Ofsóttir fyrir réttlætis sakir
Þú kannt að hafa heyrt að vottar Jehóva eigi sums staðar í útistöðum við yfirvöld, að starf þeirra sé bannað í sumum löndum eða að þeir séu til vandræða á ýmsa vegu. Hvers vegna er talað þannig um þá?
Það stafar ekki af því að vottarnir lítilsvirði landslög heldur vegna þess að þeir feta í fótspor Jesú. Jesús sagði lærisveinum sínum að menn myndu atyrða þá, ofsækja og ljúga öllu illu upp á þá. Það má rekja til þess að höfuðandstæðingur Guðs, Satan, er guð þessa heims og hann vill helst snúa öllum mönnum frá þjónustu við Guð. — Matteus 5:10-12; 10:16-22, 34-39; 24:9, 10; Jóhannes 15:17-16:3; 2. Tímóteusarbréf 3:12; 1. Pétursbréf 5:8; Opinberunarbókin 12:17.
Þegar postularnir voru handteknir og leiddir fyrir rétt var það ekki af því að þeir væru afbrotamenn, ofbeldismenn eða undirróðursmenn. Það var af því að þeir prédikuðu fagnaðarerindið. Þegar Páll postuli skaut máli sínu til æðri dómstóls var tilgangurinn sá að verja og staðfesta með lögum rétt kristinna manna til að prédika fagnaðarerindið. — Postulasagan 4:18-20; 5:28-32; Filippíbréfið 1:7.
Vottar Jehóva nútímans eru löghlýðnir kristnir menn sem greiða samviskusamlega skatta og sýna yfirvöldum virðingu. Þeir gjalda keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er. Ef árekstur verður með þeim og stjórnvöldum einhvers lands má það rekja til þess að stjórnvöld viðurkenna ekki rétt þeirra til að prédika eða hlutleysi þeirra gagnvart málefnum þjóðanna. Í þessu efni verða vottar Jehóva þó að taka sömu afstöðu og postularnir sem sögðu: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ — Postulasagan 5:29; Markús 12:17; Jóhannes 18:36; Títusarbréfið 3:1, 2.
Vottar Jehóva sækjast ekki eftir að láta ofsækja sig. Þeir vilja miklu fremur lifa rólegu og friðsömu lífi. En ef þeir eru ofsóttir fyrir að hlýða lögum Guðs og fylgja fordæmi Jesú Krists er þeim gleðiefni að þola slíkt. — Matteus 5:10-12; Postulasagan 5:40, 41; 1. Korintubréf 4:12; 1. Tímóteusarbréf 2:2; 1. Pétursbréf 3:14, 15; 4:12-16.
● Hvers vegna eru þjónar Jehóva atyrtir og ofsóttir?
● Hvers vegna verða stundum árekstrar með vottum Jehóva og yfirvöldum, eins og var hjá postulunum?
● Hvernig líta þjónar Jehóva á ofsóknir?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Jesús var leiddur fyrir Pílatus og Páll postuli hnepptur í fangelsi fyrir það að prédika Guðsríki.