Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • yp2 kafli 30 bls. 246-252
  • Ætti ég að spila tölvuleiki?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Ætti ég að spila tölvuleiki?
  • Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Skuggahliðin
  • Af hverju skiptir val þitt máli?
  • Hvaða leik ætti ég að velja?
  • Vandaðu valið
  • Ætti ég að spila tölvuleiki?
    Vaknið! – 2008
  • Hvað ætti ég að vita um tölvuleiki?
    Ungt fólk spyr
  • Ætti ég að spila tölvuleiki?
    Vaknið! – 1997
  • Stafar nokkur hætta af hlutverkaleikjum?
    Vaknið! – 2000
Sjá meira
Spurningar unga fólksins — svör sem duga, 2. bindi
yp2 kafli 30 bls. 246-252

KAFLI 30

Ætti ég að spila tölvuleiki?

„TÖLVULEIKIR eru spennandi og skemmtilegir,“ segir strákur sem heiti Brian. „Það er hægt að gera ýmislegt í tölvuleikjum sem maður myndi aldrei gera í alvörunni — allavega ekki án þess að lenda í klandri.“ Deborah segist líka hafa gaman af því að spila tölvuleiki. En hún bætir við í varnaðartón: „Það getur verið ótrúlega tímafrekt að spila þá, næstum því vanabindandi.“

Tölvuleikir eru meira en bara háþróuð afþreying. Þeir reyna á hæfni þína og þú getur drepið tímann með því að spila þá. En þeir gera meira en það. Tölvuleikir geta þjálfað viðbragðshraða fólks. Sumir þeirra bæta jafnvel stærðfræði- og lestrarkunnáttu. Þar að auki er líklegt að skólafélagarnir tali um nýjasta tölvuleikinn í frímínútunum og ef þú hefur spilað hann hefurðu líka eitthvað til að tala um.

Ef þú leitar vandlega ættirðu að sjálfsögðu að geta fundið leik sem er bæði spennandi og viðeigandi. En hvers vegna þarftu samt að vera á varðbergi?

Skuggahliðin

Því miður eru ekki allir tölvuleikir skaðlaus skemmtun. Margir af tölvuleikjum nútímans halda á lofti því sem Biblían kallar „holdsins verk“ — óhreinum athöfnum sem Guð fordæmir. — Galatabréfið 5:19-21.

Adrian, sem er 18 ára, lýsir einum vinsælum leik og segir að í honum sé að finna „bardaga milli glæpaflokka, eiturlyfjaneyslu, opinskátt kynlíf, klúrt orðbragð, miskunnarlaust ofbeldi, blóð og viðbjóð“. Sumir leikir fegra spíritisma. Og hver ný útgáfa er svæsnari en sú fyrri. Hægt að spila marga þessara ofbeldisfullu tölvuleikja á Netinu. Þetta færir tölvuleikinn á allt annað plan. James, sem er 19 ára, segir: „Maður getur setið heima við tölvuna og keppt við fólk sem býr hinum megin á hnettinum.“

Hlutverkaleikir á Netinu hafa náð gífurlegum vinsældum. Þátttakendur geta skipt þúsundum en þeir búa sér til tölvupersónur — manneskjur, dýr eða sambland af hvoru tveggja — sem búa í sýndarheimi á Netinu. Í þessum sýndarheimi er að finna búðir, bíla, heimili, skemmtistaði og vændishús. Þetta er á margan hátt eftirlíking af veruleikanum. Þátttakendur í þessum leikjum geta sent hverjir öðrum textaskilaboð um leið og tölvupersónur þeirra eigast við.

Mafíumenn, melludólgar, vændiskonur, fjárkúgarar, peningafalsarar og leigumorðingjar eru aðeins nokkrar af þeim andstyggilegu persónum sem finna má í þessum tölvuheimum. Þátttakendur geta gert hluti sem þeir myndu aldrei gera í veruleikanum. Aðeins með því að þrýsta á nokkra hnappa geta þátttakendur látið tölvupersónurnar stunda kynlíf og um leið talað um kynlíf við raunverulega þátttakandann með textaskilaboðum. Í sumum leikjum geta þátttakendur stundað kynlífsathafnir með tölvupersónum sem líkjast börnum. Gagnrýnendur eru skiljanlega áhyggjufullir yfir því að fólki skuli detta í hug að búa til leiki þar sem hægt er að stunda svo afbrigðilegt hátterni.

Af hverju skiptir val þitt máli?

Þeir sem spila ofbeldisfulla leiki eða leiki þar sem kynlíf er sýnt opinskátt gætu sagt: „Það er enginn skaði skeður. Þetta er ekki í alvörunni. Þetta er bara leikur.“ En láttu ekki svona rökfærslu blekkja þig.

Í Biblíunni segir: „Jafnvel má þekkja af verkum barnsins hvort athafnir þess eru hreinar og einlægar.“ (Orðskviðirnir 20:11) Geturðu sagt að þú sért hreinn og einlægur ef þú spilar ofbeldisfulla og siðlausa leiki? Rannsóknir sýna að það eykur á árásarhneigð fólks að horfa á ofbeldisfullt skemmtiefni. Sumir sérfræðingar segja jafnvel að tölvuleikir hafi sterkari áhrif en sjónvarpsefni af því að þar ertu þátttakandi en ekki bara áhorfandi.

Að spila ofbeldisfulla eða siðlausa tölvuleiki er eins og að leika sér að geislavirkum úrgangi. Þótt skaðinn komi ekki strax í ljós er hann óhjákvæmilegur. Hvernig þá? Geislavirkni í stórum skömmtum eyðileggur magaslímhúðina og gerir að verkum að bakteríur frá innyflunum komast inn í blóðrásina og sýkja mann. Að sama skapi geta áhrifin af grófu ofbeldi og kynlífi gert okkur siðblind og ,tilfinningalaus‘ og leyft holdlegum löngunum að ná tökum á hugsunum okkar og gerðum. — Efesusbréfið 4:19; Galatabréfið 6:7, 8.

Hvaða leik ætti ég að velja?

Ef foreldrar þínir leyfa þér að spila tölvuleiki hvernig geturðu þá vitað hvaða leiki þú átt að velja og hversu mikinn tíma þú átt að nota í þá? Spyrðu þig eftirfarandi spurninga:

Hefur val mitt áhrif á það hvernig Jehóva lítur á mig? „Drottinn prófar þann réttláta, en hans sála hatar þann óguðlega og þann, sem elskar ofbeldi,“ segir í Sálmi 11:5. (Biblían 1859) Auk þess segir Biblían um þá sem taka þátt í dulrænum athöfnum: „Hver sem stundar þetta er Drottni viðurstyggð.“ (5. Mósebók 18:10-12) Ef við viljum vera vinir Guðs verðum við að fylgja ráðleggingunni í Sálmi 97:10: „Hatið illt.“

Hvaða áhrif myndi leikurinn hafa á hugarfar mitt? Spyrðu þig: Mun það verða auðveldara eða erfiðara fyrir mig að ,flýja saurlifnaðinn‘ ef ég spila þennan leik? (1. Korintubréf 6:18, Biblían 1981) Leikir, sem sýna kynferðislega örvandi myndir eða bjóða upp á þess konar samtöl, eiga ekki eftir að auðvelda þér að hugfesta það sem er rétt, hreint og dyggðugt. — Filippíbréfið 4:8.

Hve miklum tíma mun ég eyða í að spila þennan leik? Meira að segja saklausustu leikir geta tekið mikinn tíma. Skráðu því hjá þér hve mikill tími fer í að spila tölvuleiki. Tekur það tíma frá mikilvægari málum? Ef þú fylgist með því í hvað tíminn fer getur það hjálpað þér að forgangsraða rétt. — Efesusbréfið 5:16.

Að sjálfsögðu fer Biblían ekki fram á að þú notir hverja einustu mínútu til náms eða vinnu. Hún bendir okkur öllu heldur á að það hafi sinn tíma að „hlæja . . . og að dansa“. (Prédikarinn 3:4) Hafðu í huga að dans felur í sér hreyfingu. Hvers vegna ekki að nota eitthvað af frítímanum í leiki sem fela í sér hreyfingu í stað þess að sitja alltaf fyrir framan tölvuna?

Vandaðu valið

Það getur vissulega verið skemmtilegt að spila tölvuleiki, sérstaklega ef maður er orðinn fær. Það er einmitt þess vegna sem það er nauðsynlegt að vanda valið á leikjum. Hugleiddu þetta. Í hvaða fögum stendur þú þig best í skólanum? Eru það ekki yfirleitt fögin sem þú hefur gaman af? Oft er það þannig að því skemmtilegra sem manni finnst ákveðið fag því meiri áhrif hefur það á mann. En þá er spurningin: Hvaða tölvuleikur finnst þér skemmtilegastur? Hvaða boðskapur er fólginn í honum?

Það er miklu betra að hafa kjark til að taka yfirvegaða ákvörðun um hvaða leiki þú ætlar að spila en að elta bara félagana. Umfram allt skaltu hafa í huga ráðleggingu Biblíunnar: „Metið rétt, hvað Drottni þóknast.“ — Efesusbréfið 5:10.

Í NÆSTA KAFLA

Þér finnst gaman að hlusta á tónlist og það er eðlilegt. En ertu þræll tónlistarinnar?

LYKILRITNINGARSTAÐUR

„Þér, sem elskið Drottin, hatið illt.“ — Sálmur 97:10.

RÁÐ

Skrifaðu niður á blað þá leiki sem þig langar til að spila ásamt stuttu yfirliti yfir hvert markmiðið er með leiknum og hvernig á að ná því. Berðu það svo saman við þær biblíulegu frumreglur sem hafa komið fram í þessum kafla. Þá geturðu dæmt um hvort leikurinn sé heppilegur eða ekki.

VISSIR ÞÚ . . .?

Fyrsta meðferðarstofnunin, sem er eingöngu fyrir fólk háð tölvuleikjum á Netinu, var opnuð í Amsterdam í Hollandi árið 2006.

HVAÐ ÆTLA ÉG AÐ GERA?

Ef vinur eða vinkona biður mig um að fara í tölvuleik, sem er ofbeldisfullur eða siðlaus, ætla ég að segja ․․․․․

Ég ætla að takmarka þann tíma sem ég nota til að spila tölvuleiki við ․․․․․ á viku og ég get staðið við þetta markmið með því að ․․․․․

Það sem mig langar til að spyrja foreldra mína um ․․․․․

HVAÐ FINNST ÞÉR?

● Hvaða áhrif geta tölvuleikir haft á hugarfar og tilfinningar fólks?

● Af hverju er mikilvægt að hugleiða siðferðisreglur Jehóva þegar maður velur sér tölvuleik?

● Hvernig myndirðu hjálpa yngra systkini sem er orðið háð tölvuleik sem þú veist að er slæmur?

[Innskot á bls. 249]

„Margir leikir gera mann ónæman fyrir ofbeldi, ljótu orðbragði og siðleysi og það getur orðið til þess að maður sofni auðveldlega á verðinum á öðrum sviðum lífsins. Maður þarf að gæta vel að því hvaða tölvuleiki maður velur.“ — Amy

[Mynd á bls. 250]

Að spila ofbeldisfulla eða siðlausa tölvuleiki er eins og að leika sér að geislavirkum úrgangi — þótt skaðinn komi ekki strax í ljós er hann óhjákvæmilegur.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila