KAFLI 2
Af hverju er varasamt að leyna sambandinu?
Jessica var í klípu. Þetta byrjaði allt þegar Jeremy, bekkjarfélagi hennar, fór að sýna henni áhuga. „Hann var mjög sætur og vinkonur mínar sögðu að hann væri ótrúlega góður strákur. Margar stelpur voru búnar að reyna við hann en hann hafði engan áhuga á þeim. Hann vildi bara mig.“
Áður en langt um leið spurði Jeremy hvort hún vildi byrja með sér. Jessica útskýrði fyrir honum að hún væri vottur Jehóva og mætti ekki vera með strák sem hefði aðra trú. „En þá fékk Jeremy hugmynd,“ segir hún. „Hann spurði hvort við gætum ekki bara verið saman án þess að láta foreldra mína vita.“
HVAÐ myndirðu gera ef einhver sem þú værir hrifin(n) af myndi spyrja þig að þessu sama? Það kemur þér kannski á óvart að Jessica samþykkti tillögu Jeremy. „Ég var viss um að ef við værum saman gæti ég fengið hann til að elska Jehóva,“ segir hún. Hvað gerðist? Við komumst að því seinna í kaflanum. En fyrst skulum við athuga hvernig sumir festast í þeirri snöru að eiga kærasta eða kærustu í leyni.
Af hverju fela þau sambandið?
Af hverju eiga sumir kærasta eða kærustu í leyni? Ungur maður, sem heitir Davíð, segir einfaldlega: „Þeir vita að foreldrarnir samþykkja þetta ekki þannig að þeir segja þeim bara ekki frá því.“ Jane bendir á aðra ástæðu: „Það er ákveðin uppreisn fólgin í því að leyna sambandinu. Ef unglingum finnst ekki komið fram við sig eins og þeir séu orðnir fullorðnir gera þeir bara það sem þá langar til og sleppa að segja foreldrunum frá því.“
Detta þér í hug aðrar ástæður fyrir því að sumir freistast til að eiga kærasta eða kærustu í leyni? Skrifaðu þær hér fyrir neðan.
․․․․․
Þú veist auðvitað að í Biblíunni er þess krafist að þú hlýðir foreldrum þínum. (Efesusbréfið 6:1) Og ef foreldrarnir vilja ekki að þú eigir kærasta eða kærustu hljóta þeir að hafa góðar ástæður fyrir því. Það er samt ekkert skrítið þótt þú farir að hugsa eitthvað á þessa leið:
● Mér finnst ég vera svo út undan af því að allir eiga kærasta eða kærustu nema ég.
● Ég er hrifin(n) af einhverjum sem hefur aðra trú en ég.
● Mig langar til að byrja með einhverjum í söfnuðinum þótt ég hafi ekki aldur til að giftast.
Þú veist líklega hvað foreldrar þínir myndu segja við slíkum hugleiðingum. Og innst inni veistu að þeir hafa á réttu að standa. En á hinn bóginn líður þér kannski eins og stelpu sem heitir Manami. Hún segir: „Það er þrýst svo mikið á mann að byrja með einhverjum að ég fer stundum að efast um afstöðu mína. Nú á dögum finnst krökkum alveg óhugsandi að eiga ekki kærasta eða kærustu. Og það er heldur ekkert gaman að vera bara einn.“ Sumir í svipaðri stöðu hafa þess vegna byrjað með einhverjum án þess að segja foreldrum sínum frá því. Hvernig þá?
„Okkur var sagt að halda þessu leyndu“
Til að halda sambandinu leyndu verður ekki komist hjá því að beita einhverjum blekkingum. Sumum tekst það með því að tala aðallega saman í gegnum símann eða Netið. Opinberlega eru þau bara vinir en tölvupósturinn, símtölin og SMS-skilaboðin segja allt aðra sögu.
Önnur lúmsk aðferð er að hittast í hópi til þess að tvö úr hópnum geti verið saman. Jakob segir: „Einu sinni fékk ég boð um að hitta vini mína á ákveðnum stað en svo komumst við að því að þetta hafði allt verið skipulagt svo að tvö úr hópnum gætu verið saman. Okkur var sagt að halda þessu leyndu.“
Eins og Jakob bendir á heldur fólk oft sambandinu leyndu með hjálp vina. „Oft veit að minnsta kosti einn vinur um sambandið en ákveður að segja engum frá því til að vera ekki sá sem kjaftaði frá,“ segir Carol. Stundum er fólk hreint og beint óheiðarlegt til að halda sambandinu leyndu. Beth er 17 ára og hún segir: „Margir ljúga að foreldrum sínum um hvert þeir séu að fara.“ Misaki, sem er 19 ára, gerði einmitt það. „Ég varð að vanda mig þegar ég bjó til sögur,“ segir hún. „Ég passaði mig á því að ljúga ekki til um neitt annað en það sem snerti samband mitt við kærastann svo að ég myndi ekki missa traust foreldra minna.“
Hverjar eru hætturnar?
Ef þér finnst freistandi að halda sambandinu leyndu — eða þú gerir það nú þegar — þarftu að spyrja þig tveggja spurninga:
Hvað hefur það í för með sér? Hafið þið hugsað ykkur að giftast á næstunni? „Að vera í sambandi án þess að ætla sér að giftast er eins og að auglýsa eitthvað sem maður ætlar ekki að selja,“ segir Elvar sem er 20 ára. Hver er afleiðingin? Í Orðskviðunum 13:12 segir: „Löng eftirvænting gerir hjartað sjúkt.“ Viltu virkilega valda þeim sem þér þykir vænt um hjartasorg? Og það er annað sem þú þarft að hafa í huga. Ef þú heldur sambandinu leyndu ferðu á mis við kærleiksríka hjálp foreldra þinna og annarra fullorðinna sem gætu gefið þér góð ráð. Og þá er meiri hætta á að þú gerist sekur um kynferðislegt siðleysi. — Galatabréfið 6:7.
Hvað finnst Jehóva Guði um það sem ég er að gera? Í Biblíunni segir: „Allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum við reikningsskil að gera.“ (Hebreabréfið 4:13) Jafnvel þótt þú reynir að leyna sambandi þínu — eða þá vinar þíns eða vinkonu — veit Jehóva samt um það. Og ef þú beitir blekkingum hefurðu ástæðu til að hafa áhyggjur. Jehóva hefur sterkar skoðanir á lygum. Eitt af því sem hann hatar mest er „lygin tunga“. — Orðskviðirnir 6:16-19.
Að binda enda á leyndina
Ef þú ert í leynilegu samband væri mjög skynsamlegt af þér að tala við foreldra þína eða þroskað trúsystkini. Og ef vinur eða vinkona heldur sambandi sínu leyndu skaltu ekki taka þátt í því með því að hjálpa honum eða henni að hylma yfir það. (1. Tímóteusarbréf 5:22) Hvernig myndi þér líða ef sambandið hefði skaðlegar afleiðingar? Bærirðu ekki að minnsta kosti einhverja ábyrgð?
Lýsum þessu með dæmi: Segjum að vinur þinn sé með sykursýki en sé að háma í sig nammi í laumi. Hvað ef þú kæmist að þessu en vinur þinn sárbændi þig um að segja engum frá? Hvort fyndist þér vera mikilvægara — að hylma yfir með vini þínum eða gera eitthvað í málinu sem gæti hugsanlega bjargað lífi hans?
Þú ert í svipaðri aðstöðu ef þú veist um einhvern sem heldur sambandi sínu leyndu. Hafðu ekki áhyggjur af því að þú eyðileggir vinskapinn fyrir fullt og allt. Sannur vinur sér með tímanum að þú gerðir það sem var honum fyrir bestu. — Sálmur 141:5.
Munurinn á leynd og næði
Að sjálfsögðu er ekki alltaf um blekkingu að ræða ef fólk vill halda sambandinu leyndu. Segjum til dæmis að ungur maður og ung kona vilji kynnast betur en vilji ekki að allir viti það til að byrja með. Tómas segir: „Þau langar kannski ekki til að vera strítt með spurningum eins og: ,Hvenær á svo að gifta sig‘?“
Óviðeigandi þrýstingur frá öðrum getur vissulega haft slæm áhrif. (Ljóðaljóðin 2:7) Margir velja þess vegna að hafa ekki hátt um sambandið í byrjun. (Orðskviðirnir 10:19) „Þetta veitir ungum manni og ungri konu tíma til að finna út hvort það sé framtíð í sambandinu eða ekki,“ segir Anna sem er 20 ára. „Og ef svo er, þá gera þau það opinbert.“
Á hinn bóginn væri rangt af þér að segja hvorki foreldrum þínum frá sambandinu né foreldrum þess sem þú er með. Ef þú getur ekki talað opinskátt við þau um þessi mál ættirðu að spyrja þig af hverju. Er það af því að þú veist innst inni að foreldrar þínir hafa gildar ástæður til að andmæla sambandinu?
„Ég vissi hvað ég þurfti að gera“
Jessica, sem minnst var á í upphafi kaflans, skipti um skoðun varðandi samband sitt við Jeremy þegar hún heyrði reynslu systur í söfnuðinum sem var í svipaðri stöðu. „Eftir að ég heyrði að hún hafði slitið sambandi sínu vissi ég hvað ég þurfti að gera,“ segir Jessica. Var það auðvelt? Nei! „Þetta var eini strákurinn sem ég hafði nokkurn tíma verið hrifin af,“ segir hún. „Ég grét á hverjum degi í margar vikur.“
En Jessica vissi að hún elskaði Jehóva. Og þótt hún hefði tekið nokkur feilspor vildi hún innilega gera það sem var rétt. Með tímanum dró úr sársaukanum eftir sambandsslitin. „Núna er samband mitt við Jehóva betra en nokkru sinni fyrr,“ segir hún. „Ég er svo þakklát fyrir að hann skuli veita okkur þær leiðbeiningar sem við þurfum á réttum tíma.“
Þú ert tilbúin(n) í samband og þú hefur fundið einhvern sem þér líkar við. En hvernig veistu hvort þið passið nógu vel saman?
LYKILRITNINGARSTADUR
„[Ég] vil í öllum greinum breyta vel.“ — Hebreabréfið 13:18.
RÁÐ
Það er auðvitað óþarfi að segja öllum í heiminum að þið séuð saman. Segið samt þeim sem hafa rétt á að vita það, en það eru fyrst og fremst foreldrar ykkar.
VISSIR ÞÚ . . .?
Sambönd, sem endast, byggja á trausti. Ef þú átt kærasta eða kærustu í leyni ertu að bregðast trausti foreldra þinna og grafa undan sambandinu við þann sem þú ert með.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ef ég er með einhverjum úr söfnuðinum og held sambandinu leyndu ætla ég að ․․․․․
Ef vinur minn eða vinkona er með einhverjum og heldur sambandinu leyndu ætla ég að ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Renndu aftur yfir feitletruðu setningarnar á bls. 22. Er einhver af þeim sem lýsir því hvernig þér líður stundum?
● Hvernig geturðu brugðist við slíkum hugsunum og tilfinningum án þess að byrja með einhverjum í leyni?
● Hvað myndirðu gera ef þú vissir að vinur þinn eða vinkona væri með einhverjum en héldi sambandinu leyndu? Hvers vegna myndirðu bregðast þannig við?
[Innskot á bls. 27]
„Ég hætti með stráknum sem ég var með í leyni. Það var auðvitað mjög erfitt að fara aftur í skólann og þurfa að sjá hann á hverjum degi. En Jehóva Guð sér hlutina í stærra samhengi en við. Við verðum bara að treysta honum.“ — Jessica
[Mynd á bls. 25]
Að hylma yfir með vini eða vinkonu sem er í leynilegu sambandi er eins og að hylma yfir með sykursjúkum vini sem hámar í sig nammi í laumi.