Fagnaðarerindið sem þeir vilja að menn heyri
ÞEGAR JESÚS var á jörðu komu lærisveinarnir til hans og spurðu hann: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Hann svaraði að koma myndu styrjaldir með þátttöku margra þjóða, hungursneyðir, farsóttir og jarðskjálftar. Lögleysi myndi magnast, falsspámenn leiða marga í villu, sannir fylgjendur hans yrðu hataðir og ofsóttir og kærleikur margra til réttlætisins myndi kólna. Þegar þetta tæki að gerast væri það til merkis um að Kristur væri nærverandi eða kominn á ósýnilegan hátt og að hið himneska ríki væri í nánd. Þetta yrðu mikil tíðindi — fagnaðartíðindi. Jesús bætti því við eftirfarandi orðum sem hluta táknsins: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ — Matteus 24:3-14.
Framvindan í heiminum undanfarna áratugi er í sjálfu sér slæm en hún gefur þó til kynna að Kristur sé nærverandi og það er til heilla. Ástandið, sem minnst er á hér að ofan, fór að verða greinilegt á því sögufræga ári 1914. Það ár lauk tímum heiðingjanna og jafnframt hófst tími umskipta frá stjórn manna yfir í þúsundáraríki Krists.
Að slíkt umskiptatímabil ætti eftir að eiga sér stað má sjá af Sálmi 110:1, 2 og Opinberunarbókinni 12:7-12. Þar kemur fram að Kristur skyldi sitja Guði til hægri handar á himni uns tíminn væri kominn fyrir hann að verða konungur. Í stríði á himni yrði Satan varpað niður til jarðarinnar, henni til mikillar ógæfu um stund, og Kristur tæki að drottna mitt á meðal óvina sinna. Illskunni yrði algerlega útrýmt í ,mikilli þrengingu‘ sem næði hámarki í stríðinu við Harmagedón og að því loknu kæmi þúsund ára friðarstjórn Krists. — Matteus 24:21, 33, 34; Opinberunarbókin 16:14-16.
„Vita skalt þú þetta,“ segir Biblían, „að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5.
Sumir fullyrða sjálfsagt að slíkir atburðir og hegðun séu ekkert nýtt í mannkynssögunni en staðreyndin er sú að þetta hefur aldrei fyrr átt sér stað í slíkum mæli. Eins og sagnfræðingar og fréttaskýrendur benda á líkist ekkert fyrra tímabil í sögunni því sem menn hafa upplifað síðan árið 1914. (Sjá blaðsíðu 7.) Þessi ógæfa hefur farið víðar og bitnað á fleirum en nokkru sinni fyrr. Vert er líka að íhuga eftirfarandi staðreyndir í tengslum við aðra þætti táknsins sem Kristur sagði að greina mætti á síðustu dögum. Á okkar tímum hefur hópur manna kunngert nærveru Krists og ríki hans í svo stórum stíl um allan heim að þvílíkt hefur aldrei áður þekkst í mannkynssögunni. Ofsóknir vegna prédikunar hafa aldrei fyrr jafnast á við þær sem vottar Jehóva hafa mátt þola. Mörg hundruð þeirra voru teknir af lífi í fangabúðum nasista. Fram á þennan dag er starf votta Jehóva bannað í sumum löndum og í öðrum eru þeir handteknir, fangelsaðir, pyndaðir og jafnvel drepnir. Þetta er allt hluti af tákninu sem Jesús sagði að kæmi fram.
„Heiðingjarnir“ eða þjóðirnar hafa ,snúist reiðar gegn‘ þeim sem trúfastlega vitna um Jehóva eins og spáð var í Opinberunarbókinni 11:18. Það gefur til kynna að ,reiði Guðs komi‘ yfir þessar þjóðir. Þessi sami ritningarstaður segir að Guð muni „eyða þeim, sem jörðina eyða“. Aldrei fyrr í sögu mannkynsins hefur getu jarðarinnar til að viðhalda lífríkinu verið hætta búin. En núna hefur það breyst. Margir vísindamenn hafa varað við því að haldi menn áfram að menga jörðina verði hún óbyggileg. En Jehóva hefur „myndað hana svo, að hún væri byggileg“ og hann mun losa jörðina við þá sem menga hana áður en þeir ná að gereyða henni. — Jesaja 45:18.
BLESSUN Á JÖRÐINNI UNDIR STJÓRN GUÐSRÍKIS
Sú hugmynd að fólk eigi eftir að lifa á jörðinni sem þegnar Guðsríkis hljómar ef til vill undarlega í eyrum margra sem trúa á Biblíuna en halda að hinir hólpnu séu allir á himni. Biblían sýnir fram á það að einungis takmarkaður hópur fari til himna en að þeir sem hljóti eilíft líf á jörðinni verði mikill múgur sem takmarkast ekki við fyrir fram ákveðna tölu. (Sálmur 37:11, 29; Opinberunarbókin 7:9; 14:1-5) Spádómur í Daníel í Biblíunni sýnir að Guðsríki undir stjórn Krists muni ná um alla jörðina og ríkja yfir henni.
Í spádóminum er steinn sagður losna úr fjalli. Steinninn táknar ríki Krists en fjallið óskorað vald Jehóva. Steinninn lendir á og mölbrýtur líkneski sem táknar voldugar þjóðir á jörðinni. „En steinninn, sem lenti á líkneskinu, varð að stóru fjalli og tók yfir alla jörðina,“ segir spádómurinn. Hann heldur áfram: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna hefja ríki, sem aldrei skal á grunn ganga, og það ríki skal engri annarri þjóð í hendur fengið verða. Það mun knosa og að engu gjöra öll þessi ríki, en sjálft mun það standa að eilífu.“ — Daníel 2:34, 35, 44.
Það er þetta ríki og það fyrirheit Biblíunnar, að menn geti öðlast eilíft líf á jörðinni eftir að hún hefur verið hreinsuð og fegruð, sem votta Jehóva langar til að segja mönnum frá. Þá fá milljónir núlifandi manna og enn fleiri milljónir, sem liggja látnar í gröfinni, tækifæri til að búa á jörðinni að eilífu. Undir stjórn þúsundáraríkis Jesú Krists verður hinn upphaflegi ásetningur Jehóva með sköpun jarðarinnar og fyrstu hjónanna að veruleika. Lífið i þessari jarðnesku paradís verður aldrei leiðigjarnt. Adam var fengið verk að vinna í Edengarðinum og eins fær mannkynið það krefjandi verkefni að annast jörðina og gróðurinn og dýrin á henni. Menn „skulu sjálfir njóta handaverka sinna“. — Jesaja 65:22; 1. Mósebók 2:15.
Benda mætti á marga ritningarstaði til að sýna hvaða aðstæður verða ríkjandi þegar bæninni, sem Jesús kenndi okkur, hefur verið svarað: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:10) Látum þennan samt nægja núna: „Ég heyrði raust mikla frá hásætinu, er sagði: ,Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna og hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘ Og sá, sem í hásætinu sat, sagði: ,Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,‘ og hann segir: ,Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ — Opinberunarbókin 21:3-5.
[Innskot á bls. 15]
„Örðugar tíðir“
EN „þá mun endirinn koma“.
[Mynd á bls. 18]
Holland
[Mynd á bls. 18]
Nígería