Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.1. bls. 26-27
  • Sigrast á sorg í krafti Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sigrast á sorg í krafti Jehóva
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ‚Hughreystið hver annan‘
  • Von í harmi
  • Hughreysting frá ‚Guði allrar huggunar‘
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1995
  • Huggum þá sem hryggir eru
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2011
  • „Grátið með grátendum“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2017
  • Huggaðu raunamædda
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
Sjá meira
Vaknið! – 1997
g97 8.1. bls. 26-27

Sigrast á sorg í krafti Jehóva

Eftir fréttaritara Vaknið! á Spáni

Í FEBRÚAR á síðasta ári eyddi hópur votta Jehóva frá Bailén-söfnuðinum á Spáni fögrum degi saman í Sierra Nevada-fjöllum þar skammt frá. En þegar langferðabíllinn sem þeir voru í átti aðeins fimm kílómetra ófarna heim ók bíll, sem kom úr gagnstæðri átt, í veg fyrir hann með þeim afleiðingum að þeir rákust saman. Sprenging varð við áreksturinn og langferðabíllinn varð alelda. Sumir farþeganna komust út í tæka tíð en reykurinn yfirbugaði marga, sem voru aftast í bílnum, með þeim afleiðingum að þeir dóu.

Alls týndu 26 vottar lífi, þeirra á meðal fjórir boðberar í fullu starfi og nokkur börn — næstum fjórðungur Bailén-safnaðarins. Jóhann Karl Spánarkonungur endurómaði tilfinningar flestra Spánverja er hann sagði í símskeyti til bæjarstjórans í Bailén: „Þetta hörmulega slys er mikið áfall fyrir okkur. Við vottum ykkur innilega samúð okkar. Flytjið þeim sem eiga um sárt að binda okkar innilegustu samúðarkveðjur og styðjið þá á þessari erfiðu stundu.“

Sú spurning leitaði á suma þeirra þúsunda, er sóttu jarðarförina, hvers vegna slíkir harmleikir eigi sér stað. Ljóst er að fólk Jehóva getur orðið fyrir slysum af völdum ‚tíma og tilviljunar‘ eins og allir aðrir. (Prédikarinn 9:11, 12) En Jehóva heitir því að bráðlega heyri slíkir harmleikir sögunni til. — Opinberunarbókin 21:4, 5.

Margir úr Betelfjölskyldu votta Jehóva á Spáni og þúsundir annarra votta þar í landi ferðuðust til Beilén til að styðja og hughreysta bræðurna þar. Beilénbúar, ásamt bæjar- og héraðsyfirvöldum, tjáðu vottafjölskyldunum einnig samúð sína. Margir viðstaddra voru djúpt snortnir af sálarþreki vottanna sem áttu um sárt að binda.

„Ég hef þekkt vottana í mörg ár,“ sagði Antonio Gómez, bæjarstjóri í Bailén, „og ég dáist að trú ykkar þótt sjálfur sé ég efasemdamaður. Strax og ég frétti af slysinu hugsaði ég með mér að þið væruð betur í stakk búnir en aðrir hópar til að takast á við harmleikinn, sökum trúarlegrar og félagslegrar samheldni ykkar. Ég hef séð hvernig allur bærinn hefur stutt fjölskyldurnar í sorg þeirra. Kannski gerði fólk sér rangar hugmyndir um ykkur og skoðanir ykkar áður, en það er mér ánægjuefni að segja að þær eru horfnar. Þið búið yfir innri styrk sem er erfitt fyrir aðra en votta að skilja.“

José Borrell, ráðherra opinberra framkvæmda, var viðstaddur útförina sem fulltrúi spænsku stjórnarinnar. Hann viðurkenndi: „Hvað er hægt að segja við þá sem misst hafa næstum alla fjölskylduna í einu vetfangi? Ekkert sem þeir geta ekki sjálfir fundið í trú sinni. . . . Þið búið yfir dásamlegri trú.“

‚Hughreystið hver annan‘

Hvað ‚fundu þeir í trú sinni‘? Fyrst og fremst fundu þeir fyrir hughreystingu Jehóva, ‚Guðs allrar huggunar, sem huggar oss í sérhverri þrenging vorri.‘ (2. Korintubréf 1:3, 4) Þrátt fyrir sorg sína höfðu þeir styrk til að hughreysta hver annan og tóku til sín orð Páls til Þessaloníkumanna: „Haldið áfram að hughreysta hver annan og uppbyggja hver annan.“ — 1. Þessaloníkubréf 5:11, NW.

Það var hrífandi að sjá kristna bræður og systur, sem sum hver höfðu misst allt að átta ættingja, heimsækja aðra safnaðarmenn sem áttu um sárt að binda. „Við grétum þegar við hittumst. En gegnum tárin minntum við okkur á upprisuvonina og leið betur,“ segir Francisco Saez, umsjónarmaður í forsæti sem sjálfur missti börn sín tvö.

„Við höfum ekki vanrækt prédikunarstarfið og við höfum lagt okkur sérstaklega fram um að heimsækja ættingja látinna, sem ekki eru vottar, og notað bæklinginn Þegar ástvinur deyr.“ Francisco heldur áfram: „Mig langaði til að prédika því að ég vissi að mér liði sjálfum betur ef ég prédikaði fyrir öðrum. Og sú var líka raunin. Þótt ég legði grátandi af stað leið mér miklu betur þegar heim kom.“

Bailénbúar brugðust sérstaklega vel við prédikunarstarfinu. Viku eftir slysið heimsótti Encarna, sem hafði misst tvær dætur og fjögur barnabörn, konu sem hún hafði nýlega hafið biblíunám með. Encarna hafði hughreyst þessa konu með hjálp Biblíunnar, en hún hafði misst eiginmann sinn fjórum mánuðum áður. „Núna verðum við að hugga hvor aðra,“ sagði konan þegar þær héldu áfram yfirferð sinni yfir bæklinginn Þegar ástvinur deyr.

Stuðningur bræðrafélagsins um allan heim lét ekki heldur á sér standa. „Það er mikil hvatning fyrir allan söfnuðinn að hafa fengið þúsundir bréfa og símskeyta,“ segir ritari safnaðarins, Francisco Capilla. „Pósthúsið þarf að senda heilan sendibíl beint heim til okkar daglega til að afhenda allan póstinn. Við erum afar þakklát fyrir ást og umhyggju bræðranna.“

Von í harmi

Getur slíkur harmleikur látið nokkuð gott af sér leiða? „Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi,“ sagði Salómon konungur til forna. (Prédikarinn 7:4) Í samræmi við þessa meginreglu hefur harmleikurinn í Bailén komið sumum til að hugsa af meiri alvöru um samband sitt við Guð. Faustino, vantrúaður eiginmaður sem missti tvö af sex börnum sínum í slysinu, sagði Dolores, eiginkonu sinni: „Ég hef góðar fréttir að færa þér. Ég ætla að hefja biblíunám því að ég vil sjá börnin mín í nýja heiminum.“

Enda þótt það taki sinn tíma fyrir bræðurna og systurnar í Bailén að sigrast á sorginni eru þau að hughreysta aðra og hughreystast sjálf. Jehóva styrkir þau með anda sínum og með stuðningi margra ástríkra bræðra og systra. Við höldum áfram að biðja fyrir þeim til föður okkar á himnum.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Fjórir hinna látnu.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila