Verða allir sannkristnir menn að vera þjónar orðsins?
„Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttgjörðarinnar.“ — 2. Korintubréf 5:18.
1. Var til einhver klerkastétt í söfnuðinum á dögum Páls?
„ÞAÐ VAR enginn greinarmunur gerður [á dögum Páls postula] milli klerka og leikmanna því að þá var engin klerkastétt til.“ Þessi orð, sem birtust í dagblaðinu Times í Lundúnum, segja vissan grundvallarsannleika um frumkristnina. Þá var engin skipting milli klerka og leikmanna. Þýðir það að kristni söfnuðurinn hafi enga sýnilega forystumenn haft? Og voru þá engir þjónar orðsins til í neinum skilningi?
2. Hvers konar forysta var í frumsöfnuðinum? (Filippíbréfið 1:1)
2 Nokkru eftir hvítasunnuna árið 33, þegar smurðum kristnum mönnum fjölgaði í þúsundatali, varð nauðsynlegt að skipa hæfa menn í hverjum söfnuði sem umsjónarmenn og safnaðarþjóna. En þeir mynduðu ekki klerkastétt. Skipun þeirra var ekki undir því komin að þeir hefðu gengið í háskóla eða prestaskóla. Þeir þágu ekki laun fyrir þjónustu sína. Þeir voru auðmjúkir menn með andlega hæfileika, skipaðir af heilögum anda til að annast hjörðina. En voru þeir hinir einu sem prédikuðu ‚fagnaðarerindið um ríkið‘? Voru þeir einu þjónar orðsins í söfnuðinum? — Matteus 24:14; Postulasagan 20:17, 28; 1. Pétursbréf 5:1-3; 1. Tímóteusarbréf 3:1-10.
3, 4. Hverjir áttu, að sögn Páls, hlut í hinni kristnu þjónustu?
3 Svarið við þessum spurningum kemur fram í heilræðum Páls í bréfum hans til kristinna manna í Korintu. Taktu eftir inngangsorðunum í siðara bréfi hans: „Páll, . . . [heilsar] söfnuði Guðs, sem er í Korintu, ásamt öllum heilögum, í gjörvallri Akkeu.“ Enginn vafi leikur á því að hann var að skrifa öllum söfnuði smurðra kristinna manna í Korintu og Akkeu, ekki aðeins þeim sem voru í forystuhlutverkinu. Athugasemdir hans um hina kristnu þjónustu eiga því við ‚alla heilaga.‘ Páll sagði með hliðsjón af starfi sínu og Tímóteusar: „Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast.“ „Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar . . . Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum.“ Hann heldur áfram: „Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti. Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði.“ — 2. Korintubréf 1:1; 4:1; 5:18-20; 6:3, 4.
4 Þessi orð gefa til kynna að sérhver smurður kristinn maður varð að vera þjónn orðsins og erindreki Krists. Hvers vegna? Vegna þess að heimurinn var með synd sinni ‚fjarlægur lífi Guðs‘ og þarfnaðist þjónustu sáttargjörðarinnar til að hlýðið og trúfast fólk af öllum þjóðum gæti átt samband við alvaldan Drottin Jehóva fyrir milligöngu Krists. — Efesusbréfið 4:18; Rómverjabréfið 5:1, 2.
5, 6. Hvernig staðfesti Páll þetta sjónarmið í bréfi sínu til Rómverjanna?
5 Páll skrifaði söfnuðinum í Róm: „Hvað segir það [orð Guðs] svo? ‚Nálægt þér er orðið, í munni þínum og í hjarta þínu.‘ Það er: Orð trúarinnar, sem vér prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn — og trúir í hjarta þínu, að Guð hafi uppvakið hann frá dauðum, muntu hólpinn verða. Með hjartanu er trúað til réttlætis en með munninum játað til hjálpræðis. — Rómverjabréfið 10:8-10.
6 Beindi Páll þessum orðum til fáeinna útvalinna? Inngangsorð hans bera vott um annað því að hann skrifaði: „Ég heilsa öllum Guðs elskuðu í Róm.“ Hann bætti við: „Fyrst þakka ég Guði minum sakir Jesú Krists fyrir yður alla, af því að orð fer af trú yðar í öllum heiminum.“ Ljóst er að Páll beindi heilræðum sínum og hvatningarorðum, þar á meðal þeim sem eru í 10. kaflanum, til alls safnaðarins. Þau sérréttindi að játa trúna opinberlega stóðu öllum opin. Hann meira að segja styrkti rök sín með því að segja: „En hvernig eiga þeir að ákalla þann, sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann, sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra, án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað nema hann sé sendur? Svo er og ritað: ‚Hversu fagurt er fótatak þeirra, sem færa fagnaðarboðin góðu.‘“ — Rómverjabréfið 1:7, 8; 10:14, 15.
7. Í hverju er sönn kristni ólík öðrum trúarbrögðum? (Lúkas 19:36-40)
7 Þetta er mjög hvetjandi fyrir sérhvern smurðan kristinn mann! Það merkir að þeir ættu allir að njóta þeirrar gleði að útbreiða Guðsríkisboðskapinn um hjálpræði til annarra. Í augum Guðs bæði geta og ættu fætur þeirra og fótatak að vera „fagurt“ í táknrænum skilningi. Hvers vegna? Vegna þess að sönn kristni er ekki eigingjörn trú sem segir mönnum að hugsa um sjálfa sig, loka sig inni og bindast þagnareiði. Hún stuðlar þvert á móti að ötulli, kristilegri þjónustu sem birtist bæði í orði og verki! Greinilegt er að Páll gerði sér það vel ljóst því að hann sagði: „Já, vei mér ef ég boðaði ekki fagnaðarerindið.“ — 1. Korintubréf 9:16; Jesaja 52:7.
8. Hvaða mikilvægar spurningar snerta nú marga?
8 En hvað um þær milljónir sannkristinna manna sem ekki hafa hlotið smurningu heilags anda, því að þeir vonast eftir eilífu lífi á jörðinni, ekki á himnum? Verða þeir líka að vera þjónar orðsins? — Sálmur 37:29; 2. Pétursbréf 3:13.
Eru þeir sem mynda ‚múginn mikla‘ þjónar orðsins?
9. Hvaða starfi taka þeir sem mynda ‚múgsins mikla‘ þátt í?
9 Opinberunarbókin svarar þessum spruningum að hluta til. Til dæmis segir Jóhannes eftir að hafa séð í sýn hinn smurða söfnuð hinna 144.000: „Eftir þetta sá ég og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. Þeir stóðu frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddir hvítum skikkjum og höfðu pálmagreinar í höndum. Og þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.“ Þeir sem nú er safnað til að lifa af þrenginguna miklu reyna sannarlega ekki að fela það að þeir séu kristnir menn. Þeir lýsa yfir með „hárri röddu“ hvaðan hjálpræði þeirra sé komið. Hvernig gera þeir það núna? Meðal annars með að hjálpa hinum litlu leifum hinna smurðu að uppfylla aðra þýðingarmikla spádóma og boð viðvíkjandi þjónustunni. — Opinberunarbókin 7:9, 10, 14.
10, 11. (a) Hvaða boð gaf Jesús fylgjendum sínum áður en hann steig upp til himna? (b) Hvaða spádómar þarf að uppfyllast á okkar tímum?
10 Til dæmis gegnir þessi ótaldi mikli múgur mikilvægu hlutverki í að framfylgja því boði Jesú að prédika og kenna sem hann gaf trúföstum lærisveinum sínum í Galíleu. Þá sagði Jesús: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ Þessi tilskipun var gefin öllum kristnum mönnum, ekki útvalinni klerkastétt. — Matteus 28:18-20; 1. Korintubréf 15:6.
11 Boð Jesú er líka nátengt spádóminum sem hann gaf um ‚endalok veraldar.‘ Hann sagði: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Hvernig hefur þessari áskorun um að prédika boðskapinn um Guðsríki um allan heim innan einnar kynslóðar verið tekið? Víst er að hinar fáu þúsundir smurðra kristinna manna hafa ekki getað unnið þetta björgunarstarf einar. Það hefði verið algerlega óviðráðanlegt verk! — Matteus 24:3, 14; Lúkas 21:32.
12. Hvað viðurkenna hinir smurðu fúslega?
12 Hinir smurðu „samarfar Krists“ viðurkenna fúslega hlutverk hinna rúmlega tveggja milljóna þjóna orðsins af hinum ‚mikla múgi‘ sem hafa útbreitt boðskapinn um Guðsríki út um heiminn á svona tiltölulega skömmu tímabili. Jafnvel á fjórða áratug þessarar aldar öxluðu margir sannkristnir menn þá ábyrgð að veita þjónustu í öðrum löndum og buðu sig fram til að þjóna þar sem þörfin var meiri. Svo er fyrir að þakka fórnfúsu fordæmi þessara bræðra og systra, bæði af hópi hinna smurðu og hinna ‚annarra sauða,‘ að starf Guðsríkis skaut fastari rótum í mörgum löndum Evrópu, Afríku, Asíu og Ameríku. — Rómverjabréfið 8:17.
13. (a) Hvernig hefur Jehóva hraðað starfinu frá 1943? (Jesaja 60:22) (b) Hvaða þátt hafa þeir sem mynda ‚múginn mikla‘ átt í trúboðsstarfinu?
13 Fyrir 1943 var hinum ‚trúa og hyggna þjóni‘ smurðra kristinna manna ljós nauðsyn þess að stofna trúboðsskóla til að kristnir þjónar orðsins gætu fengið sérstaka þjálfun og undirbúning til að hefja og hraða prédikunarstarfinu í mörgum löndum. Allt frá því að Gíleaðskólinn tók til starfa árið 1943 (á hebresku merkir „Gíleað“ „haugur vitnisburðar“) fram til 4. mars 1984 hefur hann útskrifað um 6100 nemendur sem flestir hafa verið sendir til annarra landa út um allan heim. Aðeins 292 (4,8 af hundraði) þessara Gíleað-nemenda lýstu sig tilheyra hópi hinna smurðu, þannig að meirihluti þessara sérþjálfuðu þjóna orðsins hefur verið af hinum ‚mikla múgi.‘ Eins og aðrir vottar Jehóva um allan heim litu þeir á hina kristnu þjónustu sem ómissandi þátt í lífi kristins manns þegar þeir vígðu sig Jehóva fyrir milligöngu Krists Jesú. — Matteus 24:45-47; Hebreabréfið 10:7.
Köllun byggð á hverju?
14, 15. Á hverju byggist köllun kristins manns til þjónustunnar? (Matteus 22:37-40)
14 Merkir þetta að kristnir menn hafi fengið sérstaka köllun frá Guði til að vera þjónar orðsins? Sumt fólk í kristna heiminum lýsir „köllun“ sinni sem einstæðri tilfinningareynslu, rétt eins og Guð hafi kallað þá beint til þjónustu við sig. En er hin kristna þjónusta aðallega byggð á hverfulum tilfinningum?
15 Þegar Páll postuli talaði um helga þjónustu við Guð, hvern sagði hann þá vera grundvöll hennar? Hann skrifaði: „Svo áminni ég yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram líkami yðar að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn, og er það skynsamleg guðsdýrkun af yðar hendi. [Þjónið Guði með hyggjuviti ykkar,“ NW; sem vitsmunaverur,“ The New English Bible neðanmáls].“ Já, heilög þjónusta við Guð byggist á skynsemi og hyggjuviti. Hvernig þá? Á þann hátt að vígsla okkar og einkasamband við Jehóva er byggt á þekkingu á hinum sanna Guði. Þótt köllun kristins manns til þjónustunnar sé í sjálfu sér gleðileg reynsla er hún ekki aðeins byggð á tilfinningaviðbrögðum. Hún á sér trausta hvöt — kærleika til Guðs og kærleika til náungans. — Rómverjabréfið 12:1; Ísl. bi. 1912; Jóhannes 17:3.
16. Getur sá sem er í fullu, veraldlegu starfi ekki verið þjónn orðsins? (Postulasagan 18:1-5)
16 En þú kannt að spyrja hvort þessir frumkristnu menn hafi líka verið þjónar orðsins jafnvel þótt þeir hafi unnið fullt veraldlegt starf eða verið húsmæður. Já, þeir voru það. Kannski gátu þeir aðeins varið litlu broti af tíma sínum í hinni kristnu þjónustu, við að prédika og kenna, en það var þó megintilgangur þeirra í lífinu. Þeir vissu að þeir urðu að ‚láta ljós sitt skína‘ sem sannir lærisveinar Krists. Í reynd voru þeir verkamenn og þjónar orðsins löngu áður en kristni heimurinn setti efsta sína verkamanna-prestahreyfingu. — Matteus 5:16; 1. Pétursbréf 2:9.
Sönnum um þjónustu þeirra
17, 18. (a) Hvaða almenna reglu gaf Kristur sannkristnum mönnum? (b) Hvað er það sem mælir með þjóni orðsins?
17 Hvernig sanna vottar Jehóva að þeir séu þjónar orðsins ef þeir hafa ekki prófskirteini eða námsgráðu frá háskóla? Nú, hvernig sýndu frumkristnir menn fram á að þeir væru þjónar orðsins? Kristur gaf sjálfur þessa vísbendingu um það: „Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu.“ Kristnir þjónar orðsins ættu að bera „góða ávöxtu“ sem felur í sér að taka þátt í því að gera menn að lærisveinum. — Matteus 7:17.
18 Páll postuli útskýrði það þannig: „Erum vér nú aftur teknir að mæla með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til yðar eða frá yður? Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum. Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.“ Hvernig var skrifað á hjörtu manna? Með því að prédika orð trúarinnar, sem líkt er sáðkorni, sem festi síðan rætur í hjartanu. Þetta sáðkorn kom síðan þeim sem við því tók til að fara að prédika öðrum sama hjálpræðisboðskapinn. — 2. Korintubréf 3:1-3.
19. Hvaða meðmæli hafa vottar Jehóva sem þjónar orðsins?
19 Hafa vottar Jehóva það sönnunargagn sem er ‚bréf Krists, skrifað af þeim, þjónum orðsins‘? Staðreyndirnar tala sínu máli. Árið 1931, þegar þeir fyrst tóku sér sitt einkennandi nafn, prédikuðu um 50.000 vottar út um allan heiminn. Skýrslan fyrir árið 1984 sýnir að yfir 2.842.000 þjónar orðsins prédikuðu fagnaðarerindið um Guðsríki út frá 47.869 söfnuðum. Já, núna eru næstum jafnmargir sönuðir eins og tala votta var árið 1931! Sannleikurinn hefur svo sannarlega verið skrifaður á milljónir mannshjartna á undangengnum áratugum — og það er óhrekjandi sönnum um þá þjónustu sem vottar Jehóva veita. — Jesaja 43:10-12.
20. Hvers þörfnumst við, kristnir þjónar orðsins, nú á dögum? Hvaða spurningum er ósvarað?
20 Þörfin fyrir kristna þjóna orðsins er brýnni núna en nokkru sinni fyrr. Tíminn er skammur og uppskeran mikil. Því er enn ríkari ástæða fyrir okkur að vera hæfir þjónar orðsins sem prédika og kenna með áhrifaríkum hætti. Hvernig getum við gert það? Hvernig getum við náð enn meiri árangri sem þjónar orðsins? Hefur fordæmi Krists og postulanna hagnýtt gildi fyrir okkur núna? — Efesusbréfið 5:15, 16; Matteus 9:37, 38.
Atriði til upprifjunar
◻ Hvernig vitum við að allir smurðir fylgjendur Krists urðu að vera þjónar orðsins?
◻ Hvaða hlutverki hefur hinn ‚mikli múgur‘ gegnt í þjónustunni nú á tímum?
◻ Á hverju byggist köllun kristins manns til þjónustunnar?
◻ Hvaða sönnun geta vottar Jehóva bent á um að þeir hafi innt af hendi þjónustu við orðið?
[Mynd á blaðsíðu 19]
Var til kristinn klerkastétt á tímum postulanna?
[Myndir á blaðsíðu 20]
Árið 1943 tók Gíleaðskólinn til starfa í South Lansing í New York. Skólinn var fluttur árið 1961 til Brooklyn í New York.
[Myndir á blaðsíðu 21]
Núna er Gíleaðskólinn í nýjum húsakynnum í grennd við Brooklyn-brúna og heldur áfram að undirbúa þjóna orðsins fyrir þjónustu í öðrum löndum.