Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • ht þjálfunarliður 26 bls. 34-37
  • Endurtekningar og tilburðir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Endurtekningar og tilburðir
  • Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ――――◆◆◆◆◆――――
  • Tilburðir og svipbrigði
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Endurtekning til áherslu
    Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum
  • Uppbyggjandi ráðleggingar
    Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
  • Aðalatriðin dregin fram
    Leggðu þig fram við að lesa og kenna
Sjá meira
Taktu framförum í ræðumennsku og kennslutækni
ht þjálfunarliður 26 bls. 34-37

7. námskafli

Endurtekningar og tilburðir

1 Ræða ætti að hafa það markmið að miðla upplýsingum sem áheyrendur muna eftir og geta notað. Hún er gagnslaus ef hún gleymist. Eitt besta ráðið til að hjálpa þeim að muna það sem þú segir er að endurtaka það mikilvægasta. Það eru orð að sönnu að endurtekning styrkir minnið. Endurtekningar eru ómissandi kennslutækni. Þú hefur þegar komist að raun um gildi þeirra í tengslum við ritningarstaði sem þú notar. En það er nauðsynlegt að endurtaka fleira í ræðunni þannig að „Endurtekningar í áhersluskyni“ er sérstakur liður á ráðleggingakortinu.

2 Við skulum líta á málið frá tveim hliðum til að auðvelda þér að ná tökum á áhersluendurtekningum. Hvor um sig lýtur að ólíkum endurtekningaraðferðum sem þjóna tvenns konar tilgangi. Endurtekning á aðalatriðum er minnishjálp. Endurtekning á torskildum atriðum er skilningshjálp.

3 Þú þarft að huga að þessum þætti ræðumennskunnar bæði við undirbúning ræðunnar og flutning. Þú þarft að ákveða fyrirfram hvað þurfi að endurtaka og hvenær best sé að gera það.

4 Endurtekning aðalatriða. Endurtekning aðalatriða er oft fólgin í einhvers konar ágripi eða samantekt. Við skulum ræða tvær góðar leiðir sem kalla mætti stígandi ágrip og lokaágrip.

5 Stígandi ágrip felst í því að rifja upp meginþætti hvers aðalatriðis jafnóðum og fjallað er um það, og draga svo þessa meginþætti saman í þeim ágripum sem á eftir koma. Þannig er þræðinum í ræðunni haldið við jafnt og þétt.

6 Síðan er allt dregið saman í lokaágripi í niðurlaginu, annaðhvort samhliða stígandi ágripi eða án þess. Þar með er öll ræðan rifjuð upp í fáeinum hnitmiðuðum orðum. Stundum er gott að nefna nákvæmlega hve mörg atriði verði rifjuð upp. Það er góð minnishjálp.

7 Ágrip þarf ekki að vera þurr endurtekning eða ítrekun hugmynda eða atriða. Ágrip getur verið margs konar: líkingar, ritningarstaðir, annað sjónarhorn, samanburður eða andstæður, hliðstæður og samheiti eða spurningar. Tökum dæmi: Það gæti verið mjög heppilegt að rifja upp opinberan fyrirlestur með því að draga saman á fimm mínútum lykilritningarstaði og helstu rök ræðunnar. Þar höfum við alla ræðuna í hnotskurn og nánast allir geta tekið hana heim með sér og notað.

8 Endurtekning í formi ágrips hentar sérlega vel í ræðum sem byggjast upp á rökfræði og rökfærslu, og tíminn milli umfjöllunar og stuttra endurtekninga hjálpar áheyrendum að festa efnið betur í minni. Ekki er þó alltaf nauðsynlegt að draga efnið saman. Sumt má bara endurtaka seinna og er þá góð undirstaða annars efnis sem fjallað verður um.

9 Önnur leið til að endurtaka aðalatriðin er að gefa stutt yfirlit yfir þau í inngangi ræðunnar og vinna síðan nánar úr þeim í meginmálinu. Slík endurtekning er líka góð minnishjálp.

10 Með því að kunna skil á þessum mismunandi aðferðum til að endurtaka aðalatriðin má gera ræðu áhugaverða og ánægjulega á margan hátt og auðvelda áheyrendum að leggja efnið á minnið.

11 Endurtekning efnis sem ekki skildist. Það er að langmestu leyti undir áheyrendum komið hvort nauðsynlegt er að endurtaka ákveðið efni til skilningsauka. Ef um er að ræða meginatriði og ljóst er að áheyrendur skilja það ekki án þess að heyra það oftar en einu sinni verður að endurtaka það einhvern veginn. Annars eru áheyrendur ekki með á nótunum þegar þú lýkur ræðunni. Óþarfar endurtekningar, sem ekki eru til áhersluauka, gera ræðuna hins vegar langdregna og leiðinlega.

12 Hafðu áheyrendur í huga þegar þú undirbýrð ræðuna. Það auðveldar þér að vissu marki að sjá fyrir hvað áheyrendur þínir gætu átt erfitt með að skilja. Búðu þig undir að endurtaka þess háttar efni á einn eða annan hátt svo að hægt sé að skoða það frá mismunandi hliðum.

13 Hvernig geturðu merkt að áheyrendur hafi ekki skilið það sem þú sagðir? Líttu á þá. Taktu eftir svipbrigðum þeirra eða spyrðu spurninga ef þú ert að tala við einn eða tvo.

14 En hafðu þetta hugfast: Þú nærð ekki alltaf markmiði þínu með því að endurtaka sömu orðin. Það þarf meira til að kenna. Hafi áheyrendur ekki skilið þig í fyrra sinnið er óvíst að þeir skilji þig nokkuð betur þótt þú segir sömu orðin aftur. Hvað er þá til ráða? Vertu sveigjanlegur. Þú gætir þurft að prjóna eitthvað undirbúningslaust við ræðuna. Hæfni þín sem kennari ræðst að miklu leyti af því að þú lærir að koma til móts við þarfir áheyrenda.

――――◆◆◆◆◆――――

15 Tilburðir eru einnig góður áhersluauki og renna oft stoðum undir hið talaða orð. Tilburðir bæta upp efnið og lífga það. Tæpast nokkur maður talar án einhverra tilburða. Ef þú sýnir enga tilburði á ræðupallinum vita áheyrendur að þú ert ekki afslappaður. Þegar þú sýnir eðlilega tilburði hugsa áheyrendurnir hins vegar ekki um þig heldur það sem þú segir. Tilburðir gera bæði þig og ræðuna líflega og örva tilfinningar þínar. Reyndu ekki að læra þá af bók. Þú þurftir ekki bók til að læra að brosa, hlæja eða hneykslast og þú þarft ekki heldur að líkja eftir tilburðum annars manns. Því eðlilegri og ósjálfráðari sem tilburðirnir eru, því betra. Og þá sameinast svipbrigði og tilburðir um að gæða hið talaða orð tilfinningu.

16 Tilburðum má skipta í tvo aðalflokka eftir eðli: Það eru lýsandi tilburðir og áherslutilburðir.

17 Lýsandi tilburðir. Þeir tjá verknað eða lýsa stærð og staðsetningu. Þeir eru auðlærðir. Ef þú átt erfitt með að sýna tilburði á ræðupallinum skaltu byrja á einföldum, lýsandi tilburðum.

18 Þegar þú vinnur að þessum eiginleika í Guðveldisskólanum skaltu ekki láta þér nægja að sýna tilburði aðeins einu sinni eða tvisvar. Reyndu að sýna tilburði sem oftast alla ræðuna. Vertu vakandi fyrir orðum sem lýsa stefnu, fjarlægð, stærð, svæði, hraða, staðsetningu, andstæðu, samlíkingu eða samanburði. Ef nauðsynlegt er skaltu merkja á einhvern hátt við þessi orð á minnisblöðunum til að minna þig á að sýna tilburði þar. Haltu áfram að æfa þetta þó að þú fáir „G“ í fyrsta skipti. Eftir nokkrar ræður þarftu ekki lengur að merkja við eða hugsa fyrirfram um hvar þú ætlir að sýna tilburði. Þeir koma ósjálfrátt og eðlilega.

19 Áherslutilburðir. Áherslutilburðir lýsa tilfinningu og sannfæringu. Þeir afmarka, lífga og skerpa hugmyndir. Áherslutilburðir eru því nauðsynlegir. En vertu varkár! Áherslutilburðir geta auðveldlega orðið að ávana. Forðastu því einhæfa tilburði.

20 Ef einhverjir tilburðir eru orðnir að ávana hjá þér skaltu um tíma einskorða þig við lýsandi tilburði. Þegar þú ert orðinn leikinn í þess háttar tilburðum fylgja áherslutilburðirnir eðlilega í kjölfarið. Þegar þú öðlast reynslu og verður frjálslegri á ræðupallinum munu áherslutilburðirnir lýsa tilfinningum þínum eðlilega og túlka sannfæringu þína og einlægni. Þeir auka þá vægi orða þinna.

[Spurningar]

1-3. Hvers vegna er endurtekning nauðsynleg kennslutækni?

4-6. Lýstu hvernig hægt er að endurtaka aðalatriði með stígandi ágripi og lokaágripi.

7-10. Hvernig er hægt að gera upprifjun í ágripsformi áhugaverða?

11-14. Hvað er mikilvægt að hafa í huga varðandi endurtekningu efnis sem ekki skildist?

15-18. Hvernig er hægt að temja sér lýsandi tilburði?

19, 20. Hvaða tilgangi þjóna áherslutilburðir?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila