Er börnunum óhætt með hundinum?
EFTIR FRÉTTARITARA VAKNIÐ! Í SUÐUR-AFRÍKU
Sydney litli var aðeins tveggja ára þegar hann gekk einum of nálægt bundnum en árásargjörnum slátrarahundi. Hundurinn réðst á hann, skaddaði höfuðleðrið og reif næstum af honum vinstra eyrað. Sydney þarf að gangast undir nokkrar húðgræðsluaðgerðir.
Jafnhliða því að æ fleiri fá sér varðhunda gerist algengara að hundar ráðist á börn. Af hundategundum, sem vitað er að hafi bitið börn, má nefna slátrarahunda, dóbermann, bolameistara, þýska séferhunda og vígahunda. Könnun, sem gerð var í Suður-Afríku, leiddi í ljós að flest börnin voru bitin af hundum sem þau þekktu. Næstum helmingur barnanna var bitinn af hundi einhvers nágrannans og fjórðungur af eigin hundi. Aðeins um 10 af hundraði voru bitin af flækingshundum. Algengt var að fórnarlömbin hefðu espað hundinn á einhvern hátt, kannski án þess að átta sig á því. Ljóst er að oft má forðast að hundar ráðist á börn ef hundaeigendur og foreldrar gera vissar varúðarráðstafanir.
Kenndu barninu
Margir hundaþjálfarar leggja áherslu á að ekki eigi að skilja lítil börn eftir með hundi án eftirlits fullorðinna. Lítil börn kunna ekki að umgangast dýr svo að það þarf að kenna þeim það. Margir hafa þá reglu að hundar og smábörn skuli ekki vera á sama svæði ef fullorðið, ábyrgt fólk er ekki til staðar. Hundaþjálfarinn Brian Kilcommons segir í bókinni Childproofing Your Dog: „Af þeim sögum, sem við heyrum, er ljóst að flest vandamálin verða þegar fullorðnir eru ekki að fylgjast með.“
Oft þarfnast dýrin verndar fyrir börnum! Leitað var hjálpar hjá Kilcommons þegar heimilishundurinn glefsaði í barn. Faðirinn var í öngum sínum og útskýrði að tveggja og hálfs árs sonur sinn hefði hlaupið að sofandi hundinum og sparkað hressilega í hann. Hundinn kenndi greinilega til og brást við á þann hátt að glefsa í barnið. Þessi hundur sýndi hrósunarverða sjálfstjórn með því að bíta ekki barnið. Þjálfarinn ráðleggur foreldrum: „Leyfið barninu ekki að gera hundi það sem þið mynduð ekki leyfa því að gera öðru barni.“
Kenndu barninu að fara vel með dýr. Kenndu því að erta aldrei hund. Foreldrar þurfa að vera vakandi fyrir öllum hugsanlegum hættum þegar börn og hundar eru saman. Ef þú veitir eftirtekt að hundurinn reynir að forðast barnið eða fela sig fyrir því skaltu láta barnið hætta að elta hann. Ef barnið eltir hundinn og króar hann af er eina vörn hundsins að gelta, urra eða jafnvel bíta. Foreldrar ættu að aga markvisst þannig að bæði hundur og barn viti að þau meina það sem þau segja.
Gerðu hundinn ekki hornreka. Þegar hjón með hund eignast fyrsta barnið getur þeim hætt til að vanrækja hundinn og reka hann út. Vissulega er skynsamlegt að gera varúðarráðstafanir en hundaþjálfarinn Richard Stubbs ráðleggur: „Það ætti aldrei að gera hundinn hornreka. Hugsið um hundinn eins og áður, að svo miklu leyti sem hægt er, og sýnið honum hæfilega athygli.“
Athugaðu hvernig barnið bregst við ókunnum hundum. Hvað gerir barnið ef það sér ókunnugan mann með hund á gangi á götunni? Hleypur það rakleiðis að hundinum til að klappa honum? Kenndu því að gera það ekki. Fyrst þarf það að biðja eigandann leyfis. Ef eigandinn samþykkir getur barnið nálgast hundinn rólega svo það hræði hann ekki. Það ætti að kynna sig með því að staðnæmast í hæfilegri fjarlægð frá hundinum og tala rólega til hans. Vingjarnlegur hundur kemur þá til barnsins. Best er að láta þá hunda eiga sig sem ganga lausir um göturnar. — Sjá rammagreinina „Látbragð hundsins,“ bls. 22.
Þjálfaðu hundinn
Hrósaðu alltaf hundinum þínum og vertu hvetjandi við hann. Refsing eða hranaleg orð flýta ekki fyrir þjálfun hans heldur hafa gagnstæð áhrif. Það er gott fyrir hund að læra að koma þegar kallað er á hann og einnig að hlýða helstu skipunum eins og „sittu!“ Hundurinn lærir að vera undirgefinn húsbónda sínum og það veitir eigandanum góða stjórn á honum við varasamar aðstæður. Einföld orð og setningar virka best. Haltu þér við sömu orð og setningar. Þegar hundurinn gerir það sem hann á að gera skaltu umbuna honum tafarlaust með því að hrósa honum, klappa eða stinga upp í hann gómsætum bita. Til að hafa tilætluð áhrif þarf að umbuna hundinum tafarlaust fyrir það sem hann gerði. Næsta skrefið er að endurtaka æfinguna uns hegðunin fastmótast.
Ef þú eignast hund, annaðhvort hvolp eða fullvaxið dýr, getur hann þurft aðstoð við að venjast börnum. Börn hegða sér öðruvísi en fullorðnir. Þau eru hávaðasamari og hvatvísari og líklegri til að hlaupa að hundinum og það getur hrætt hann. Það er gott að venja hundinn við þetta breytilega atferli. Þegar börnin eru ekki nærstödd skaltu venja hundinn við skyndilegan hávaða. Gerðu þjálfunina að leik. Hrópaðu skipun að hundinum og æddu í áttina til hans. Síðan skaltu umbuna honum tafarlaust. Hrópaðu smám saman hærra og síðan skaltu hrósa honum og klappa. Fljótlega fer hann að hafa gaman af leiknum.
Lítil börn vilja gjarnan faðma hunda en það ætti að kenna þeim að gera það ekki því að sumum hundum finnst sér ógnað með svo náinni snertingu. Ef börnin þín faðma hundinn geturðu þjálfað hann til að sætta sig við það. Faðmaðu hann stutta stund og gefðu honum síðan gómsætan bita og hrós. Lengdu faðmlögin smám saman. Ef hundurinn urrar og glefsar skaltu leita hjálpar hjá reyndum þjálfara.
Árásargjarn hundur
Sumir hundar virðast árásargjarnir að eðlisfari og fjölskyldunni getur stafað hætta af þeim. Rakkar eru líklegri en tíkur til að vera árásargjarnir.
Ráðríkur hundur vill ekki láta fara um sig höndum, einkum á viðkvæmum stöðum svo sem hálsi og trýni. En stundum á hundurinn það til að koma til manns, ýta við manni eða leggja jafnvel loppurnar í kjöltu manns til að „biðja um“ athygli. Hann getur átt það til að gæta vissra staða á heimilinu og leyfa ekki einu sinni fjölskyldunni að komast að þeim. Oft er hann ráðríkur á hluti, svo sem leikföng, og urrar eða hættir að naga leikfangið þegar einhver nálgast hann.
Til að treysta sig í sessi hunsa slíkir hundar vísvitandi skipanir sem þeir þekkja. Þeir eiga til að rekast utan í börn eða ætlast til að fá að ganga fyrstir um dyrnar. Þeir geta líka átt til að fara upp á fólk. Brian Kilcommons segir að það sé „merki um yfirráð“ en snúist „ekki um kynlíf.“ Hann segir að þetta sé „alltaf merki þess að hundurinn haldi sig stjórna. Þá er næstum örugglega vandi á ferðum.“ Hundurinn getur líka átt það til að temja sér að bíta lauslega í hönd eiganda síns til að heimta athygli.
Það ætti aldrei að hunsa þessi merki árásarhneigðar. Árásarhneigðin eldist ekki af hundinum heldur vex líklega, og þá er hugsanlegt að börnin á heimilinu séu í hættu. Margir þjálfarar mæla með því að slíkir hundar séu geltir eða teknir úr sambandi því að það dregur yfirleitt úr árásarhneigð.
Ekki er ráðlegt að bjóða hundi byrginn til að sýna hver ráði. Harka og grimmilegur agi getur meira að segja verið hættulegur. Það er hægt að sýna hundinum með öðrum hætti hver ráði.
Í hvert sinn sem árásargjarn hundur kemur til þín, heimtar athygli og þú veitir hana ertu að styrkja þá trú hundsins að hann ráði. Þegar slíkur hundur heimtar athygli skaltu því hunsa hann. Öll fjölskyldan verður að vinna saman að þessari meðferð. Hundurinn verður ráðvilltur í fyrstu og getur jafnvel átt til að gelta og horfa vinalega á þig en þú skalt standast freistinguna að láta undan. Þegar hann hefur dregið sig í hlé og er kannski lagstur út í horn er kominn tími til að veita honum örlitla athygli. Þannig lærir hundurinn að þú sért foringinn og að þú ákveðir hvenær hann fái athygli.
Átakaleikir, svo sem reiptog og glíma, geta ýtt undir ráðríkishneigð hundsins og ber því að forðast. Farið heldur í átakalausa leiki.
Best er að hundurinn sofi ekki í svefnherberginu. Svefnherbergið er friðhelgur staður og fái hundurinn að sofa þar getur hann skynjað það svo að hann sé hærra settur en börnin á heimilinu. Látið hundinn heldur sofa í eldhúsinu eða í útihundahúsi. Það er oft í svefnherberginu sem árásargjarn hundur bítur eigandann í fyrsta sinn.
Leitaðu hjálpar hjá hæfum hundaþjálfara ef viðleitni þín til að þjálfa hundinn ber ekki árangur eða ef þér finnst þér einhvern tíma ógnað meðan þú ert að þjálfa hann. Dýralæknirinn þinn getur hugsanlega bent á þjálfara. Áður en þú ákveður að notfæra þér þjónustu þjálfarans skaltu tala við hann um þjálfunaraðferðir hans til að fullvissa þig um að hann sé örugglega vandanum vaxinn. Hundaþjálfarinn Richard Stubbs varar við: „Enda þótt árásargjarn hundur taki þjálfun fagmanns er það engin trygging fyrir því að hann hlýði eiganda sínum.“ Eigandinn verður að ganga úr skugga um að hann geti haft stjórn á hundinum við tvísýnar aðstæður.
Fáeinir hundar eru árásargjarnir jafnvel eftir bestu þjálfun og fjölskyldunni stafar hætta af þeim. Þegar þú hefur gert þitt besta kemstu kannski að þeirri niðurstöðu að það sé betra að losa þig við hundinn en eiga á hættu að hann valdi meiðslum. Gott er að ráðfæra sig við dýralækni eða hundaþjálfara. Kannski er hægt að finna hundinum annað heimili, en auðvitað er þér skylt að segja nýja eigandanum frá þeim vandamálum sem þið hafið átt í með hundinn.
Hundaþjálfarinn Peter Neville ráðleggur: „Það verður alltaf að fylgja mjög nákvæmum viðmiðunarreglum í samskiptum við ráðríka hunda og meta vandlega hverjum stafi áfram hætta af þeim og hve mikil. Ef ekki er hægt að tryggja öryggi þess sem er í mestri hættu í fjölskyldunni, þá er best að velja hundinum nýjan eiganda og vanda valið, eða láta svæfa hann.“
Börn geta lært af því að eiga hund sem gæludýr og haft gott af því tilfinningalega. Með ábyrgri umsjón stuðla foreldrarnir að því að börnin eigi einungis ánægjulegar minningar um hundinn.
[Rammi á blaðsíðu 22]
Látbragð hundsins
Árásargjarn hundur lætur í ljós fjandsamlegan ásetning með hegðun sinni. Ef þú kennir barninu að bera kennsl á þetta látbragð hundsins auðveldarðu því að forðast hættulegar aðstæður.
● Árásargjarn hundur reynir að sýnast stærri en hann er. Hann lætur kannski hárin á aftanverðum hálsinum rísa. Hann urrar eða geltir með rófuna beint upp í loftið. Það er ekki vináttumerki ef hann dinglar stífri rofunni hratt og æsilega. Látið þennan hund eiga sig.
● Hræddur hundur hniprar sig saman með rófuna milli lappanna, hengir haus og lætur eyrun lafa. Sökum hræðslu getur hann átt það til að ráðast á þann sem nálgast hann. Látið hann eiga sig.
● Afslappaður hundur heldur höfðinu hvorki hátt né lágt, hann er með opinn munn og rófuna rétt fyrir neðan bakhæð, þó ekki hangandi. Það er vináttumerki að hann dilli rófunni. Yfirleitt er óhætt að vingast við slíkan hund.
(Unnið upp úr bókinni Childproofing Your Dog eftir Brian Kilcommons og Söruh Wilson.)
[Rammi á blaðsíðu 23]
Hugað að öryggi
1. Líttu eftir litlum börnum í návist hunda.
2. Kenndu barninu að erta aldrei hund.
3. Spyrðu eigandann leyfis áður en þú klappar ókunnum hundi.
4. Þjálfaðu hundinn til að hlýða helstu skipunum.
5. Vendu hundinn við að tekið sé utan um hann.
6. Forðastu átakaleiki.