Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • g17 Nr. 2 bls. 8-9
  • Þegar foreldri deyr

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þegar foreldri deyr
  • Vaknið! – 2017
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • VANDINN
  • GOTT ER AÐ VITA
  • HVAÐ ER TIL RÁÐA?
  • Þegar börn syrgja
    Vaknið! – 2017
  • Hjálp fyrir syrgjendur
    Vaknið! – 2011
  • Hvernig get ég borið sorg mína?
    Þegar ástvinur deyr
  • Er eðlilegt að syrgja eins og ég geri?
    Spurningar unga fólksins — svör sem duga
Sjá meira
Vaknið! – 2017
g17 Nr. 2 bls. 8-9
Barn heldur í höndina á fullorðnum í kirkjugarði.

GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UNGLINGAR

Þegar foreldri deyr

VANDINN

Dami var sex ára gömul þegar pabbi hennar fékk heilablóðfall og lést. Derrick var níu ára þegar faðir hans dó úr hjartasjúkdómi. Jeannie var sjö ára þegar mamma hennar lést eftir að hafa barist við krabbamein í eggjastokkum í eitt ár.a

Dami, Derrick og Jeannie kynntust ástvinamissi allt of ung. Hefur þú líka misst ástvin í dauðann? Ef svo er getur þessi grein hjálpað þér að takast á við missinn.b En fyrst skulum við skoða nokkrar staðreyndir um sorg.

GOTT ER AÐ VITA

Það syrgja ekki allir eins. Sorgarviðbrögð þín geta verið ólík viðbrögðum annarra. „Þegar við syrgjum fylgjum við ekki einhverju ákveðnu mynstri eða reglum,“ segir í bókinni Helping Teens Cope With Death. En það er mikilvægt að byrgja sorgina ekki inni. Hvers vegna?

Það getur verið skaðlegt að byrgja sorgina inni. Jeannie, sem minnst var á í byrjun greinarinnar, segir: „Mér fannst ég þurfa að vera sterk vegna litlu systur minnar. Ég lokaði þess vegna á mínar eigin tilfinningar. Ég hef enn tilhneigingu til að bæla niður sárar tilfinningar og það er ekki gott fyrir heilsuna.“

Sérfræðingar eru á sama máli. „Maður losnar ekki við tilfinningarnar þó að maður afneiti þeim eða bæli þær niður,“ segir í bókinni The Grieving Teen. „Þegar maður á síst von á koma þær manni í uppnám eða brjótast út í líkamlegum kvillum.“ Ef maður byrgir sorgina inni er líka hætta á að maður fari að deyfa hana með því að nota áfengi, vímuefni eða lyf.

Sorginni fylgir oft mikið tilfinningarót. Sumir finna til reiði út í hinn látna fyrir að hafa „yfirgefið“ þá. Aðrir kenna Guði um og finnst hann hafa átt að koma í veg fyrir dauðsfallið. Margir hafa samviskubit vegna einhvers sem þeir gerðu eða sögðu við ástvininn áður en hann dó vegna þess að nú er of seint að bæta fyrir það.

Sorgin getur verið flókið ferli. Hvernig geturðu fengið huggun og hjálp til að vinna úr sorginni?

HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Talaðu við einhvern. Þú gætir haft tilhneigingu til að einangra þig á þessum erfiða tíma. En ef þú talar um líðan þína við einhvern í fjölskyldunni eða góðan vin hjálpar það þér að takast á við tilfinningar þínar og kemur í veg fyrir að sorgin bugi þig. – Ráðlegging Biblíunnar: Orðskviðirnir 18:24.

Haltu dagbók. Skrifaðu niður minningar um foreldrið sem þú misstir. Þú getur til dæmis skrifað niður dýrmætustu minningarnar sem þú átt um pabba þinn eða mömmu eða um góða eiginleika sem hann eða hún hafði til að bera. Hverju í fari foreldris þíns myndir þú helst vilja líkja eftir?

Ef neikvæðar tilfinningar íþyngja þér – til dæmis ef þú getur ekki hætt að hugsa um eitthvað leiðinlegt sem þú sagðir við foreldri þitt – skaltu skrifa niður hvernig þér líður og hvers vegna. Dæmi: „Ég er með samviskubit vegna þess að ég reifst við pabba daginn áður en hann dó.“

Hugleiddu síðan hvort þú hafir í raun og veru ástæðu til að vera með samviskubit. Í bókinni The Grieving Teen segir: „Þú getur ekki álasað þér fyrir að hafa ekki vitað að þú fengir ekki tækifæri til að biðjast afsökunar.“ Þar segir einnig: „Það er ekki raunhæft að halda að maður muni aldrei segja eða gera nokkuð sem maður þarf að biðjast afsökunar á.“ – Ráðlegging Biblíunnar: Jobsbók 10:1.

Hugsaðu vel um heilsuna. Fáðu næga hvíld og hreyfingu og borðaðu hollan mat. Ef þú hefur litla matarlyst skaltu reyna að borða hollt snarl nokkrum sinnum yfir daginn í stað stórra máltíða, að minnsta kosti þar til matarlystin eykst á ný. Forðastu að reyna að deyfa sorgina með áfengi eða ruslfæði – það gerir hlutina bara verri.

Talaðu við Guð í bæn. Í Biblíunni segir: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ (Sálmur 55:23) Bæn er ekki aðeins tilfinningaleg hækja. Þegar þú biður áttu raunveruleg tjáskipti við Guð sem „hughreystir [okkur] í sérhverri þrenging.“ – 2. Korintubréf 1:3, 4.

Guð hughreystir þá sem syrgja meðal annars með orði sínu, Biblíunni. Við hvetjum þig til að skoða hvað Biblían kennir um ástand hinna dánu og upprisuvonina.c – Ráðlegging Biblíunnar: Sálmur 94:19.

a Nánar er sagt frá reynslu Dami, Derricks og Jeannie í næstu grein.

b Þótt greinin fjalli um að missa foreldri geta ráðin einnig átt við þegar systkini eða vinur deyr.

c Nánari upplýsingar er að finna í 16. kafla bókarinnar Spurningar unga fólksins – svör sem duga. Þú getur sótt bókina þér að kostnaðarlausu á www.jw.org/is, undir ÚTGÁFA.

LYKILVERS

  • „Til er sá vinur sem reynist tryggari en bróðir.“ – Orðskviðirnir 18:24.

  • „Ég ætla ... að gefa kveinstöfum mínum lausan tauminn, ætla að tala í sálarkvöl minni.“ – Jobsbók 10:1, Biblían 1981.

  • „Þegar áhyggjur þjaka mig hressir huggun þín [Guð] sál mína.“ – Sálmur 94:19.

ÞÚ GETUR HJÁLPAÐ ÖÐRUM

„Við fjölskyldan erum vottar Jehóva. Fyrir nokkrum árum misstu tveir litlir drengir, sem við þekkjum, mömmu sína úr krabbameini. Þeir voru 3 og 6 ára – á svipuðum aldri og við systurnar vorum þegar við misstum pabba okkar fyrir nærri 17 árum.

Við mamma og yngri systir mín og bróðir ákváðum að styðja við bakið á þessari fjölskyldu. Við buðum þeim oft í heimsókn og þegar þeir höfðu þörf fyrir að tala hlustuðum við á þá. Við vörðum miklum tíma með þeim og hjálpuðum þeim með hvaðeina sem á þurfti að halda hverju sinni, hvort sem þeir þörfnuðust leikfélaga, einhvers til að hlusta á þá eða þurftu að fá ráð.

Það er hræðilegt að missa foreldri sitt og maður kemst í raun aldrei yfir það. Tíminn linar sorgina en það er alltaf eitthvað sem minnir mann á missinn. Ég vissi hvað þessi fjölskylda var að ganga í gegnum og þess vegna er ég ánægð að við ákváðum að styðja við bakið á henni. Við tengdumst þeim nánari vináttuböndum og við fjölskyldan urðum einnig nánari.“ – Dami.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila