SAGA 15
Jehóva gleymdi ekki Jósef
Á meðan Jósef var í fangelsi dreymdi faraó, konung Egyptalands, drauma sem enginn gat útskýrt. Einn af þjónum faraós sagði honum að Jósef myndi geta sagt honum hvað draumarnir þýddu. Faraó lét strax sækja Jósef.
Faraó spurði hann: ‚Getur þú útskýrt draumana fyrir mér?‘ Jósef sagði við faraó: ‚Það verður nóg af mat í Egyptalandi í sjö ár og síðan kemur hungursneyð í sjö ár. Veldu vitran mann til að safna mat svo að þjóðin deyi ekki úr hungri.‘ Faraó sagði: ‚Ég vel þig. Þú verður næstvoldugasti maðurinn í Egyptalandi.‘ Hvernig vissi Jósef hvað draumar faraós þýddu? Jehóva hjálpaði honum.
Jósef safnaði mat næstu sjö árin. Og síðan kom hungursneyð um allan heim, alveg eins og Jósef hafði sagt. Fólk kom alls staðar að til að kaupa mat hjá Jósef. Jakob pabbi hans frétti að það væri til matur í Egyptalandi. Hann sendi tíu af sonum sínum þangað til að kaupa mat.
Synir Jakobs komu til Jósefs og hann þekkti þá strax. En bræður hans þekktu hann ekki. Þeir krupu fyrir honum, alveg eins og hann hafði dreymt þegar hann var yngri. Jósef vildi vita hvort bræður hans væru enn þá jafn vondir. Hann sagði þess vegna við þá: ‚Þið eruð njósnarar. Þið viljið komast að því hvar er auðveldast að ráðast á landið okkar.‘ Þeir sögðu: ‚Nei! Við erum 12 bræður frá Kanaanslandi. Einn bróðir okkar er dáinn og yngsti bróðir okkar er heima hjá pabba.‘ Jósef sagði þá við þá: ‚Komið með yngsta bróður ykkar til mín og þá skal ég trúa ykkur.‘ Þeir fóru þá heim til pabba síns.
Þegar fjölskyldan var aftur orðin matarlaus sendi Jakob syni sína aftur til Egyptalands. Núna tóku þeir Benjamín, yngsta bróður sinn, með sér. Jósef faldi silfurbikarinn sinn í kornpoka Benjamíns og sagði síðan að þeir hefðu stolið bikarnum. Hann gerði þetta til að reyna þá. Þeir urðu hræddir þegar þjónar Jósefs fundu bikarinn í pokanum hjá Benjamín. Þeir grátbáðu Jósef um að refsa þeim í staðinn fyrir Benjamín.
Núna vissi Jósef að bræður hans höfðu breyst. Hann gat ekki haldið aftur af sér lengur. Hann fór að gráta og sagði: ‚Ég er Jósef, bróðir ykkar. Er pabbi enn þá lifandi?‘ Bræður hans voru steinhissa. Hann sagði: ‚Ekki vera leiðir yfir því sem þið gerðuð mér. Guð sendi mig hingað til að bjarga lífi ykkar. Flýtið ykkur og sækið pabba.‘
Þeir fóru heim og sögðu pabba sínum góðu fréttirnar og fóru svo með hann til Egyptalands. Jósef og pabbi hans voru loksins saman aftur eftir öll þessi ár.
„Ef þið fyrirgefið ekki öðrum það sem þeir gera á hlut ykkar mun faðir ykkar ekki heldur fyrirgefa ykkur það ranga sem þið gerið.“ – Matteus 6:15.