Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • fy kafli 14 bls. 163-172
  • Þegar aldurinn færist yfir

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Þegar aldurinn færist yfir
  • Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • ÞEGAR BÖRNIN FLYTJAST AÐ HEIMAN
  • STYRKIÐ STOÐIR HJÓNABANDSINS
  • HAFIÐ YNDI AF BARNABÖRNUNUM
  • AÐLAGIÐ YKKUR EFRI ÁRUNUM
  • ÞEGAR MAKINN FELLUR FRÁ
  • GUÐ METUR ALDRAÐA MIKILS
  • Tryggðu fjölskyldunni varanlega framtíð
    Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
  • Aldraðir meðal sannkristinna manna
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
  • Jehóva er annt um aldraða þjóna sína
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2008
  • Heiðrum aldraða á meðal okkar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2014
Sjá meira
Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn?
fy kafli 14 bls. 163-172

14. KAFLI

Þegar aldurinn færist yfir

1, 2. (a) Hvaða breytingar verða með aldrinum? (b) Hvernig héldu þjónar Guðs á biblíutímanum gleði sinni í ellinni?

MARGT breytist þegar við eldumst. Líkamsþrótturinn dvínar. Við lítum í spegilinn, finnum nýjar hrukkur og sjáum að hárið er byrjað að grána — eða þynnast. Við verðum ef til vill gleymin. Fjölskyldan stækkar þegar börnin giftast og aftur þegar barnabörnin fæðast. Og þegar við förum á eftirlaun verða kaflaskipti í lífinu og við þurfum að semja okkur að nýjum venjum.

2 Sannleikurinn er sá að það er hvergi nærri auðvelt að eldast. (Prédikarinn 12:1-8) En hugsum til þjóna Guðs á biblíutímanum. Um síðir urðu þeir dauðanum að bráð en þeir náðu samt að afla sér visku og skilnings sem veitti þeim lífsfyllingu á efri æviárum. (1. Mósebók 25:8; 35:29; Jobsbók 12:12; 42:17) Hvernig tókst þeim að halda gleði sinni í ellinni? Það var auðvitað með því að lifa eftir þeim meginreglum sem er að finna í Biblíunni. — Sálmur 119:105; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.

3. Hvað ráðlagði Páll öldruðum körlum og konum?

3 Í Títusarbréfinu gaf Páll postuli öldruðum góð ráð. Hann skrifaði: „Aldraðir menn skulu vera bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu. Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar og ekki heldur í ánauð ofdrykkjunnar, heldur kenni þær gott frá sér.“ (Títusarbréfið 2:2, 3) Þessar leiðbeiningar geta hjálpað þér að takast á við þær breytingar sem fylgja því að eldast.

ÞEGAR BÖRNIN FLYTJAST AÐ HEIMAN

4, 5. Hvernig bregðast foreldrar oft við þegar börnin flytjast að heiman og hvernig tekst mörgum að laga sig að breyttum aðstæðum?

4 Þegar hlutverk okkar breytist þurfum við að laga okkur að því. Það reynir vissulega á það þegar uppkomin börn flytjast að heiman og gifta sig. Fyrir marga foreldra er þetta fyrsta merkið um að þeir séu farnir að reskjast. Þótt þeir séu auðvitað ánægðir að börnin skuli vera orðin fulltíða er eðlilegt að þeir geri sér stundum áhyggjur af því hvort þeir hafi gert sitt besta til að búa þau undir að standa á eigin fótum. Og þeir sakna þess að hafa börnin ekki lengur á heimilinu.

5 Foreldrar láta sér eðlilega annt um velferð barnanna þó að þau séu flutt að heiman. „Ég væri ánægð ef þau hefðu oftar samband svo að ég gæti fullvissað mig um að þeim gangi allt í haginn,“ segir móðir nokkur. Faðir segir: „Okkur fannst mjög erfitt þegar dóttir okkar fluttist að heiman. Það skildi eftir stórt tómarúm í fjölskyldunni af því að við vorum vön að gera allt í sameiningu.“ Hvernig geta foreldrar tekist á við þessar breyttu aðstæður? Margir leggja áherslu á að gefa af tíma sínum og kröftum til að hjálpa öðru fólki.

6. Hvað hjálpar foreldrum að sjá hlutverk sitt í réttu ljósi?

6 Hlutverk foreldranna breytist þegar börnin giftast. Í 1. Mósebók 2:24 segir: „Þess vegna yfirgefur maður föður sinn og móður sína og býr við eiginkonu sína, svo að þau verði eitt hold.“ Foreldrar þurfa að virða meginreglur Guðs um forystu og nauðsyn góðrar reglu. Það hjálpar þeim að sjá hlutverk sitt í réttu ljósi. — 1. Korintubréf 11:3; 14:33, 40.

7. Hvaða afstöðu tók faðir nokkur þegar dætur hans giftust og fluttust að heiman?

7 Það myndaðist tómarúm í lífi hjóna nokkurra eftir að dætur þeirra tvær giftust og fluttust að heiman. Í fyrstu fann faðirinn tengdasonunum allt til foráttu. En eftir að hafa íhugað meginregluna um forystu áttaði hann sig á því að tengdasynirnir höfðu nú tekið við ábyrgðinni á dætrum hans. Þegar dæturnar leituðu ráða hjá honum gætti hann þess að spyrja þær hvað eiginmönnum þeirra fyndist og síðan lagði hann sig fram um að styðja ungu hjónin sem best hann gat. Tengdasynirnir líta nú á hann sem vin og kunna vel að meta góð ráð hans.

8, 9. Hvernig hafa sumir foreldrar lagað sig að því að börnin eru flutt að heiman?

8 Nú getur svo farið að ungu hjónin geri ekki alltaf það sem foreldrarnir telja þeim fyrir bestu, þótt þau séu ekki að gera neitt óbiblíulegt. Hvað er þá til ráða? „Við bendum þeim alltaf á viðhorf Jehóva,“ segja hjón sem eiga gift börn, „en þó að við séum ekki sammála ákvörðun þeirra, virðum við hana, styðjum þau og hvetjum.“

9 Í sumum Asíulöndum eiga mæður stundum erfitt með að sætta sig við að synirnir séu orðnir sjálfs sín herrar. En ef þær virða kristið skipulag og meginregluna um forystu dregur það stórlega úr árekstrum við tengdadæturnar. Ein kristin móðir er afar þakklát fyrir að synir hennar, sem eru fluttir að heiman, skuli spjara sig vel. Hún fagnar því að sjá þá veita heimilum sínum góða forstöðu. Og þar sem þau hjónin eru farin að reskjast þykir þeim gott að álagið hafi minnkað, bæði líkamlega og andlega.

STYRKIÐ STOÐIR HJÓNABANDSINS

10, 11. Hvaða biblíuráð hjálpa fólki að forðast sumar af þeim tálgryfjum sem verða á vegi þess á miðjum aldri?

10 Fólk bregst misjafnlega við því að komast á miðjan aldur. Karlmenn breyta stundum klæðaburði sínum til að reyna að sýnast unglegri. Og konur hafa oft áhyggjur af þeim breytingum sem fylgja tíðahvörfunum. Því miður gerist það stundum að fólk á miðjum aldri skapraunar maka sínum og vekur afbrýði hans með því að daðra við yngra fólk af hinu kyninu. En guðræknir karlmenn ‚hegða sér skynsamlega‘ og hafa taumhald á óviðeigandi tilhneigingum. (1. Pétursbréf 4:7, Biblían 1859) Þroskaðar kristnar konur, sem elska menn sína og þrá að þóknast Jehóva, leggja sig sömuleiðis fram um að styrkja stoðir hjónabandsins.

11 Lemúel konungi var innblásið að hrósa ‚vænni konu‘ sem gerir manni sínum „gott og ekkert illt alla ævidaga sína“. Kristinn eiginmaður metur það við konu sína hvernig hún tekst á við það tilfinningarót sem hún á við að glíma um miðjan aldur. Hann elskar hana og „hrósar henni“. — Orðskviðirnir 31:10, 12, 28.

12. Hvernig geta hjón styrkt böndin milli sín þegar árin líða?

12 Á þeim árum, sem þið voruð önnum kafin við barnauppeldið, voruð þið bæði meira en fús til að taka þarfir barnanna fram yfir ykkar eigin. Eftir að þau hafa hleypt heimdraganum er kominn tími til að einbeita ykkur aftur hvort að öðru. „Þegar dæturnar fluttust að heiman hófst tilhugalífið upp á nýtt hjá okkur hjónunum,“ segir eiginmaður. Annar eiginmaður segir: „Við látum okkur annt um heilsu hvort annars og minnum hvort annað á að fá næga hreyfingu.“ Til að verða ekki einmana eru þau gestrisin við aðra í söfnuðinum. Já, það er til blessunar að láta sér annt um aðra og það er Jehóva þóknanlegt. — Filippíbréfið 2:4; Hebreabréfið 13:2, 16.

13. Hve mikilvægt er að hjón séu opinská og hreinskilin hvort við annað þegar aldurinn færist yfir?

13 Gætið þess að fjarlægjast ekki hvort annað. Talið opinskátt saman. „Með því að vera umhyggjusöm og tillitssöm lærum við að skilja hvort annað betur,“ segir eiginmaður. Konan hans tekur undir það og segir: „Núna njótum við þess að fá okkur tebolla saman, spjalla saman og vinna saman.“ Með því að vera opinská og hreinskilin getið þið treyst hjónabandið þannig að það standist allar tilraunir Satans til að spilla því.

HAFIÐ YNDI AF BARNABÖRNUNUM

14. Hvaða þátt átti amma Tímóteusar í kristnu uppeldi hans?

14 Barnabörn eru „kóróna“ þeirra sem eru farnir að eldast. (Orðskviðirnir 17:6) Það getur verið einstaklega ánægjulegt, hressandi og upplífgandi að vera með barnabörnunum. Biblían talar lofsamlega um ömmuna Lóis en hún aðstoðaði Evnike, dóttur sína, við að fræða Tímóteus, son hennar, um trúna. Þessi ungi piltur vissi frá blautu barnsbeini að bæði móður hans og ömmu þótti vænt um sannleika Biblíunnar. — 2. Tímóteusarbréf 1:5; 3:14, 15.

15. Hvaða verðmætt starf geta afar og ömmur unnið en hvers ættu þau að gæta?

15 Afar og ömmur geta unnið verðmætt starf á þessu sviði. Þið eruð búin að fræða börnin ykkar um fyrirætlun Jehóva. Nú getið þið miðlað nýrri kynslóð af þekkingu ykkar. Mörg lítil börn hafa ómælda ánægju af því að hlusta á afa og ömmu segja biblíusögur. Þið takið auðvitað ekki á ykkur ábyrgð föðurins að innprenta börnunum sannleika Biblíunnar heldur vinnið með honum. (5. Mósebók 6:7) Þið ættuð að taka ykkur í munn bæn sálmaskáldsins sem sagði: „Yfirgef mig eigi, ó Guð, þegar ég er gamall orðinn og grár fyrir hærum, að ég megi kunngjöra styrkleik þinn komandi kynslóð.“ — Sálmur 71:18; 78:5, 6.

16. Hvernig geta afar og ömmur forðast að valda spennu í fjölskyldunni?

16 Afar og ömmur hafa því miður tilhneigingu til að dekra svo við barnabörnin að það veldur spennu í samskiptum við foreldrana. En góðvild ykkar getur kannski auðveldað barnabörnunum að trúa ykkur fyrir leyndarmálum sem þau vilja síður segja foreldrunum frá. Stundum vonast krakkarnir til að eftirlátur afi eða amma standi frekar með þeim en foreldrunum. Hvað er þá til ráða? Sýnið visku og hvetjið barnabörnin til að vera opinská og hreinskilin við foreldra sína. Þið getið bent þeim á að það gleðji Jehóva. (Efesusbréfið 6:1-3) Ef þörf krefur getið þið boðist til að undirbúa jarðveginn fyrir þau með því að minnast á málið við foreldrana. Segið barnabörnunum opinskátt hvað ykkur hefur lærst á langri ævi. Einlægni ykkar og hreinskilni getur orðið þeim til góðs.

AÐLAGIÐ YKKUR EFRI ÁRUNUM

17. Hvernig geta þjónar Guðs, sem eru að eldast, líkt eftir sálmaskáldinu?

17 Þegar árin líða uppgötvarðu að þú getur ekki gert allt sem þú varst vanur að gera eða þig langar til að gera. Hvernig er hægt að sætta sig við áhrif ellinnar? Þér finnst kannski í huganum að þú sért enn um þrítugt en spegillinn segir allt aðra sögu. Misstu ekki móðinn. Sálmaskáldið bað til Jehóva: „Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.“ Vertu staðráðinn í að hugsa eins og sálmaskáldið sem sagði: „Ég vil sífellt vona og auka enn á allan lofstír þinn.“ — Sálmur 71:9, 14.

18. Hvernig getur þroskaður kristinn maður notað eftirlaunaárin viturlega?

18 Margir hafa búið sig undir að nota meiri tíma til að lofa Jehóva þegar þeir komast á eftirlaun. „Ég var búinn að ákveða hvað ég ætlaði að gera þegar dóttir okkar lyki skólagöngu,“ segir faðir sem hefur látið af störfum. „Ég ætlaði að byrja sem boðberi í fullu starfi og seldi fyrirtækið mitt til að hafa meira frelsi til að þjóna Jehóva. Ég bað hann að leiðbeina mér.“ Ef þú ert að nálgast eftirlaunaaldur skaltu sækja styrk í orð skaparans sem sagði: „Allt til elliára er ég hinn sami, og ég vil bera yður, þar til er þér verðið gráir fyrir hærum.“ — Jesaja 46:4.

19. Hvað ráðleggur Biblían þeim sem eru farnir að eldast?

19 Það getur verið erfitt að aðlagast því að láta af störfum. Páll postuli hvatti aldraða menn til að vera hófsamir. Það útheimtir ákveðið aðhald í lífinu, að láta ekki undan lönguninni til að eiga náðuga daga. Að vissu leyti er enn meiri þörf á því að temja sér fastar venjur og sjálfsaga þegar komið er á eftirlaunaaldur. Vertu því önnum kafinn og ‚síauðugur í verki Drottins því að þú veist að erfiði þitt er ekki árangurslaust í Drottni‘. (1. Korintubréf 15:58) Leggðu þig enn meira fram um að hjálpa öðrum. (2. Korintubréf 6:13) Margir kristnir menn gera það með því að boða fagnaðarerindið af kappi eftir því sem kraftar þeirra leyfa. Vertu heilbrigður „í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu“ þegar árin færast yfir. — Títusarbréfið 2:2.

ÞEGAR MAKINN FELLUR FRÁ

20, 21. (a) Hvað aðskilur hjón að lokum í núverandi heimi? (b) Hvernig er Anna góð fyrirmynd þeim sem missa maka sinn?

20 Þótt dapurlegt sé er það engu að síður staðreynd í núverandi heimi að dauðinn aðskilur hjón að lokum. Kristnir menn, sem missa maka sinn, vita að ástvinir þeirra sofa dauðasvefni og treysta því að þeir sjái þá aftur síðar. (Jóhannes 11:11, 25) En missirinn er engu að síður sár. Hvernig getur hinn eftirlifandi tekist á við sorgina?a

21 Gott er að rifja upp fyrir sér hvernig kona, sem sagt er frá í Biblíunni, brást við þegar hún varð ekkja. Hún hét Anna og missti eiginmann sinn eftir aðeins sjö ára hjónaband. Við þurfum ekki að efast um að hún syrgði hann. Hvernig tókst hún á við missinn? Þegar hún kemur við sögu er hún orðin 84 ára og þjónaði Jehóva Guði í musterinu dag og nótt. (Lúkas 2:36-38) Bænrækni Önnu og þjónusta var henni eflaust mikil hjálp í baráttunni við sorgina og einmanaleikann sem fylgdi því að vera ekkja.

22. Nefndu dæmi um hvernig ekkjur og ekklar hafa tekist á við einmanaleikann.

22 „Mér finnst erfiðast að eiga ekki félaga til að tala við,“ sagði 72 ára kona, áratug eftir að hún missti manninn sinn. „Maðurinn minn var duglegur að hlusta. Við töluðum oft um söfnuðinn og boðunarstarfið.“ Önnur ekkja segir: „Sagt er að tíminn lækni öll sár en ég held að það sé réttara að maður lækni sárin með því að nota tímann rétt. Maður er í betri aðstöðu til að hjálpa öðrum.“ Ekkill, sem er orðinn 67 ára, tekur í sama streng og segir: „Til að takast á við missinn er gott að gefa af sjálfum sér og hughreysta aðra.“

GUÐ METUR ALDRAÐA MIKILS

23, 24. Hvernig hughreystir Biblían aldraða, einkum þá sem hafa misst lífsförunaut sinn?

23 Þó að dauðinn geti tekið lífsförunaut okkar er Jehóva alltaf trúr og traustur. Davíð konungur söng forðum daga: „Eins hefi ég beðið Drottin, það eitt þrái ég: Að ég fái að dveljast í húsi Drottins alla ævidaga mína til þess að fá að skoða yndisleik Drottins, sökkva mér niður í hugleiðingar í musteri hans.“ — Sálmur 27:4.

24 „Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur,“ hvatti Páll postuli. (1. Tímóteusarbréf 5:3) Í framhaldinu kemur fram að verðugar ekkjur, sem áttu enga nákomna ættingja, þurftu hugsanlega að fá fjárhagslegan stuðning frá söfnuðinum. En hvatningin að „heiðra“ ekkjur felur einnig í sér að meta þær að verðleikum. Það er hughreystandi fyrir guðræknar ekkjur og ekkla að vita að Jehóva metur þau mikils og lofar að annast þau. — Jakobsbréfið 1:27.

25. Hvaða markmið ættu aldraðir að setja sér?

25 „Hærurnar [eru] prýði öldunganna“, segir í innblásnu orði Guðs. Þær „eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana“. (Orðskviðirnir 16:31; 20:29) Láttu því þjónustuna við Jehóva ganga fyrir í lífinu, hvort sem þú átt maka eða ert búinn að missa hann. Þá eignastu gott mannorð hjá Guði og átt fyrir höndum að hljóta eilíft líf í heimi þar sem þjáningar ellinnar verða liðin tíð. — Sálmur 37:3-5; Jesaja 65:20.

a Nánari umfjöllun um þetta efni er að finna í bæklingnum Þegar ástvinur deyr, gefinn út af Vottum Jehóva.

HVERNIG GETA ÞESSAR MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR HJÁLPAÐ HJÓNUM ÞEGAR ALDURINN FÆRIST YFIR?

Barnabörnin eru „kóróna“ hinna rosknu. — Orðskviðirnir 17:6.

Með aldrinum gefast oft aukin tækifæri til að þjóna Jehóva. — Sálmur 71:9, 14.

Aldraðir eru hvattir til að vera hófsamir. — Títusarbréfið 2:2.

Þegar makinn fellur frá er hægt að leita huggunar í Biblíunni. — Jóhannes 11:11, 25.

Jehóva metur aldraða þjóna sína mikils. — Orðskviðirnir 16:31.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila