lungnabólgu heldur blóðtappa. Hann sagði líka að ég hefði blóðtappa í náranum. Ég komst að raun um að blóðtappi er einhver algengasta dánarorsök barnshafandi kvenna í Svíþjóð. Fáeinum dögum síðar var ég flutt á Karolinska sjúkrahúsið í Stokkhólmi þar sem er sérhæfð fæðingardeild fyrir erfiðar meðgöngur.

Læknar ákváðu að gefa mér blóðþynningarlyfið heparín. Þeir fullvissuðu mig um að blæðingarhætta vegna heparíngjafarinnar væri lítil í samanburði við hættuna á nýjum blóðtappa í lungunum. Eftir hálfan mánuð var ég orðin nógu hress til að fara heim. Ég var yfir mig hamingjusöm að vera á lífi og vita af fjörugu, litlu barni að vaxa inni í mér.

Fæðing ákveðin

Ákveðið var að framkalla fæðingu, en áður en hægt var að hefjast handa fékk ég sáran verk neðarlega í kviðarholið. Ég var flutt með hraði á spítalann en læknarnir fundu ekkert að mér.

Kvöldið eftir var kviðurinn mjög bólginn og sársaukinn hafði ekki rénað. Um miðbik nætur skoðaði læknir mig og komst að þeirri niðurstöðu að hríðirnar væru hafnar. Næsta morgun var kviðurinn enn bólgnari og sársaukinn óbærilegur. Læknirinn var áhyggjufullur á svip og spurði hvenær ég hefði síðast fundið fyrir hreyfingum hjá barninu. Mér varð allt í einu ljóst að það var langt síðan.

Ég var flutt með hraði á fæðingarstofu. Ég heyrði á tal starfsmanna í fjarlægð. „Hún neitar að þiggja blóðgjöf,“ sagði einhver. Hjúkrunarkona laut niður að mér og sagði hárri röddu: „Þú veist að barnið þitt er dáið, er það ekki?“ Það var eins og rýtingur hefði verið rekinn í brjóst mér. — Orðskviðirnir 12:18.

Ég hafna blóðgjöfum afdráttarlaust

Skyndilega birtist læknirinn minn og sagði mér að ástand mitt væri háalvarlegt. Hann spurði hvort ég væri enn harðákveðin í að þiggja ekki blóðgjafir. Ég lagði mikla áherslu á að svo væri en ég man ekki mikið eftir það. Ég hafði samt gert lækninum fullkomlega ljóst að kristnum mönnum sé fyrirskipað að halda sér frá blóði og að ég vildi hlýða lögum Guðs. — Postulasagan 15:28, 29; 21:25.

Í millitíðinni var kallað á annan lækni, Barbro Larson, sem er fær skurðlæknir. Hún kom von bráðar og skar mig tafarlaust. Þegar kviðarholið var opnað kom í ljós að ég hafði misst þrjá lítra af blóði vegna innvortis blæðinga. En Larson læknir virti ákvörðun mína um blóðgjafir.

Síðar sagði annar læknir að ég yrði dáin eftir fáeinar mínútur. „Ég veit ekki einu sinni hvort hún er lifandi núna,“ var haft eftir honum. Seinna kom í ljós að læknarnir gátu ekki fundið upptök blæðinganna þannig að þeir settu grisjuþófa í kviðarholið. Læknar og hjúkrunarlið gáfu alls enga von um að ég lifði af.

Þegar börnin mín komu á spítalann og fréttu hvernig komið væri fyrir mér hafði eitt þeirra á orði að Harmagedón kæmi bráðlega og að eftir það myndu þau endurheimta mig í upprisunni. Upprisan er svo sannarlega dásamleg og réttlát ráðstöfun! — Jóhannes 5:28, 29; 11:17-44; Postulasagan 24:15; Opinberunarbókin 21:3, 4.

Líf mitt hangir á bláþræði

Blóðrauðinn hjá mér hafði fallið niður í 4 grömm í desílítra en blæðingarnar virtust hafa stöðvast. Ég var áður búin að setja eintak af tímaritinu Vaknið! frá 22. nóvember 1991 í sjúkraskrána mína. Larson læknir fann það og rak augun í fyrirsögnina: „Að hindra og stöðva blæðingar án blóðgjafa.“ Hún grannskoðaði efnið til að kanna hvort þar fyndust einhver ráð sem hún gæti beitt til að bjarga mér. Hún rak augun í orðið „rauðkornavaki“ sem er lyf er örvar rauðkornamyndun líkamans. Síðan gaf hún mér rauðkornavaka. En lyfið hrífur ekki strax þannig að spurningin var sú hvort það myndi verka í tæka tíð.

Daginn eftir var blóðrauðinn kominn niður í 2,9. Þegar ég vaknaði og sá alla fjölskylduna við rúmstokkinn fór ég að velta fyrir mér hvað hefði gerst. Ég gat ekki talað þar sem ég var í öndunarvél. Ég var næstum frá mér af sorg en gat ekki einu sinni grátið. Allir sögðu að ég yrði að spara kraftana til að lifa af.

Næsta dag var ég komin með hita vegna bólgu af völdum grisjuþófans í kviðarholinu. Blóðrauðinn var kominn niður í 2,7. Enda þótt það sé mjög hættulegt að svæfa sjúkling í því ástandi útskýrði Larson læknir að þrátt fyrir áhættuna neyddust þeir til að skera mig aftur og fjarlæga grisjuþófann.

Börnunum var leyft að koma inn til mín fyrir aðgerðina. Allir héldu að þetta væri kveðjustundin. Sumt starfsfólk spítalans grét. Það trúði ekki að ég kæmist lifandi gegnum þetta. Börnin okkar voru mjög hugrökk og það gerði mig rólega og bjartsýna.

Þar eð svæfingin var í lágmarki heyrði ég stundum samræður skurðstofuliðsins. Sumir töluðu um mig eins og ég væri þegar dáin. Síðar, þegar ég sagði frá því sem ég hafði heyrt meðan aðgerðin fór fram, baðst hjúkrunarkona afsökunar. En hún sagðist hafa verið sannfærð um að ég myndi deyja og kvaðst ekki skilja hvernig ég lifði af.

Daginn eftir var líðanin ögn betri. Blóðrauðinn var 2,9 og blóðkornaskilin 9. Trúsystkini mín komu í heimsókn og færðu fjölskyldunni mat og kaffi. Við vorum þakklát fyrir ást þeirra og umhyggju. Um kvöldið var ástandið enn tvísýnt en stöðugt þannig að ég var flutt á aðra deild.

Læknarnir læra

Margir úr lækna- og hjúkrunarliðinu voru forvitnir um líðan mína og flestir mjög vingjarnlegir. Hjúkrunarfræðingur sagði: „Guð þinn hlýtur að hafa bjargað þér.“ Læknir af annarri deild leit inn og sagði: „Mig langaði bara til að sjá hvernig manneskja með svona lágan blóðrauða liti út. Ég skil ekki hvernig þú getur verið svona spræk.“

Læknirinn minn átti frí næsta dag en leit samt við hjá mér. Hún sagði mér að hún fyndi til auðmýktar sökum þess sem gerst hefði. Ef ég næði mér að fullu væri ætlunin að hrinda af stað nýjum rannsóknum á öðrum valkostum en blóðgjöfum við meðferð sjúklinga.

Ég náði mér mjög fljótt. Tveim og hálfri viku eftir hina sorglegu fæðingu var blóðrauðinn kominn rétt yfir 8. Þá var ég útskrifuð af spítalanum. Þrem dögum síðar var haldið árlegt svæðismót votta Jehóva og ég var viðstödd. Það var mjög uppörvandi að hitta aftur kristna bræður og systur sem höfðu stutt okkur svo dyggilega í raunum okkar! — Orðskviðirnir 17:17.

Eins og Larson læknir hafði heitið birtist síðar grein um tilfelli mitt í sænska læknatímaritinu Läkartidningen sem hét: „Rauðkornavaki í stað blóðgjafar.“ Í greininni sagði: „Þrjátíu og fimm ára kona, vottur Jehóva, fékk miklar og skyndilegar blæðingar við barnsburð. Hún hafnaði blóðgjöf en þáði rauðkornavakameðferð. Níu daga meðferð með stórum skömmtum af rauðkornavaka í kjölfar skurðaðgerðar jók blóðrauðann úr 2,9 í 8,2 grömm í desílítra án nokkurra aukaverkana.“

Í niðurlagsorðum greinarinnar sagði: „Sjúklingurinn var mjög veikburða í upphafi en náði sér ótrúlega fljótt. Alls engir aukakvillar komu fram á bataferlinum. Sjúklingurinn var útskrifaður af spítalanum eftir tvær vikur.“

Enda þótt þetta hafi verið mjög erfið lífsreynsla fyrir okkur finnst okkur ánægjulegt að vita að læknar kunni hennar vegna að hafa lært meira um læknismeðferð án blóðgjafa. Vonandi verða þeir undir það búnir að prófa þær meðferðarleiðir sem reynst hafa árangursríkar. — Frásaga Ann Yipsiotis.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Með hjálpfúsa skurðlækninum mínum.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila