Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • ie bls. 22-24
  • Hvað verður um sálina við dauðann?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hvað verður um sálina við dauðann?
  • Hvað verður um okkur þegar við deyjum?
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Dánir hafa enga meðvitund
  • Sálin getur dáið
  • ‚Fór út‘ og „kom aftur“
  • „Millibilsástandið“ veldur vanda
  • Hvað er andinn?
  • Líf eftir dauðann — hvað segir Biblían?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1999
  • Hefur þú ódauðlega sál?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2007
  • Lifir sálin af líkamsdauðann?
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1990
  • Sálin
    Vaknið! – 2016
Sjá meira
Hvað verður um okkur þegar við deyjum?
ie bls. 22-24

Hvað verður um sálina við dauðann?

„Sú kenning að mannssálin sé ódauðleg og haldi áfram að vera til eftir að maðurinn er látinn og líkami hans rotnaður er einn af hornsteinum kristinnar heimspeki og guðfræði.“ — „NEW CATHOLIC ENCYCLOPEDIA.“

1. Hvað viðurkennir New Catholic Encyclopedia í tengslum við það að sálin lifi líkamsdauðann?

UPPSLÁTTARRITIÐ, sem vitnað er í hér að ofan, viðurkennir hins vegar að „ekki sé auðvelt að greina í Biblíunni þá hugmynd að sálin lifi líkamsdauðann.“ Hvað kennir þá Biblían í raun og veru um það hvað verði um sálina við dauðann?

Dánir hafa enga meðvitund

2, 3. Hvert er ástand hinna látnu og hvaða ritningarstaðir leiða það í ljós?

2 Ástand hinna dánu kemur skýrt fram í Prédikaranum 9:5, 10 þar sem við lesum: „Hinir dauðu vita ekki neitt . . . í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ Dauðinn er þess vegna tilveruleysi. Þegar menn deyja „verða [þeir] aftur að jörðu, á þeim degi verða áform þeirra að engu,“ skrifaði sálmaritarinn. — Sálmur 146:4.

3 Hinir látnu eru því meðvitundarlausir, óvirkir. Þegar Guð kvað upp dóm yfir Adam sagði hann: „Mold ert þú og til moldar skalt þú aftur hverfa!“ (1. Mósebók 3:19) Adam var ekki til áður en Guð myndaði hann af mold eða leiri jarðar og gaf honum líf. Þegar Adam dó hvarf hann aftur til þess tilveruleysis. Refsing hans var dauði — ekki að flytjast yfir á annað tilverusvið.

Sálin getur dáið

4, 5. Nefnið dæmi í Biblíunni sem sýna að sálin deyi.

4 Hvað varð um sál Adams þegar hann dó? Höfum hugfast að í Biblíunni á orðið „sál“ oft við ekkert annað en manninn sjálfan. Þegar við því segjum að Adam hafi dáið erum við að segja að sálin, sem hét Adam, hafi dáið. Það kann að hljóma undarlega í eyrum þeirra sem trúa á ódauðleika sálarinnar. Biblían segir engu að síður: „Sú sálin, sem syndgar, hún skal deyja.“ (Esekíel 18:4) Í 3. Mósebók 21:1 og 4. Mósebók 6:6 er talað um að prestar og nasírear skuli ekki saurga sig á eða koma nærri „líki.“ Hebreskan notar hér orðið neʹfes (sál) og talar því í þessu samhengi um „látna sál.“

5 Svipaða tilvísun til sálarinnar (neʹfes) er að finna í 1. Konungabók 19:4. Elía var í miklum nauðum og „óskaði hann sér að [sál hans] mætti deyja.“ Sömu sögu er að segja af Jónasi. Hann „óskaði [sál sinni] dauða og sagði: ‚Mér er betra að deyja en lifa!‘“ (Jónas 4:8) Og Jesús notaði orðalagið að „bjarga [sál, psykheʹ] eða deyða.“ (Markús 3:4) Dauði sálar þýðir þannig ekkert annað en dauði manns.

‚Fór út‘ og „kom aftur“

6. Hvað á Biblían við þegar hún segir að sál Rakelar hafi verið „að fara út“?

6 En hvað má segja um sorglegan dauða Rakelar sem átti sér stað þegar hún fæddi yngri son sinn? Í 1. Mósebók 35:18 segir samkvæmt New World Translation: „Er sál hennar var að fara út (því að hún dó) nefndi hún hann Benóní; en faðir hans nefndi hann Benjamín.“ Gefur þessi ritningarstaður í skyn að Rakel hafi haft innri veru sem fór úr henni við dauða hennar? Alls ekki. Munum að orðið „sál“ getur líka vísað til lífsins sem einstaklingurinn á. Í þessu tilviki þýddi „sál“ Rakelar þess vegna ekkert annað en „líf“ hennar. Í stað hinnar orðréttu þýðingar „sál hennar var að fara út“ segja aðrar þýðingar „er hún var í andlátinu“ (Biblían 1981), „líf hennar fjaraði út“ (Knox), „hún dró andann í síðasta sinn“ (Jerusalem Bible). Hér er engin vísbending um að einhver dularfullur hluti Rakelar hafi lifað af dauða hennar.

7. Á hvaða hátt ‚kom sál‘ sonar ekkjunnar ‚aftur í hann‘?

7 Áþekkt dæmi er upprisa sonar ekkjunnar sem sagt er frá í 1. Konungabók 17. kafla. Í 22. versi lesum við að Elía hafi beðist fyrir yfir ungum dreng og þá „heyrði [Jehóva] bæn Elía, og sál sveinsins kom aftur í hann, svo að hann lifnaði við.“ Orðið „sál“ merkir hér enn á ný „líf.“ New American Standard Bible orðar þetta á þessa leið: „Líf drengsins kom aftur til hans og hann lifnaði við.“ Já, það var líf, ekki eitthvert óljóst fyrirbæri sem sneri aftur til drengsins. Það er í samræmi við það sem Elía sagði við móður drengsins: „Sjá þú, sonur þinn [drengurinn allur] er lifandi.“ — 1. Konungabók 17:23.

„Millibilsástandið“ veldur vanda

8. Hvað trúa fjölmargir sem segjast kristnir að gerist þegar upprisan mun eiga sér stað?

8 Margir sem segjast kristnir trúa því að í framtíðinni eigi sér stað upprisa og þá sameinist líkamar ódauðlegu sálunum sem í þeim bjuggu. Þá hljóti hinir upprisnu sín endanlegu örlög; þeir sem lifað hafa heiðarlegu lífi fái umbun en hinir illu hljóti makleg málagjöld.

9. Hvað er „millibilsástandið“ og hvað segja sumir að verði um sálina meðan á því stendur?

9 Þetta hljómar ósköp einfalt. En þeir sem aðhyllast trúna á ódauðleika sálarinnar eiga erfitt með að útskýra hvað verður um sálina þann tíma sem líður frá dauða líkamans til upprisu hans. Satt að segja hefur þetta „millibilsástand,“ eins og það er stundum nefnt, vakið upp vangaveltur öldum saman. Sumir segja að á þessu tímabili fari sálin í hreinsunareld þar sem hreinsa má hana af fyrirgefanlegum syndum svo að hún verði hæf til dvalar á himni.a

10. Hvers vegna er óbiblíulegt að trúa því að sálirnar hjari um tíma í hreinsunareldi eftir dauðann og hvernig staðfestir frásagan af Lasarusi það?

10 En við höfum séð að sálin er einfaldlega maðurinn sjálfur. Sálin deyr þegar maðurinn deyr. Þar af leiðandi er engin meðvituð tilvist til eftir dauðann. Þegar Lasarus dó sagði Jesús Kristur ekki að hann væri í hreinsunareldi, „forgarði helvítis“ eða einhverju öðru „millibilsástandi.“ Öllu heldur sagði Jesús blátt áfram: „Lasarus, vinur vor, er sofnaður.“ (Jóhannes 11:11) Jesús, sem vissi hvað yrði um sálina við dauðann, áleit greinilega að Lasarus væri meðvitundarlaus, væri ekki lengur til.

Hvað er andinn?

11. Hvers vegna gæti orðið „andi“ ekki átt við einhvern hluta mannsins sem leysist úr viðjum líkamans og lifir af dauðann?

11 Biblían segir að þegar menn deyi ‚líði andi þeirra burt, þeir verði aftur að jörðu.‘ (Sálmur 146:4) Þýðir þetta að einhver andi leysist bókstaflega úr viðjum líkamans og haldi áfram að lifa eftir lát mannsins? Það gæti ekki verið af því að næstu orð sálmaritarans eru þessi: „Á þeim degi verða áform [„hugsun,“ New English Bible] þeirra að engu.“ Hvað er þá andinn og hvernig ‚líður hann burt‘ þegar fólk deyr?

12. Hvað er gefið til kynna með hebresku og grísku orðunum sem þýdd eru „andi“ í Biblíunni?

12 Í Biblíunni er grunnmerking orðsins, sem þýtt er „andi“ (hebreska, ruʹach; gríska, pneuʹma), „andardráttur.“ Í stað þess að segja „andi þeirra líður burt“ notar þýðing R. A. Knox þess vegna orðalagið „andardrátturinn yfirgefur líkama hans.“ (Sálmur 145:4, Knox) En orðið „andi“ gefur í skyn miklu meira en þá athöfn að draga andann. Til dæmis segir í 1. Mósebók 7:22 þegar verið er að lýsa eyðingu manna og dýra í heimsflóðinu: „Allt sem hafði lífsanda í nösum sínum, allt sem var á þurrlendinu, það dó.“ Orðið „andi“ (ruʹach á hebresku) getur þar af leiðandi átt við lífskraftinn sem er virkur í öllum lifandi skepnum, bæði mönnum og dýrum, og þau viðhalda með andardrættinum.

13. Hvernig má líkja andanum við rafstraum?

13 Lýsum þessu með dæmi: Rafstraumur knýr rafmagnstæki. Fái tækið ekki straum hættir það að virka. Rafstraumurinn fer ekki út úr tækinu og eitthvað annað. Þegar einhver deyr má á sama hátt segja að andi hans hætti að halda líkamsfrumunum gangandi. Andinn yfirgefur ekki líkamann til þess að flytja sig yfir á annað tilverusvið. — Sálmur 104:29.

14, 15. Hvernig hverfur andinn aftur til Guðs við dauðann?

14 Hvers vegna segir þá í Prédikaranum 12:7 að þegar maðurinn deyi ‚hverfi andinn aftur til Guðs sem gaf hann‘? Þýðir þetta að andinn ferðist bókstaflega út í geiminn til að komast í návist við Guð? Það er langt í frá að verið sé að gefa slíkt í skyn. Við munum að andinn er lífskrafturinn. Þegar lífskrafturinn er einu sinni horfinn er það Guð einn sem getur endurvakið hann. Þar af leiðandi ‚hverfur andinn aftur til Guðs‘ í þeim skilningi að það sé núna algerlega undir Guði komið hvort hinn látni fái einhvern tíma að lifa á ný.

15 Guð einn getur endurvakið andann, eða lífskraftinn, og látið mann snúa aftur til lífsins. (Sálmur 104:30) En ætlar Guð að gera það?

[Neðanmáls]

a Að sögn New Catholic Encyclopedia „kemur almennt skýrt fram hjá kirkjufeðrunum staðfesting þeirra á tilvist hreinsunareldsins.“ Þetta uppsláttarrit viðurkennir engu að síður að „hin kaþólska kenning um hreinsunareld er byggð á erfikenningu, ekki Heilagri ritningu.“

[Rammagrein á blaðsíðu 23]

Minningar um fyrra líf

EF EKKERT lifir af líkamsdauðann hvernig má þá skýra minningar um fyrra líf sem sumir segjast hafa?

Hindúafræðimaðurinn Nikhilananda segir að ‚upplifun handan grafar verði ekki skýrð með rökum.‘ Guðfræðingurinn Hans Küng benti á í fyrirlestri sínum „Líkön eilífðartrúar í trúarbrögðunum“ að „ekki sé hægt að staðfesta neina þessara frásagna af endurminningum um fyrra líf, sem flestar eru komnar frá börnum eða frá löndum þar sem fólk trúir á endurholdgun.“ Hann bætir síðan við: „Flestir [dulsálfræðinganna, sem vinna af alvöru og vísindalega á þessu sviði,] viðurkenna að reynslufrásagnirnar, sem þeir hafa safnað saman, séu ekki þess eðlis að hægt sé að tala um mjög sannfærandi sönnun fyrir endurteknu lífi manna á jörðinni.“

Hvað nú ef þér finnst þú búa yfir minningum um fyrra líf? Slíkar tilfinningar gætu átt sér ýmsar orsakir. Mikið af þeim upplýsingum, sem berast til okkar, eru settar í geymslu í einhverjum földum afkima undirmeðvitundarinnar vegna þess að við höfum enga beina eða tafarlausa þörf á þeim. Þegar gleymdar minningar skjóta upp kollinum túlka sumir þær sem vísbendingu um fyrra líf. Sú staðreynd stendur engu að síður að við höfum enga sannanlega reynslu af öðru lífi en því sem við lifum núna. Meirihluti manna, sem núna eru uppi á jörðinni, minnist þess ekki á nokkurn hátt að hafa lifað áður; þeim dettur heldur ekki í hug að þeir geti hafa átt einhver fyrri líf.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila