Áminningar og fyrirmæli frá Guði nýrrar skipanar
„Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur [áminningar, NW], allir mínir vegir eru þér augljósir.“ — Sálmur 119:168.
1. Á hvaða hátt stuðla áminningar að því að gera þjóna Jehóva hamingjusama?
HIN réttláta nýja skipan Guðs stendur fyrir dyrum! Vottar Jehóva, sem elska réttlát lög hans, þurfa að fá áminningar frá orði hans og í gegnum skipulag hans á ýmsum tímum. Þeir eru hamingjusamir vegna þess að þeir fara eftir slíkum áminningum Guðs. Þær hvetja þá til að leita hans sem veitir þeim hamingju. Hebreska orðið edoþ’, sem hér að ofan er þýtt „áminningar (þýtt “martyri’a“ samkvæmt Grísku Sjötíumannþýðingunni, stundum þýtt ‚vitnisburður‘ eða „reglur“,) bendir okkur á að Jehóva minnir okkur, eins og þörf krefur, á lög sín, fyrirmæli, reglur, boðorð og ákvæði. Hann lætur okkur því ekki gleyma þeim algerlega. Ef við látum slíkar áminningar ekki skaprauna okkur gera þær okkur hamingjusöm, því að við fylgjum þeim.
2. Hvaða grundvöll hafði ritari 119. sálmsins til að vekja athygli á svo mörgum áminningum?
2 Hafi sálmaritarinn fært sálminn í letur í síðasta lagi á fimmtu öld fyrir okkar tímatal hefur hann haft aðgang að öllum hebresku ritningunum frá 1. Mósebók til Malakís. Í grísku Sjötíumannaþýðingunni (sem við sjáum hluta af hér að ofan) er fimmta bók Biblíunnar, 5. Mósebók, kölluð Deuterono’mion sem þýðir „annað lögmál.“ Bersýnilega var efni þessarar bókar álitið að mestu leyti útskýring á lögmálinu (sáttmálanum) sem Jehóva gerði við Ísrael fyrir milligöngu spámannsins Móse. Fimmta Mósebók ætti því að geyma áminningar Guðs til okkar eins og raunar allar aðrar bækur Biblíunnar.
3. (a) Hvað minna tilvitnanir í Hebresku ritningarnar okkur á? (b) Hvernig getur hamingja okkar verið enn meiri en hamingja sálmaritarans?
3 Hinar mörg hundruð tilvitnanir kristnu Grísku ritninganna í Hebresku ritin eru áminningar ekki aðeins um það sem Jehóva kenndi þjónum sínum undir lögmálinu, heldur líka um mikilfenglegan tilgang hans með kristna söfnuðinn og hið endurleysta mannkyn. Nútíma-lærisveinar Jesú Krists, hins meiri Móse, hafa til umráða fleiri áminningar en sálmaritarinn, og með því að fara trúfastlega eftir þeim ættu þeir að uppskera enn meiri hamingju en hann. Með því að leita að áminningum hans með biblíunámi eru þeir í reyndinni að leita Jehóva af öllu sínu hjarta.
4. Hvert er rétt viðhorf til áminninga Guðs í stað þess að láta okkur gremjast þær?
4 Meta ber að verðleikum góð ráð sem forða okkur frá sömu örlögum og hinir óguðlegu hreppa. Sálmaritarinn leit þannig á áminningar Guðs. (Sálmur 119:24, 119, 167, NW) Vottar Jehóva nú á dögum láta það ekki heldur fara í taugarnar á sér að Guð skuli telja rétt að áminna þá um það sem tengist lögum hans, annaðhvort í gegnum biblíunám þeirra eða skipulag sitt. Þeir kjósa að hlýða drottinhollir áminningum hans. „Ég held fast við reglur [áminningar, NW] þínar, [Jehóva], lát mig eigi verða til skammar.“ — Sálmur 119:31.
5. (a) Hvaða tilgangi þjóna áminningar frá orði Guðs og skipulagi? (b) Hvernig getum við haft jafnmiklar mætur á áminningum Jehóva og sálmaritarinn hafði?
5 Guð áminnir ekki votta sína til a láta þá verða til skammar heldur til að vernda þá fyrir breytni sem yrði þeim til skammar. Hann vill að tilfinningar þeirra beinist að því sem er þeim til góðs um alla framtíð svo að þeir taka undir bæn sálmaritarans: „Beyg hjarta mitt að reglum [áminningum, NW] þínum, en eigi að ranglátum ávinningi.“ (Sálmur 119:36) Ekki er að undra að við viljum ekki glata þessari eilífu blessun með því að hætta biblíunámi eða reglulegum samkomum með vígðum þjónum Jehóva. (Sálmur 119:111, NW) Kærleikur af allri sálu til Guðs knýr þá til þeirrar stefnu. Jafnvel þótt það geti kallað á stranga leiðréttingu fagna vottar Jehóva því að Jehóva skuli leiða þá með áminningum sínum, til að koma í veg fyrir að þeir fari út á villigötur og glatist að eilífu: „Yfir vegi vitnisburða [áminninga, NW] þinna gleðst ég eins og yfir alls konar auði.“ — Sálmur 119:14.
6. Hvernig hafa vottar Jehóva leitast við að vera heiðarlegir við sjálfa sig frammi fyrir Guði?
6 Þótt vottar Jehóva hafi verið harðlega gagnrýndir og jafnvel afneitað af mörgum, á þeim forsendum að þeir hafi haft rangt fyrir sér í ýmsu, hafa þeir verið heiðarlegir við sjálfa sig frammi fyrir Guði. Þeir vilja ganga þann veg sem áminningabók hans vísar þeim á. Nútímasaga þeirra sýnir að þeir hafa breytt alveg eins og sálmaritarinn til forna: „Ég hefi athugað vegu mína og snúið fótum mínum að reglum [áminningum, NW] þínum.“ (Sálmur 119:59) Aðeins með því að gera það geta þeir beðið Guð að varðveita sig lifandi til að halda áfram því verki, sem hann hefur falið þeim, þrátt fyrir andstöðu blóðþyrstra óvina sinna. (Sálmur 119:88) Þeir játa sig vera þræla Guðs því að þeir hafa vígst honum fyrir milligöngu Krists og viðurkenna að þeir þurfi að skilja rétt það sem hann hefur skráð í orði sínu. Þeir segja: „Ég er þjónn þinn, veit mér skyn, að ég megi þekkja reglur [áminningar, NW] þínar.“ — Sálmur 119:125.
7. Hvaða ástæðu hafa þeir til að vera þakklátir og hvers hafa þeir beðið?
7 Guð hefur opinberað þeim undursamlega hluti úr orði sínu frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar árið 1918, og þeir vilja gera það sem þessar opinberanir benda þeim á. (Sálmur 119:129) Jehóva hefur fullan rétt til að vekja athygli okkar á áminningum sínum og leggja þær okkur á herðar sem boðorð. Okkur er fagnaðarefni að viðurkenna það í bæn með orðum sálmaritarns: „Þú hefur skipað fyrir reglur [áminningar, NW] þínar með réttlæti og mikilli trúfesti.“ (Sálmur 11).138) Við megum vera þakklát fyrir þennan trygga Guð!
8. Á hvaða hátt er eilíft líf háð því að skilja og hlýða áminningum Guðs?
8 Vottar Jehóva nú á tímum skilja fyllilega að eilíft líf þeirra í réttlátri nýrri skipan Guðs er undir því komið að þeir skilji inntak þess sem hann beinir athygli þeirra að og hlýði síðan af skynsemi. (Sálmur 119:144) Í fjandsamlegum heimi hafa þeir þurft að biðja þann Guð sem heyrir bænir að bjarga þeim úr háskalegustu aðstæðum, einkum núna á þeim tímum þegar verið er að safna öllum þjóðum saman „til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda“ við Harmagedón. (Opinberunarbókin 16:13-16) Orðin í eftirfarandi bæn eiga vel við: „Ég ákalla þig, hjálpa þú mér, að ég megi varðveita reglur [áminningar, NW] þínar.“ — Sálmur 119:146.
9. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að áminningar Guðs munu halda áfram að standa okkur til boða?
9 Þótt allar hinar skráðu áminningar Jehóva Guðs hafi verið til orðnar fyrir 1900 árum þegar hin síðasta af 66 bókum Biblíunnar var skrifuð, eru þær allar til enn þann dag í dag og munu vera okkur aðgengilegar um ófyrirséða framtíð. Orðin í Sálmi 119:152, sem eru ávarp til Guðs, reynast vera rétt: „Fyrir löngu hefi ég vitað um reglur [áminningar, NW] þínar, að þú hefir grundvallað þær um eilífð.“ Á grunni þekkingar á áminningum Jehóva hóf tímaritið Varð Turn Zíonar og boðberi nærveru Krists göngu sína á ensku í júlí árið 1879. Núna, eftir nærri 106 ára samfellda útgáfu, er þetta blað gefið út um allan heim á 102 tungumálum. Jafnvel þótt óvinum votta Jehóva yrði leyft að stöðva útgáfu tímaritsins myndu þeir aldrei geta hindrað útbreiðslu heilagrar Biblíu sem hefur að geyma áminningar Jehóva sem hvíla á eilífum, ævarandi grunni.
Við höldum fyrirmæli Guðs
10. Hversu mikla áherslu leggur Sálmur 119 á „fyrirmæli“ Guðs?
10 Eftir að hafa í inngangsversunum tveim lofað hamingju þeirra sem framganga í lögum Jehóva og hlýða áminningum hans segir sálmaritarinn: „Eigi fremja [þeir] ranglæti, en ganga á vegum hans. Þú hefir gefið skipanir þínar, til þess að menn skuli halda þær vandlega.“ (Sálmur 119:3, 4) Í þessum sálmi notar sálmaritarinn orðið „skipanir“ eða „fyrirmæli“ 21 sinni og hefur þau því stöðugt í huga.
11. (a) Hvers vegna hafði sálmaritarinn gætur á hegðun sinni eins og fram kemur í Sálmi 119:168? (b) Hvað er fólgið í orðinu „fyrirmæli“?
11 Sálmaritarinn segir okkur hvað honum fannst um þessi „fyrirmæli“ Guðs og hvað hann gerði í sambandi við þau. Þar með setti hann okkur fordæmi sem við getum treyst. Honum var ljóst að Guð tók eftir breytni hans og að hann varð að gæta þess hvernig hann hegðaði sér undir lagasáttmála Jehóva. Hann hafði ærið tilefni til að segja: „Ég varðveiti fyrirmæli þín og reglur [áminningar, NW], allir mínir vegir eru þér augljósir.“ (Sálmur 119:168) Áminningar örva minnið en fyrirmæli eru boð eða skipanir yfirboðarar til þess sem undir hann er settur. Þau segja skylduræknum þjóni, þræli, starfsmanni eða hermanni hvað hann á að gera og hvernig. Hebreska orðið, sem þýtt er „fyrirmæli,“ piqudim’, merkir „útnefning; eitthvað sem einhverjum er trúað fyrir.“ Fundust sálmaritaranum þessi fyrirmæli Guðs þjakandi eða ógeðfelld, einkanlega ef það að halda þau hafði í för með sér rangar ákærur eða illt umtal? Heyrum hvað hann segir: „Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda [Jehóva], eftir miskunn þinni.“ — Sálmur 119:159, 169.
12, 13. (a) Hvernig hjálpaði fordæmi sálmaritarans þjónum Guðs að þola prófraunir á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar og að henni lokinni? (b) Hvers fyrirmælum fylgdu leifarnar þótt ‚lygar væru spunnar upp‘ gegn þeim?
12 Sálmaritarinn setti sannkristnum mönnum, sem tilheyra skipulagi Jehóva í þessum löglausa, kærleikslausa heimi, afbragðsgott fordæmi! Það hefur reynst hafa mikil laun í för með sér að breyta eftir því. Umkringdur óvinum Guðs síns er þeim nákvæmlega eins innanbrjósts og sálmaritaranum, finnst þeir vera ‚útlendingar.‘ (Sálmur 119:19, 54) Þó finnst þeim ekkert jafnast á við reglur Guðs um rétta lífsbreytni. Þeir komust naumlega undan í fyrri heimsstyrjöldinni á árunum 1914-18. Á þessum stríðsárum réðust óvinirnir á forystumenn sýnilegs skipulags Jehóva til að flýta fyrir því að þjónar hans væru afmáðir; þeir meira að segja fanglesuðu á fölskum forsendum forseta og aðra forystumenn Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn. Reynsla þeirra var lík og Sálmur 119:69 lýsir: „Ofstopamenn spinna upp lygar gegn mér, en ég held fyrirmæli þín af öllu hjarta.“ Nauðsynlegt var að hlýða hinum hæsta Guði, yfirboðara þeirra, framar en mönnum hérna niðri á ‚fótskör‘ Guðs.
13 Undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar leit út fyrir að óvinirnir væru í þann mund að gera út af við hlýðna, vígða þjóna Guðs. Þeir gátu því sagt: „Nærri lá, að þeir gjörðu út af við mig á jörðunni, og þó hafði ég eigi yfirgefið fyrirmæli þín.“ (Sálmur 119:87) Æðsti drottinvaldur alheimsins ónýtti illmanlegar fyrirætlanir hinna ofstopafullu óvina.
14. Í hvaða skilningi gátu leifarnar tekið sér í munn orðin í Sálmi 119:45?
14 Þegar þeir losnuðu úr fjötrum eftir stríðið fundu þeir fyrir þörfinni á að leita fyrirmæla Guðs meira en nokkru sinni fyrr, til að finna út hvað hann ætlaðist fyrir með þá á þessum óvæntu friðartímum. Þeir gátu tekið sér í munn orðin í Sálmi 119:45: „Þá mun ég ganga um víðlendi, því að ég leita fyrirmæla þinna.“
Núna og í framtíðinni
15. (a) Hvaða viðhorf í Sálmi 119 hafa þjónar Guðs tileinkað sér? (b) Hverju hafa þeir einbeitt sér að frá árinu 1919?
15 Um leið og starf þeirra í þágu Guðsríkis hefur teygt sig út til endimarka jarðarinnar hafa óvinir þeirra margfaldast. En það hefur ekki hrætt þá til að víkja fyrirmælum Guðs úr huga sér. Þeir halda einbeittir áfram. (Sálmur 119:93, 94) Þeir eru ekki þess konar menn sem heyra orð Guðs, þar á meðal jákvæð fyrirmæli hans, en gleyma þeim síðan jafnskjótt heldur vinna þeir verk hans. Þeir gefa Jehóva heiðurinn og geta því sagt án nokkurs stærilætis: „Ég er skynsamari en öldungar, því að ég held fyrirmæli þín.“ (Sálmur 119:100, 104) Frá og með árinu 1919 hafa þeir því ekki skipt sér af áformum og ráðagerðum þjóðanna. Þeir hafa án þess að hvika boðað ríki Guðs í höndum Krists sem einustu von mannkynsins, en ekki Þjóðabandalagið eða arftaka þess, Sameinuðu þjóðirnar. Það er sannarlega ‚skynsemi‘!
16. Hvað erum við sannfærð um þótt reynt sé að þvinga okkur til að gera rangt?
16 Þegar orð Guðs segir okkur, sem lifum núna meðan Sameinuðu þjóðirnar eru við lýði, að elska ekki heiminn né það sem í honum er eru það skipanir frá Guði. Við verðum að skoða þær sem réttar og gerum það, því að þær eru það! Afstaða okkar er í samræmi við Sálm 119:128: „Þess vegna held ég beina leið eftir öllum fyrirmælum þínum, ég hata sérhvern lygaveg.“ Veraldlegt fólk lítur kannski niður á okkur vegna ósveigjanlegrar afstöðu okkar, en það er álit Guðs sem skiptir máli fyrir okkur og við viljum ekki láta fyrirskipanir hans hverfa úr huga okkar. — Sálmur 119:141.
17. Hvað mun gerast í framtíðinni og hvernig mun Jehóva vernda þjóna sína þegar andstæðingar umkringja þá?
17 Þrátt fyrir að ríki Guðs í höndum Krists hefur nú í meira en 60 ár verið prédikað af síauknum krafti sem einasta von mannheimsins gefa ráðabruggarar og skipuleggjendur heimsins því engan gaum. Núna blasir við að hægt sé að afmá allt mannkynið í kjarnorkustyrjöld. Auk þess eru sífellt fleiri haldnir beisku hatri gegn öllum trúarbrögðum. Eftir að öllum fölskum trúarbrögðum hefur verið eytt munu óvinir Guðs snúa sér gegn vottum Jehóva. Þegar hinir trúlausu andstæðingar ríkis Guðs umkringja hina eftirlifandi votta Jehóva munu þeir þarfnast ofurmannlegrar hjálpar meira en nokkru sinni fyrr. Þeir munu þá þarfnast að almáttug hönd Guðs skýli þeim. Þeir munu hafa ástæðu til að ákalla þessa guðlegu hönd til hjálpar eins og sagt er í Sálmi 119:173: „Hönd þín veiti mér lið, því að þín fyrirmæli hefi ég útvalið.“ Á þessum miklu hættutímum mun hönd Jehóva ekki reynast svo stutt að hún geti ekki frelsað þá guðhræddu menn sem halda fyrirmæli hans. — Jesaja 50:2.
18. (a) Hvernig mun réttur félagsskapur hafa áhrif á það hvort við lifum af endalok þessa heimskerfis? (b) Hvað munum við alltaf gera okkur far um með því að við vitum hvernig þeim sem óttast Jehóva mun farnast?
18 Núna nálgast hin ægilegu endalok þessa löglausa, kærleikslausa heimskerfis og það að lokið verði að greina fólk af öllum þjóðum í sundur eins og fjárhirðir skilur sauði frá höfrum. Hvorum hópnum viljum við þá tilheyra? Hópi þeirra sem líkjast höfrum og verða afmáðir endanlega, eða hópi sauðumlíkra manna sem elska Jehóva Guð. (Matteus 25:31-46) Það er alls ekki of snemmt að velja sér rétta félaga. Núna er tíminn til að taka sömu ákvörðun og sálmaritarinn sem sagði við hinn hæsta: „Ég er félagi allra þeirra er óttast þig og varðveita fyrirmæli þín.“ (Sálmur 119:63) Við vitum hvert verður hlutskipti þeirra sem óttast Jehóva Guð og viljum fá hlutdeild með þeim í dýrlegum launum þeirra, Jehóva til gleði. Þar eð við elskum Jehóva höfum við alltaf brennandi áhuga á að þóknast honum með því að gera allt sem hann krefst af okkur. Sálmaritarinn orðaði ákvörðun okkar með þessum velvöldu orðum: „Fyrirmæli þín vil ég íhuga og skoða vegu þína.“ — Sálmur 119:15.
19. Hvaða dásamlegt verk er núna unnið?
19 Frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar árið 1918, sem var sú fyrsta sinnar tegundar, hefur hinn hæsti Guð unnið mjög sérstakt verk í heimi sem er honum mótsnúinn. Það er það verk að láta votta hans prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið . . . um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar“ áður en rennur upp ‚endir‘ þessarar nokkur þúsund ára gömlu heimsskipanar. (Matteus 24:14) Við viljum eiga hlut með honum í verki hans. Við viljum gera vilja hans og við biðjum hann að láta okkur gera vilja sinn. Í Sálmi 119:27 er innileg bæn okkar orðuð svo: „Lát mig skilja veg fyrirmæla þinna, að ég megi íhuga dásemdir þínar.“
20. Hvert af dásamlegustu verkum Guðs er enn óunnið og hvað munu þeir sem hann varðveitir lífs segja um fyrirmæli Guðs?
20 Eitt af hinum mestu dásemdarverkum Guðs, sem er enn ókomið, verður það er hann verndar trúfasta og drottinholla votta sína í gegnum endalok þessa heimskerfis inn í hina nýju skipan. (2. Pétursbréf 3:13) Það verður rétt og réttlátt af honum að vernda þá út í gegnum endalok þessa helsjúka heimskerfis. Hann mun svara þegar þeir biðja hann þessarar innblásnu bænar: „Sjá! Ég hef þráð fyrirmæli þín. Varðveittu mig lifandi í réttlæti þínu.“ (Sálmur 119:40, NW) Láttu þetta verða þína bæn. Þá munt þú, eftir að mesta þrenging veraldarsögunnar er hjá og þú ert kominn óhultur inn í hina réttlátu nýju skipan, finna þig knúinn til að segja: „Ég skal eigi gleyma fyrirmælum þínum að eilífu, því að með þeim hefir þú látið mig lífi halda.“ — Sálmur 119:93.
Minnishjálp
◻ Hvaða „áminningar“ frá Guði standa þér til boða?
◻ Hvernig getur þú notið góðs af áminningum Guðs?
◻ Hvað eru „fyrirmæli“ Jehóva?
◻ Hvers vegna ættir þú að veilja framfylgja þeim?
[Myndir á blaðsíðu 16]
Nú á dögum eru til enn fleiri „áminningar“ fyrir þjóna Guðs en til forna.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Hefur þú kosið að vera ‚félagi sauðanna sem varðveita fyrirmæli Guðs‘?