Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • ht þjálfunarliður 22 bls. 17-20
  • Áhrifaríkur inngangur

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Áhrifaríkur inngangur
  • Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ――――◆◆◆◆◆――――
  • ――――◆◆◆◆◆――――
  • Inngangur sem vekur áhuga
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
ht þjálfunarliður 22 bls. 17-20

3. námskafli

Áhrifaríkur inngangur

1 Vekur áhuga. Inngangsorð ættu að vekja áhuga á ræðuefninu. Þau ættu að ná athygli áheyrenda og gera þá forvitna um það sem á eftir kemur. Til þess þarf að sýna áheyrendum fram á gildi efnisins.

2 Ein besta leiðin til að vekja áhuga á ákveðnu efni er sú að láta það snerta áheyrendur. Komdu þeim í skilning um að þessar upplýsingar séu mikilvægar fyrir þá og snerti líf þeirra. Til að gera það þarftu að taka mið af þekkingargrunni þeirra. Með öðrum orðum þarf það sem þú segir að vera á þekkingarsviði þeirra. Það gæti verið líking, dæmi eða spurningaröð, en það ætti í öllum tilvikum að vera nógu kunnuglegt fyrir áheyrendur þína til að þeir skilji það og geti tekið það til sín.

3 Í sumum tilvikum getur þurft að nota inngangsorðin til að yfirvinna fordóma, einkum ef þú ert að fjalla um mjög umdeilt efni. Í slíku tilviki eru inngangsorðin mjög mikilvæg til að halda athygli áheyrenda uns þú nærð að rökstyðja mál þitt nægilega. Í boðunarstarfinu hús úr húsi er oft hægt að sigrast á algengri mótbáru með því að nefna hana sjálfur nærgætnislega og snúa sér síðan að efninu sem ætlunin er að ræða um.

4 Það skiptir alltaf miklu máli hvað þú segir. En það er sennilega þýðingarmeira í inngangsorðunum en annars staðar í ræðunni hvernig þú segir það, til að vekja áhuga á efninu. Þar af leiðandi þarftu að undirbúa vandlega það sem þú vilt segja í inngangsorðunum, en ekki síður hvernig þú ætlar að segja það.

5 Stuttar, einfaldar setningar eru yfirleitt best til þess fallnar að ná þessu markmiði í inngangsorðunum. Gott gæti verið að undirbúa fyrstu tvær eða þrjár setningarnar mjög vel, þar sem orðaval skiptir svo miklu máli til að ná settu marki á þeim stutta tíma sem ætlaður er fyrir innganginn. Skrifaðu þær orðrétt á minnisblaðið svo að þú getir lesið þær skýrt eða lærðu þær utan að svo að inngangsorðin hafi tilætluð og verðskulduð áhrif. Þetta gerir þig auk þess öruggari í byrjun ræðunnar og þú verður nógu rólegur til að halda áfram án þess að hafa ræðuna skrifaða eða þurfa að læra hana utan að.

6 Fáein orð í viðbót um flutning inngangsorðanna þótt leiðbeinandinn fjalli ekki sérstaklega um það í tengslum við þennan þátt ræðumennskunnar. Ef þú ert taugaóstyrkur skaltu hægja á þér og tala með djúpri röddu. Talaðu með sannfæringu án þess að virðast kreddufastur. Kreddufesta getur gert áheyrendurna afhuga þér strax í byrjun.

7 Enda þótt inngangurinn sé fyrsti kafli ræðunnar er venjulega best að undirbúa hann þegar meginkaflinn er fullmótaður. Þá veistu best hvað þú átt að segja til að kynna efnið sem þú hefur undirbúið til flutnings.

――――◆◆◆◆◆――――

8 Á við stefið. Inngangur þarf að eiga við stefið til að vera eðlilegur formáli að efninu. Þess skal vandlega gætt að nota aðeins það í inngangsorðunum sem tengist markmiði ræðunnar. Og auðvitað verða þau að samrýmast reisn boðskaparins um Guðsríki og mega ekki hneyksla ókunnuga meðal áheyrenda.

9 Inngangsorðin eiga ekki aðeins að vera formáli að umræðuefninu heldur eiga þau líka að draga skýrt fram þann efnisflöt sem þú ætlar sérstaklega að ræða um. Það þýðir að þú verður að takmarka viðfangsefnið við ákveðið stef og benda síðan einhvern veginn á þetta stef eins og kostur er í inngangsorðunum. Ef þú segir ekki stefið orðrétt geturðu í vissum tilvikum notað lykilorð úr því í inngangsorðunum. Þá búast áheyrendur ekki við að þú ræðir aðrar hliðar efnisins sem ræðuheitið gæti hugsanlega gefið til kynna.

10 Allar ræður þurfa að mynda eina heild; það má ekki byrja á einu en enda á allt öðru. Þar að auki þarf inngangurinn bæði að eiga við stefið og vekja áhuga. Með öðrum orðum má ekki fórna stefinu fyrir góða sögu. Inngangsorðin ættu að ráðast fyrst og fremst af markmiði ræðunnar. Og þau verða að hæfa meginmáli ræðunnar og vera í samhengi við það.

――――◆◆◆◆◆――――

11 Hæfilega langur. Hversu langur á inngangur að vera? Við því er ekkert einhlítt svar. Lengd inngangsins er háð úthlutuðum ræðutíma, markmiði ræðunnar, áheyrendum og mörgu fleiru.

12 Þegar hlýtt er á ræðu ætti samhengi reyndar að vera svo gott að erfitt er að greina nákvæmlega mörkin milli inngangs og meginmáls. Leiðbeinandinn þarf að gefa þessu gaum þegar þú kemur að þessum lið á ráðleggingakortinu. Sérhver nemandi hefur einhver inngangsorð að ræðu sinni, en leiðbeinandinn er sérlega vakandi fyrir eftirfarandi: Er inngangurinn svo sundurlaus, svo ítarlegur eða svo langdreginn að áheyrendur verða óþolinmóðir áður en þú kemst að kjarna málsins?

13 Inngangur ætti að vekja áhuga á viðfangsefninu með skýrum, skipulegum og hröðum hugmyndatengslum og vera eðlilegur formáli þess. Hann verður að vera heilsteyptur og gloppulaus. Það kostar góðan undirbúning því að ef inngangurinn er svo fjarlægur efninu að hann þurfi langa og ítarlega útskýringu, er best að endurskoða hann og finna kannski nýjan byrjunarreit.

14 Ef erfitt er að finna greinileg mörk milli inngangs og meginmáls ræðunnar eru góðar líkur á að hann sé hæfilega langur. Það gefur til kynna að þú hafir leitt áheyrendur þína svo vel inn í efnið að þeir hlýði á rök þín án þess að gera sér almennilega grein fyrir því. Ef þeir fara hins vegar að velta fyrir sér hvenær þú ætlir eiginlega að koma þér að efninu geturðu verið viss um að inngangurinn er of langur. Þetta er oft veikleiki í kynningarorðum hús úr húsi þar sem við þurfum gjarnan að hafa mislöng inngangsorð.

15 Þegar þú flytur einu ræðuna sem er á dagskrá eða ert með nemendaræðu mega inngangsorðin vera lengri en við önnur tækifæri. En sé ræðan hluti af syrpu eða þá verkefni á þjónustusamkomu getur inngangurinn verið stuttur og hnitmiðaður af því að verkefnið er þá hluti af heild sem þegar er búið að kynna. Oft er miklum tíma eytt að óþörfu í langdregin og flókin inngangsorð. Það er í meginmáli ræðunnar sem miðla á þeim hugmyndum sem þú hefur fram að færa.

16 Í stuttu máli eru inngangsorðin aðeins til þess ætluð að koma á sambandi, vekja áhuga og vera formáli þess efnis sem þú ætlar að ræða. Hafðu þau sem styst og komdu þér svo strax að kjarna málsins.

[Spurningar]

1-3. Hvernig geturðu vakið áhuga á efninu í inngangsorðunum?

4-6. Hvað annað stuðlar að því að inngangur veki áhuga?

7. Hvenær ættirðu að undirbúa innganginn?

8-10. Hvernig getum við látið innganginn hæfa stefinu?

11-14. Hvernig er hægt að dæma um hvort inngangur sé hæfilega langur?

15, 16. Hve langur ætti inngangur að vera ef ræðan er hluti af syrpu?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila