KAFLI 7
Hvað ef mér líkar ekki útlit mitt?
Ertu oft óánægð(ur) með það hvernig þú lítur út?
□ Já □ Nei
Hefurðu einhvern tíma hugleitt að fara í lýtaaðgerð eða á strangan matarkúr til að laga eitthvað sem þér líkar ekki?
□ Já □ Nei
Hverju myndirðu breyta ef þú gætir? (Dragðu hring utan um svörin.)
Hæð
Þyngd
Líkamsvexti
Hári
Húð
Rödd
EF ÞÚ svaraðir fyrstu tveimur spurningunum játandi og dróst hring utan um þrjá eða fleiri möguleika í þriðju spurningunni skaltu samt líta á björtu hliðarnar: Það eru góðir möguleikar á því að aðrir sjái þig ekki í sama neikvæða ljósinu. Það er auðvelt að fara yfir strikið og hafa of miklar áhyggjur af útlitinu. Ein könnun leiddi meira að segja í ljós að ungar konur hafa oft meiri áhyggjur af því að þyngjast en af kjarnorkustríði, krabbameini eða jafnvel foreldramissi.
Það er engin spurning að útlitið getur haft áhrif á það hvernig maður lítur á sjálfan sig — og hvernig aðrir koma fram við mann. „Þegar ég var að alast upp voru báðar eldri systur mínar ótrúlega fallegar en ég var sú þybbna,“ segir Maritza sem er 19 ára. „Það var gert grín að mér í skólanum. Og til að bæta gráu ofan á svart kallaði frænka mín mig ,Chubs‘ [bollu] sem var nafnið á litla, bústna hundinum hennar!“ Júlía, 16 ára, hefur svipaða sögu að segja: „Stelpa í skólanum stríddi mér og sagði að ég væri með ,kanínutennur‘. Jafnvel þótt þetta væri ekkert stórmál leið mér samt illa og ég er enn í dag frekar óánægð með tennurnar mínar.“
Áhyggjur eða þráhyggja?
Það er ekkert rangt við það að vera umhugað um útlit sitt. Í Biblíunni er meira að segja farið fögrum orðum um útlit nokkurra kvenna og karla, þar á meðal Söru, Rakelar, Jósefs, Davíðs og Abígail. Og Biblían segir jafnvel að kona, sem hét Abísag, hafi verið „forkunnarfögur“. — 1. Konungabók 1:4.
En margir unglingar eru með útlitið á heilanum. Sumar stelpur trúa því til dæmis að til að vera aðlaðandi verði þær að vera mjóar. Og þvengmjóar ofurfyrirsætur í auglýsingum glanstímarita virðast sannarlega styðja þá hugmynd. Sú staðreynd gleymist að þessar „fullkomnu“ myndir er búið að fínpússa og laga í tölvu og að glæsilegu fyrirsæturnar verða nánast að svelta sig í hel til að halda vextinum. En samt sem áður gæti þér liðið illa þegar þú berð þig saman við það sem þú sérð í tímaritum. Hvað geturðu gert ef þér finnst þú hafa ástæðu til að vera óánægð(ur) með útlit þitt? Í fyrsta lagi verðurðu að sjá þig raunsæjum augum.
Brengluð sjálfsmynd?
Hefurðu einhvern tíma horft í spegil sem afbakar spegilmynd þína? Þá gætirðu hafa virst annaðhvort stærri eða minni en þú ert í raun og veru. Hvort heldur sem er var spegilmyndin brengluð.
Á svipaðan hátt hafa margir unglingar brenglaða sjálfsmynd. Tökum dæmi: Samkvæmt könnun nokkurri sögðust 58 prósent stúlkna vera of þungar þegar aðeins 17 prósent þeirra voru það í raun og veru. Önnur könnun sýndi fram á að 45 prósent kvenna undir kjörþyngd fannst þær of þungar.
Sumir sérfræðingar segja að flestar stúlkur, sem hafa áhyggjur af þyngdinni, hafi enga ástæðu til þess. En það er kannski engin huggun í því ef þú ert í raun og veru í þyngri kantinum. Ef svo er hver gæti þá ástæðan verið?
Genin gætu haft sitt að segja. Sumir eru grannvaxnir að eðlisfari. En ef genin þín segja til um að þú eigir að hafa þéttari vöxt og meiri líkamsfitu er þér einfaldlega ekki ætlað að vera grannvaxinn. Jafnvel þótt þú sért í kjörþyngd líturðu sennilega út fyrir að vera þyngri en þú vilt. Hreyfing og mataræði getur hjálpað en að mestu leyti siturðu uppi með þá líkamsbyggingu sem þú hefur fengið að erfðum.
Annað sem gæti spilað inn í eru eðlilegar breytingar unglingsáranna. Á kynþroskaaldrinum fer líkamsfita stelpna úr 8 prósentum í um 22 prósent. En oft breytist vöxturinn með tímanum. Þybbin 11 eða 12 ára stelpa verður kannski lögulegur táningur eftir kynþroskann. En hvað ef vaxtarlag þitt orsakast af slæmu mataræði eða of lítilli hreyfingu? Hvað ef þú verður að léttast heilsunar vegna?
Vertu öfgalaus
Biblían hvetur okkur til að vera „hófsöm í venjum“. (1. Tímóteusarbréf 3:11, New World Translation) Passaðu þig að sleppa ekki máltíðum eða fara út í öfgar í megrun. Besta leiðin til að léttast gæti verið að tileinka sér hollar matarvenjur og fá hæfilega hreyfingu.
Það er engin ástæða til að elta vinsælustu megrunarkúrana. Tökum megrunarpillur sem dæmi. Þær geta dregið úr matarlystinni um tíma en fljótlega venst líkaminn þeim og matarlystin kemur aftur. Líkaminn gæti líka hægt á brennslunni og þú þyngst samt sem áður. Og þá eru ónefndar allar aukaverkanirnar sem sumir finna fyrir eins og svima, háum blóðþrýstingi og kvíðaköstum auk þess sem hægt er að verða háður þessum pillum. Hið sama er að segja um pillur sem eru vatnslosandi eða auka brennsluna.
Ef þú reynir á hinn bóginn að temja þér hollt mataræði og hreyfir þig reglulega stuðlarðu að því að þú lítir sem best út og að þér líði vel. Hæfileg hreyfing nokkrum sinnum í viku getur bætt heilsuna svo um munar. Eitthvað jafn einfalt og rösk ganga eða að labba upp og niður stiga getur verið nóg.
Varaðu þig á lystarstoli!
Sumir unglingar hafa leiðst út í lystarstol (anorexíu) eftir að hafa reynt að léttast. Lystarstol er lífshættuleg átröskun sem felst í raun í því að svelta sig. Masami hefur fengið hjálp í fjóra mánuði til að takast á við lystarstol. Hún segir: „Þegar fólk segir að ég líti vel út hugsa ég með mér: Það hlýtur að vera af því að ég er að fitna. Þegar mér líður svona græt ég innra með mér og hugsa: Ég vildi að ég gæti lést aftur og orðið eins og ég var fyrir fjórum mánuðum.“
Lystarstol getur þróast á mjög lúmskan hátt. Ung stúlka fer ef til vill í sakleysislega megrun, kannski bara til að ná af sér örfáum kílóum. En þegar hún nær takmarki sínu er hún ekki ánægð. „Ég er enn of feit,“ segir hún og horfir með vanþóknun í spegilinn. Því ákveður hún að losa sig við nokkur kíló í viðbót. Og síðan aðeins fleiri. Og aðeins fleiri. Lystarstol getur sprottið af þessu hegðunarmynstri.
Ef þú ert með einkenni lystarstols eða annarrar átröskunar þarftu að fá hjálp. Talaðu við foreldra þína eða annan fullorðinn einstakling sem þú treystir. Orðskviður í Biblíunni segir: „Vinur lætur aldrei af vináttu sinni, í andstreymi reynist hann sem bróðir.“ — Orðskviðirnir 17:17.
Hvað er sönn fegurð?
Á heildina litið leggur Biblían mjög litla áherslu á ytra útlit og vaxtarlag. Það er hinn innri maður sem sker úr um það hvort við erum aðlaðandi í augum Guðs eða ekki. — Orðskviðirnir 11:20, 22.
Tökum Absalon sem dæmi en hann var sonur Davíðs konungs. Í Biblíunni segir: „Í öllum Ísrael var enginn eins dáður fyrir glæsimennsku og Absalon. Hann var lýtalaus frá hvirfli til ilja.“ (2. Samúelsbók 14:25) Samt var þessi ungi maður svikull. Stolt og metnaður varð til þess að hann reyndi að hrifsa til sín völdin af útnefndum konungi Jehóva. Biblían gefur því ekki fagra mynd af Absalon heldur lýsir honum sem blygðunarlausum, sviksömum, grimmum og hatursfullum manni.
Kjarni málsins er sá að Jehóva „vegur hjörtun“ — ekki mittismál stelpna eða upphandleggsvöðva stráka. (Orðskviðirnir 21:2) Þótt það sé ekkert að því að vilja líta vel út er mun mikilvægara að huga að persónuleikanum heldur en útlitinu. Til langs tíma litið munu eiginleikar Guði að skapi gera þig mun meira aðlaðandi í augum annarra heldur en stæltir vöðvar eða flatur magi.
LESTU MEIRA UM ÞETTA EFNI Í KAFLA 10 Í 1. BINDI BÓKARINNAR
Margt ungt fólk glímir við langvarandi veikindi eða fötlun. Ef það á við um þig hvernig geturðu þá tekist á við aðstæðurnar?
LYKILRITNINGARSTAÐUR
„Maðurinn sér hið ytra en Drottinn horfir á hjartað.“ — 1. Samúelsbók 16:7.
RÁÐ
Ef þú ert að reyna að léttast . . .
● Slepptu ekki morgunmatnum. Ef þú gerir það gæti svengdin orðið til þess að þú borðir meira en þú myndir annars gera.
● Drekktu stórt glas af vatni fyrir hverja máltíð. Það dregur úr matarlystinni og hjálpar þér að hafa stjórn á því hve mikið þú borðar.
VISSIR ÞÚ . . .?
Sumir sérfræðingar segja að ef maður svelti sig til að léttast geti líkaminn brugðist við eins og um hungursneyð sé að ræða. Þá hægir á brennslunni og maður bætir fljótt á sig aftur því sem maður missti.
HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?
Ég get hugsað betur um heilsuna með því að ․․․․․
Hæfileg hreyfing fyrir mig felur í sér að ․․․․․
Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․
HVAÐ FINNST ÞÉR?
● Hvað finnst þér um þitt eigið útlit?
● Hvað geturðu gert, innan skynsamlegra marka, til að bæta útlitið?
● Hvað gætirðu sagt við vin eða vinkonu sem er komin með átröskun?
● Hvernig geturðu hjálpað yngra systkini að sjá útlit sitt í réttu ljósi?
[Innskot á blaðsíðu 69]
„Lengi vel var mér strítt á því hvað ég er með stór augu. Ég lærði að hlæja af þessu en líka að vera örugg með sjálfa mig og mínar sterku hliðar. Ég er orðin sátt við útlit mitt. Ég tek sjálfri mér eins og ég er.“ — Amber
[Mynd á bls. 68]
Sjálfsmynd þín getur verið eins og brengluð spegilmynd.