Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g96 8.7. bls. 19-22
  • Alnæmi í Afríku Hver er ábyrgð kristn heimsins?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Alnæmi í Afríku Hver er ábyrgð kristn heimsins?
  • Vaknið! – 1996
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Áttu trúarbrögðin hlut að máli?
  • Hvernig Afríka varð „kristin“
  • Innrás skemmtiefnis frá Vesturlöndum
  • Lausn vandans
  • Að hjálpa alnæmissjúklingum
    Vaknið! – 1994
  • Hvers vegna hefur EYÐNI breiðst svona út?
    Vaknið! – 1989
  • EYÐNI-smitberar — hve margir gætu dáið?
    Vaknið! – 1989
  • Hvernig verjast á EYÐNI
    Vaknið! – 1989
Sjá meira
Vaknið! – 1996
g96 8.7. bls. 19-22

Alnæmi í Afríku — hver er ábyrgð kristn heimsins?

Eftir fréttaritara Vaknið! í Afríku.

Nafngiftin „kristni heimurinn“ er notuð í þessari grein um yfirlýsta kristni í andstæðu við kristni Biblíunnar.

Kristni heimurinn

„Þeir heimshlutar þar sem þorri íbúa játar kristna trú.“ — Webster’s New World Dictionary.

Alnæmi

„Hægfara smitsjúkdómur af völdum veiru . . . sem ræðst á vissa teg. hvítkorna, . . . og veikir með því ónæmiskerfi líkamans.“ — Íslenska alfræðiorðabókin.

ALNÆMI er heimsfaraldur. Talið er að 17 milljónir manna hafi þegar smitast af HIV, veirunni sem veldur alnæmi. Og hún breiðist ört út.

Mikið hefur verið fjallað um læknisfræðilegar, pólitískar og tilfinningalegar hliðar þessa faraldurs í fjölmiðlum, en fátt verið sagt um trúarlegar hliðar hans. Sumum lesendum blaðsins kann að þykja það langsótt að útbreiðsla alnæmis tengist trúarbrögðum á einhvern hátt. En það er alls ekkert fráleitt ef tekið er tillit til þess sem gerst hefur í Afríku.

Alnæmi hefur lagst sérlega þungt á Afríkubúa.a Sumir segja að 67 prósent allra alnæmistilfella í heiminum sé að finna í Afríku. Skráð tilfelli í Tsjad hafa hundraðfaldast síðastliðin fimm ár. Þó er talið að einungis þriðjungur tilfella sé skráður. Samkvæmt skýrslu Alþjóðabankans er alnæmi orðin algengasta dánarorsök fullvaxta fólks á mörgum þéttbýlissvæðum Afríku.

Áttu trúarbrögðin hlut að máli?

Að sjálfsögðu er ekki hægt að kenna kristninni — þeirri trú sem Jesús Kristur boðaði — um þessar hörmungar. Eins og sjá má hér að neðan er nafnið „kristni heimurinn“ notað um þau lönd þar sem fólk segist vera kristið. Og kristni heimurinn á greinilega hlut að máli. Ekki svo að skilja að kirkjufélögin hafi annaðhvort búið til eða beinlínis útbreitt alnæmisveiruna. Alnæmi hefur aðallega breiðst út um Afríku vegna lauslætis.b Það má því segja að alnæmi sé siðferðilegt vandamál og sem slíkt vekur það áleitnar spurningar um áhrif trúarbragðanna. Þegar öllu er á botninn hvolft var afrísk „kristni“ skilgetið afkvæmi Vesturlanda. Kirkjuleiðtogar tóku sér fyrir hendur að snúa Afríkubúum til sinnar trúar og fullyrtu að sá lífsvegur byði upp á betra líferni en hinir hefðbundnu lifnaðarhættir Afríkumanna. Urðu áhrif kristna heimsins virkilega til að bæta siðferði nýrra áhangenda hans? Alnæmisfaraldurinn sýnir ljóslega að það fór á þveröfugan veg.

Lítum á Afríkuríkið Tsjad sem dæmi. Í þrem af fjórum helstu borgum landsins býr fjöldi „kristinna“ manna. Sú fjórða er að mestu byggð múslímum. En það er í „kristnu“ borgunum þrem sem veiran leikur lausum hala! Sama mynstur endurtekur sig út um alla Afríku. Alnæmi er mun tíðara í mið- og suðurhluta Afríku, sem telst kristinn að nafninu til, en í norðurhlutanum þar sem múslímar eru í meirihluta.

Hvernig Afríka varð „kristin“

Hvers vegna hefur þessi veira breiðst svona hratt út meðal manna sem segjast vera fylgjendur Krists? Í reyndinni fylgja tiltölulega fáir Afríkumenn siðferðisreglum kristninnar sem er að finna í Biblíunni, þótt þeir kalli sig kristna. Það virðist mega rekja beint til þess hvernig trúboðar kristna heimsins fóru að er þeir sneru Afríkubúum „til trúar.“

Hefðbundnar trúarskoðanir kristna heimsins sættu árásum á 18. og 19. öld. Æðri biblíugagnrýni komst í tísku með þeim afleiðingum að menn fóru að líta á Biblíuna sem gamalt bókmenntaverk og ekkert annað. Þróunarkenningunni jókst einnig fylgi, jafnvel meðal presta. Sæði efahyggjunnar var sáð. Grafið var undan tiltrú manna á Biblíuna. Það er ekkert undarlegt að viðleitni kristna heimsins til að snúa Afríkubúum „til trúar“ hafi verið mjög á veraldlegum nótum. Kristniboðar kirknanna prédikuðu eins konar félagsmálaguðspjall þar sem lögð var miklu meiri áhersla á mannúðarstörf en að hjálpa þeim sem tóku trú að fara eftir siðferðisreglum Biblíunnar. Kannski óafvitandi grófu trúboðarnir þar með undan þeirri siðferðisreglu sem fyrir var.

Fjölkvæni hafði til dæmis lengi verið stundað í mörgum menningarsamfélögum Afríku. En lauslæti var fátítt því að hjá flestum ættkvíslum lágu þung viðurlög við hjúskaparbroti. Joseph Darnas, kennari á eftirlaunum sem er vel þekktur í Tsjad, sagði fréttaritara Vaknið! að áður en kirkjutrúboðarnir komu hafi „hjúskaparbrot verið talið ógæfumerki.“ Þar af leiðandi „var sökudólgunum refsað harðlega fyrir að setja samfélagið í hættu — oft með lífláti.“ Hjátrú? Já, en hún dró vissulega úr lauslæti.

Þá komu trúboðar kristna heimsins. Þeir prédikuðu einkvæni en gerðu fátt til að framfylgja siðferðiskröfum Biblíunnar. Enda þótt Biblían segi að iðrunarlausum saurlífismönnum og hórdómsmönnum skuli vikið úr kristna söfnuðinum er sjaldgæft að kirkjur kristna heimsins agi brotlega. (1. Korintubréf 5:11-13) Enn þann dag í dag eru margir kunnir stjórnmálamenn í Afríku alræmdir fyrir siðlaus ástarævintýri sín en eru samt virt sóknarbörn kirkju sinnar. Tryggð í hjónabandi er sjaldgæf meðal nafnkristinna Afríkumanna.

Og þá má ekki gleyma slæmu fordæmi klerkastéttarinnar. Afríka er fjölskyldusinnuð og þar er eðlilegt að vera giftur og barnmargur. Kannski er það þess vegna sem ótrúlega mörgum kaþólskum prestum þykir réttlætanlegt að fótum troða hreinlífis- og ókvænisheit sín. Dagblaðið The New York Times sagði hinn 3. maí 1980: „Víða í strjálbýli . . . eru prestar og biskupar fjölkvænismenn.“

Slík „hjónabönd“ eru auðvitað ekki formleg, og „eiginkonurnar“ eru í rauninni bara hjákonur eða frillur. Slíkt misferli má ekki viðgangast eins og ekkert sé. Að sögn The New York Times viðurkennir „þekktur kaþólskur klerkur“ að „í Afríku sé presturinn frekar valdatákn eða ráðamaður en þjónn Jesú Krists.“ Boðskapur þessara „valdamanna“ virðist vera: „Gerðu eins og ég segi en líktu ekki eftir mér.“

Innrás skemmtiefnis frá Vesturlöndum

Svo má ekki gleyma því flóði siðlauss skemmtiefnis sem hellst hefur yfir Afríku á síðustu misserum. Í Tsjad eru haldnar myndbandasýningar fyrir almenning á hverju strái — á einkaheimilum, í bílskúrum og ekki síst í húsagörðum eftir myrkur, án alls eftirlits. Aðgangseyrir er lágur, allt niður í 25 franka (3 til 4 krónur). Ung börn geta sótt sýningarnar. Hvaðan er efnið? Stór hluti þess er frá Bandaríkjunum — landi þar sem kristni er sögð ráðandi!

En hefur þessi flóðbylgja vestrænnar menningar einhver teljandi áhrif á áhorfendur? Einn af trúboðum votta Jehóva, sem starfað hefur um 14 ára skeið í Mið-Afríku, segir: „Heimamenn hafa oft sáralítil tengsl við hinn vestræna heim önnur en þau sem myndböndin sýna. Þeir vilja vera eins og Vesturlandabúarnir sem þeir sjá í kvikmyndunum. Ég hef ekki fundið neinar skjalfestar rannsóknir sem staðfesta þetta, en það blasir við flestum hér um slóðir að slík skemmtun hvetji til siðleysis.“

Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og heilbrigðisyfirvöld reyna í örvæntingu að stöðva útbreiðslu banvæns samræðissjúkdóms skuli svokallaðar kristnar þjóðir reka harðan áróður fyrir siðlausri áhættuhegðun! Enda þótt kirkjufélögin hafi lítið gert til að stemma stigu við þessu ófremdarástandi innanlands eða utan, hafa stjórnir sumra Afríkulanda, svo sem Tsjad og Kamerún, reynt að banna eða að minnsta kosti takmarka innflutning á klámfengnu efni. En tilraunir þeirra hafa oft skilað litlum árangri.

Afleiðingin af öllu þessu hefur verið útbreidd siðferðishnignun meðal „kristinna“ Afríkubúa. Bágur efnahagur hefur líka haft lúmsk áhrif. Sökum fárra atvinnutækifæra neyðast karlmenn oft til að yfirgefa fjölskyldur sínar svo mánuðum skiptir til að leita sér vinnu. Slíkir menn eru augljós markhópur vændiskvenna. En oftast eru vændiskonurnar sjálfar bláfátækar. Óhóflegar brúðarverðskröfur foreldra hafa líka sitt að segja. Margir karlmenn kvænast ekki því þeir geta ekki aflað fjár fyrir brúðarverðinu. Sumir enda því í skammlífum skyndisamböndum. Slíkt siðferðis- og efnahagsumhverfi hefur stuðlað að örri útbreiðslu alnæmis.

Lausn vandans

Alnæmisfaraldurinn í Afríku er auðvitað ekki að öllu leyti kristna heiminum að kenna, en sök hans er engu að síður deginum ljósari. Það er alvarlegt íhugunarefni fyrir þá sem vilja teljast ‚sannir tilbiðjendur‘ eins og Jesús kallaði þá. — Jóhannes 4:23.

En hvað er hægt að gera til að stemma stigu við alnæmisfaraldrinum, hvað sem allri sök viðkemur? Stjórnir Afríkulanda hafa skipulagt herferðir gegn alnæmi og hvatt til þess að menn noti smokka. En dr. Samuel Brew-Graves, fulltrúi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Nígeríu, viðurkennir hreinskilnislega: „Hver og einn verður sjálfur að tileinka sér heilbrigt líferni . . . og fjölskyldan verður . . . að forðast lauslæti.“

Löngu áður en menn vissu að alnæmi væri til fordæmdi Biblían lauslæti og hvatti til hreinlífis, sjálfsstjórnar og tryggðar í hjónabandi. (Orðskviðirnir 5:18-20; 1. Korintubréf 6:18) Hundruð þúsunda votta Jehóva í Afríku eru áþreifanleg sönnun þess að það sé veruleg vernd gegn alnæmi og öðrum samræðissjúkdómum að fara eftir þessum meginreglum. Með því að fylgja stöðlum Biblíunnar eru þeir að fella þungan dóm yfir kristna heiminum. Þessir sannkristnu menn hafa líka sett von sína á nýjan framtíðarheim ‚þar sem réttlæti mun búa.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Í hugum trúaðra er hann hin endanlega lausn alnæmisfaraldursins.

[Neðanmáls]

a Sjá nánar í greininni „AIDS in Africa — How Will It End?“ í enskri útgáfu blaðsins hinn 8. ágúst 1992.

b Sjúkdómurinn getur líka smitast við blóðgjafir og með óhreinum sprautunálum. Þess eru dæmi að blásaklausir kristnir menn hafi smitast af maka sínum sem gerðist sekur um siðleysi eða sprautaði sig með fíkniefnum.

[Innskot á blaðsíðu 20]

„Víða í strjálbýli . . . eru prestar og biskupar fjölkvænismenn.“ — The New York Times.

[Mynd á blaðsíðu 20]

Slæmt fordæmi klerka kristna heimsins hefur kynt undir lauslætisfaraldrinum í Afríku.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Börn og unglingar kynnast siðlausu skemmtiefni sem er útflutningsvara „kristinna“ þjóða.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila