Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • fy kafli 8 bls. 90-102
  • Verndið börnin gegn skaðlegum áhrifum

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Verndið börnin gegn skaðlegum áhrifum
  • Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • HVER KENNIR BÖRNUNUM ÞÍNUM?
  • AFSTAÐA GUÐS TIL KYNFERÐISMÁLA
  • HEIMAVERKEFNI FORELDRA
  • VINIR BARNANNA
  • HVERS KONAR AFÞREYING?
  • FJÖLSKYLDA ÞÍN GETUR SIGRAÐ HEIMINN
  • Getur Biblían komið að gagni við barnauppeldi?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2004
  • Hvernig getur fjölskyldan þín notið hamingju? – 2. hluti
    Von um bjarta framtíð – biblíunámskeið
  • Foreldrar, hjálpið börnunum ykkar að elska Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2022
  • Að byggja upp andlega sterka fjölskyldu
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2001
Sjá meira
Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
fy kafli 8 bls. 90-102

8. KAFLI

Verndið börnin gegn skaðlegum áhrifum

1-3. (a) Hvaðan koma skaðleg áhrif sem ógna fjölskyldunni? (b) Hvaða meðalveg þurfa foreldrar að finna til að vernda börnin?

LITLI drengurinn þinn er að fara í skólann og það er úrhellisrigning. Hvað gerirðu? Leyfirðu honum að hlaupa út um dyrnar án þess að fara í regngalla? Eða klæðirðu hann í svo mikinn hlífðarfatnað að hann getur varla hreyft sig ? Auðvitað gerirðu hvorugt. Þú klæðir hann alveg mátulega til að hann blotni ekki.

2 Foreldrar verða líka að finna öfgalausa leið til að vernda börnin gegn skaðlegum áhrifum sem hellast yfir þau úr öllum áttum — til dæmis frá skemmtanaiðnaðinum, fjölmiðlum, jafnöldrum og stundum jafnvel skólum. Sumir foreldrar gera lítið sem ekkert til að vernda börnin. Aðrir líta svo á að öll utanaðkomandi áhrif séu skaðleg og ofvernda börnin svo að þeim finnst þau vera að kafna. Er hægt að finna einhvern meðalveg?

3 Já, það er hægt. Öfgar skila ekki árangri og geta boðið hættunni heim. (Prédikarinn 7:16, 17) En hvernig geta kristnir foreldrar fundið rétta meðalveginn til að vernda börnin? Lítum á þrjú svið: menntun, félagsskap og afþreyingu.

HVER KENNIR BÖRNUNUM ÞÍNUM?

4. Hvernig ættu kristnir foreldrar að líta á menntun?

4 Kristnir foreldrar meta menntun mikils. Þeir vita að í skólanum læra börnin að lesa, skrifa og reikna og einnig að tjá sig. Þar ættu þau líka að læra góðar námsvenjur. Það sem börnin læra í skólanum getur hjálpað þeim að spjara sig þrátt fyrir erfiðleikana í heimi nútímans. Góð menntun getur líka gert barnið að góðum starfskrafti þegar fram í sækir. — Orðskviðirnir 22:29.

5, 6. Hvernig gætu börn fengið brenglaðar upplýsingar um kynferðismál í skólanum?

5 En í skólanum hitta börnin líka önnur börn og mörg þeirra hafa brenglaðar hugmyndir. Tökum sem dæmi viðhorf þeirra til kynferðismála og siðferðis. Lauslát stúlka í unglingaskóla í Nígeríu gaf skólafélögum sínum oft leiðbeiningar um kynlíf. Þeir hlustuðu ákafir á hana þótt hugmyndir hennar væru tóm della sem hún sótti í klámrit. Sumar stúlkurnar fylgdu ráðum hennar. Afleiðingin varð sú að ein stúlkan varð barnshafandi og dó eftir að hafa reynt sjálf að eyða fóstrinu.

6 Rangar upplýsingar um kynferðismál koma því miður ekki eingöngu frá börnum í skólanum heldur líka frá kennurum. Mörgum foreldrum bregður illilega í brún þegar þeir uppgötva að skólarnir fræða börnin um kynferðismál án þess að kenna þeim neitt um rétt siðferði eða ábyrgð. Móðir 12 ára stúlku sagði: „Við búum á mjög trúuðu og íhaldssömu svæði en samt sem áður er smokkum dreift til krakkanna í unglingaskólanum hér í hverfinu.“ Þau hjónin urðu áhyggjufull þegar þau komust að því að dóttir þeirra fékk ósiðleg tilboð frá drengjum á hennar aldri. Hvernig geta foreldrar verndað börnin gegn skaðlegum áhrifum sem þessum?

7. Hver er besta leiðin til að vinna gegn röngum upplýsingum um kynferðismál?

7 Er best að vernda börnin með því að tala aldrei um kynferðismál? Nei, það er betra að foreldrarnir fræði börnin sjálfir um kynlíf. (Orðskviðirnir 5:1) Foreldrar sums staðar í Evrópu og Norður-Ameríku veigra sér að vísu við að ræða þessi mál. Eins er það í sumum Afríkulöndum að foreldrar ræða sjaldan um kynferðismál við börnin. „Það er ekki hefð fyrir því í Afríku,“ segir faðir í Síerra Leóne. Sumir foreldrar telja að ef þeir fræði börnin um kynlíf gefi það þeim hugmyndir sem ýti þeim út í siðleysi. En hvernig lítur Guð á málin?

AFSTAÐA GUÐS TIL KYNFERÐISMÁLA

8, 9. Hvaða góðu upplýsingar um kynferðismál eru í Biblíunni?

8 Biblían sýnir að það er ekki skammarlegt að ræða um kynferðismál við rétt tækifæri. Þegar fólki Guðs í Ísrael var sagt að koma saman til að hlusta á upplestur Móselaganna áttu börnin að koma með. (5. Mósebók 31:10-12; Jósúabók 8:35) Lögin fjölluðu opinskátt um ýmis kynferðismál eins og tíðarblæðingar, sáðlát, saurlifnað, hórdóm, samkynhneigð, sifjaspell og samræði við dýr. (3. Mósebók 15:16, 19; 18:6, 22, 23; 5. Mósebók 22:22) Eftir slíkan upplestur þurftu foreldrar vafalaust að skýra margt fyrir spurulum börnunum.

9 Í fimmta, sjötta og sjöunda kafla Orðskviðanna er að finna hlýlegar, föðurlegar ábendingar um hættur siðleysis. Þar er bent á að siðleysi geti stundum verið freistandi. (Orðskviðirnir 5:3; 6:24, 25; 7:14-21) En þar kemur líka fram að siðleysi sé rangt og geti haft hræðilegar afleiðingar, og ungu fólki er bent á hvernig hægt sé að forðast það. (Orðskviðirnir 5:1-14, 21-23; 6:27-35; 7:22-27) Auk þess er bent á andstæður milli siðleysis og þeirrar ánægju sem fylgir kynlífi þar sem það á heima, það er að segja innan hjónabands. (Orðskviðirnir 5:15-20) Þessi kennsla er góð fyrirmynd sem foreldrar geta fylgt.

10. Af hverju ætti viðeigandi kynfræðsla ekki að leiða börn út í siðleysi?

10 Leiðir slík kennsla börn út í siðleysi? Alls ekki. „Hinir réttlátu frelsast fyrir þekkingu,“ segir í Biblíunni. (Orðskviðirnir 11:9) Viltu ekki vernda börnin gegn áhrifum þessa heims? Faðir nokkur sagði: „Við höfum reynt að tala opinskátt um kynferðismál frá því að börnin voru mjög ung. Þá verða þau ekki forvitin þegar þau heyra önnur börn tala um kynlíf. Það er ekkert leyndardómsfullt við það.“

11. Hvernig er smám saman hægt að fræða börnin um kynferðismál?

11 Eins og fram hefur komið fyrr í bókinni ætti kynfræðslan að byrja snemma. Þegar þú kennir ungum börnum hvað líkamshlutarnir heita skaltu ekki sleppa kynfærunum eins og þau séu eitthvað sem á að skammast sín fyrir. Kenndu þeim réttu heitin. Með tímanum er líka nauðsynlegt að kenna þeim hvað sé viðeigandi og hvaða takmörk þurfi að virða. Helst ættu báðir foreldrar að kenna börnunum að þessir líkamshlutar séu sérstakir og að yfirleitt eigi ekki að sýna þá eða leyfa öðrum að snerta þá, og að aldrei eigi að tala um þá á ósæmilegan hátt. Þegar börnin eldast ætti að útskýra fyrir þeim hvernig barn verður til. Og þegar börnin nálgast kynþroskaskeiðið ættu þau þegar að vita hvaða breytingum þau eigi að búast við. Eins og rætt var um í 5. kafla getur kynfræðsla líka verndað börnin gegn kynferðisofbeldi. — Orðskviðirnir 2:10-14.

HEIMAVERKEFNI FORELDRA

12. Hvaða rangar hugmyndir eru oft kenndar í skólum?

12 Foreldrar verða að vera tilbúnir til að vinna gegn öðrum veraldlegum hugmyndum sem kenndar eru í skólum eins og til dæmis þróunarkenningunni, þjóðernishyggju eða hugmyndinni um að sannleikurinn sé afstæður. (1. Korintubréf 3:19; samanber 1. Mósebók 1:27; 3. Mósebók 26:1; Jóhannes 4:24; 17:17.) Margir einlægir kennarar og námsráðgjafar leggja ofuráherslu á framhaldsmenntun. Þótt það sé persónuleg ákvörðun hvers og eins hvort hann afli sér viðbótarmenntunar halda sumir kennarar því fram að það sé eina leiðin til að komast áfram í lífinu.a — Sálmur 146:3-6.

13. Hvernig er hægt að vernda skólabörn gegn röngum hugmyndum?

13 Til að foreldrar geti unnið gegn röngum eða afbökuðum hugmyndum verða þeir að vita nákvæmlega hvað er verið að kenna börnunum. Foreldrar, munið að þið þurfið líka að gera heimavinnuna ykkar. Sýnið einlægan áhuga á skólanámi barnanna. Talið við þau þegar þau koma heim úr skólanum. Spyrjið hvað þau voru að læra, hvað þeim fannst skemmtilegast og hvað erfiðast. Skoðið heimaverkefni þeirra, glósur og einkunnir. Reynið að kynnast kennurum þeirra. Látið kennarana vita að þið kunnið að meta starf þeirra og viljið gera allt sem þið getið til að vera til aðstoðar.

VINIR BARNANNA

14. Af hverju er mikilvægt að kristin börn velji sér góða vini?

14 „Hvar í ósköpunum lærðirðu þetta?“ Hversu margir foreldrar hafa ekki spurt þessarar spurningar skelfingu lostnir þegar barnið þeirra sagði eða gerði eitthvað sem virtist svo gersamlega ólíkt því? Og hversu oft tengist ekki svarið nýjum vini í skólanum eða hverfinu? Já, félagar hafa mikil áhrif á okkur hvort sem við erum börn eða fullorðin. „Villist ekki. Vondur félagsskapur spillir góðum siðum,“ sagði Páll postuli. (1. Korintubréf 15:33; Orðskviðirnir 13:20) Unglingar eru sérstaklega viðkvæmir fyrir hópþrýstingi. Þeir eru oft óöruggir með sjálfa sig og hafa stundum mjög sterka löngun til að þóknast félögunum eða vekja hrifningu þeirra. Það er því nauðsynlegt að þeir velji sér góða vini.

15. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnunum að velja sér vini?

15 Eins og allir foreldrar vita velja börnin ekki alltaf skynsamlega. Þau þurfa leiðsögn. Það þýðir ekki að þú eigir að velja vini fyrir þau. Þegar þau stækka ættirðu að kenna þeim að sýna dómgreind og koma auga á eiginleika sem þau ættu að meta í fari vina. Helsti eiginleikinn er kærleikur til Jehóva og löngun til að gera það sem er rétt í augum hans. (Markús 12:28-30) Kenndu þeim að elska og virða þá sem eru heiðarlegir, vingjarnlegir, örlátir og duglegir. Í biblíunámi fjölskyldunnar geturðu hjálpað börnunum að koma auga á þessa eiginleika í fari biblíupersóna og finna sömu eiginleika í fari annarra í söfnuðinum. Gefðu gott fordæmi með því að nota sömu viðmið þegar þú velur þér vini.

16. Hvernig geta foreldrar fylgst með því hvers konar vini börnin velja sér?

16 Veistu hverjir eru vinir barna þinna? Væri ekki tilvalið að segja börnunum að bjóða vinum sínum heim svo að þú getir kynnst þeim? Þú gætir líka spurt þau hvað öðrum krökkum finnist um þessa vini. Eru þeir þekktir fyrir heilindi eða fyrir að lifa tvöföldu lífi? Ef hið síðara er rétt skaltu hjálpa börnunum að skilja hvers vegna slíkur félagsskapur getur verið skaðlegur. (Sálmur 26:4, 5, 9-12) Ef þú tekur eftir óæskilegum breytingum í hegðun, klæðaburði, framkomu eða tali barnsins gætirðu þurft að ræða við það um vini þess. Barnið er kannski mikið með vinum sem hafa slæm áhrif. — Samanber 1. Mósebók 34:1, 2.

17, 18. Hvað geta foreldrar gert auk þess að vara börnin við slæmum félögum?

17 En það er ekki nóg að kenna börnunum að forðast slæman félagsskap. Hjálpaðu þeim líka að eignast góða vini. Faðir nokkur sagði: „Við reyndum alltaf að gera eitthvað annað í staðinn. Þegar sonur okkar var hvattur til að vera í fótboltaliði skólans settumst við hjónin niður með honum og bentum honum á að það væri ekki góð hugmynd út af félagsskapnum. En síðan stungum við upp á að safna saman krökkum úr söfnuðinum og fara með þau í boltaleiki í almenningsgarðinum. Það var mjög skemmtilegt.“

18 Vitrir foreldrar hjálpa börnunum að eignast góða vini og njóta heilnæmrar afþreyingar. En það er engan veginn auðvelt mál að sjá fjölskyldunni fyrir viðeigandi afþreyingu.

HVERS KONAR AFÞREYING?

19. Hvaða dæmi í Biblíunni sýna að það er ekki rangt að gera eitthvað sér til skemmtunar?

19 Hefur Biblían eitthvað á móti því að við skemmtum okkur? Alls ekki. Hún segir: „Að hlæja hefir sinn tíma . . . og að dansa hefir sinn tíma.“b (Prédikarinn 3:4) Fólk Guðs í Ísrael til forna hafði gaman af tónlist, dansi, leikjum og gátum. Jesús Kristur sótti fjölmenna brúðkaupsveislu og „veislu mikla“ sem Matteus Leví hélt fyrir hann. (Lúkas 5:29; Jóhannes 2:1, 2) Hann var greinilega enginn gleðispillir. Þið fjölskyldan skulið aldrei líta svo á að hlátur og skemmtun séu synd.

20. Hvað ættu foreldrar að hafa hugfast varðandi afþreyingu?

20 Jehóva er ‚hinn sæli Guð‘. (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1912) Tilbeiðslan á honum ætti því ekki að ræna fólk lífsgleði heldur vera gleðigjafi. (Samanber 5. Mósebók 16:15) Börn eru í eðli sínu gáskafull og fá útrás fyrir orku sína í leik og afþreyingu. Vel valin afþreying er ekki bara skemmtileg. Hún er líka fræðandi og þroskandi. Höfuð fjölskyldunnar ber ábyrgð á að sinna öllum þörfum fjölskyldunnar, þar á meðal þörfinni fyrir afþreyingu. En nauðsynlegt er að gæta jafnvægis.

21. Hvað þarf að varast í sambandi við afþreyingu?

21 Á þessum erfiðu „síðustu dögum“ elska margir „munaðarlífið meira en Guð“ eins og spáð var í Biblíunni. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Afþreying er aðalatriðið í lífi margra. Svo mikið framboð er á skemmtiefni að það getur auðveldlega skyggt á það sem meira máli skiptir í lífinu. Auk þess snýst afþreying nútímans oft um siðleysi, ofbeldi, fíkniefnaneyslu og annað sem er skaðlegt. (Orðskviðirnir 3:31) Hvernig er hægt að vernda börn gegn skaðlegu skemmtiefni?

22. Hvernig geta foreldrar kennt börnunum að taka viturlegar ákvarðanir í sambandi við afþreyingu?

22 Foreldrar verða að setja vissar hömlur. Auk þess þurfa þeir að kenna börnunum að meta hvaða afþreying sé skaðleg og hve mikið sé of mikið. Þetta getur tekið tíma og fyrirhöfn. Tökum dæmi. Faðir tveggja drengja tók eftir því að eldri sonurinn hlustaði frekar oft á nýja útvarpsstöð. Dag einn ákvað hann því að stilla á þessa sömu útvarpsstöð í bílnum sínum á leiðinni í vinnuna. Hann stoppaði nokkrum sinnum og hripaði niður texta við viss lög. Seinna settist hann niður með drengjunum og ræddi við þá um það sem hann hafði heyrt. Hann spurði þá viðhorfsspurninga sem byrjuðu á orðum eins og „Hvað finnst ykkur?“ og hlustaði þolinmóður á svör þeirra. Eftir að hafa rökrætt við þá og vitnað í Biblíuna samþykktu drengirnir að hlusta ekki á þessa útvarpsstöð framar.

23. Hvernig geta foreldrar verndað börnin gegn óheilnæmri afþreyingu?

23 Skynsamir kristnir foreldrar kynna sér hvaða kvikmyndum, tónlist, sjónvarpsefni, mynddiskum, teiknimyndasögum og tölvuleikjum börnin hafa áhuga á. Þeir skoða kápumyndina, textana og umbúðirnar, lesa gagnrýni í dagblöðum og horfa a sýnishorn úr myndum. Margir eru hneykslaðir á sumri „afþreyingu“ sem er ætluð börnum nú á dögum. Þeir sem vilja vernda börnin gegn skaðlegum áhrifum setjast niður með fjölskyldunni og ræða um hætturnar og nota til þess Biblíuna og biblíutengd rit eins og bókina Spurningar unga fólksins — svör sem duga og greinar í tímaritunum Varðturninn og Vaknið!.c Ef foreldrar setja skýr mörk, eru sanngjarnir og sjálfum sér samkvæmir er árangurinn yfirleitt góður. — Matteus 5:37; Títusarbréfið 3:2.

24, 25. Hvaða heilnæmu afþreyingar getur fjölskyldan notið saman?

24 En það er ekki nóg að banna skaðlega afþreyingu. Eitthvað gott þarf að koma í staðinn. Annars geta börnin leiðst út á ranga braut. Margar kristnar fjölskyldur fara saman í lautarferðir, gönguferðir, útilegur, leiki, íþróttir, vina- eða ættingjaheimsóknir eða ferðalög og eiga fjölda góðra minninga um slíkar stundir. Sumum fjölskyldum finnst ánægjulegt að lesa upphátt saman. Aðrar hafa gaman af því að segja fyndnar eða áhugaverðar sögur. Og sumar fjölskyldur hafa sameiginleg áhugamál eins og tréskurð eða aðra handavinnu, hljóðfæraleik, listmálun eða að kynna sér sköpunarverk Guðs. Börn, sem læra að hafa gaman af slíkri dægrastyttingu, fá vernd gegn óhreinni afþreyingu og læra að afþreying snýst ekki bara um það að sitja kyrr og láta skemmta sér. Oft er mun skemmtilegra að taka þátt í einhverju heldur en að vera bara áhorfandi.

25 Veislur og heimboð geta líka verið ánægjuleg og gefandi fyrir börnin. Ef gott eftirlit er með slíkum skemmtunum og þær ekki hafðar of fjölmennar eða tímafrekar eru þær ekki aðeins til afþreyingar fyrir börnin heldur styrkja þær einnig kærleiksböndin innan safnaðarins. — Samanber Lúkas 14:13, 14; Júdasarbréfið 12.

FJÖLSKYLDA ÞÍN GETUR SIGRAÐ HEIMINN

26. Hvað getur hjálpað foreldrum öðru fremur að vernda börnin gegn skaðlegum áhrifum?

26 Það krefst vissulega mikillar vinnu að vernda fjölskylduna gegn skaðlegum áhrifum heimsins. En eitt getur öðru fremur hjálpað foreldrum að ná árangri. Það er kærleikur. Náin og ástrík fjölskyldubönd gera heimilið að öruggu athvarfi og stuðla að góðum tjáskiptum sem eru mikilvæg vernd gegn slæmum áhrifum. Auk þess er enn mikilvægara að rækta með sér annars konar kærleika — kærleika til Jehóva. Þegar allir í fjölskyldunni elska Jehóva eru meiri líkur á því að börnunum finnist óhugsandi að vanþóknast honum með því að láta undan áhrifum heimsins. Foreldrar, sem elska Jehóva, leitast líka við að líkja eftir fordæmi hans og vera kærleiksríkir, sanngjarnir og öfgalausir. (Efesusbréfið 5:1; Jakobsbréfið 3:17) Ef foreldrarnir gera það hafa börnin enga ástæðu til að líta á tilbeiðsluna á Jehóva sem tóm boð og bönn eða gleðisnauða lífsstefnu sem þau vilja helst flýja um leið og færi gefst. Þau sjá þá að tilbeiðslan á Guði er farsælasta og innihaldsríkasta lífsstefna sem völ er á.

27. Hvernig geta fjölskyldur sigrað heiminn?

27 Fjölskyldur gleðja hjarta Jehóva ef þær eru sameinaðar í að þjóna honum og leggja sig af öllu hjarta fram um að vera ‚flekklausar og lýtalausar‘ og spillast ekki af skaðlegum áhrifum þessa heims. (2. Pétursbréf 3:14; Orðskviðirnir 27:11) Slíkar fjölskyldur feta í fótspor Jesú Krists sem stóðst allar tilraunir sem heimur Satans gerði til að spilla honum. Undir lok þjónustu sinnar hér á jörð gat Jesús sagt: „Ég hef sigrað heiminn.“ (Jóhannes 16:33) Fjölskylda þín getur líka sigrað heiminn og hlotið eilíft líf.

a Finna má ítarlegri umfjöllun um framhaldsmenntun í bæklingnum Vottar Jehóva og menntun, bls. 4-7, gefinn út af Vottum Jehóva.

b Hebreska orðið, sem hér er þýtt „hlæja“, getur í öðrum myndum þýtt að „leika sér“, „bjóða upp á skemmtun“, „fagna“ eða jafnvel „skemmta sér“.

c Gefin út af Vottum Jehóva.

HVERNIG GETA ÞESSAR MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR HJÁLPAÐ ÞÉR AÐ VERNDA FJÖLSKYLDUNA?

Þekking veitir visku sem getur haldið lífinu í okkur. — Prédikarinn 7:12.

„Speki þessa heims er heimska hjá Guði.“ — 1. Korintubréf 3:19.

Nauðsynlegt er að forðast slæman félagsskap. — 1. Korintubréf 15:33.

Þótt afþreying eigi rétt á sér á hún ekki að vera hóflaus. — Prédikarinn 3:4.

HONUM FANNST HANN EKKI FARA Á MIS VIÐ NEITT

Paul og Lu-Ann eru kristnir foreldrar sem halda stundum boð á heimili sínu. Þau gæta þess að boðin séu ekki of fjölmenn og hafa góða umsjón með öllu. Þau hafa ástæðu til að ætla að börnunum finnist þetta skemmtilegt.

Lu-Ann segir: „Móðir eins bekkjarbróður Erics sonar míns, sem er sex ára, kom að máli við mig og sagðist vorkenna Eric því að hann tæki ekki þátt í afmælisveislunum í bekknum. Ég sagði við hana: ‚Ég kann að meta að þér er umhugað um son minn. Það segir heilmikið um þig sem persónu. Og sennilega get ég ekki sagt neitt til að sannfæra þig um að Eric finnist hann ekki fara á mis við neitt.‘ Hún samsinnti því. Þess vegna sagði ég: ‚Talaðu endilega við Eric og spyrðu hann sjálfan svo að þú þurfir ekki að hafa áhyggjur.‘ Þegar ég var ekki nærri spurði hún Eric: ‚Finnst þér ekki leiðinlegt að missa af þessum skemmtilegu afmælisveislum?‘ Hann horfði á hana hissa og sagði: ‚Heldurðu að tíu mínútur, nokkrar smákökur og söngur séu veisla? Þú ættir að koma heim til mín og sjá alvöruveislu!‘“ Einlægur ákafi drengsins gaf skýr skilaboð — honum fannst hann ekki fara á mis við neitt.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila