Spurningar frá lesendum
Hvernig kom höggormurinn í Edengarðinum freistingunni á framfæri við Evu?
1. Mósebók 3:1 segir: „Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem [Jehóva] Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: ‚Er það satt, að Guð hafi sagt: „Þig megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum“?‘“
Menn hafa slegið fram ýmsum hugmyndum um það hvernig höggormurinn hafi komið boðskap sínum í framfæri við Evu. Ein hugmyndin er sú að það hafi verið með látbragði og hreyfingum. Til dæmis sagði enski kennimaðurinn Joseph Benson: „Okkur er ekki greint frá því hvernig hann hafi talað við hana, en líklegast virðist að það hafi verið með einhvers konar merkjamáli. Sumir hafa reyndar gert ráð fyrir því að rökhyggja og mál hafi verið kunnir eiginleikar höggormsins þá og að Eva hafi því ekki orðið undrandi á röksemdafærslu hans og tali sem þeir halda að hún hljóti að hafa verið að öðrum kosti; en fyrir því er engin sönnun.“
Því hefur verið haldið fram að hrein návist og hátterni höggormsins hafi getað flutt boðskap. Að sjálfsögðu var það við manninn (Adam), ekki dýrin, sem Guð sagði: „Af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.“ (1. Mósebók 2:17) Engu að síður má hugsa sér að hafi höggormurinn, sem var þekktur fyrir að vera mjög ‚slægur‘ eða varkár, verið á trénu kunni Eva að hafa hugsað sem svo að það gæti ekki verið sérlega hættulegt. Höggormurinn hefði jafnvel getað gert lokkandi hreyfingar sem virtust gefa til kynna að tréð hafi verið honum til hagsbóta.
En hreyfingar einar saman geta varla skýrt allt það sem við lesum í 1. Mósebók 3:1-5, til dæmis það að höggormurinn gaf Evu til kynna að hún yrði eins og Guð og gæti ákveðið hvað væri gott og illt. Auk þess segir hin innblásna frásaga að ‚höggormurinn hafi mælt við konuna.‘ Eðlilegt má telja að Eva hafi svarað á mæltu máli. „Þá sagði höggormurinn við konuna“ ýmislegt fleira. Ef við höldum því fram, eins og Joseph Benson, að höggormurinn hafi gert sig skiljanlegan við konuna aðeins með merkjum eða hreyfingum hljótum við að álykta að Eva hafi tjáð sig á sama hátt, með tilburðum og lábragði.
Páll postuli minntist á þennan atburð og sagði við kristna menn í Korintu: „Ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast.“ Sú hætta stafaði af ‚falspostulum, svikulum verkamönnum.‘ Auðvitað var hættan af þessum „stórmiklu postulum“ ekki aðeins bundin við látbragð og útlit; hún tengdist tali þeirra, lævísum orðum sem töluð voru til að leiða aðra á villigötur. — 2. Korintubréf 11:3, 5, 13.
En bókstaflegur höggormur hafði ekki raddbönd svo að hann gæti talað, eða hvað? Ekkert bendir til að svo hafi verið og hann þurfti þess ekki heldur. Þegar Jehóva talaði til Bíleams í gegnum burðardýrið þýddi það ekki að asninn hafi haft margbrotin talfæri sambærileg við þau sem Bíleam hafði. Við lesum: „[Jehóva] lauk þá upp munni ösnunnar og hún sagði við Bíleam . . .“ Bíleam svaraði spurningu skepnunnar sem var ófær um að mæla mannamál af eigin rammleik. (4. Mósebók 22:26-31) Þá opnaði Jehóva augu Bíleams svo að hann sá engil, ofurmannlega andaveru. Þegar því „mállaus eykurinn talaði mannamál“ var bæði orsakarinnar og kraftarins til þess að leita á hinu andlega tilverusviði. — 2. Pétursbréf 2:16.
Beitti Jehóva þá einhverju undraverðu búktali? Kannski, en við getum ekki fullyrt neitt með vissu um það hvaða aðferð hann beitti. Jóhannes 8:44 og Opinberunarbókin 12:9 sýna að á bak við hinn bókstaflega höggorm í Eden var sá sem síðar var kallaður „djöfull og Satan.“ Hann er líka ofurmannlegur andi — illur andi. — 1. Samúelsbók 28:7, 8, 15-19.
Jafnvel þótt hreyfingar hins bókstaflega höggorms hafi virst staðfesta boðskap hans til Evu er ljóst að talað var mælt mál — orð sem Eva gat heyrt og svarað. Það gerðist að undirlagi blekkingameistarans Satans sem „tekur á sig ljósengilsmynd.“ — 2. Korintubréf 11:14.