Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • rj bls. 12-15
  • Snúðu aftur til hirðisins mikla

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Snúðu aftur til hirðisins mikla
  • Snúðu aftur til Jehóva
  • Svipað efni
  • „Snúið aftur til mín“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2020
  • Hann mun styrkja þig
    Syngjum af gleði fyrir Jehóva
  • Hann mun styrkja þig
    Lofsyngjum Jehóva
  • Þú ert dýrmætur í augum Jehóva
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva (námsútgáfa) – 2021
Sjá meira
Snúðu aftur til Jehóva
rj bls. 12-15

5. KAFLI

Snúðu aftur til hirðisins mikla

Í þessum bæklingi hefur verið rætt um ýmislegt sem getur gert manni erfitt fyrir að snúa aftur til Jehóva. Kannastu við eitthvað af því af eigin raun? Þú ert alls ekki einn um það. Margir trúir þjónar Guðs, bæði á biblíutímanum og nú á dögum, hafa glímt við svipaðar áskoranir. Jehóva hjálpaði þeim að sigrast á þeim og hann er líka fús til að hjálpa þér.

Jehóva styður við bakið á þér þegar þú snýrð aftur til hans.

ÞÚ MÁTT treysta að Jehóva styður við bakið á þér þegar þú snýrð aftur til hans. Hann hjálpar þér að takast á við áhyggjur, vinna úr særðum tilfinningum og öðlast þann innri frið sem fylgir hreinni samvisku. Þá vaknar eflaust með þér löngun til að þjóna Jehóva aftur með trúsystkinum þínum. Þú stendur þá í svipuðum sporum og sumir þjónar Guðs á fyrstu öld. Pétur postuli skrifaði þeim: „Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.“ – 1. Pétursbréf 2:25.

Að snúa aftur til Jehóva er það allra besta sem þú getur gert. Af hverju? Af því að þá gleður þú hjarta hans. (Orðskviðirnir 27:11) Eins og þú veist hefur Jehóva tilfinningar og við höfum áhrif á hann með því sem við gerum. Jehóva neyðir okkur auðvitað ekki til að elska sig og þjóna sér. (5. Mósebók 30:19, 20) Biblíufræðingur segir: „Það er enginn hurðarhúnn utan á hjarta mannsins. Það þarf að opna það innan frá.“ Við getum valið að opna þessar dyr með því að elska Jehóva og tilbiðja hann af öllu hjarta. Þegar við gerum það gefum við honum verðmæta gjöf – ráðvendni okkar – og þannig gleðjum við hann meira en orð fá lýst. Ekkert jafnast á við gleðina sem fylgir því að tilbiðja Jehóva eins og hann verðskuldar. – Postulasagan 20:35; Opinberunarbókin 4:11.

Óvirk systir fær hlýlegar móttökur í söfnuðinum.

Andlegri þörf þinni verður líka fullnægt þegar þú byrjar að þjóna Jehóva aftur. (Matteus 4:4) Hvernig þá? Fólk um allan heim veltir fyrir sér tilgangi lífsins. Það þyrstir í svör við spurningum um lífið og tilvist mannsins. Jehóva áskapaði manninum þessa andlegu þörf. Hann skapaði okkur þannig að það veitir okkur lífsfyllingu að þjóna honum. Ekkert veitir meiri gleði en að tilbiðja Jehóva af því að við elskum hann. – Sálmur 63:2-6.

Jehóva vill að þú snúir aftur til sín. En hvernig geturðu verið viss um það? Hugleiddu þetta: Mikil vinna var lögð í að semja þennan bækling og við báðum Jehóva oft um leiðsögn. Einhver lét þig fá bæklinginn, kannski safnaðaröldungur eða annað trúsystkini. Þú last hann og efnið hreyfði við þér. Þetta sýnir að Jehóva hefur ekki gleymt þér. Hann er að draga þig blíðlega til sín. – Jóhannes 6:44.

Það er hughreystandi að vita að Jehóva gleymir aldrei þjónum sínum sem hafa villst af leið. Systir, sem heitir Donna, áttaði sig á því. Hún segir: „Ég hafði smám saman fjarlægst sannleikann en ég hugsaði oft um Sálm 139:23, 24 þar sem segir: ,Prófa mig, Guð, og þekktu hjarta mitt, rannsaka mig og þekktu hugsanir mínar og sjá þú hvort ég geng á glötunarvegi og leið mig hinn eilífa veg.‘ Ég vissi að ég átti enga samleið með heiminum – ég fann að ég átti ekki heima þar – og ég vissi að ég þyrfti að snúa aftur til safnaðar Jehóva. Það rann upp fyrir mér að Jehóva hafði aldrei yfirgefið mig, ég þurfti bara að rata aftur til hans. Ég er svo ánægð að ég skyldi gera það!“

„Það rann upp fyrir mér að Jehóva hafði aldrei yfirgefið mig, ég þurfti bara að rata aftur til hans.“

Það er einlæg bæn okkar að þú fáir líka að njóta gleðinnar sem Jehóva gefur. (Nehemíabók 8:10) Þú sérð aldrei eftir því að snúa aftur til hans.

Að snúa aftur til Jehóva – spurningar og svör

Á HVERJU BYRJA ÉG?

Óvirk systir les í Biblíunni.

Sá sem hefur átt við veikindi að stríða getur þurft tíma til að ná sér aftur á strik. Þú getur sömuleiðis styrkt þinn andlega mann smám saman með því að gefa þér að minnsta kosti smá stund á hverjum degi til að næra þig andlega. Þú þarft ekki að gera allt í einu. Þú gætir ef til vill notað nokkrar mínútur til að lesa í Biblíunni, lesa eða hlusta á upplestur úr ritunum okkar, skoða vefsetrið jw.org eða horfa á Sjónvarp Votta Jehóva á jw.org. Reyndu líka að fara á samkomu í ríkissalnum eins fljótt og þú getur. En biddu Jehóva umfram allt að hjálpa þér. „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ – 1. Pétursbréf 5:7.

„Eftir að ég varð óvirk í þjónustu Jehóva skammaðist ég mín svo að ég gat ekki einu sinni beðið til hans. Að lokum tókst mér að manna mig upp í að biðja og þá kom öldungur að máli við mig. Hann minnti mig á að Jehóva væri ekki búinn að gefast upp á mér. Öldungurinn stakk upp á að ég byrjaði á því að lesa daglega í Biblíunni. Ég gerði það og það gaf mér kraft til að byrja að sækja samkomur á ný. Svo fór ég aftur að taka þátt í boðunarstarfinu. Ég er innilega þakklát fyrir að Jehóva skyldi ekki gefast upp á mér.“ – Eeva.

HVERNIG TEKUR SÖFNUÐURINN Á MÓTI MÉR?

Þú mátt treysta að söfnuðurinn tekur hlýlega á móti þér. Bræður og systur eiga ekki eftir að vera gagnrýnin eða dæmandi. Þau sýna þér öllu heldur kærleika og gera allt sem þau geta til að hvetja þig og uppörva. – Hebreabréfið 10:24, 25.

„Ég þorði varla að láta sjá mig aftur í ríkissalnum. Ég vissi ekki hvernig mér yrði tekið. Ein af eldri systrunum, sem var í söfnuðinum þegar ég fór frá fyrir 30 árum, sagði við mig: ,Velkominn heim, vinur!‘ Það snerti mig djúpt. Ég var kominn heim.“ – Javier.

„Ég fór á samkomu í ríkissalnum og settist aftast svo að enginn tæki eftir mér. Margir könnuðust samt við mig og mundu eftir að ég hafði komið á samkomur þegar ég var yngri. Þeir heilsuðu mér hlýlega og föðmuðu mig svo innilega að ég fylltist innri friði. Mér leið eins og ég væri kominn heim.“ – Marco.

HVERNIG EIGA ÖLDUNGARNIR EFTIR AÐ HJÁLPA MÉR?

Öldungarnir taka þér vel og hrósa þér fyrir að vilja glæða þinn „fyrri kærleik“. (Opinberunarbókin 2:4) Þeir sýna þér umhyggju og hjálpa þér að leiðrétta þau mistök sem þér hafa orðið á, og þeir gera það „með hógværð“. (Galatabréfið 6:1; Orðskviðirnir 28:13) Hugsanlega biðja þeir einhvern í söfnuðinum að lesa með þér, til dæmis bækur eins og Von um bjarta framtíð eða Nálægðu þig Jehóva. Öldungarnir munu hughreysta þig og styðja skref fyrir skref. – Jesaja 32:1, 2.

„Öldungarnir reyndu að hjálpa mér þau átta ár sem ég var óvirkur. Dag nokkurn kom öldungur og sýndi mér myndir sem hann hafði tekið af okkur. Þær vöktu svo margar góðar minningar að mig langaði til að finna aftur fyrir þeirri gleði sem ég naut meðan ég þjónaði Jehóva. Öldungarnir hjálpuðu mér að komast aftur í gang í þjónustu hans.“ – Victor.

„Hann mun styrkja þig“

Tvær systur syngja saman á safnaðarsamkomu.

Í söngbókinni okkar, Syngjum af gleði fyrir Jehóva, eru margir hjartnæmir söngvar sem geta verið þér til huggunar og hvatningar þegar þú tekur upp þráðinn á ný í þjónustu Jehóva. Sem dæmi má nefna söng 38. Hann heitir „Hann mun styrkja þig“ og textinn er byggður á 1. Pétursbréfi 5:10.

  1. Að gefnu tilefni Guð kaus að kenna þér

    og kalla þig í ljósið myrkri frá.

    Hann sá þitt hjartalag, að löngunin var þar

    að leita hans og réttlætið að þrá.

    Þú hést í bæn að hlýða boðum hans,

    hann hjálparhella’ er sérhvers trúaðs manns.

  2. Guð gaf sinn kæra son, á kvalastaur hann dó,

    því kærleikann til þín hann vildi tjá.

    Hann hlífðist eigi við að færa þessa fórn

    og fús hann styrkir þig er þörf er á.

    Hann gleymir ekki góðverkum né trú

    og gaum að okkar þörfum gefur nú.

    (VIÐLAG)

    Með Jesú blóði keyptur svo Jehóva þig á.

    Hann jafnan mun þér styrk og stuðning sinn þér ljá.

    Hann leiddi þig og leiðir réttu vegunum á.

    Hann enn þá styrkir þig, mun stuðning sinn þér ljá.

Sing to Jehovah – Vocal Renditions

Hægt er að hlusta á þennan söng og fleiri sungna á erlendum tungumálum með því að fara inn á jw.org.

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila