Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g97 8.7. bls. 19-22
  • Ég fann loks sannleikann

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ég fann loks sannleikann
  • Vaknið! – 1997
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Umfangsmikil trúfræðsla
  • Á ólgutímum
  • Heimsstyrjöld
  • Ég finn sannleikann
  • Dýrmæt sérréttindi
  • Stórkostleg blessun
  • Þrátt fyrir prófraunir hef ég alltaf verið vonglaður
    Vaknið! – 2002
  • Skýr og rökrétt svör Biblíunnar snertu mig djúpt
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
Vaknið! – 1997
g97 8.7. bls. 19-22

Ég fann loks sannleikann

Í ágústlok árið 1939 kom ég við í Moskvu á leiðinni heim til Búdapest í Ungverjalandi. Hinn 23. ágúst, nokkrum dögum áður, hafði verið undirritaður griðasáttmáli milli Þjóðverja og Sovétmanna og Kremlarmúrar voru prýddir hakakrossfánum nasista. Hvers vegna var ég í Rússlandi og hvað beið mín heima fyrir?

ÉG ÆTLA að hefja sögu mína í smábænum Veszprém í Ungverjalandi þar sem ég fæddist 15. janúar 1918. Ég var elstur fjögurra barna og foreldrar okkar sáu til þess að við sæktum kirkju að staðaldri. Fimm ára gamall var ég farinn að aðstoða við messugerð í rómversk-kaþólsku klaustri. Heima klæddist ég stundum prestsskrúða, sem ég hafði búið til úr pappír, og þóttist halda messu fyrir systkini mín.

Pabbi yfirgaf fjölskylduna þegar ég var átta ára og mamma annaðist okkur með hjálp móður sinnar. Árið eftir dó mamma úr krabbameini. Næstu árin vorum við börnin aðskilin og komið fyrir á ýmsum munaðarleysingjahælum og fósturheimilum. Síðast dvaldist ég á munaðarleysingjahæli nálægt Búdapest. Það var rekið af Frères Maristes (Maríubræðrum) sem er regla fransk-kaþólskra kennara. Ég elskaði Guð innilega þannig að 13 ára gamall þáði ég boð um menntun hjá þessari trúarreglu.

Umfangsmikil trúfræðsla

Árið eftir var ég sendur til Grikklands og sótti þar skóla hjá Frères Maristes. Kennt var á frönsku og námið miðaði að kennaramenntun. Fjórum árum síðar, árið 1936, útskrifaðist ég með réttindi til að kenna í grunnskóla. Eftir útskrift mína gerðist ég bróðir í trúarreglunni og gekkst undir þríþætt heit um fátækt, hlýðni og hreinleika. Enda þótt við bræðurnir gengjum í trúarlegum klæðum og veittum trúfræðslu stunduðum við aldrei biblíunám.

Um sumarið sótti ég um kennarastarf við skóla í Kína og fékk það. Hinn 31. október 1936 lagði ég úr höfn með skipi frá Marseille í Frakklandi og kom til Shanghai 3. desember 1936. Þaðan hélt ég áfram ferðinni með járnbrautarlest til höfuðborgarinnar Pekíng í norðurhluta Kína.

Á fjallasvæði um 25 kílómetra frá Pekíng var Frères Maristes trúarreglan með stóran skóla, heimavist og gripahús. Þetta var í grennd við sumarhöll keisarans og þarna voru unaðslegir garðar og ávaxtatré. Ég sökkti mér niður í kínversku- og enskunám, en aldrei numum við Biblíuna.

Á ólgutímum

Snemma á fjórða áratugnum hertóku Japanir Mansjúríu sem er hluti Kína. Í júlí 1937 kom til átaka milli japanskra og kínverskra hermanna í grennd við Pekíng. Japanir gengu með sigur af hólmi og skipuðu nýja kínverska stjórn sem þeir völdu í eftir eigin höfði. Þetta leiddi svo til átaka kínverskra skæruliða gegn nýju stjórninni.

Þar eð litið var á klaustrið okkar utan við Pekíng sem franskt yfirráðasvæði komumst við hjá beinum átökum. Þó féllu einstaka fallbyssukúlur á svæðinu og af og til urðum við fyrir skothríð sem særði suma af þeim ríflega 5000 Kínverjum er leitað höfðu hælis í klaustrinu. Kínverskir skæruliðar réðu sveitinni í kring.

Í september 1937 réðust um 300 vopnaðir kínverskir skæruliðar á húsin okkar í leit að vopnum, peningum og mat. Ég var í hópi tíu Evrópumanna sem teknir voru í gíslingu. Sex dögum síðar var fyrstu gíslunum sleppt. Ég var þeirra á meðal, orðinn veikur eftir að hafa borðað skemmdan mat. Ég lá mánuð á spítalanum.

Eftir að ég útskrifaðist þaðan var ég fluttur í annan skóla sem trúarreglan starfrækti á öruggara svæði í Pekíng. Í janúar 1938 var ég sendur til Shanghai til að kenna en sneri aftur til Pekíng í september til að kenna þar. Ég lét hins vegar vera að endurnýja trúarheit mín eftir það skólaár. Í sjö ár hafði ég stundað trúarlíf og menntun án þess að leit mín að sannleikanum bæri árangur. Ég yfirgaf því trúarregluna og sneri heim til Búdapest.

Óveðursský síðari heimsstyrjaldarinnar voru tekin að hrannast upp þegar hér var komið sögu. Frönsku yfirmennirnir mínir hvöttu mig til að fara með Síberíujárnbrautarlestinni sem fór um Sovétríkin. Það var á þeirri ferð, 27. ágúst 1939, sem ég kom til Moskvu og sá Kremlarmúra prýdda nasistafánum.

Heimsstyrjöld

Ég kom heim til Búdapest 31. ágúst 1939. Daginn eftir réðust Þjóðverjar inn í Pólland og hófu þar með síðari heimsstyrjöldina. Síðar rufu Þjóðverjar griðasáttmálann við Sovétríkin og 22. júní 1941 réðust hersveitir Hitlers inn í landið. Þær komust alla leið að úthverfum Moskvu en tókst ekki að ná borginni.

Ríkisstjóri Ungverjalands undirritaði friðarsamning við Þýskaland og þýskar hersveitir máttu fara að vild um landið. Ég kvæntist árið 1942 og árið eftir var ég kallaður í ungverska herinn. Í mars 1944 réðust Þjóðverjar inn í Ungverjaland því að Hitler var ekki ánægður með stuðning Ungverja við hernaðaraðgerðir sínar. Við eignuðumst son það ár. Til að forðast sprengjuárásirnar á Búdapest fluttu kona mín og sonur út í sveit til foreldra hennar.

Straumhvörf urðu í stríðinu og sovéski herinn sótti fram í átt til Búdapest og kom þangað 24. desember 1944. Rússar tóku mig til fanga. Við stríðsfangarnir, sem skiptum þúsundum, urðum að ganga 160 kílómetra leið til Baja í Ungverjalandi. Þar var okkur troðið í nautgripavagna og við vorum fluttir í fjölmennar búðir í Timişoara. Að minnsta kosti 20.000 fangar af 45.000 dóu snemma árs 1945 í taugaveikifaraldri.

Í ágúst var farið með þá 25.000, sem eftir lifðu, að Svartahafi. Þaðan voru um 20.000 fluttir til Sovétríkjanna. Eftir voru 5000, sem voru veikir, og þeir voru sendir aftur til Ungverjalands og sleppt. Ég var þeirra á meðal. Þannig lauk átta mánaða hræðilegri fangavist. Fáeinum vikum síðar hitti ég konu mína og son aftur og við settumst að í Búdapest.

Hjá mörgum voru þjáningarnar ekki á enda þótt stríðinu lyki. Matur var af skornum skammti og verðbólgan gríðarleg. Árið 1946 þurfti meira en kvintilljón (1.000.000.000.000.000.000.000.000.000.000) pengö til að kaupa það sem fékkst fyrir einn pengö árið 1938! Lífskjör okkar bötnuðu þegar ég fékk skrifstofuvinnu hjá járnbrautunum.

Ég finn sannleikann

Árið 1955 fór einn af vottum Jehóva, sem bjó í sama fjölbýlishúsi og við í Búdapest, að tala um Biblíuna við Önnu, eiginkonu mína. Áhugi minn vaknaði þegar Anna sagði mér að Biblían kenni ekki að helvíti sé kvalastaður. (Prédikarinn 9:5, 10; Postulasagan 2:31) Þótt kaþólskur væri hafði ég aldrei kynnt mér Biblíuna, ekki einu sinni þegar ég stundaði sérnám í kirkjuskólunum. Ég einfaldlega meðtók hinar óbiblíulegu kenningar kaþólskra, svo sem kenninguna um vítiseld. Ég fékk mikla ást á sannleika Biblíunnar, einkum um Guðsríki og hvernig það mun hrinda í framkvæmd þeirri fyrirætlun Guðs að gera jörðina að paradís. (Matteus 6:9, 10; Lúkas 23:42, 43; Opinberunarbókin 21:3, 4) Ég fann til stórkostlegrar hamingju sem ég hafði aldrei kynnst áður.

Á þeim tíma voru vottar Jehóva í Ungverjalandi leitaðir uppi og fangelsaðir fyrir að kenna hugrakkir sannleikann um Guðsríki. Ég las öll rit vottanna sem ég komst yfir á ungversku og tókst að fá ensk og frönsk rit þeirra sem enn höfðu ekki verið þýdd á ungversku. Ég var mjög þakklátur fyrir að hafa lært þessi tungumál.

Í október 1956 gerðu Ungverjar uppreisn gegn stjórn kommúnista sem Rússar höfðu komið á. Hart var barist í Búdapest. Mörgum var sleppt úr fangelsi, þeirra á meðal vottum Jehóva. Við hjónin létum skírast um þessar mundir til tákns um vígslu okkar til Jehóva Guðs. Rússneskar hersveitir bældu byltinguna niður viku síðar. Vottarnir, sem fengið höfðu frelsi, fóru aftur í fangelsi.

Dýrmæt sérréttindi

Þar eð flestir vottanna, sem fóru með forystu prédikunarstarfsins, voru í fangelsi kom trúbróðir að máli við mig og spurði hvort ég gæti þýtt einhver af biblíuritum okkar. Fyrst voru mér fengin einkabréf frá Sviss með Varðturnsgreinum á frönsku. Ég þýddi þær á ungversku og síðar voru þær látnar söfnuðunum í té.

Þegar umsjónarmaður útibúsins í Ungverjalandi, János Konrád, var látinn laus árið 1959 eftir 12 ára fangavist vegna kristins hlutleysis, var ég skipaður þýðandi. Þá fékk ég í hendur enskt efni til að þýða. Oftast kom einhver kona með það til mín, sem ég þekkti ekki með nafni, svo ég gæti ekki ljóstrað upp nafni hennar ef ég yrði einhvern tíma tekinn og pyndaður.

Eftir að ég hafði þýtt Varðturninn fór bróðir Konrád yfir þýðinguna til að ganga úr skugga um að hún væri nákvæm. Síðan vélrituðu systur þýddu greinarnar á afar þunnan pappír og gátu gert allt að 12 afrit í einu með kalkipappír. Stundum höfðu allir, sem sóttu Varðturnsnámið, sitt eigið vélritaða eintak. Eftir námið var efnið látið ganga til næsta námshóps. En oft gátum við aðeins búið til eitt eintak af Varðturninum handa hverjum námshópi. Þá urðu allir viðstaddir að fylgjast sérstaklega vel með og skrifa niður minnisatriði til að hafa fullt gagn af biblíunáminu.

Frá því að ég fór að þýða árið 1956 fram til 1978 var Varðturninum dreift vélrituðum á ungversku. Frá 1978 til 1990 var Varðturninum dreift fjölrituðum. Og hvílík blessun hefur það ekki verið að fá bæði Varðturninn og Vaknið! prentuð á ungversku í litum frá janúar 1990!

Undir stjórn kommúnista urðu allir að vinna veraldlega vinnu. Í 22 ár, þangað til ég hætti veraldlegri vinnu árið 1978, vann ég við þýðingar þær stundir sem ég hafði aflögu frá vinnunni. Það var yfirleitt snemma morguns og langt fram á kvöld. Eftir að ég hætti veraldlegum störfum þjónaði ég í fullu starfi sem þýðandi. Á þeim tíma unnu allir þýðendur heima, og sökum bannsins var erfitt fyrir okkur að hafa innbyrðis samband. Árið 1964 réðst lögreglan samtímis inn á heimili þýðendanna og gerði gögn okkar upptæk. Um margra ára skeið eftir það máttum við þola tíðar heimsóknir lögreglu.

Stórkostleg blessun

Árið 1969 var umsókn mín um vegabréf samþykkt og við János Konrád gátum farið frá Ungverjalandi til Parísar á alþjóðamótið „Friður á jörð“ sem vottar Jehóva héldu þar. Hvílík blessun að geta hitt votta frá öðrum löndum og geta dvalið nokkra daga í útibúi votta Jehóva í Bern í Sviss! Á áttunda áratugnum gátu margir vottar í Ungverjalandi sótt mót í Austurríki og Sviss.

Árið 1986, eftir áralangar hömlur, héldum við fyrsta mót okkar með leyfi stjórnvalda í Kamaraerdő-æskulýðsgarðinum í Búdapest. Meira en 4000 voru viðstaddir, og þeir voru með tárin í augunum þegar þeir heilsuðu bræðrum sínum og systrum og lásu skiltið yfir innganginum í garðinn þar sem mótsgestir voru boðnir velkomnir.

Hinn 27. júní 1989 veittu stjórnvöld vottum Jehóva loksins lagalega viðurkenningu. Sagt var frá því í fréttum ungverskra sjónvarps- og útvarpsstöðva, bræðrum okkar og systrum til mikillar gleði. Það ár héldum við umdæmismót án nokkurra takmarkana í fyrsta sinn síðan starf okkar hafði verið bannað fyrir nærfellt 40 árum. Meira en 10.000 sóttu mótið í Búdapest og þúsundir til viðbótar voru viðstaddar fjögur önnur mót í landinu. Það gladdi mig mjög að sjá yngsta bróður minn, László, og konu hans skírast í Búdapest.

Í júlí 1991 urðum við svo blessunar aðnjótandi sem okkur hafði aldrei órað fyrir. Þá var haldið mót á hinum risastóra Népstadion-leikvangi í Búdapest að ríflega 40.000 viðstöddum. Ég hafði þau sérréttindi þar að túlka ræður bræðra frá aðalstöðvunum í Brooklyn.

Við Anna störfum nú við hið fallega útibú votta Jehóva í einu af úthverfum Búdapest, ásamt rúmlega 40 bræðrum og systrum. Ég starfa þar á þýðingadeildinni ásamt ágætum hópi yngra fólks og Anna vinnur við heimilisstörf.

Þótt við reyndum að innprenta syni okkar sannleika Biblíunnar tók hann ekki við honum þegar hann óx úr grasi. Hann er þó hlynntur sannleikanum núna og við vonum að hann verði þjónn Jehóva með tímanum.

Við hjónin erum innilega þakklát fyrir að við skulum hafa fundið sannleikann um elskuríkan Guð okkar, Jehóva, og hafa getað þjónað honum í meira en 40 ár. — Frásaga Endres Szanyis.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Ásamt eiginkonu minni.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila