SAGA 28
Asni Bíleams talar
Ísraelsmennirnir voru búnir að vera í eyðimörkinni í næstum því 40 ár. Þeir voru búnir að sigra margar sterkar borgir. Núna höfðu þeir tjaldað á Móabssléttu, austan megin við Jórdanána, og það var kominn tími til að fara inn í fyrirheitna landið. Balak konungur Móabs var hræddur um að þeir myndu taka landið hans. Hann bað þess vegna mann sem hét Bíleam um að koma til Móabs og bölva Ísraelsmönnunum, en það þýðir að segja að eitthvað illt komi fyrir þá.
En Jehóva sagði við Bíleam: ‚Þú mátt ekki bölva Ísraelsmönnunum.‘ Bíleam neitaði þess vegna að fara. Balak konungur bað hann aftur um að koma og lofaði að gefa honum hvað sem hann vildi. En Bíleam neitaði enn þá að fara. Þá sagði Guð við hann: ‚Þú mátt fara, en þú mátt bara segja það sem ég segi þér.‘
Bíleam settist á asnann sinn og hélt af stað suður til Móab. Hann ætlaði að bölva Ísraelsmönnunum þó að Jehóva hafi verið búinn að banna honum það. Engill Jehóva birtist þrisvar sinnum á veginum. Bíleam gat ekki séð engilinn en asninn hans sá hann. Fyrst fór asninn út af veginum og inn á akur. Síðan fór asninn upp að steinvegg og klemmdi fótinn á Bíleam upp við veginn. Og í síðasta skiptið lagðist asninn niður á miðjum veginum. Í hvert sinn barði Bíleam asnann með priki.
Eftir þriðja skiptið lét Jehóva asnann tala. Asninn spurði Bíleam: ‚Af hverju ertu alltaf að lemja mig?‘ Bíleam svaraði: ‚Þú gerðir mig að fífli. Ég hefði drepið þig ef ég væri með sverð.‘ Asninn sagði: ‚Ég hef borið þig í mörg ár. Hef ég einhvern tíma hegðað mér svona áður?‘
Þá lét Jehóva Bíleam sjá engilinn. Engillinn sagði: ‚Jehóva varaði þig við því að bölva Ísrael.‘ Bíleam sagði: ‚Það sem ég gerði er rangt. Ég skal fara aftur heim.‘ En engillinn sagði: ‚Þú mátt fara til Móabs. En þú mátt bara segja það sem Jehóva segir þér.‘
Lærði Bíleam eitthvað af þessu? Nei. Eftir þetta reyndi Bíleam þrisvar sinnum að bölva Ísrael. En í hvert sinn lét Jehóva hann blessa þá í staðin. Að lokum réðust Ísraelsmenn á Móab og Bíleam var drepinn. Hefði ekki verið betra fyrir Bíleam að hlusta bara á Jehóva?
„Varist hvers kyns græðgi því að eigur manns veita honum ekki líf þótt hann búi við allsnægtir.“ – Lúkas 12:15.