HARMAGEDÓN — það sem það er ekki
Áfangastaður þinn er aðeins skamman spöl frá Haifa. Í steikjandi sólskini Miðausturlanda brunar bifreiðin þín suður með bugðóttri Kísonánni þar til dalurinn þrengist. Þú ekur um þröngt skarðið milli hárra Karmelfjallanna og Galíleuhæðanna, þar til dalurinn skyndilega opnast fyrir framan þig eins og stór, grunnur diskur og Esdraelonsléttan blasir við. Þú ekur með suðurjaðri sléttunnar og þá kemur þú skyndilega auga á stóra hæð með óvenjuflötum toppi. Þarna er það sem þú varst að leita að! Þetta er Megiddóhæð sem orðið Harmagedón er dregið af.
HARMAGEDÓN — hvað það merkir er hjúpað dularblæ og misskilningi. Hugmyndirnar um merkingu þess eru mýmargar. Orðið sjálft, á grísku Har-Magedon merkir Megiddófjall.a Þetta er biblíuorð sem er að finna í Opinberunarbókinni 16:16 þar sem segir: „Og þeir söfnuðu þeim saman á þann stað, sem á hebresku kallast Harmagedón.“
Hverjir eru samansafnaðir við Harmagedón og hvers vegna? Opinberunarbókin 16:14 svarar að ‚konungar allrar heimsbyggðarinnar‘ séu safnaðir saman „til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.“
Þessi svör vekja upp fjöldan allan af öðrum spurningum. Gegn hverjum berjast ‚konungarnir‘ og um hvað? Hvar munu þeir berjast? Munu þeir beita kjarnorkuvopnum? Er hægt að afstýra stríðinu? Hvað er eiginlega Harmagedón?
Ekki staður
Harmagedón getur ekki verið einhver ákveðinn staður einhvers staðar í heiminum. Ekkert fjall með því nafni er raunverulega til — þótt enn þann dag í dag sé til hæð sem kölluð er Megiddó. Merkingar Harmagedón er að leita í mannkynssögunni og styrjöldum sem háðar voru í grennd við Megiddó.
Megiddó hefur verið vettvangur sumra hörðustu úrslitaorusta í sögu Miðausturlanda. Þær hófust á annarri ársþúsund fyrir okkar tímatal þegar egypski þjóðhöfðinginn Tútmóses III gersigraði þjóðhöfðingja yfir Palestínu og Sýrlandi, og teygir sig í gegnum aldirnar allt fram til ársins 1918 þegar Allenby hermarskálkur bar sigurorð af Tyrkjum.
Þýðingarmeira er þó í hugum biblíunemenda að Megiddó var vettvangur glæsilegra sigra hersveita Ísraels, undir forystu Baraks dómara, yfir voldugum her Jabíns konungs í Kanaan undir stjórn Sísera hershöfðingja. Jehóva Guð skarst í leikinn og veitti Ísraelsmönnum algeran sigur. — Dómarabókin 4:7, 12-16, 23; 5:19-21.
Harmagedón fer því að taka á sig merkingu úrslitaorustu þar sem aðeins er einn, ótvíræður sigurvegari.
Ekki stríð milli jarðneskra þjóða
Deiluefnið, sem stríðið við Harmagedón er háð um — heimsyfirráðin — er mál málanna núna. En þótt tvö stórveldi eldi nú grátt silfur um heimsyfirráðin verður Harmagedón ekki heimsstyrjöld þar sem öðru þeirra er teflt fram gegn hinu. Að vísu heyr heimurinn núna dýrasta og æðisgengnasta vígbúnaðarkapphlaup í allri mannkynssögunni sem varð til þess að blaðið India Today sagði: „Allt er þetta að ýta reikistjörnunni vægðarlaust fram á brún Harmagedón — endanlegs stríðs meðal þjóða.“ En Opinberunarbókin 16:14 gefur til kynna að ‚konungar allrar heimsbyggðarinnar‘ kalli saman sameiginlegan her „til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.“
Harmagedón er þess vegna ekki stríð manna. Það er stríð Guðs. Í Harmagedón verða allar þjóðir jarðarinnar sameinaðar í að berjast gegn ‚hersveitum, sem á himni eru,‘ undir herstjórn ‚Konungs konunga og Drottins drottna,‘ Krist Jesú. Hann er hinn réttmæti stjórnandi heimsins því að Guð hefur ‚lagt allt undir fætur honum.‘ — Opinberunarbókin 19:14, 16; Efesusbréfið 1:22.
Ekki kjarnorkubál
Mörgum þýkir kjarnorkustyrjöld og hryllilegur möguleiki til að um hann sé hugsandi. Í sameiginlegum athugunum 40 vísindamanna árið 1983 var áætlað að þriðjungur til helmingur jarðarbúa myndi farast á augabragði ef háð yrði allsherjar kjarnorkustríð. Skýrsla þeirra, birt í tímaritinu Science, lýsir allt annað en fagurri framtíð fyrir þá sem af myndu lifa. Þar er aðvarað: „Skjóti stórveldin kjarnorkusprengjum hvort á annað í stórum mæli er líklegt að verða muni slíkar umhverfisbreytingar um allan hnöttinn, að þær gætu valdið aldauða stærsta hluta jurta- og dýrategunda jarðarinnar. Fari svo er ekki hægt að útiloka möguleikann á að Homo sapiens deyi út.“
Myndi alvaldur Guð Jehóva leyfa slíkan hrylling? Nei! Hann skapaði ekki jörðina „til þess, að hún væri auðn,“ heldur fullvissar hann okkur um að hann hafi „myndað hana svo, að hún væri byggileg.“ (Jesaja 45:18) Í Harmagedón mun Guð „eyða þeim, sem jörðina eyða,“ ekki svíða hana í kjarnorkubáli. — Opinberunarbókin 11:18.
Ekki linnulaus barátta milli góðs og ills
Sumir trúarleiðtogar álíta Harmagedón vera samfellda baráttu milli góðra og illra afla, hvort sem þau ná um allan heiminn eða eru aðeins í huga mannsins. „Harmagedón á sér stað í einhverjum hluta heimsins á hverjum degi,“ segir í skýringariti við Biblíuna. Hvernig getur það staðist úr því að Biblían lofar að Harmagedón muni binda skjótlega enda á allar illar þjóðir og menn? Kristur, smurður konungur Guðs, mun í Harmagedón ‚mola þær með járnsprota, mölva þær sem leirsmiðsker.‘ — Sálmur 2:9; sjá einnig Orðskviðina 2:21, 22; Opinberunarbókina 19:11-21.
Ekki efnahagshrun á heimsmælikvarða
Stjórnir voldugustu ríkja heims óttast að vanskil þriðja heimsins á skuldum sínum gæti steypt efnahagskerfi veraldar út í það sem tímaritið Business Life kallar „efnahags-harmagedón.“ Það hefði vissulega hörmulegar afleiðingar ef bankastofnanir veraldar yrðu gjaldþrota, en það yrði þó ekki Harmagedón. Harmagedón Biblíunnar er ástand sem nær um allan heiminn og tengist styrjöld, ekki efnahagsmálum. Spámaðurinn Jeremía lýsir því með þessum skýru orðum: „[Jehóva] þreytir deilu við þjóðirnar, hann gengur í dóm vil allt hold. Hina óguðlegu ofurselur hann sverðinu!“ — Jeremía 25:31.
Ekki stríð í Miðausturlöndum
„Einhvern tíma munu hin hinstu átök eiga sér stað í Miðausturlöndum,“ prédikar hinn heimskunni vakningarprédikari Billy Graham. Þar endurómar hann skoðanir margra starfsbræðra sinna. Graham álítur einnig að tefja megi fyrir Harmagedón. „Ég held að heimurinn stefni núna rakleiðis í Harmagedón,“ segir hann, „og eigi sér ekki stað andleg vakning og við snúum okkur til Guðs gæti heimurinn staðið frammi fyrir sínu Harmagedón á þessum áratug.“
Megiddósvæðið myndi hvergi nærri rúma „konunga jarðarinnar og hersveitir þeirra.“ (Opinberunarbókin 19:19) Hlýtur það þá ekki að útiloka kenningar bókstafstrúarmanna um að Harmagedón verði heimsstyrjöld háð á hinum bókstaflegu Megiddóvöllum? Spámaðurinn Jeremía gefur til kynna að Harmagedón muni ná að „útjaðri jarðar“ og að hinir föllnu munu liggja „frá einum enda jarðarinnar til annars.“ — Jeremía 25:32, 33.
Og með því að Harmagedon merkir ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ getur enginn komið í veg fyrir það. Menn geta ekkert gert til að tefja fyrir því. Jehóva hefur „sinn ákveðna tíma“ til að hefja stríðið. Það mun „ekki undan líða.“ — Opinberunarbókin 16:14; 11:18; Habakkuk 2:3.
Grundvöllur vonar
Þeir sem unna réttlætinu þurfa ekki að óttast Harmagedón. Þess í stað getur það verið þeim grundvöllur vonar. Biblían segir: „Þá sá ég himininn opinn, og sjá: Hvítur hestur. Sá, sem á honum sat, heitir Trúr og Sannur, hann dæmir og berst með réttvísi.“ (Opinberunarbókin 19:11) Stríðið við Harmagedón mun þurrka út af jörðinni alla mannvonsku og opna leiðina til að koma þar á réttlátum skilyrðum í alla staði. — Jesaja 11:4, 5.
Í meira en hundrað ár hefur rödd votta Jehóva heyrst boða sigur Guðs í framtíðinni yfir spilltum stjórnendum þessa heims sem ekki vilja víkja. Einkum frá 1925 hafa vottarnir haft skyra mynd af því hvað Harmagedón er og þeir neita að vera þögulir um það. Þeir þrá að hjálpa fólki að lifa Harmagedón af, ekki að falla í því. Þeir hvetja því alla sem á hlýða til að fara eftir ráðinu í Jóel 3:4, 5 þar sem talað er um það er „hinn mikli og ógurlegi dagur [Jehóva] kemur.“ Þar segir einnig: „Hver sem ákallar nafn [Jehóva], mun frelsast.“
Sumir kunna þó enn að velta fyrir sér hvort Harmagedón muni byrja í Miðausturlöndum þótt það eigi að vera heimsstríð. Hvernig getur Guð kærleikans leyft slíkt Harmagedónstríð? Mun sannur friður koma í kjölfar Harmagedóns? Lestu næstu þrjú tölublöð Varðturnsins því að þau munu svara þessum spurningum.
[Neðanmáls]
a Bæði Kittel, McClintock og Strong, sem eru fræðimenn í tungumálum Biblíunnar, eru óvissir um merkingu orðsins „Megiddó,“ en nefna að það geti merkt „liðsafnaður“ eða „staður hersveita.“
[Rammi á blaðsíðu 6]
Hvað er Harmagedón?
Harmagedón ER EKKI . . .
◆ ákveðinn staður
◆ stríð milli þjóða
◆ kjarnorkubál
◆ algert efnahagshrun
◆ barátta milli góðs og ills
◆ stríð í Miðausturlöndum
Harmagedón ER . . .
◆ ástand um allan heiminn þegar allar jarðneskar þjóðir munu berjast gegn syni Guðs, Kristi Jesú, og englaher hans í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘
[Mynd á blaðsíðu 7]
Í Harmagedón mun konungur Guðs, Jesús Kristur, ‚mola allar illar þjóðir með járnsprota, mölva þær sem lersmiðsker.‘ — Sálmur 2:9.