Ættum við að trúa á hana?
TRÚIR þú á þrenninguna? Það gera flestir í kristna heiminum. Þegar allt kemur til alls hefur hún verið höfuðkenning kirkjufélaganna um aldaraðir.
Í ljósi þess mætti ætla að enginn vafi gæti leikið á sannleiksgildi hennar. Sú er eigi að síður raunin og upp á síðkastið hafa jafnvel sumir af stuðningsmönnum hennar farið að láta í ljós efasemdir.
Hvers vegna ætti spurningin hér að ofan að vekja áhuga þinn? Vegna þess að Jesús sjálfur sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ Öll framtíð okkar veltur á því að við kunnum deili á hinum sanna Guði, vitum hver hann er, og það útheimtir að við komumst til botns í deilunni um þrenninguna. Því er full ástæða fyrir þig að rannsaka málið. — Jóhannes 17:3.
Þrenningarhugmyndirnar eru af mörgu tagi. Algengasta þrenningarkenningin er þó sú að guðdómurinn sé þrjár persónur, faðir, sonur og heilagur andi, en samanlagt séu þær aðeins einn Guð. Samkvæmt kenningunni eru þær allar þrjár jafnar, alvaldar, óskapaðar og hafa verið til frá eilífð sem hluti guðdómsins.
Aðrir halda því hins vegar fram að þrenningarkenningin sé ósönn, að alvaldur Guð standi einn sem einstakur, eilífur og alvaldur guðdómur. Þeir segja að Jesús hafi, áður en hann kom til jarðar sem maður, verið sérstök sköpunarvera Guðs, líkt og englarnir, og hljóti því að eiga sér eitthvert upphaf. Þeir kenna að Jesús hafi aldrei verið jafningi hins alvalda Guðs í nokkru tilliti, hafi alltaf verið undirgefinn Guði og sé það enn. Enn fremur álíta þeir að heilagur andi sé ekki persóna heldur starfskraftur Guðs.
Málsvarar þrenningarkenningarinnar segja að hún byggist bæði á trúarlegri erfikenningu og Biblíunni. Gagnrýnendur kenningarinnar segja að hún sé alls ekki biblíukenning. Bókin The Paganism in Our Christianity segir jafnvel að þrenningarkenningin sé „alheiðin að uppruna.“
Ef þrenningarkenningin er sönn er það niðurlægjandi fyrir Jesú að segja að hann hafi aldrei verið jafningi Guðs og hluti guðdómsins. Ef þrenningarkenningin er ósönn er það niðurlægjandi fyrir alvaldan Guð að kalla nokkurn jafningja hans, og enn verra að kalla Maríu „móður Guðs.“ Ef þrenningarkenningin er ósönn er það óvirðing við Guð að segja eins og gert er í bókinni Kirkjan játar, játningarrit íslensku þjóðkirkjunnar: „Sá sem ekki varðveitir [þessa trú] hreina og ómengaða mun án efa glatast að eilífu. En þetta er almenn trú, að vér heiðrum einn Guð í þrenningu.“
Það er því ærin ástæða fyrir þig að vilja komast til botns í sannleikanum um þrenninguna. En áður en farið er nánar ofan í saumana á uppruna hennar og reynt að dæma um það hvort hún sé sönn eða ekki, þá er rétt að skilgreina hana nánar. Hvernig er þrenningarkenningin í smáatriðum? Hvernig skýra stuðningsmenn hennar hana?
[Myndir á blaðsíðu 2]
Til vinstri: Egypsk höggmynd frá annarri árþúsund fyrir okkar tímatal. Þrenninguna mynda Amon-Ra, Ramses II og Nút. Til hægri: Þrenningarlíkneski frá fjórtándu öld af Jesú Kristi, föðurnum og heilögum anda. Persónurnar eru þrjár en fæturnir aðeins fjórir.