AÐ TAKAST Á VIÐ HÆKKANDI VERÐLAG
Farðu vel með peninga
Hækkandi verðlag gerir okkur öllum erfitt fyrir. En þú þarft ekki að gefast upp. Þú getur líklega gert ýmislegt til að bæta stöðu þína.
HVERS VEGNA ER ÞAÐ MIKILVÆGT?
Ef þú reynir ekki að minnsta kosti að fara vel með peningana gæti fjárhagsstaða þín orðið enn verri og valdið þér meiri áhyggjum og kvíða. Það er ýmislegt sem þú getur gert til að bæta stöðuna, jafnvel þó að þú hafir takmörkuð fjárráð.
HVAÐ GETUR ÞÚ GERT?
Lifðu ekki um efni fram. Ef þér tekst það er líklegra að þér finnist þú hafa stjórn á fjárhagsstöðu þinni og hafir ekki eins miklar áhyggjur af óvæntum útgjöldum.
Að gera fjárhagsáætlun hjálpar þér að eyða ekki um efni fram. Skoðaðu vel tekjur þínar og útgjöld. Gerðu síðan þitt besta til að halda þig við fjárhagsáætlunina og endurskoðaðu hana þegar verðlag eða launin þín breytast. Ef þú ert í hjónabandi þarftu að sjálfsögðu að gera áætlanir í samráði við makann.
Prófaðu þetta: Borgaðu í reiðufé ef þú getur frekar en að nota kreditkort. Sumir hafa komist að því að með því að gera þetta hafa þeir meiri stjórn á peningamálum sínum og þurfa jafnvel ekki að stofna sér í neinar skuldir. Farðu líka vel yfir bankayfirlitið. Þú getur verið rólegri ef þú veist nákvæmlega hvað þú átt af peningum.
Það getur verið erfitt að lifa ekki um efni fram. En það er mikil hjálp í að hafa vel úthugsaða fjárhagsáætlun. Og þá þarftu ekki að hafa eins miklar áhyggjur af peningum.
Reyndu að halda vinnunni. Hér eru nokkur dæmi um hvernig þú getur gert það: Vertu stundvís. Vertu jákvæður gagnvart vinnunni. Sýndu frumkvæði og vertu vinnusamur. Vertu kurteis. Fylgdu reglum og reyndu að bæta þig.
Ekki sóa peningum. Spyrðu þig: Er ég með einhverjar kostnaðarsamar eða skaðlegar venjur? Margir eyða til dæmis peningum sem þeir hafa unnið fyrir hörðum höndum í fíkniefni, fjárhættuspil, reykingar eða ofdrykkju. Slíkar venjur geta líka kostað þá heilsuna og vinnuna.
Búðu þér til varasjóð. Þegar þú getur skaltu leggja smáar upphæðir til hliðar í neyðarsjóð eða til að eiga fyrir óvæntum útgjöldum. Að hafa slíkan sjóð getur veitt þér öryggi ef þú eða einhver í fjölskyldunni verður óvænt veikur eða missir vinnuna eða eitthvað annað óvænt gerist.