Ungt Fólk Spyr . . .
Ætti ég að ganga í íþróttalið?
„HVAÐ er svona sérstakt við það að vera í íþróttaliði?“ var spurt í grein í tímaritinu Seventeen. Svar blaðsins var: „Þið vinnið að sameiginlegu markmiði þannig að það myndast sterk tengsl milli ykkar. Þið lærið líka að vinna með öðrum, til dæmis við að leysa vandamál sem hópur, að vera sveigjanleg og tillitssöm og að láta undan.“
Það virðist því margt mæla með þátttöku í keppnisíþróttum, ekki síst að það er skemmtilegt og jafnframt holl líkamsrækt. Sumir halda því meira að segja fram að keppnisíþróttir hjálpi manni að þroska skapgerð sína. Eitt unglingahafnaboltalið hefur til dæmis kjörorðin: „Skapgerð, hugrekki, hollusta.“
En gallinn er sá að keppnisíþróttalið lifa ekki alltaf eftir svona göfugum hugsjónum. Bókin Kidsports segir: „Í sumum tilvikum læra áhrifagjarnir unglingar að blóta, svindla, slást, ógna og meiða aðra.“
Að sigra hvað sem það kostar?
Í grein í blaðinu Seventeen var viðurkennt: „Íþróttir hafa sínar dökku hliðar þar sem lögð er gífurleg áhersla á að sigra.“ Það gengur algerlega í berhögg við orð Biblíunnar: „Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan [„keppum hver við annan,“ NW]og öfundum hver annan.“ (Galatabréfið 5:26) Hófleg, vingjarnleg keppni getur gert leik skemmtilegri, en taumlaus keppnisandi getur ýtt undir óvild — og eyðilagt ánægjuna af leiknum.
Jón, sem lék ruðning í framhaldsskóla, segir: „Við vorum með snarvitlausan þjálfara sem var alltaf að öskra og æpa á okkur . . . Ég dauðkveið fyrir æfingum. . . . Mér fannst ég vera í fangabúðum.“ Vissulega eru ekki allir þjálfarar meinyrtir en margir leggja þó of mikla áherslu á það að sigra. Greinarhöfundur nokkur sagði: „Margir íþróttamenn . . . komast á það stig að keppnisánægjan víkur fyrir óbærilegri kvöð að slá í gegn.“ Hverjar geta afleiðingarnar orðið?
Tímaritið Science News greindi frá könnun sem leiddi í ljós að meðal ruðnings- og körfuboltamanna í háskólanámi „áttu 12 prósent við vandamál að stríða á að minnsta kosti tveim af fimm sviðum. Þau voru sálrænt álag, líkamlegt álag, erfiðleikar að forðast fíkniefni eða áfengi, misþyrmingar og svívirðingar og slök frammistaða í námi.“ Bókin On the Mark tekur í sama streng og segir: „Nánast allir, sem tengjast skipulögðum íþróttum, eru sammála um að fíkniefnaneysla sé stórvandamál á öllum stigum íþrótta.“
Siðferðilegt undanhald
Þrýstingurinn í þá átt að vinna getur líka valdið því að ungir íþróttamenn slaka á eðlilegri sanngirni og heiðarleika. Bókin Your Child in Sports segir: „Í heimi nútímaíþrótta telst ekki bara gott að sigra heldur kemur annað ekki til greina. Það er ekki bara slæmt að tapa heldur ófyrirgefanlegt.“
Og annar blákaldur veruleiki er sá að þjálfarar leggja oft gríðarlega fast að íþróttamönnum að meiða andstæðingana. Í grein í tímaritinu Psychology Today sagði: „Til að vera góður íþróttamaður verður þú að vera illskeyttur. Það er í það minnsta skoðun margra íþróttamanna, þjálfara og íþróttaunnenda.“ Atvinnumaður í ruðningi lýsir sjálfum sér sem dagfarsprúðum, „alúðlegum, tillitssömum og vingjarnlegum.“ En á vellinum umturnast hann. Hann lýsir keppnispersónu sinni þannig: „Ég er illskeyttur og andstyggilegur. . . . Ég er algert fúlmenni. Ég ber ekki minnstu virðingu fyrir kauðanum sem ég ætla að kýla.“ Þjálfarar hvetja oft til slíkra hneigða.
Biblían hvetur kristna menn: „Íklæðist . . . hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.“ (Kólossubréfið 3:12) Gætirðu þroskað með þér slíka eiginleika ef þú værir daglega hvattur til að meiða, lemstra og lumbra á andstæðingum þínum? Róbert, sextán ára, viðurkennir: „Ég hef leikið í keppnisíþróttum. Manni er alveg sama hvern maður meiðir svo framarlega sem maður sigrar.“ Nú er hann skírður kristinn maður og viðhorf hans hafa breyst. „Ég myndi aldrei snúa þangað aftur,“ segir hann.
Líkamsæfing eða líkamsmeiðingar?
Og þá má ekki gleyma líkamlegu áhættunni. Vissulega er einhver áhætta samfara íþróttum jafnvel þegar vinir leika saman eingöngu til gamans. En hætturnar aukast stórlega þegar unglingar eru hvattir til að reyna að leika eins og atvinnumenn.
Bókin Your Child in Sports segir: „Atvinnuíþróttamenn geta meiðst. En þeir eru mjög færir, vel á sig komnir, fulltíða menn sem taka fúslega þá áhættu að meiðast og er borgað vel fyrir. Og þeir fá gjarnan bestu þjálfun af hendi reyndustu manna, besta búnaðinn og eru undir mjög nákvæmu eftirliti færustu lækna. . . . Skólakrakkar búa ekki við slíka aðstöðu.“ Kristnum mönnum er sagt að ‚bjóða fram sjálfa sig að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn.‘ (Rómverjabréfið 12:1) Ættirðu ekki að hugsa þig um tvisvar áður en þú leggur líkama þinn í óþarfa eða óskynsamlega hættu?
Fleira til umhugsunar
Jafnvel þegar lítil hætta virðist á heilsutjóni má ekki gleyma að keppnisíþróttir eru eftir sem áður tímafrekar. Æfingar geta bæði takmarkað félagslíf þitt og étið upp tímann sem þú ættir að nota til náms og heimavinnu. Tímaritið Science News segir að íþróttamenn í háskólanámi hafi haft „eilítið lægri einkunnir“ en aðrir nemendur sem sinntu öðrum hugðarefnum utan námsskrár. Það sem verra er, þú gætir uppgötvað að þátttaka þín í keppnisliði gerði þér erfitt um vik að sinna því sem Biblían segir meira „máli skipta“ — það er að segja andlegum hugðarefnum. (Filippíbréfið 1:10) Spyrðu þig hvort það hafi í för með sér að þú missir af kristnum samkomum ef þú gengur í liðið eða hvort það takmarki þátttöku þína í prédikunarstarfinu.
Þú skalt líka vega og meta vandlega hugsanlegar afleiðingar þess að eyða miklum tíma með unglingum og fullorðnum sem hafa annað viðhorf en þú til siðferðis, hreins málfars eða samkeppni. Þegar allt kemur til alls segir Biblían að ‚vondur félagsskapur spilli góðum siðum.‘ (1. Korintubréf 15:33) Lítum á grein á ritstjórnaropnu dagblaðsins The New York Times sem dæmi: „Búningsherbergið . . . er staður þar sem karlmenn eru ósparir á kynferðislegar lýsingar er þeir ræða um líkami kvenna, þar sem þeir gorta af því að hafa ‚komist yfir‘ hina og þessa og henda gaman að því að berja konur.“ Hvernig heldurðu að þér farnist andlega ef þú kýst þér slíkt umhverfi? — Samanber Jakobsbréfið 3:18.
Taktu skynsamlega ákvörðun
Hefurðu verið að hugsa um að ganga í íþróttalið? Þá getur efnið hér á undan kannski hjálpað þér að reikna út kostnaðinn af því. Taktu tillit til samvisku annarra þegar þú ákveður þig. (1. Korintubréf 10:24, 29, 32) Auðvitað er ekki hægt að setja neina fasta reglu því að aðstæður eru breytilegar frá einum heimshluta til annars. Sums staðar er þess jafnvel krafist af nemendum að taka þátt í íþróttum. En ef þú ert í vafa skaltu ræða málið við foreldra þína eða þroskaðan kristinn mann.
Margir kristnir unglingar hafa tekið þá erfiðu ákvörðun að vera ekki í íþróttaliði. Það er ekki auðvelt fyrir þann sem hefur gaman af íþróttum og er góður í þeim. Þrýstingur kennara, þjálfara og foreldra getur gert illt verra. Jóhann viðurkennir: „Ég á í baráttu við sjálfan mig að spila ekki. Faðir minn, sem er ekki í trúnni, var mikill íþróttamaður þegar hann var í framhaldsskóla. Það er stundum erfitt fyrir mig að ganga ekki í lið.“ Stuðningur trúaðra foreldra og þroskaðra kristinna manna í söfnuðinum getur samt hjálpað þér mikið að standa við það sem þú hefur einsett þér. Jóhann segir: „Ég er þakklátur fyrir að eiga mömmu að. Stundum er ég niðurdreginn út af því hve mikið er þrýst á mig að taka þátt í íþróttum. En hún er alltaf tiltæk að minna mig á raunveruleg markmið mín í lífinu.“
Að leika með keppnisliði getur kennt leikmönnum að vinna saman og leysa vandamál. En það eru fjölmörg tækifæri til að læra slíkt með því að starfa með kristna söfnuðinum. (Samanber Efesusbréfið 4:16.) Það getur verið skemmtilegt að leika með keppnisliði, en þú þarft ekki að vera í liði til að njóta slíkrar skemmtunar. Sumra íþrótta er hægt að njóta með kristnum vinum úti í garði eða almenningsgörðum. Útivistarferðir fjölskyldunnar geta boðið upp á önnur tækifæri til heilnæmra íþróttaiðkana. „Það er miklu betra að leika við aðra í söfnuðinum,“ segir Garðar sem er 16 ára. „Maður er bara að því sér til gamans og maður er að leika við vini sína!“
Sjálfsagt er ekki jafnspennandi að leika úti í garði og leika með sigurliði í keppni. En gleymdu aldrei að þegar best lætur er „líkamleg æfing [aðeins] nytsamleg í sumu, en guðhræðslan er til allra hluta nytsamleg.“ (1. Tímóteusarbréf 4:8) Þroskaðu með þér guðhræðslu og guðrækni, þá sigrarðu örugglega í augum Guðs!
[Innskot á blaðsíðu 16]
„Við vorum með snarvitlausan þjálfara sem var alltaf að öskra og æpa á okkur . . . Ég dauðkveið fyrir æfingum.“
[Mynd á blaðsíðu 17]
Allt of oft leggja þjálfarar ofuráherslu á að sigra — jafnvel þótt það kosti að meiða aðra.