10. KAFLI
Jesús hefur vald yfir illum öndum
MANSTU af hverju einn af englum Guðs varð Satan djöfullinn? — Það var af því að hann var eigingjarn og vildi láta tilbiðja sig. Þess vegna snerist hann gegn Guði. Ætli aðrir englar hafi fylgt Satan? — Já, Biblían kallar þá ,engla Satans‘ eða illa anda. — Opinberunarbókin 12:9.
Trúa þessir vondu englar á Guð? — Biblían segir að ,illu andarnir trúi því að Guð sé til‘. (Jakobsbréfið 2:19) En þeir eru hræddir vegna þess að þeir vita að Guð ætlar að refsa þeim fyrir allt það slæma sem þeir hafa gert. Hvað hafa þeir gert af sér? —
Biblían segir að þessir englar hafi yfirgefið heimkynni sín á himnum og komið til jarðarinnar til að lifa eins og menn. Þeir gerðu það vegna þess að þá langaði til að hafa kynmök við fallegu konurnar á jörðinni. (1. Mósebók 6:1, 2; Júdasarbréfið 6) Veistu hvað kynmök eru? —
Það kallast kynmök þegar maður og kona eiga náið líkamlegt samband. Eftir það getur barn farið að myndast í móðurkviði konunnar. En það er rangt af englum að hafa kynmök. Guð hefur aðeins leyft manni og konu, sem eru hjón, að hafa kynmök. Ef þau eignast síðan barn geta þau bæði séð um barnið.
Hvað gerðu þessir englar af sér?
Þegar englarnir breyttu sér í menn og höfðu kynmök við konurnar á jörðinni eignuðust þeir börn með þeim. Börnin stækkuðu svo mikið að þau urðu risavaxin. Þessir risar voru mjög vondir og misþyrmdu fólki. Guð lét þess vegna koma flóð til að eyða risunum og öllu vonda fólkinu. En hann lét Nóa smíða örk eða stórt skip til að bjarga þeim fáu sem gerðu það sem var rétt. Kennarinn mikli sagði að það væri mikilvægt að muna eftir því sem gerðist þegar flóðið átti sér stað. — 1. Mósebók 6:3, 4, 13, 14; Lúkas 17:26, 27.
Veistu hvað kom fyrir vondu englana þegar flóðið skall á? — Þeir hættu að nota líkamana sem þeir höfðu gert sér og sneru aftur til himna. En þar sem þeir fengu ekki lengur að vera englar Guðs urðu þeir englar Satans eða illir andar. Hvað kom fyrir börnin þeirra, risana? — Þeir dóu í flóðinu og allt hitt fólkið, sem hlýddi ekki Guði, dó líka.
Af hverju eru meiri erfiðleikar á jörðinni núna en nokkru sinni fyrr?
Eftir flóðið hefur Guð ekki leyft illum öndum að verða aftur eins og menn. En þótt við getum ekki séð illu andana reyna þeir samt enn þá að fá fólk til að gera ýmislegt slæmt. Þeir valda meiri erfiðleikum núna en nokkru sinni fyrr. Það er vegna þess að þeim hefur verið kastað af himnum niður til jarðarinnar.
Veistu af hverju við getum ekki séð illa anda? — Það er af því að þeir eru ósýnilegir. En við getum verið viss um að þeir eru til. Biblían segir að Satan ,afvegaleiði alla heimsbyggðina‘, og að illu andarnir hjálpi honum. — Opinberunarbókin 12:9, 12.
Geta Satan og illu andarnir blekkt eða platað okkur líka? — Já, þeir geta það ef við gætum okkar ekki. En við þurfum ekki að vera hrædd. Kennarinn mikli sagði: ,Satan á ekki neitt í mér.‘ Ef við höldum okkur nálægt Guði þá verndar hann okkur fyrir Satan og illum öndum hans. — Jóhannes 14:30.
Það er mikilvægt að vita hvað illu andarnir reyna að fá okkur til að gera. Hugsaðu þig aðeins um. Hvað gerðu illu andarnir þegar þeir komu til jarðarinnar? — Fyrir flóðið höfðu þeir kynmök við konur en það áttu englar alls ekki að gera. Nú á dögum eru illu andarnir ánægðir þegar fólk óhlýðnast lögum Guðs um kynmök. En hverjir mega hafa kynmök? — Það er rétt hjá þér, bara hjón.
Nú á dögum hafa sumir strákar og stelpur kynmök. En það er rangt af þeim. Biblían talar um ,kynfæri karla‘ eða getnaðarlim. (3. Mósebók 15:1-3, Biblíurit, ný þýðing 2001) Og kynfæri kvenna kallast sköp. Jehóva skapaði þessa líkamshluta í ákveðnum tilgangi og hann vill að við notum þá rétt. Það eru bara hjón sem mega hafa kynmök. Illu andarnir eru ánægðir þegar fólk gerir það sem Jehóva hefur bannað. Til dæmis hafa illu andarnir gaman af því þegar strákur og stelpa gæla við kynfæri hvort annars. Við viljum ekki gleðja illu andana, er það nokkuð? —
Það er eitt annað sem illu andarnir hafa gaman af en Jehóva hatar. Veistu hvað það er? — Það er ofbeldi. (Sálmur 11:5) Það kallast ofbeldi þegar fólk er vont og meiðir aðra. En það er einmitt það sem risarnir, synir illu andanna, gerðu.
Illir andar hafa líka gaman af að hræða fólk. Stundum þykjast þeir vera dáið fólk. Þeir líkja jafnvel eftir röddum hinna dánu. Þannig telja þeir mörgum trú um að dáið fólk sé enn á lífi og geti talað við þá sem eru lifandi. Já, illu andarnir fá marga til að trúa á drauga.
Við verðum því að gæta þess að láta Satan og illa anda ekki plata okkur. Biblían segir til viðvörunar að ,Satan þykist vera góður engill og þjónar hans þykjast líka vera góðir‘. (2. Korintubréf 11:14, 15) En illir andar eru vondir í raun og veru. Við skulum athuga hvernig þeir gætu reynt að fá okkur til að vera eins og þeir.
Hvernig lærir fólk mikið um ofbeldi, óviðeigandi kynmök og andaverur eða drauga? — Er það ekki með því að horfa á ákveðna sjónvarpsþætti og kvikmyndir, spila tölvuleiki, fara á Netið og lesa teiknimyndablöð? Hvort færir þetta okkur nær Guði eða nær Satan og illu öndunum? Hvað heldur þú? —
Hvað getur gerst ef við horfum á ofbeldi?
Hver heldurðu að vilji fá okkur til að hlusta og horfa á það sem er slæmt? — Já, Satan og illu andarnir. Hvað verðum við þess vegna að gera? — Við verðum að lesa, hlusta og horfa á efni sem er gott fyrir okkur og getur hjálpað okkur að þjóna Jehóva. Geturðu nefnt slíkt efni? —
Hvað er gott fyrir okkur að gera?
Ef við gerum það sem er gott er engin ástæða til að vera hrædd við illa anda. Jesús er sterkari en þeir og þeir eru hræddir við hann. Illu andarnir kölluðu einu sinni til Jesú: ,Ertu kominn til að eyða okkur?‘ (Markús 1:24) Verðum við ekki ánægð þegar Jesús eyðir Satan og illu öndunum? — Þangað til getum við treyst því að Jesús verndi okkur fyrir illum öndum ef við höldum okkur nálægt honum og himneskum föður hans.
Lesum um það sem við þurfum að gera í 1. Pétursbréfi 5:8, 9 og í Jakobsbréfinu 4:7, 8.