Hvers vegna við megum ekki heyra þessum heimi til
„Þeir heyra ekki heiminum til, eins og ég heyri ekki heiminum til.“ — Jóhannes 17:16, Ísl. bi. 1912.
1. Hvers konar meðferð sagði Jesús að fylgjendur hans mættu búast við?
JESÚ KRISTI var hafnað, hann var hataður og jafnvel ofsóttur af þessum heimi. Hverju gátu fylgjendur hans þá búist við? Nú, hann sagði þeim: „Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður. Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum. Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.“ — Jóhannes 15:18-20.
2. (a) Hver er „heimurinn“ sem fylgjendur Jesú eru mjög ólíkir? (b) Hvað gerir Jehóva fyrir lærisveina Krists í stað þess að taka þá út úr heiminum?
2 Já, sannir fylgjendur Jesú eru gjörólíkir þessum heimi — hinu synduga mannfélagi sem er fjarlægt Guði. Svo mikill er þessi munur að lærisveinar Krists eru hataðir og ofsóttir af þessum heimi. En með því að vera óveraldlegir eru fylgjendur Jesú að fylgja hinu óviðjafnanlega fordæmi hans, og Jehóva Guð vakir yfir þeim í samræmi við bæn Krists: „Ekki bið ég, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá illu. Þeir heyra ekki heiminum til, eins og ég heyri ekki heiminum til. Helga þú þá með sannleikanum; þitt orð er sannleikur.“ — Jóhannes 17:15-17, Ísl. bi. 1912.
3. Hvaða spurningar um þennan heim krefjast svara?
3 Hvað merkir það að „heyra ekki heiminum til“? Merkir það að fylgjendur Jesú verði að forðast allt samband við þá sem ekki eru kristnir?
Kristnir menn gata ekki einangrað sig
4. Hvaða verk fól Jesús fylgjendum sínum sem veldur því að þeir mega ekki einangra sig?
4 Að sjálfsögðu ætlaðist Jesús ekki til að fylgjendur hans einangruðu sig og byggju í sínum eigin, aðgreindu trúarsamfélögum. Þess í stað fól hann þeim verk að vinna út um víða veröld og sagði: „Þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Hann bauð þeim líka: „Farið og gjörið allar þjóðir [fólk af öllum þjóðum, NW.] að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Matteus 28:19, 20) Þótt fólk af ‚öllum þjóðum‘ yrði lærisveinar var þess að sjálfsögðu ekki að vænta að heilar þjóðir myndu taka við kenningu Jesú Krists.
5. Hvaða aðferð heimilar Ritningin að notuð sé til að snúa fólki til kristni?
5 Sumir kunna að segja: ‚Hefur ekki heilum þjóðum verið snúið til kristni? Og mynda þær ekki það sem er þekkt undir heitinu kristna heimurinn?‘ Nú, vissir valdhafar hafa ákveðið hvaða trú þegnar þeirra skuli hafa, og hafa ekki hikað við að þvinga fram þá ákvörðun af grimmd og miskunnarleysi. Auk þess hefur óttinn við kvalir í goðsögulegum vítiseldi verið öflugt tól til að snúa mönnum til kristni í orði kveðnu. (Samanber Prédikarinn 9:5, 10.) En allt þetta er víðs fjarri þeirri einu leið sem Ritningin heimilar okkur að fara við að útbreiða sannkristna trú! Það göfuga starf er gert með því að bera kostgæfilega vitni, kenna og gera menn að lærisveinum. Einsetumenn eða munkar og nunnur í klaustri geta aldrei unnið það verk eða fylgt boði Krists að ‚láta ljós sitt lýsa mönnunum.‘ (Matteus 5:14-16) Að „snúa“ mönnum til kristni með valdi á ekkert skylt við þann vitnisburð, prédikun og kennslu sem hefur hjálpað hjartahreinum mönnum af öllum þjóðum að vígja sig Jehóva Guði af öllu hjarta og fullri skynsemi.
Hvers vegna að „heyra ekki heimunum til“
6. Hvers vegna má segja að vottar Jehóva samsvari lýsingu Jesú á fylgjendum sínum, samkvæmt Jóhannes 13:35?
6 Nafnið „kristinn maður“ hefur oft reynst falskur merkimiði. Saka má hina svokölluðu kristnu menn og þjóðir um ekki litla græðgi, landvinninga, manndráp í styrjöldum og kúgun! En hversu ólíkir eru ekki sannir fylgjendur Krists. „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Það er sannarlega til fólk sem samsvarar þessari lýsingu — vottar Jehóva. Kærleikurinn meðal þeirra þýðir að þar er ekki miskunnarlaus samkeppni eða erjur, og þeir misnota sér ekki hvern annan í eiginhagsmunaskyni. Hann hefur í för með sér að þeir tala allir hið sama, hjá þeim er engin sundrung heldur eru þeir ‚fullkomlega sameinaðir í hugarfari og skoðun.‘ (1. Korintubréf 1:10; 13:4-8) Vottar Jehóva hafa lært hvernig Guð og Kristur hugsa og hafa það að leiðarljósi. (Rómverjabréfið 12:1, 2; 1. Korintubréf 2:16) Mjög þýðingarmikill þáttur í þeirri hugsun er að kristnir menn megi ‚ekki heyra heiminum til.‘ — Samanber Jakobsbréfið 1:27.
7. Hvernig gefa orð Páls í Postulasögunni 17:30, 31 til kynna að það sé óviðeigandi fyrir kristna menn að vera hluti af þessum heimi?
7 Fylgjendur Jesú hafa mjög góðar ástæður fyrir að ‚heyra ekki heiminum til.‘ Í um það bil 4000 ár hefur yfirgnæfandi meirihluti mannkynsins verið ‚vonlaus og guðvana í heiminum.‘ (Efesusbréfið 2:12) En hið langa tímabil, sem synd mannsins hefur gert hann fjarlægan Jehóva, mun ekki halda áfram endalaust. Fyrir nítján öldum sagði Páll postuli að Guð ‚boðaði mönnunum að þeir skyldu allir hvarvetna taka sinnaskiptum,‘ því að ‚hann hafði sett dag er hann myndi láta mann, sem hann hefði fyrirhugað, dæma heimsbyggðina með réttvísi,‘ það er að segja Jesú Krist. Páll bætti því við að Guð ‚hefði sannað þetta öllum mönnum með því að reisa hann frá dauðum.‘ (Postulasagan 17:30, 31) Þessi ‚dagur‘ þúsund ára stjórnar hans er mjög nærri. Hinn illi heimur verður að hverfa. Hann verður dæmdur, fordæmdur og fjarlægður um eilífð. Hversu óviðeigandi væri þá fyrir þá sem játa kristna trú að vera hluti af þessum heimi!
8. Hvaða verk bendir til að „endirinn“ sé í nánd, sem gefur enn eina ástæðu til að fólk Jehóva ætti ‚ekki að heyra heiminum til‘?
8 Meira en nítján aldir eru liðnar frá upprisu Jesú, og án vafa er nú yfirvofandi að dómi Guðs yfir hinum fráhverfa kristna heimi og afganginum af heimi Satans verði fullnægt. (2. Pétursbréf 3:10; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Þangað til boða vottar Jehóva boðskap Guðs um víða veröld, og iðrunarfullir, þakklátir einstaklingar úr hópi mannkynsins njóta ‚endurlífgunartíma.‘ (Postulasagan 3:19-21) Í samræmi við spádómsorð Jesú um okkar daga prédíka nú yfir 2.650.000 vottar Jehóva „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ í 203 löndum. Þegar það verk hefur skilað ‚vitnisburði til allra þjóða,‘ í þeim mæli sem Guð vill, „þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Með endalok þessa illa heimskerfis svo nærri er því ærin ástæða fyrir þjóna Jehóva til að „heyra ekki heiminum til.“
9. (a) Hvernig ber okkur að líta á hagsmuni Guðsríkis og kröfur úr því að heimur Satans er að líða undir lok? (b) Hvaða spurningar verðskulda athygli okkar?
9 Fyrst heimur Satans er um það bil að líða undir lok er sannarlega brýnt að fullvissa okkur um að við séum í raun og veru að leita fyrst Guðsríkis! (Matteus 6:33) Hver sem er aldur okkar, menntun eða staða í lífinu munum við allir „verða að koma fram fyrir dómstól Guðs.“ (Rómverjabréfið 14:10) Förum við þá eftir kröfum Guðsríkis í lífi okkar? Eða erum við í reyndinni enn að reyna að hegða okkur eftir þessum heimi sem hatar sannkristna menn? Höfum við veraldleg metnaðarmál og vonir? Erum við að elta óbiblíuleg tískufyrirbæri heimsins? Dáumst við að skurðgoðum hans? Munum að „vinátta við heiminn er fjandskapur við Guði.“ (Jakobsbréfið 4:4) Til að koma í veg fyrir að við verðum óvinir Guðs, hvað getum við gert til að forðast að heimurinn spilli okkur? Hverju í þessum heimi verðum við að vísa á bug?
Forðist ást á heiminum
10. Hvaða þrjú atriði í þessum heimi, sem þjónar Jehóva mega ekki elska, nefnir 1. Jóhannesarbréf 2:15, 16?
10 Jóhannes postuli skrifaði: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum.“ (1. Jóhannesarbréf 2:15, 1 6) Jóhannes gat hér um þrjú grundvallaratriði í þessum heimi sem fólk Jehóva má ekki elska.
11. Hvers vegna mega kristnir menn ekki falla fyrir „fýsn holdsins“?
11 „Fýsn holdsins“ gæti leitt okkur út í margar skaðlegar og banvænar iðkanir sem eru svo algengar í þessum illa heimi sem Satan stjórnar. Meðal þeirra eru „verk“ hins synduga holds — „frillulífi, óhreinleiki, saurlífi, skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur, öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt.“ Við getum ekki að ósekju látið sem vind um eyru þjóta þá aðvörun Páls að „þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.“ (Galatabréfið 5:19-21) Þeir sem iðrunarlausir iðka „verk holdsins“ eru hluti af þessum heimi og munu engan hlut eiga í hinu fyrirheitna ríki sem mun upphefja nafn Jehóva og breyta jörðinni í paradís. (Lúkas 23:43) Greinilegt er því að kristnir menn mega ekki falla fyrir „fýsn holdsins.“
12. (a) Hver er „fýsn augnanna“ og hvernig getur hún haft áhrif á stöðu okkar andlega? (b) Hvers getum við spurt okkur í sambandi við „fýsn augnanna“?
12 „Fýsn augnanna“ er annað einkenni þeirra sem tilheyra heiminum. Þegar þeir safna sér auði og eignum virðast þeir aldrei fá nægju sína. Jafnvel margir, sem hafa gefið einhvern gaum sannindum Biblíunnar sem vottar Jehóva útbreiða, hafa smám saman látið undan „fýsn augnanna“ og því engum andlegum framförum tekið. Löngun þeirra í ný föt, bila, hús, heimilistæki og margt annað, sem gleður augað, verður svo sterk að „tál auðæfanna og aðrar girndir koma til og kefja orðið, svo það ber engan ávöxt,“ eins og Jesús sagði. (Markús 4:18, 19) Athyglisvert er að Satan freistaði Evu með því að koma henni til að langa í eitthvað sem var bannað að taka en hún gat séð með augunum. Samt sem áður mistókst honum algjörlega að lokka Jesú til að syndga með því að teygja sig eftir því sem sjá mátti með augunum. (1. Mósebók 3:1-6; Lúkas 4:5-8) En hvað um þig? Fylgir þú hinu skínandi fordæmi Jesú? Eða hefur það að fullnægja „fýsn augnanna“ tekið svo mikið af tíma þínum, athygli og kröftum að hagsmunir Guðsríkis sitji á hakanum? Ef andleg hugðarefni eru að víkja fyrir slíku skalt þú í skyndingu gera það sem þarf til að breyta því!
13. Út í hvað getur gráðug „fýsn augnanna“ leitt eins og kemur fram hjá Páli og í ýmsum orðskviðum?
13 Hin gráðuga „fýsn augnanna“ getur leitt til óheiðarleika, öfundar, ágirndar og annarra synda sem baka mönnum vanþóknun Guðs. Eins og Páll sagði munu „ásælnir“ ekki „Guðs ríki erfa.“ (1. Korintubréf 6:9, 10) Viturlegur orðskviður aðvarar líka: „Áreiðanlegur maður blessast ríkulega, en sá sem fljótt vill verða ríkur, sleppur ekki við refsingu. Öfundsjúkur maður flýtir sér að safna auði og veit ekki að örbirgð muni yfir hann koma.“ (Orðskviðirnir 28:20, 22) Jafnvel þótt fátæktin komi ekki strax yfir ýmsa ágjarna, öfundsjúka einstaklinga munu þeir annaðhvort deyja Guði vanþóknanlegir eða farast við endalok þessa heimskerfis. — Matteus 24:3; Lúkas 12:13-21.
14. (a) Hvernig getur „auðæfa-oflæti“ komið fram? (b) Hver er undirrót slíks ‚oflætis,‘ skrums og eftirsóknar eftir stöðu? (c) Hvers vegna ber okkur að sporna gegn freistingu til að flíka eigum okkar og því sem við höldum okkur hafa náð?
14 „Auðæfa-oflæti“ verða þjónar Jehóva líka að forðast. Hversu freistandi getur ekki verið að flíka dýrum hlutum sem við höfum eignast! Röng löngun af því tagi kemur mönnum oft ekki bara til að reyna að standa sig í kapphlaupinu við aðra, heldur líka til að komast langt fram úr þeim efnahagslega. Skylt því er það að stæra sig af því sem menn halda sig hafa náð. Í von um virðingar- eða þjóðfélagsstöðu geta menn jafnvel farið að rækta vináttu og stuðning við framámenn í heiminum. En þeir sem láta nota sig þannig hegða sér heimskulega, og þeir sem eru fram úr hófi metnaðargjarnir geta með tímanum orðið eins og hinir ‚óguðlegu menn‘ á dögum Júdasar sem ‚mæltu ofstopaorð og mátu menn eftir hagnaði.‘ (Júdasarbréf 4, 16) Undirrót allrar þessarar stöðufíknar og sýndarmennsku er synsamlegt dramb. (Orðskviðirnir 8:13; 16:18; 21:4) Við verðum því sannarlega að sporna gegn þeirri freistingu að flagga eigum okkar og því sem við höldum okkur hafa náð. Hér á við orðskviðurinn „Að eta of mikið hunang er ekki gott; og að leita sinnar eigin sæmdar, er það sæmd?“ (Orðskviðirnir 25:27, NW) Og með því að flestir menn ganga breiða veginn sem liggur til glötunar, hversu tímabær eru ekki orð Jesú: „Vei yður, þá er allir menn tala vel um yður“! — Lúkas 6:26.
„Heimurinn fyrirferst“
15. (a) Hvaða grundvallarástæðu tilgreinir Jóhannes fyrir því að ‚heyra ekki heiminum til‘? (b) Að hverju ættu drottinhollir kristnir menn að beina kröftum sínum fyrst og fremst?
15 Jóhannes tilgreinir grundvallarástæðu fyrir því að ‚heyra ekki heiminum til‘ þegar hann bætir við: „Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1. Jóhannesarbréf 2:17) „Heimurinn,“ ranglátt mannfélag, er að líða undir lok í ‚þrengingunni miklu‘ sem nálgast ört. (Matteus 24:21) Á því tímabili verður sérhverjum leifum af stjórnmála-, viðskipta- og falstrúarkerfi þessa heims gereytt. Hvernig getur þá nokkur sannur vottur Jehóva helgað allan sinn tíma, krafta og efni því sem bráðlega verður að engu? Drottinhollir kristnir menn munu þess í stað beina kröftum sínum fyrst og fremst á því að efla hag Guðsríkis og það sem er varanlegt, eilíft. Með slíkri drottinhollustu og trú munu þjónar Jehóva ‚sigra heiminn,‘ heim hins rangláta mannfélags eins og Jesús Kristur gerði. (Jóhannes 16:33) Já, og þeir munu lifa af þegar þessi heimur líður undir lok fyrir hendi Guðs, alveg eins og Nói og fjölskylda hans lifðu af flóðið. — 2. Pétursbréf 2:5.
16. Hvaða spurningar bíða athugunar?
16 Þar eð þessi heimur er að liða undir lok, hvernig ættu þá kristnir menn að líta á þátttöku í félagslegum málefnum hans? Hver ættu að vera viðhorf þeirra í sambandi við menntun, viðskiptahætti og afþreyingu? Spurningar af þessu tagi bíða gaumgæfilegrar athugunar okkar.
Hverju svarar þú?
◻ Hver er heimurinn sem sannir fylgjendur Jesú tilheyra ekki?
◻ Hvaða starf, sem lærisveinum Krists er falið, veldur því að þeir geta ekki einangrað sig?
◻ Nefnið nokkrar ástæður fyrir því að vottar Jehóva „heyra ekki heiminum til.“
◻ Hvaða þrjú atriði í heiminum mega þjónar Jehóva ekki elska, til að fylgja heilræðum 1. Jóhannesarbréfs 2:15-17?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Þótt vottar Jehóva ‚heyri ekki heiminum til‘ eru þeir önnum kafnir við að hjálpa fólki af öllum þjóðum andlega.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Ef við ‚heyrum ekki heiminum til‘ munum við hvorki láta undan fýsn augnanna né vera með auðæfa-oflæti.