Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g98 8.4. bls. 18-20
  • Hvernig get ég brugðist við mismunun?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvernig get ég brugðist við mismunun?
  • Vaknið! – 1998
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Heftu tunguna!
  • Lúmsk óhlýðni
  • Það er hættulegt að einangra sig
  • Öfund er hættuleg
  • Hvers vegna skilja foreldrar mínir mig ekki?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga
  • Af hverju á ég alltaf í útistöðum við systkini mín?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga
  • Hvað á ég að gera ef foreldrar mínir rífast?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
  • Hvernig getur mér samið betur við systkini mín?
    Vaknið! – 2010
Sjá meira
Vaknið! – 1998
g98 8.4. bls. 18-20

Ungt fólk spyr . . .

Hvernig get ég brugðist við mismunun?

„Systir mín er tveim árum yngri en ég og hún fær alla athyglina. . . . Það er ekki sanngjarnt.“ — Rebekka.a

ÞVÍ meiri athygli sem bróðir þinn eða systir fær, þeim mun meira finnst þér kannski að þú sért hafður útundan. Og ef þú átt systkini sem hefur framúrskarandi hæfileika eða á við alvarleg vandamál að glíma eða hefur sömu áhugamál og persónueinkenni og foreldrar þínir, þá geturðu þurft að berjast harðri baráttu til að fá einhverja athygli yfirleitt! Því meir sem þú hugsar um það, þeim mun særðari og reiðari verður þú.b

Biblían áminnir samt: „Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir.“ (Sálmur 4:5) Þegar þú ert reiður og í uppnámi ertu mun líklegri til að segja eða gera eitthvað sem þú sérð kannski seinna eftir. Mundu hvernig Kain komst í uppnám vegna þess að bróðir hans Abel hafði velþóknun Guðs. Guð varaði hann við: „Þá liggur syndin við dyrnar og hefir hug á þér, en þú átt að drottna yfir henni.“ (1. Mósebók 4:3-16) Kain tókst ekki að stjórna tilfinningum sínum og afleiðingarnar voru hörmulegar!

Þú ert auðvitað ekki í þann veginn að gerast manndrápari líkt og Kain. Samt getur hlutdrægni vakið upp vondar tilfinningar. Hættur geta því legið við þínar dyr! Hvaða hættur? Og hvernig geturðu náð tökum á ástandinu?

Heftu tunguna!

Þegar Beth var 13 ára fannst henni foreldrar sínir halda upp á bróður sinn og vera ósanngjarnir við sig. Hún segir: „Við mamma rifumst heil ósköp, en það gerði alls ekkert gagn. Ég hlustaði ekki á hana og hún hlustaði ekki á mig þannig að það gekk hvorki né rak.“ Kannski hefur þú einnig komist að raun um að öskur og rifrildi gera aðeins illt verra. Efesusbréfið 4:31 segir: „Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.“

Þú þarft ekki að æpa til að koma skoðunum þínum á framfæri. Að minnsta kosti virkar róleg framkoma yfirleitt betur. Orðskviðirnir 25:15 segja: „Með þolinmæði verður höfðingja talið hughvarf, og mjúk tunga mylur bein.“ Ef foreldrar þínir virðast hlutdrægir skaltu ekki æpa og ásaka. Bíddu eftir hentugum tíma og talaðu þá við þau á rólegan og virðulegan hátt. — Samanber Orðskviðina 15:23.

Ef þú beinir athyglinni að ófullkomleika foreldra þinna eða sakar þá um „ósanngirni“ gætirðu gert þá fráhverfa þér eða sett þá í varnarstöðu. Beindu frekar athyglinni að því hvernig framferði þeirra hefur haft áhrif á þig. (‚Það særir mig mikið þegar þið hunsið mig.‘) Þá er líklegra að þau taki þig alvarlega. Vertu einnig „fljótur til að heyra.“ (Jakobsbréfið 1:19) Það getur vel verið að foreldrar þínir hafi gildar ástæður fyrir því að gefa systkini þínu sérstaka athygli. Kannski er það að glíma við vandamál sem þú veist ekkert um.

En hvað nú ef þú ert gjarn á að missa stjórn á þér og tala í hugsunarleysi þegar þú ert reiður? Orðskviðirnir 25:28 líkja manni, „sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum,“ við „borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af“; það er líklegt að hann bíði ósigur fyrir eigin ófullkomnum hvötum. Á hinn bóginn er það merki um mikinn styrk að geta stjórnað tilfinningum sínum! (Orðskviðirnir 16:32) Því ekki að bíða þar til þú hefur róast áður en þú lætur tilfinningar þínar í ljós, jafnvel að bíða til næsta dags? Það gæti líka verið gott fyrir þig að hvíla þig á ástandinu, kannski fara í gönguferð eða gera einhverjar æfingar. (Orðskviðirnir 17:14) Með því að hafa taum á tungu þinni geturðu forðast að segja eitthvað særandi eða kjánalegt. — Orðskviðirnir 10:19; 13:3; 17:27.

Lúmsk óhlýðni

Óhlýðni er önnur tálgryfja. María, sem var 16 ára, tók eftir því að litla bróður hennar var aldrei refsað þegar hann truflaði biblíunám fjölskyldunnar. Hún var gröm yfir því að þeim skyldi mismunað, að henni fannst, og fór í „verkfall“ með því að neita að taka þátt í náminu. Hefurðu einhvern tíma beitt þöglu meðferðinni eða þóst vera ósamvinnufús þegar þér fannst að þér væri sýnd ósanngirni?

Ef svo er skaltu gera þér ljóst að slík brögð eru andstæð því boði Biblíunnar að heiðra foreldrana og hlýða þeim. (Efesusbréfið 6:1, 2) Og óhlýðni grefur undan sambandi þínu við foreldrana. Það er betra að tala út um vandamál þitt við þá. Orðskviðirnir 24:26 gefa til kynna að sá „sem veitir rétt svör“ ávinni sér virðingu annarra. Þegar María ræddi málið við mömmu sína skildu þær hvor aðra og ástandið byrjaði að lagast.

Það er hættulegt að einangra sig

Önnur hættuleg leið til að bregðast við mismunun er að einangra sig frá fjölskyldunni eða leita til vantrúaðra eftir athygli. Það kom einmitt fyrir Kristínu: „Ég einangraði mig frá fjölskyldunni og sneri mér til veraldlegra vina sem ég kynntist í skólanum. Ég átti jafnvel kærasta og foreldrar mínir vissu það ekki. Síðan varð ég mjög niðurdregin og hafði samviskubit af því að ég vissi að ég var ekki að gera rétt. Ég vildi losna úr veraldlegum félagsskap en ég fann bara enga leið til að tala við foreldra mína.“

Það er hættulegt að einangra sig frá fjölskyldu sinni og trúbræðrum — sérstaklega þegar maður er í uppnámi og hugsar ekki skýrt. Orðskviðirnir 18:1 vara við: „Sá sem einangrar sig leitar sinnar eigingjörnu þrár; hann illskast gegn allri skynsemi.“ (NW) Ef þér finnst orðið erfitt að leita til foreldra þinna skaltu leita uppi kristinn vin eins og þann sem lýst er í Orðskviðunum 17:17: „Vinur elskar ætíð og í nauðum er hann sem bróðir.“ Slíkur „vinur“ er yfirleitt auðfundinn meðal þroskaðra safnaðarmanna.

Kristín fann ‚vin‘ í nauðum sínum: „Þegar farandhirðirinn heimsótti söfnuðinn hvöttu foreldrar mínir mig til að starfa með honum. Hann og kona hans voru mjög raunsæ og sýndu mér mikinn áhuga. Ég gat virkilega talað við þau. Mér fannst að þau myndu ekki dæma mig. Þau skildu að maður er ekki fullkominn þótt maður sé alin upp sem kristinn maður.“ Hvatning þeirra og þroskaðar ráðleggingar voru einmitt það sem Kristín þurfti! — Orðskviðirnir 13:20.

Öfund er hættuleg

Orðskviðirnir 27:4 vara við: „Heiftin er grimm, og reiðin er svæsin, en hver fær staðist öfundina?“ Öfund og afbrýðisemi út í eftirlætissystkini hefur egnt suma unglinga til að gera eitthvað í fljótfærni. Kona nokkur viðurkenndi: „Þegar ég var lítil hafði ég þunnt, tjásulegt, brúnt hár en systir mín hafði yndislega þykkt og gulleitt hár sem náði niður að mitti. Pabbi var alltaf að tala um hve hún hefði fallegt hár. Hann kallaði hana ‚Rapúnsel‘ sína. Kvöld eitt þegar hún var sofandi, tók ég saumaskærin hennar mömmu, læddist yfir að rúminu hennar og klippti eins mikið af hárinu og ég gat.“ — Siblings Without Rivalry eftir Adele Faber og Elaine Mazlish.

Það er því engin furða að Biblían skuli lýsa öfund sem einu af vondum ‚verkum holdsins.‘ (Galatabréfið 5:19-21; Rómverjabréfið 1:28-32) Samt sem áður býr ‚öfundartilhneigingin‘ í okkur öllum. (Jakobsbréfið 4:5, NW) Ef þú ert að ráðgera að koma systkini þínu í klípu, draga upp dökka mynd af því, eða á einhvern annan hátt lækka í því rostann getur vel verið að öfund ‚liggi við dyrnar‘ og reyni að drottna yfir þér!

Hvað ættirðu að gera ef þú berð svona skaðlegar tilfinningar í brjósti? Fyrst skaltu reyna að biðja Guð um anda hans. Galatabréfið 5:16 segir: „Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.“ (Samanber Títusarbréfið 3:3-5.) Að íhuga raunverulegar tilfinningar þínar í garð systkinis þíns getur einnig hjálpað til. Geturðu sagt með sanni að þér finnist alls ekkert vænt um það — þrátt fyrir gremju þína? Ritningin segir okkur að ‚kærleikurinn öfundi ekki.‘ (1. Korintubréf 13:4) Láttu því hugann ekki dvelja við neikvæðar hugsanir sem ýta undir öfund. Reyndu að gleðjast með systkini þínu ef það fær sérstaka athygli frá foreldrum ykkar. — Samanber Rómverjabréfið 12:15.

Samræður við foreldrana geta einnig reynst gagnlegar að þessu leyti. Ef þau láta sannfærast um að þau þurfi að veita þér meiri athygli gæti það hjálpað þér mikið til að komast yfir öfundartilfinningar gagnvart systkinum þínum. En hvað ef ástandið batnar ekki heima fyrir og mismununin varir? Þú skalt ekki reiðast, öskra og æpa eða gera uppreisn gegn foreldrum þínum. Reyndu að vera hjálpfús og hlýðinn í viðmóti. Ef nauðsynlegt er skaltu leita þér stuðnings hjá þroskuðum safnaðarmönnum. Umfram allt skaltu nálægjast Jehóva Guð. Mundu orð sálmaritarans: „Enda þótt faðir minn og móðir hafi yfirgefið mig, tekur [Jehóva] mig að sér.“ — Sálmur 27:10.

[Neðanmáls]

a Sumum nöfnum hefur verið breytt.

b Sjá greinina „Hvers vegna fær bróðir minn alla athyglina?“ í Vaknið! á ensku 22. október 1997.

[Mynd á blaðsíðu 19]

Að útskýra að þér finnist þú vera vanræktur gæti leyst vandann.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila