Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.4. bls. 21-25
  • Sameinaðir í að útbreiða orð Jehóva

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Sameinaðir í að útbreiða orð Jehóva
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Eining í verki
  • Guðveldislegar aðferðir
  • Fögnuður — þá og nú
  • Horft fram á við
  • Sýnilegt skipulag Guðs
    Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð
  • ‚Við höfum tekið einróma ákvörðun‘
    Vitnum ítarlega um ríki Guðs
  • Fjölskylda Jehóva nýtur dýrmætrar einingar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1996
  • Hvernig stjórnar Jehóva söfnuði sínum?
    Tilbiðjum hinn eina sanna Guð
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.4. bls. 21-25

Sameinaðir í að útbreiða orð Jehóva

„Hafið ykkar á meðal sama hugarfar og Kristur Jesús hafði, til að þið samhljóða með einum munni vegsamið Guð og föður Drottins okkar Jesú Krists.“ — Rómverjabréfið 15:5, 6, NW.

1. (a) Hver er skipan Jehóva til að sameina fólk sitt? (b) Hvað segir Ritningin um það í hvaða röð þessi sameining fer fram?

JEHÓVA hefur safnað vottum sínum saman í einhuga samfélag sem nær um allan hnöttinn. Það er í samræmi við það heimilisskipulag Guðs sem nær um allan hnöttinn. Það er í samræmi við það heimilisskipulag Guðs sem Páll postuli lýsir í Efesusbréfinu 1:10. Þar talar hann um það sem Guð hafði „ákveðið að framkvæma, er fylling tímans kæmi: Hann ætlaði að safna öllu því, sem er á himnum, og því, sem er á jörðu, undir eitt höfuð í Kristi.“ Fyrstum er safnað þeim sem mynda „litla hjörð“ smurðra kristinna manna, sem eiga að fara til himna, og eftir það þeim sem mynda ‚mikinn múg af öllum þjóðum‘ sem hlakka til að lifa af inn á réttláta „nýja jörð“ sem Guð hefur heitið. — Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 7:3, 4, 9, 13-17; 21:1, 5.

2. Hvað gerir vottum Jehóva mögulegt að tala „samhljóða“?

2 „Samhljóða“ — þannig mæla þessir vottar Jehóva fram boðskap hans um Guðsríkið. Hvers vegna geta þeir gert það? Vegna þess að um allan hnöttinn eru þeir með „sama hugarfar og Kristur Jesús hafði“ meðan hann var á jörðinni. Hann tilheyrði ekki þessum drambsama heimi. Þess í stað lítillækkaði hann sig þegar hann gerði vilja Guðs og byggði upp hlýja, ástríka einingu meðal lærisveina sinna. Þetta var byrjunin á þeirri sameiningu um allan heim sem einkenndi sannkristna menn um aldirnar sem á eftir komu. — Filippíbréfið 2:5-8; Jóhannes 13:34, 35; 17:14.

3. (a) Hvaða andstæður sjást á jörðinni núna? (b) Hvernig hjálpar Ritningin okkur að þekkja alþjóðasamfélag sannkristinna manna?

3 Þessi eining í skipulagi hefur náð hátindi fegurðar sinnar nú á „síðustu dögum,“ svo gerólík þeirri sundrung sem hrjáir heimskerfi Satans þar sem hatur og lögleysi er skefjalaust. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Matteus 24:3, 12) Aldrei fyrr í sögu mannkynsins hefur verið til í 203 löndum hringinn í kringum hnöttinn skipulag sem er einhuga í trú, tilgangi og starfi. Þetta alþjóðasamfélag lærisveina Jesú er þekkjanlegt á þeim ávexti sem það ber. — Jóhannes 15:8; Hebreabréfið 13:15; Galatabréfið 5:22, 23.

Eining í verki

4. (a) Hvaða deila kom upp í söfnuðinum á fyrstu öld? (b) Til hvaða guðræðislegra aðgerða var gripið samkvæmt Postulasögunni 15:1-6?

4 Einingu skipulags Jehóva í verki er lýst fyrir okkur í Postulasögunni 15. kafla. Reyndu að sjá fyrir þér samankomna þroskaða votta Jehóva — postulana tólf, öldungana í söfnuðinum í Jerúsalem og Pál og Barnabas, öldunga úr söfnuðinum í Antíokkíu. Í Antíokkíu, og einnig í Jerúsalem, hafa sumir trúskiptingar úr hópi Gyðinga haldið því ákveðið fram að fólk af þjóðunum verði að láta umskerast og halda lögmál Móse til að hljóta hjálpræði. Postularnir og öldungarnir eru því ‚komnir saman til að líta á þetta mál.‘ — Postulasagan 15:1-6.

5-7. (a) Í hvaða skilningi var ‚mikið þráttað‘? (b) Hvaða vitnisburður var lagður fram? (c) Hvernig var Ritningin látin tala í málinu? (d) Hvaða niðurstöðu komst Jakob að og hver varð lokaniðurstaða ráðsins? (e) Hvað var síðan gert?

5 Málið er rætt hleypidómalaust og þessir trúu menn ræða allt sem mælir með umskurninni og móti. Þeir hafa ekki gert upp hug sinn fyrirfram. Þeir eru fúsir til að skoða málið frá öllum hliðum. Fram fer ‚mikil umræða‘ og ‚mikið er þráttað‘ (Ísl. bi. 1912) en augljóslega er haldið uppi góðri reglu og hlustað með virðingu á skoðanir hinna. Pétur postuli ber því vitni að Guð hafi gefið heilagan anda óumskornum mönnum af þjóðunum — sem er vissulega sterkur vitnisburður fyrir því að holdlegrar umskurnar sé ekki lengur krafist af þeim sem hljota skuli hjálpræði. Barnabas og Páll leggja orð í belg og lýsa þeim mörgu máttarverkum sem Guð hefur unnið í gegnum þjónustu þeirra meðal þjóðanna. — Postulasagan 15:7-12.

6 Þessu næst vitnar Jakob í Ritninguna til stuðnings þeim rökum sem nú er búið að leggja fram. Hann útskýrir að Amos 9:11, 12 vísi fram til þess að hylli Guðs verði endurheimt undir stjórn hins meiri Davíðs, Jesú Krists, þess að Jehóva láti sína óverðskulduðu góðvild ná til ‚allra heiðingja sem nafn hans hefur verið nefnt yfir.‘ Jakob sér enga þörf á að íþyngja trúskiptingum af þjóðunum með því að krefjast þess að þeir umskerist og haldi allar þær reglur sem fólgnar eru í lagasáttmála Móse. Nokkur atriði eru þó nauðsynleg: Þeir verða að halda sér frá skurðgoðadýrkun, frá því að neyta blóðs í nokkurri mynd og frá siðleysi. — Postulasagan 15:13-21.

7 Hið stjórnandi ráð í Jerúsalem kemst að samhljóða niðurstöðu. Það gerir út sendimenn til safnaðarins í Antíokkíu með bréf sem lýkur með þessum hvatningarorðum: „Ef þér varist þetta, gjörið þér vel. Verið sælir.“ — Postulasagan 15:22-29.

Guðveldislegar aðferðir

8. (a) Hvernig er hinu stjórnandi ráði nútímans leiðbeint um ákvarðanatöku? (b) Nefnið dæmi um nokkur mál sem hafa verið skýrð nýverið?

8 Á okkar tímum fylgir hið stjórnandi ráð votta Jehóva, sem er fulltrúi hins ‚trúa og hyggna þjóns‘ húsbóndans á jörðinni þessari postullegu fyrirmynd. (Matteus 24:45-47) Þannig leiðbeinir kristileg reynsla, leiðsögn frá Biblíunni og handleiðsla anda Jehóva þessum hópi smurðra votta um guðræðislegar niðurstöður í málum sem varða söfnuðinn miklu. Til dæmis á síðustu árum hefur hið stjórnandi ráð fylgt hinni biblíulegu aðferð við að skýra mál svo sem biblíuleg viðhorf til þess hverjir geta kallað sig ‚þjóna orðsins,‘ til samviskunnar sem er af Guði gefin, til þess að bera hættuleg vopn og atriði í spádómi Jesaja sem eiga við paradís framtíðarinnar hér á jörð. — Samanber Jóhannes 14:26; 1. Korintubréf 2:10.

9. Hvernig eiga öldungarnir að taka á vandamálum nú á dögum?

9 Öldungar safnaðarins verða líka að fylgja aðferð Postulasögunnar 15. kafla þegar þeir taka á vandamálum nú á dögum. Fyrst skal gera skýra grein fyrir vandamálinu og staðreyndum sem því eru skyld. Þessu næst skal láta ábyggilega votta gefa skýran vitnisburð byggðan á staðreyndum sem málið varða. Leitið í Ritningunni til að fá sjónarmið Jehóva, og færið ykkur einnig í nyt þá hjálp sem kann að vera fáanleg í ritum Varðturnsfélagsins. Leggið málið fyrir Jehóva í bæn og vinnið að samhljóða lausn sem sé í samræmi við kenningar orðs Jehóva og til gagns söfnuðinum. — Jesaja 48:17; 1. Korintubréf 14:33.

Fögnuður — þá og nú

10. (a) Hvernig ættu guðræðislegar ákvarðanir að snerta okkur núna eins og söfnuðinn á fyrstu öld? (b) Hvaða framfarir hafa átt þátt í að styrkja og fjölga fólki Guðs?

10 Þegar meðlimir safnaðarins í Antíokkíu heyrðu úrskurð hins stjórnandi ráðs „urðu þeir glaðir yfir þessari uppörvun.“ Eins er það nú að vottar Jehóva gleðjast yfir því að fregna skipulagslegar ákvarðanir og skýringar á kenningum sem stuðla að góðu andlegu heilsufari þjóna Guðs og framför í verki Jehóva. (Samanber Títusarbréfið 2:1.) En nú þarf hið stjórnandi ráð ekki lengur að handskrifa bréf með fyrirmælum og láta síðan sendiboða bera þau fótgangandi til safnaðanna. Nútímasamgöngur, fjölmiðlatækni og prentbúnaður í meira en 30 deildarskrifstofum Varðturnsins út um allan heim hafa gert mögulegt að flytja ‚fagnaðarerindið um orð Jehóva‘ til milljóna þjóna Guðs á skömmum tíma. Það er gert einkanlega í gegnum tímaritið Varðturninn. Þannig ‚styrkjast söfnuðirnir um allan heim í trúnni og verða fjölmennari dag frá degi.‘ — Postulasagan 15:30-16:5.

11. Hvernig hefur Jehóva notað Varðturninn til að uppfylla Jesaja 30:18-21?

11 Þeir sem hafa lesið Varðturninn í gegnum árin hafa fagnað því að sjá upplag hans fara vaxandi. Á 105 ára göngu sinni hefur upplag hans aukist úr 6000 eintökum á ensku mánaðarlega í 11.150.000 eintök á 102 tungumálum, hálfsmánaðarlega á þeim helstu. Ekki leikur vafi á að Varðturninn hefur verið notaður kröftuglega af okkar mikla fræðara, Jehóva Guði, til að uppfylla fyrirheitið: „Sælir eru allir þeir, sem á hann vona. . . . Eyru þín munu heyra þessi orð kölluð á eftir þér, þá er þér víkið til hægri handar eða vinstri: ‚Hér er vegurinn! Farið hann‘“ — Jesaja 30:18-21.

12. (a) Hvers vegna höfum við nú enn eina ástæðu til að gleðjast? (b) Hvaða kostir ættu að fylgja þessu nýja fyrirkomulagi?

12 Nú er enn ríkari ástæða til að fagna. Frá og með ársbyrjun 1985 hefur Varðturninn birt sama efni samtímis á 23 tungumálum!a Allar þessar útgáfur bera sama myndefni á forsíðu. Þær birta sömu upphafsgreinar og sömu námsgreinar. Með þessu er tryggð samtímis ‚næring‘ sem mun sameina þjóna Jehóva í andlegum vexti „þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni.“ Það ætti að hvetja okkur enn meira svo að við ‚samhljóða með einum munni vegsömum Guð og föður Drottins okkar Jesú Krists.‘ — Efesusbréfið 4:13; Rómverjabréfið 15:6.

13. (a) Hversu umfangsmikil er þessi breyting? (b) Hvernig má því heimfæra 1. Korintubréf 1:10?

13 Er ekki hrifandi að vita að stærstur hluti bræðranna í heiminum skuli sameinaður í að neyta sömu andlegu fæðunnar sama daginn? Já, það er það sem gerist um alla Norður- og Suður-Ameríku, víðast hvar í Evrópu, í Japan og víða í suðurhluta Afríku! Ætlað er að nú þegar njóti yfir 90 af hundraði þeirra sem sækja Varðturnsnámið í heiminum — um 2.500.000 manns í hverri viku — þessarar samtíma ‚næringar.‘ Saman eru þeir „sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ (1. Korintubréf 1:10) Eftir því sem aðstæður leyfa munu fleiri tungumál bætast í hópinn.

14. Hvernig mun þetta vera fjölskyldum til gagns?

14 Til þessa hafa kannski liðið mánuðir á milli þess að einstaklingar úr sömu fjölskyldunni næmu sömu greinar í Varðturninum. En nú geta þeir verið sameinaðir að þessu leyti. Til dæmis geta foreldrar, sem eru erlendir innflytjendur í enskumælandi landi og kunna betur skil á öðru tungumáli, sest niður með enskumælandi börnum sínum og undirbúið saman sama námsefni í Varðturninum á báðum tungumálum. Í tvítyngdum fjölskyldum munu foreldrar vera betur í stakk búnir til að fylgja fyrirmælum Efesusbréfsins 6:4 og 2. Tímóteusarbréfs 3:14, 15.

15. (a) Hvað er nú hægt að gera í þjónustunni á akrinum í samræmi við Jesaja 52:8, 9? (b) Hvað var mögulegt í ársbyrjun 1985 og verður í framtíðinni?

15 Athugum líka okkar opinbera starf á akrinum með tímaritin. Í víðari skilningi geta boðberar Guðsríkis um allan hnöttinn nú ‚æpt fagnaðaróp allir í einu‘ þegar þeir koma á framfæri sömu upplýsingum til almennings á sama tíma. (Jesaja 52:8, 9) Í vitnisburðarstarfi á götum úti á svæðum þar sem töluð eru mörg tungumál geta boðberar sýnt tímarit með sama forsíðustefi á tveim eða fleiri tungumálum. Hugsaðu þér! Á fyrri hluta ársins 1985 hafa boðberar Guðsríkis alls staðar á jörðinni gefið örvandi, samhljóða vitnisburð um Harmagedón! Þegar fram liða stundir kann Jehóva að leiðbeina fólki sínu um aðrar þróttmiklar, samhljóða yfirlýsingar um allan heim þegar það þjónar „saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið.“ (Filippíbréfið 1:27) Samtímaútgáfa Varðturnsins á mörgum tungumálum mun gera slíkar yfirlýsingar mögulegar. — Samanber Daníel 11:44.

Horft fram á við

16. (a) Hvað segir þessi Varðturn okkur um blaðastarfið á blaðsíðu 30? (b) Hvers vegna þarfnast fólk blaðanna okkar núna?

16 Árið 1984 hafa vottar Jehóva dreift tímaritunum Varðturninn og Vaknið! í miklu upplagi. Jehóva hefur blessað þetta starf ríkulega eins og sjá má af tölunum á blaðsíðu 30 í þessu tímariti. Dreifing tímaritanna á akrinum um allan heim árið 1984 jókst um 11,1 og nam alls 287.358.064 eintökum, en áskriftum að tímaritunum fjölgaði um 3,2 af hundraði í 1.812.221. Enginn vafi leikur á að sífellt fleira fólk þráir að vita hvers vegna þjóðirnar eru angistarfullar og ‚ráðalausar.‘ (Lúkas 21:25, 26) Foreldrar vilja hamingjuríka framtíð fyrir börnin sín — betra hlutskipti en að búa á jörð sviðinni eftir kjarnorkustríð. Tímaritin okkar færa fólki lifandi von! — Matteus 12:18, 21; Rómverjabréfið 15:4.

17. Hvernig munu blöðin hjálpa okkur að standa gegn djöflinum?

17 Hvað þá á árinu 1985? Boðskapur Varðturnsins og Vaknið! verður sífellt hnitmiðaðri. Þess ber að vænta eftir því sem líður á hina síðustu daga heims Satans. (Opinberunarbókin 12:12) Villist ekki! Djöfullinn vill gjarnan letja okkur þess að taka reglulega þátt í þjónustu Jehóva. Já, Satan vildi gjarnan slíta okkur frá hópi þjóna Guðs og starfi hans til að svelgja okkur í sig. (1. Pétursbréf 5:8) En við getum staðið gegn honum með því að sækja reglulega samkomur til að afla okkur nákvæmrar þekkingar, og með því að nota þessa auknu þekkingu til að þjóna Jehóva. — Efesusbréfið 6:11, 14-16; Kólossubréfið 1:9-11.

18. (a) Hversu mikil er ábyrgð þín sem boðberi Guðsríkis? (b) Hvernig getum við heimfært heilræði Rómverjabréfsins 12:10, 11 og 15:5, 6?

18 Ert þú boðberi Guðsríkis? Ef svo er gegnir þú lykilstöðu í guðveldisþjóðfélagi nútímans. Sem vígður kristinn maður kannt þú að gegna öðrum skyldum í söfnuðinum. En viljir þú lifa í samræmi við nafn Jehóva verður þú að vera kostgæfur þjónn orðsins á akrinum. Sameinuð í bróðurkærleika og ástúð skulum við öll halda áfram að vera brennandi í andanum í þjónustunni við Jehóva. (Rómverjabréfið 12:10, 11) Óháð því álagi, sem við kunnum að vera beitt af Satan og heimi hans, verðum við að halda áfram sem ein heild, já, „samhljóða með einum munni“ við að vegsama Jehóva með því að gera kunnugan tilgang hans með ríkið.

19. (a) Hvernig getum við tekist á við ofsóknir og önnur vandamál? (b) Hvaða heilræði gefur Sefanía 3:8, 9?

19 Mörg okkar þurfa að sæta ofsóknum eða prédíka á svæðum sem eru lítt móttækileg fyrir prédikun okkar. En höldum áfram að vera með sama hugarfari og Kristur Jesús. (Jóhannes 16:33; 1. Pétursbréf 4:1, 2) Sem sameinuð heild skulum við láta í ljós ósvikið hugrekki — hinn innri, andlega styrk sem er þolgóður og kiknar ekki undir álagi. (Sálmur 27:14; Filippíbréfið 1:14) Sláum aldrei slöku við í leit okkar að sauðumlíkum mönnum. ‚Væntum‘ Jehóva og reikningsskiladags hans af ákefð, þjónum honum sem einn maður í að ákalla nafn hans og að tala hið ‚hreina tungumál‘ sannleikans. — Sefanía 3:8, 9.

20. (a) Hvernig getum við öðlast sanna hamingju? (b) Hvernig hefur Jesaja 11:6-9 ræst með eftirtektarverðum hætti?

20 Megi allir sem vegsama Guð sameiginlega „íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.“ (Efesusbréfið 4:24) Það veitir ósvikna hamingju. Því er lýst í Jesaja 11:6-9 sem segir frá hinni andlegu paradís sem nú er meðal endurreistra þjona Jehóva. Hvílíkur friður og eindrægni! Hversu fjarlæg ágirnd og skaðleg persónueinkenni! Við tökum eftir lokaorðum lýsingarinnar á paradís: „Hvergi á mínu heilaga fjalli munu menn illt fremja eða skaða gjöra, því að jörðin er full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ ‚Heilagt fjall‘ sameinaðrar tilbeiðslu á Jehóva stendur nú traustum grunni út um alla jörðina. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva hefur komið vottum sínum til að vegsama nafn hans „samhljóða með einum munni.“ Þannig hefur „jörðin,“ hin andlega jarðeign þjóna hans, verið fyllt ‚þekkingu á Jehóva.‘

21. Hvers vegna ættum við að dreifa blöðunum eins víða og unnt er?

21 Megum við, í þeim krafti sem Jehóva veitir, gefa Varðtuninum og förunaut hans, tímaritinu Vaknið!, eins mikla útbreiðslu og mögulegt er. Megum við gera það í þeirri von að fólk frá endimörkum jarðar og öllum þjóðum muni „minnast þess og hverfa aftur til [Jehóva].“ — Sálmur 22:28; Opinberunarbókin 15:4.

[Neðanmáls]

a Þessi tungumál eru: Afríkanska, danska, enska, finnska, franska, hollenska, ítalska, japanska, norska, portúgalska, spænska, sænska, thaílenska og þýska; og afrísku mállýskurnar sepedí, sesoþó, tsonga, tsvana, venda, xhósa og súlú; svo og mál í tveim löndum þar sem starf votta Jehóva er takmörkunum háð.

Manst þú?

◻ Hvernig starfaði söfnuðurinn á fyrstu öld?

◻ Hvaða blessun ætti að hljótast af samtímaútgáfu Varðturnsins?

◻ Hverju var áorkað með blöðunum árið 1984?

◻ Hvernig getum við dafnað andlega, jafnvel á tímum erfiðleika?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila