Lifðu þeir svona lengi í raun og veru?
Samkvæmt Biblíunni lifði Adam í 930 ár, Set í 912 ár og Metúsala í 969 ár. Það vantaði sem sagt aðeins 31 ár upp á að Metúsala næði þúsund ára aldri. (1. Mósebók 5:5, 8, 27) Voru árin á þessum tíma jafn löng og þau eru núna eða voru þau styttri, til dæmis jafn löng og mánuðirnir okkar eins og sumir hafa haldið fram?
Í Biblíunni er að finna vísbendingar um að þetta séu bókstafleg ár sem voru svipuð að lengd og árin okkar. Hugleiddu þetta. Ef tímabilið, sem Biblían kallar „ár“, samsvaraði einum mánuði samkvæmt dagatali okkar hefðu eftirfarandi menn eignast börn kornungir: Kenan fyrir sex ára aldur og Mahalalel og Enok rétt rúmlega fimm ára. — 1. Mósebók 5:12, 15, 21.
Þar að auki gerði fólk í þá daga greinarmun á dögum, mánuðum og árum. (1. Mósebók 1:14-16; 8:13) Nákvæm skrá Nóa um tímasetningu atburða hjálpar okkur meira að segja að ákvarða lengd mánaðar. Með því að bera saman 1. Mósebók 7:11, 24 og 1. Mósebók 8:3, 4 kemur í ljós að fimm mánuðir samsvara 150 dögum — talið frá 17. degi annars mánaðar til 17. dags sjöunda mánaðar. Það er því deginum ljósara að Nói gekk út frá því að 30 dagar væru í mánuði og 12 mánuðir í ári. — 1. Mósebók 8:5-13.a
En hvernig gat fólk lifað í 900 ár eða rúmlega það? Í Biblíunni kemur fram að Guð hafi skapað mennina til að lifa að eilífu og að synd Adams hafi leitt ófullkomleika og dauða yfir mannkynið. (1. Mósebók 2:17; 3:17-19; Rómverjabréfið 5:12) Þeir sem lifðu fyrir Nóaflóðið voru miklu nær fullkomleikanum en við sem nú lifum og það var vafalaust stór þáttur í því að þeir lifðu svona lengi. Sem dæmi má nefna að Metúsala var uppi aðeins sjö kynslóðum eftir Adam. — Lúkas 3:37, 38.
Innan skamms mun Jehóva Guð sjá til þess að allir, sem trúa á úthellt blóð Jesú Krists, verði hreinsaðir af áhrifum syndar Adams. „Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.“ (Rómverjabréfið 6:23) Já, sá tími er fram undan þegar hin 969 ár Metúsala munu virðast örstuttur tími!
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 1214, gefin út af Vottum Jehóva.
[Skýringarmynd á blaðsíðu 13]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
1000
Metúsala
Adam
Set
900
800
700
600
500
400
300
200
100
Meðalaldur manns núna