Farandumsjónarmenn – samverkamenn í sannleikanum
Í kristna söfnuðinum á fyrstu öld voru farandumsjónarmenn sem heimsóttu söfnuðina til að byggja þá upp. Þeir gáfu af sjálfum sér, ekki til að ávinna eitthvað sjálfir heldur til að þeir gætu hjálpað þeim sem mynduðu söfnuðina að halda áfram að framganga eins og Guði er samboðið. — Postulasagan 11:23, 24; 14:21, 22; 15:32; 20:2, 31-35; Filippíbréfið 2:20-22, 29; 1. Þessaloníkubréf 2:5-12.
Nú á dögum njóta söfnuðir votta Jehóva einnig góðs af þjónustu farandumsjónarmanna. Þeir sem gegna slíku starfi eiga að baki áralanga reynslu í prédikunarstarfi votta Jehóva, svo og sem umsjónarmenn. Þeir hafa haldið sér lausum við veraldlega vinnu og fjölskylduábyrgð til að geta boðið sig fram til þjónustu í fullu starfi. Séu þeir kvæntir eru konur þeirra að jafnaði með þeim í fullri þjónustu.
Farandumsjónarmanni er falin umsjón með farandsvæði sem í eru um 18 til 25 söfnuðir. Hann heimsækir hvern söfnuð í farandsvæðinu um það bil tvisvar á ári, og að tveim til þrem árum liðnum er hann fluttur í annað farandsvæði. Með þeim hætti geta söfnuðirnir notið góðs af fjölbreyttri reynslu og hæfni mismunandi farandumsjónarmanna.
Farandumsjónarmaðurinn skoðar andlegt ástand safnaðarins og starf hans. Hann ávarpar söfnuðinn nokkrum sinnum og heldur auk þess fundi með öldungum og safnaðarþjónum til að ræða hvernig þeir geti bætt þjónustu sína við söfnuðinn.
Þá tæpu viku, sem heimsóknin stendur, fara bæði hann og kona hans, ef hann er kvæntur, með vottunum á staðnum út í þjónustuna og hjálpa þeim eftir föngum. Hann og kona hans heimsækja einnig þá sem nýlega hafa sýnt áhuga, til að hvetja þá í trúnni. Þú getur beðið um slíka heimsókn.
Umdæmishirðirinn hefur til að bera viðlíka andlega hæfileika og reynslu. Hann ferðast milli farandsvæða og veitir þeim þjónustu eina viku í senn í tengslum við svæðismótin. Hann og kona hans starfa líka í þjónustunni á akrinum með vottunum í einum safnaðanna í farandsvæðinu sem hann heimsækir. Hann hefur yfirumsjón með lokaundirbúningi dagskrár svæðismótsins og flytur nokkrar ræður á mótinu, þeirra á meðal opinbera fyrirlesturinn.
Þegar farandumsjónarmennirnir hafa lokið heimsókn sinni til ákveðins safnaðar eða farandsvæðis leggja þeir upp í næstu heimsókn, sem er með sama sniði, þar til þeir hafa heimsótt alla söfnuði eða farandsvæði á um það bil hálfu ári; þá hefja þeir hringferðina á nýjan leik.
Víða um heim ferðast farandumsjónarmennirnir með bifreið eða almennum flutningatækjum. Sums staðar ferðast þeir á reiðhjóli eða jafnvel fótgangandi. Varðturnsfélagið stendur straum af ferðakostnaði farandumsjónarmanna og lætur þeim þar að auki í té lítilsháttar fjárstyrk til eigin nota. Að jafnaði sjá söfnuðirnir farandumsjónarmanninum og konu hans fyrir fæði og húsnæði.
Þessi þjónusta kostar fórnfýsi. Farandumsjónarmennirnir og eiginkonur þeirra eru staðráðin í að veita söfnuðunum þjónustu sína án þess að leggja á þá þunga fjárhagsbyrði. — 1. Þessaloníkubréf 2:9.
● Hvaða tilgangi þjónuðu farandumsjónarmenn í kristna söfnuðinum á fyrstu öld?
● Hvernig verða farandumsjónarmenn hæfir fyrir þessa þjónustu og til reiðu fyrir hana?
● Lýstu þjónustu farand- og umdæmishirða og lífsháttum þeirra.
[Mynd á blaðsíðu 20]
Umdæmishirðir flytur ræðu á svæðismóti.
[Myndir á blaðsíðu 21]
Farandhirðar kenna og leiðbeina í prédikunarstarfi hús úr húsi, ræða við safnaðaröldunga, heimsækja nýja biblíunemendur og ávarpa söfnuðina.