SAGA 39
Fyrsti konungurinn í Ísrael
Jehóva gaf Ísraelsmönnunum dómara til að leiðbeina þeim. En þeir vildu fá konung. Þeir sögðu við Samúel: ‚Allar þjóðirnar í kringum okkur eru með konung. Við viljum líka fá konung.‘ Samúel fannst það rangt svo að hann talaði við Jehóva um það. Jehóva sagði við hann: ‚Fólkið er ekki að hafna þér. Það er að hafna mér. Segðu því að það geti fengið konung en að konungurinn muni gera miklar kröfur til þess.‘ En fólkið sagði: ‚Okkur er alveg sama. Við viljum fá konung.‘
Jehóva sagði Samúel að maður sem hét Sál ætti að vera fyrsti konungurinn. Þegar Sál heimsótti Samúel í Rama smurði Samúel hann sem konung með því að hella olíu á höfuðið á honum.
Seinna kallaði Samúel Ísraelsmennina saman til að sýna þeim nýja konunginn þeirra. En þeir fundu Sál hvergi. Veistu af hverju? Af því að hann faldi sig hjá farangrinum. Þegar þeir fundu Sál loksins sóttu þeir hann og fóru með hann til fólksins. Sál var stærri en allir aðrir og hann var mjög myndarlegur. Samúel sagði: ‚Sjáið manninn sem Jehóva hefur valið.‘ Fólkið hrópaði: „Lengi lifi konungurinn!“
Sál konungur hlustaði á Samúel og hlýddi Jehóva til að byrja með. En síðan breyttist hann. Sál átti til dæmis ekki að færa fórnir sjálfur. Einu sinni sagði Samúel honum að bíða eftir að hann kæmi til að færa fórnirnar. En Samúel kom ekki strax þannig að Sál ákvað að færa fórnirnar sjálfur. Hvað gerði Samúel þá? Hann sagði við hann: ‚Þú hefðir ekki átt að óhlýðnast Jehóva.‘ Lærði Sál af mistökum sínum?
Seinna, þegar Sál fór í stríð við Amalekíta, sagði Samúel honum að hann mætti ekki láta neinn af þeim lifa. En Sál ákvað að drepa ekki Agag konung. Jehóva sagði við Samúel: ‚Sál er búinn að svíkja mig og hann er hættur að hlusta á mig.‘ Samúel var mjög leiður og hann sagði við Sál: ‚Jehóva mun velja annan konung af því að þú ert hættur að hlýða honum.‘ Þegar Samúel ætlaði að fara greip Sál í fötin hans og bútur af þeim rifnaði af. Þá sagði Samúel við Sál: ‚Jehóva hefur rifið konungdóminn af þér.‘ Jehóva ætlaði að gefa konungdóminn einhverjum sem myndi elska hann og hlýða honum.
„Að hlýða Jehóva er betra en fórn.“ – 1. Samúelsbók 15:22.