Námskafli 19
Hvettu aðra til að nota biblíuna
VIÐ viljum beina athygli allra að orði Guðs, Biblíunni. Bókin helga er undirstaða þess boðskapar sem við boðum, og við viljum að fólk geri sér grein fyrir því að boðskapurinn er ekki frá sjálfum okkur kominn heldur Guði. Fólk þarf að læra að treysta Biblíunni.
Í boðunarstarfinu. Þegar þú býrð þig undir boðunarstarfið ættirðu alltaf að velja einn ritningarstað eða fleiri til að koma á framfæri við þá sem vilja hlusta. Oft er gott að lesa upp viðeigandi biblíutexta, jafnvel þótt þú ætlir aðeins að kynna biblíufræðslurit með örfáum orðum. Biblían hefur meiri áhrif á sauðumlíkt fólk en nokkuð sem við getum sagt frá eigin brjósti. Hafirðu ekki tækifæri til að lesa beint upp úr Biblíunni gætirðu kannski vitnað í hana. Biblíubækur voru ekki almenningseign á fyrstu öldinni. Þrátt fyrir það vitnuðu Jesús og postular hans mikið í þær. Við ættum einnig að gera okkur far um að leggja ritningarstaði á minnið og nota þá eftir því sem við á í boðunarstarfinu. Stundum getum við einfaldlega farið með þá eftir minni.
Þegar þú lest upp úr Biblíunni skaltu halda þannig á henni að húsráðandinn geti fylgst með. Og viðbrögð hans við hinu upplesna geta orðið enn jákvæðari ef hann fylgist með í sinni eigin biblíu.
Við verðum að sjálfsögðu að gera okkur grein fyrir því að sumir biblíuþýðendur hafa farið frjálslega með orð Guðs. Það er ekki víst að þýðing þeirra fylgi frummálstexta Biblíunnar að öllu leyti. Margar nútímaþýðingar hafa fellt einkanafn Guðs niður og leynt því að einhverju marki sem frumtextinn segir um ástand hinna dánu og um ásetning Guðs með jörðina. Þú getur þurft að sýna fram á þetta með því að bera saman mikilvæga texta í ýmsum biblíum eða í eldri þýðingum á heimamálinu. Bókin Reasoning From the Scriptures (Rökræðubókin) gerir allvíða samanburð á því hvernig ákveðin lykilorð í versum, sem eru mikið notuð, eru þýdd í mismunandi biblíum. Allir sem unna sannleikanum kunna að meta nákvæmar upplýsingar.
Á safnaðarsamkomum. Það ætti að hvetja alla til að nota Biblíuna á safnaðarsamkomum. Það er gagnlegt á ýmsa vegu. Það auðveldar áheyrendum að halda athyglinni við umræðuefnið. Það bætir sjónrænum áhrifum við hin töluðu orð ræðumannsins. Og það sýnir þeim sem nýlega hafa sýnt áhuga vel fram á að trú okkar er byggð á Biblíunni.
Hvort áheyrendur fylgjast með í biblíunni sinni eða ekki þegar þú lest upp texta er að miklu leyti undir því komið hvernig þú hvetur til þess. Bein hvatning er best.
Þú, ræðumaðurinn, ákveður hvaða texta þú leggur sérstaka áherslu á með því að biðja áheyrendur að fletta þeim upp. Best er að velja ritningarstaði sem styðja aðalatriðin í ræðunni. Síðan geturðu, eftir því sem tími leyfir, bætt nokkrum við sem styðja rökfærsluna.
Yfirleitt er samt ekki nóg að nefna aðeins hvar ritningartextann sé að finna eða að biðja áheyrendur að fletta honum upp. Ef þú lest eina ritningargrein og síðan aðra áður en áheyrendur hafa haft ráðrúm til að finna þá fyrri gefast þeir fljótlega upp á að reyna að fylgjast með í Biblíunni. Hafðu augun opin og lestu ekki textann fyrr en flestir eru búnir að finna hann.
Hugsaðu fram í tímann. Vísaðu til ritningarstaðarins með góðum fyrirvara áður en þú lest hann. Þá fer minni tími til spillis við að bíða eftir að áheyrendur finni staðinn. Það er alltaf til góðs fyrir áheyrendur að fletta upp á ritningarstöðum. Að vísu tekur það svolítinn tíma en honum er vel varið.