Kaþólska kirkjan og þróunarkenningin
Eftir fréttaritara Vaknið! á Ítalíu
ÚTFÖR Charles Darwins var gerð frá Westminster Abbey í Lundúnum hinn 26. apríl árið 1882. Sumum gæti þótt kirkja einhver sísti staðurinn til að greftra mann sem sakaður var um að hafa ‚steypt Guði af stóli‘ með kenningu sinni um þróun og náttúruval. En þarna hefur leiði Darwins verið í meira en öld.
Eftir að bók Darwins, Uppruni tegundanna, kom út árið 1859 breyttist afstaða guðfræðinga til þróunarkenningarinnar smám saman. Guðfræðingurinn Carlo Molari lýsir því hvernig „stríð fyrir opnum tjöldum“ breyttist í „vopnahlé“ snemma á þessari öld. Síðan segir hann að menn hafi „lagt niður vopnin“ um miðja öldina og loks hafi komist á sá „friður“ sem nú er.
Fyrir daga Darwins
Darwin var reyndar ekki upphafsmaður þróunarhugmyndarinnar. Heimspekingar til forna höfðu slegið fram kenningum um að ein lífverutegund breyttist í aðra. Fyrstu nútímakenningar um þróun má rekja til allmargra náttúrufræðinga á 18. öld.
Á 18. og 19. öld settu margir fræðimenn fram ólíkar þróunarkenningar þótt orðið „þróun“ væri sjaldan notað. Erasmus Darwin (1731-1802), afi Charles Darwins, viðraði margar þróunarhugmyndir í einu verka sinna, og þessa verks var getið í skrá kaþólsku kirkjunnar um bannaðar bækur.
Hvers vegna „stríð fyrir opnum tjöldum“ braust út
Sumir utan kirkjunnar sáu kenningu Darwins sem hentugt verkfæri til að veikja áhrif klerkastéttarinnar. Hatrömm barátta braust því út. Árið 1860 lýstu þýskir biskupar yfir: „Forfeður okkar voru skapaðir beint af Guði. Við lýsum því yfir að skoðun þeirra sem voga sér að halda því fram að maðurinn sé að líkamanum til kominn af óæðri verum við sjálfkrafa ummyndun, stríði algerlega gegn Heilagri ritningu og trúnni.“
Píus páfi níundi tók í svipaðan streng í maí 1877 er hann bar lof á franska lækninn Constantin James fyrir útgáfu rits þar sem hann andmælti þróunarkenningunni og studdi sköpunarsögu Biblíunnar. Fyrsti áfangi átakanna náði hámarki með bréfaröð frá Biblíunefnd páfagarðs á árunum 1905 til 1909. Í einu þeirra lýsir nefndin yfir að fyrstu þrír kaflar 1. Mósebókar séu sannsögulegir og þá beri að skilja sem „raunsanna sögu.“
„Vopnahlé“ og ‚vopnin lögð niður‘
En þegar kenningu Darwins jókst fylgi meðal menntamanna tóku kaþólskir guðfræðingar, þeirra á meðal franski jesúítinn Teilhard de Chardin, að snúast á sveif með henni. Þótt hugmyndir Teilhards væru frábrugðnar hefðbundnum hugmyndum þróunarsinna varð hann frá árinu 1921 „æ sannfærðari um að líffræðileg þróun . . . væri veruleiki.“ Sáttarstefna kaþólskrar trúar og þróunarkenningarinnar varð æ meira áberandi.
Árið 1948 sagði annar jesúíti: „Í meira en 20 ár hefur fjölgað mjög guðfræðingum sem lýsa yfir að sættir [milli þróunarkenningarinnar og kaþólskrar trúar] séu mögulegar ef menn haldi sig innan vissra marka. Þetta eru guðfræðingar sem enginn vafi leikur á að eru sanntrúaðir.“ Um svipað leyti dró Biblíunefnd páfagarðs til baka flest af því sem hún hafði skrifað árið 1909 til stuðnings sköpunarsögu Biblíunnar.
Svo gerðist það árið 1950 að umburðarbréf Píusar tólfta, Humani generis, sagði að kaþólskir fræðimenn gætu litið á þróunarkenninguna sem trúverðuga tilgátu. Páfi sagði þó: „Kaþólsk trú skuldbindur okkur til að hafa þá afstöðu að sálir séu skapaðar beint af Guði.“
Af hverju hinn svokallaði friður?
Carlo Molari bendir á að með fáum undantekningum hafi „efasemdir um þróunarkenningar afdráttarlaust verið yfirstignar“ síðan annað almenna Vatíkanþingið var haldið. Athyglisvert er að Jóhannes Páll páfi annar lýsti yfir í október 1996: „Núna, nálega hálfri öld eftir útgáfu umburðarbréfsins [bréfs Píusar tólfta] gerir ný þekking okkur kleift að viðurkenna að þróunarkenningin er meira en tilgáta. Það er mjög athyglisvert að þessi kenning skuli smám saman hafa öðlast viðurkenningu vísindamanna.“
Sagnfræðingurinn Lucio Villari kallar yfirlýsingu páfa „ótvíræða játningu.“ Hið íhaldssama, ítalska dagblað Il Giornale sagði í fyrirsögn: „Páfi segir að við séum kannski komnir af öpum.“ Og tímaritið Time komst að þeirri niðurstöðu að yfirlýsing páfa „endurspegli að kirkjan hafi viðurkennt þróunarkenninguna.“
Hver er ástæðan fyrir því sem kallað hefur verið „nánast yfirlætislegur snúningur [leiðtoga kaþólskra] á sveif með þróunarkenningunni“? Af hverju hefur rómversk-kaþólska kirkjan samið frið við þróunarkenninguna?
Ljóst er að margir kaþólskir guðfræðingar líta á Biblíuna sem ‚manna orð‘ en ekki ‚Guðs orð.‘ (1. Þessaloníkubréf 2:13; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Kaþólska kirkjan leggur meiri trúnað á orð þróunarsinna en sonar Guðs, Jesú Krists, sem staðfesti að sköpunarsaga Biblíunnar væri rétt er hann sagði: „Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu.“ (Matteus 19:4) Hvora skoðunina telur þú trúverðugri?
[Rammi á blaðsíðu 12]
Vottar Jehóva og þróunarkenningin
Vottar Jehóva hafa alltaf haldið á loft þeirri kenningu Krists að Guð hafi skapað fyrstu mannhjónin beint og gert þau „karl og konu.“ (Matteus 19:4; 1. Mósebók 1:27; 2:24) Árið 1886 talaði 1. bindi Dögunar þúsundáraríkisins (síðar kölluð Rannsóknir á Ritningunni) um darvinismann sem „ósannanlega kenningu“ og árið 1898 hélt bæklingurinn Biblían og þróunarkenningin sköpunarsögu Biblíunnar á loft. Bækurnar Nýja sköpunin (1904) og Sköpun (1927), svo og greinar í Varðturninum og Gullöldinni, héldu einnig uppi vörnum fyrir sköpunarsögu Biblíunnar.
Um svipað leyti og Píus páfi tólfti birti umburðarbréf sitt, Humani generis, árið 1950, voru vottar Jehóva að gefa út bæklinginn Þróunarkenningin og nýi heimurinn. Í bæklingnum eru bæði vísindalegar og sagnfræðilegar sannanir fyrir sköpunarsögu Biblíunnar, og tilraunir sumra presta til að „gera bandalag milli þróunarkenningarinnar og Biblíunnar“ eru fordæmdar. Bókin Varð maðurinn til við þróun eða sköpun? (1967) hélt líka á loft sköpunarsögu Biblíunnar, svo og bókin Lífið — varð það til við þróun eða sköpun? gefin út árið 1985, og margar greinar í Varðturninum og Vaknið!
Þannig hafa vottar Jehóva hjálpað mörgum að kynnast hinum sterku rökum fyrir því að Guð ‚hafi skapað okkur og hans séum við.‘ — Sálmur 100:3.