6. KAFLI
Kennarinn mikli þjónaði öðrum
FINNST þér ekki gaman þegar aðrir gera eitthvað fyrir þig? — Öðrum finnst líka mjög gaman þegar einhver gerir eitthvað fyrir þá. Okkur finnst það öllum. Kennarinn mikli vissi það og hann var alltaf að gera eitthvað fyrir aðra. Hann sagði: ,Ég kom ekki til að láta þjóna mér, heldur til að þjóna.‘ — Matteus 20:28.
Um hvað voru lærisveinar Jesú að deila?
Hvað verðum við að gera til að líkjast kennaranum mikla? — Við verðum að þjóna öðrum og vera tilbúin að gera eitthvað fyrir þá. Það eru ekki margir sem gera það. Flestir vilja reyndar láta aðra þjóna sér. Lærisveinar Jesú vildu það meira að segja um tíma. Þá langaði alla til að vera meiri og mikilvægari en hinir.
Dag einn var Jesús á ferðalagi með lærisveinum sínum. Þegar þeir voru komnir inn í borgina Kapernaum, sem var við Galíleuvatn, fóru þeir allir inn í hús nokkurt. Þá spurði Jesús þá: ,Hvað voruð þið að ræða á leiðinni?‘ Þeir sögðu ekkert af því að þeir höfðu verið að deila um það hver þeirra væri mestur. — Markús 9:33, 34.
Jesús vissi að það væri rangt af lærisveinunum að halda að þeir væru mikilvægari en aðrir. Eins og við lærðum í fyrsta kaflanum setti Jesús lítið barn mitt á meðal lærisveinanna og sagði að þeir ættu að vera auðmjúkir eins og barnið. En þeir létu sér það samt ekki að kenningu verða. Rétt áður en Jesús dó kenndi hann þeim lexíu sem þeir gleymdu aldrei. Hver var hún? —
Þeir voru að borða saman þegar Jesús stóð upp frá borðinu og fór úr skikkjunni sem var eins konar yfirhöfn. Hann náði í handklæði og batt það um mittið. Síðan tók hann þvottaskál og hellti vatni í hana. Lærisveinarnir hljóta að hafa velt því fyrir sér hvað hann ætlaði að gera. Þeir horfðu síðan á hann beygja sig niður og þvo fæturna á þeim öllum. Síðan þurrkaði hann fætur þeirra með handklæðinu. Hugsaðu þér! Hvernig hefði þér liðið ef þú hefðir verið þarna? —
Hvaða lexíu kenndi Jesús lærisveinum sínum?
Lærisveinum Jesú fannst ekki rétt að láta kennarann mikla þjóna sér á þennan hátt. Þeir urðu vandræðalegir. Pétur vildi ekki einu sinni leyfa honum að þvo fætur sína því að honum fannst það ekki samboðið Jesú. En Jesús sagði að það skipti miklu máli að hann fengi að gera það.
Við þvoum venjulega ekki fæturna hvert á öðru nú á dögum en það var gert þegar Jesús var á jörðinni. Veistu af hverju? — Í landinu, þar sem Jesús og lærisveinar hans bjuggu, gengu menn berfættir í sandölum á moldar- og malarvegum og fætur þeirra urðu því rykugir. Það var þess vegna mjög fallega gert að þvo fætur þeirra sem komu í heimsókn.
Í þetta skipti hafði enginn af lærisveinum Jesú boðist til að þvo fætur hinna. Þess vegna gerði Jesús það sjálfur. Þannig kenndi hann þeim mjög mikilvæga lexíu. Þeir þurftu að læra þessa lexíu og það þurfum við líka.
Veistu hvaða lærdóm við getum dregið af þessu? — Eftir að Jesús hafði farið aftur í skikkjuna og sest við borðið sagði hann: ,Skiljið þið hvað ég hef gert fyrir ykkur? Þið kallið mig meistara og herra, og þið mælið rétt því það er ég. Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið fætur ykkar þá eigið þið líka að þvo fæturna hver á öðrum.‘ — Jóhannes 13:2-14.
Hvað geturðu gert til að hjálpa öðrum?
Kennarinn mikli sýndi með þessu að hann vildi að lærisveinar sínir þjónuðu hver öðrum. Hann vildi að þeir hugsuðu ekki bara um sjálfa sig. Hann vildi ekki að þeir litu svo stórt á sig að aðrir ættu alltaf að þjóna þeim. Hann vildi að þeir væru reiðubúnir að þjóna öðrum.
Getum við ekki lært mikið af þessu? — Ætlar þú að líkja eftir kennaranum mikla og þjóna öðrum? — Við getum gert margt fyrir aðra sem myndi gleðja þá. En það besta er að það gleður Jesú og föður hans.
Það er ekki erfitt að þjóna eða hjálpa öðrum. Ef þú lítur í kringum þig geturðu fundið margt sem þú getur gert fyrir aðra. Hugsaðu þig aðeins um: Geturðu aðstoðað mömmu þína við eitthvað? Þú veist að hún gerir margt fyrir þig og aðra í fjölskyldunni. Geturðu hjálpað henni? — Hvernig væri að spyrja hana?
Þú gætir kannski lagt á borðið áður en fjölskyldan borðar saman eða tekið af borðinu eftir matinn. Sum börn fara út með ruslið á hverjum degi. Hvað sem þú gerir þá ertu að þjóna öðrum eins og Jesús gerði.
Áttu yngri systkini sem þú gætir hjálpað? Mundu að Jesús, kennarinn mikli, þjónaði lærisveinum sínum. Þess vegna ertu að líkja eftir Jesú þegar þú hjálpar yngri systkinum þínum. Hvað geturðu gert fyrir þau? — Kannski geturðu kennt þeim að taka til eftir sig þegar þau eru búin að leika sér. Þú getur líka hjálpað þeim að klæða sig. Þú getur jafnvel hjálpað þeim að búa um rúmið. Manstu eftir einhverju öðru sem þú getur gert fyrir þau? — Þeim þykir áreiðanlega vænt um það sem þú gerir fyrir þau, alveg eins og lærisveinum Jesú þótti vænt um það sem hann gerði fyrir þá.
Þú getur líka þjónað öðrum í skólanum. Þú getur hjálpað bæði bekkjarsystkinum þínum og kennaranum. Ef einhver missir bækurnar væri fallegt af þér að hjálpa honum að taka þær upp. Þú gætir boðist til að þurrka af töflunni eða gera eitthvað annað fyrir kennarann. Það er líka fallega gert að halda dyrunum opnum fyrir aðra.
En fólk þakkar ekki alltaf fyrir hjálpina. Finnst þér þá að við ættum að hætta að gera góðverk? — Alls ekki. Fæstir þökkuðu Jesú fyrir góðverkin sem hann gerði en hann hélt samt áfram að gera þau.
Við ættum þess vegna að halda áfram að þjóna öðrum. Munum eftir Jesú, kennaranum mikla, og reynum alltaf að fylgja fordæmi hans.
Til að vita meira um hvernig við getum hjálpað öðrum geturðu lesið Orðskviðina 3:27, 28; Rómverjabréfið 15:1, 2 og Galatabréfið 6:2.