22. KAFLI
Af hverju er rangt að ljúga?
SEGJUM sem svo að stelpa lofi mömmu sinni að koma beint heim eftir skóla. En síðan fer hún að leika sér við vinkonur sínar og segir við mömmu sína: „Kennarinn hleypti mér ekki strax út.“ Væri það í lagi? —
Hvað gerði strákurinn af sér?
Eða segjum að strákur segði við pabba sinn: „Ég var ekki að sparka boltanum hérna inni.“ En hann gerði það samt. Væri ekki rangt af honum að segjast ekki hafa gert það? —
Kennarinn mikli benti á hvað væri rétt af okkur að gera. Hann sagði: ,Já ykkar sé já og nei sé nei. Allt annað kemur frá hinum vonda.‘ (Matteus 5:37) Hvað átti Jesús við með þessu? — Hann vill að við gerum það sem við segjumst ætla að gera.
Í Biblíunni er frásaga sem minnir á hversu mikilvægt er að segja alltaf satt. Hún fjallar um hjón sem sögðust vera lærisveinar Jesú. Við skulum athuga hvað gerðist.
Tæplega tveim mánuðum eftir dauða Jesú kemur fjöldi fólks til Jerúsalem frá fjarlægum slóðum. Fólkið ætlar að halda hátíð Gyðinga sem kallast hvítasunna. Pétur postuli heldur mjög góða ræðu og segir fólkinu frá Jesú sem Jehóva reisti upp frá dauðum. Margir sem eru gestkomandi í Jerúsalem eru að fræðast um Jesú í fyrsta skipti og langar til að vita meira. Hvað gera þeir?
Þeir dvelja lengur í Jerúsalem en þeir ætluðu. Eftir nokkurn tíma eiga sumir enga peninga eftir og þurfa að fá aðstoð til að geta keypt mat. Lærisveinarnir í Jerúsalem vilja aðstoða aðkomufólkið. Þess vegna selja margir eigur sínar og láta postula Jesú fá peningana. Síðan gefa postularnir þeim peninga sem þurfa.
Í kristna söfnuðinum í Jerúsalem eru hjón sem heita Ananías og Saffíra. Þau ákveða að selja land sem þau eiga. Enginn sagði þeim að selja það. Þau ákváðu það sjálf. En þau gera það ekki vegna þess að þeim þyki vænt um þessa nýju lærisveina Jesú. Þau vilja bara telja öðrum trú um að þau séu betri en þau eru. Þess vegna segjast þau ætla að hjálpa nýju lærisveinunum með því að gefa þeim alla peningana. En í rauninni ætla þau bara að gefa hluta af upphæðinni. Hvað finnst þér um þetta? —
Ananías kemur til postulanna og lætur þá fá peningana. En Guð veit auðvitað að hann ætlar ekki að gefa þá alla. Guð lætur því Pétur vita að Ananías sé að ljúga.
Hverju laug Ananías að Pétri?
Þá segir Pétur: ,Ananías, af hverju leyfðirðu Satan að spilla þér? Þú áttir landið. Þú þurftir ekki að selja það. Og jafnvel eftir að þú seldir landið gastu ráðið því hvað þú gerðir við peningana. En hvers vegna þykist þú gefa alla peningana fyrst þú ætlar aðeins að gefa hluta þeirra? Með því að gera þetta lýgurðu ekki bara að okkur heldur líka að Guði.‘
Það sem Ananías gerði var mjög alvarlegt. Hann laug! Hann gerði ekki það sem hann sagðist hafa gert. Hann þóttist bara gera það. En Biblían segir svo hvað gerist næst: ,Þegar Ananías heyrir þetta, dettur hann niður og deyr.‘ Þannig refsar Guð Ananíasi. Stuttu seinna er lík hans borið út og jarðað.
Hvað kom fyrir Ananías af því að hann laug?
Um þrem tímum seinna kemur Saffíra inn. Hún veit ekki hvað kom fyrir manninn hennar. Pétur spyr hana því: ,Selduð þið landið fyrir sömu upphæð og þið létuð okkur fá?‘
,Já, við seldum landið fyrir þá upphæð,‘ svarar Saffíra. En það er lygi! Þau héldu hluta af upphæðinni fyrir sig. Guð lætur því Saffíru deyja líka. — Postulasagan 5:1-11.
Hvað getum við lært af því sem kom fyrir Ananías og Saffíru? — Við lærum að Guði er illa við lygara. Hann vill að við segjum alltaf satt. En margir segja að það sé í lagi að ljúga. Heldurðu að það sé rétt hjá þeim? — Vissirðu að allir sjúkdómar, allar þjáningar og dauðinn urðu til vegna lygi? —
Hver var fyrstur til að ljúga, að sögn Jesú, og hvaða afleiðingar hafði það?
Þú manst kannski að Satan laug að fyrstu konunni, Evu. Hann sagði henni að hún myndi ekki deyja þó að hún óhlýðnaðist Guði og borðaði ávöxtinn sem Guð hafði bannað henni. Eva trúði Satan, tók ávöxt af trénu og át og hún fékk Adam til að gera það líka. Þannig urðu þau syndug og öll börnin þeirra fæddust syndarar og þurftu því að þjást og deyja. Hvernig byrjuðu öll vandamál mannanna? — Þau byrjuðu með einni lygi.
Það er skiljanlegt að Jesús skuli hafa kallað Satan ,lygara og föður lyginnar‘. Hann var sá fyrsti sem laug. Sá sem lýgur er því að líkja eftir Satan. Við ættum að hugsa um það þegar okkur finnst freistandi að ljúga. — Jóhannes 8:44.
Hvenær gæti þér fundist freistandi að segja ósatt? — Er það ekki þegar þú hefur gert eitthvað af þér? — Kannski hefurðu brotið eitthvað alveg óvart. Ef einhver spyr þig, ættirðu þá að segja að bróðir þinn eða systir hafi gert það? Eða ættirðu kannski að láta eins og þú vitir ekki hvernig það gerðist? —
Hvenær gæti þér fundist freistandi að segja ósatt?
Segjum að þú hafir átt að læra heima en ekki lokið við það. Ættirðu að segjast vera búinn að læra heima þótt þú sért ekki búinn að því? — Við ættum að muna eftir Ananíasi og Saffíru. Þau sögðu ekki allan sannleikann. Guð sýndi hversu alvarlegt það var með því að láta þau deyja.
Við ættum aldrei að ljúga því að það gerir aðeins illt verra og við ættum ekki heldur að segja bara hálfan sannleikann. Biblían segir: „Talið sannleika.“ Hún segir líka: „Ljúgið ekki hver að öðrum.“ Jehóva segir alltaf satt og hann ætlast til þess að við gerum það líka. — Efesusbréfið 4:25; Kólossubréfið 3:9.
Við ættum alltaf að segja satt. Það kemur fram í 2. Mósebók 20:16; Orðskviðunum 6:16-19; 12:19; 14:5; 16:6 og Hebreabréfinu 4:13.