Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.6. bls. 8-12
  • Hver getur túlkað „táknið“ rétt?

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Hver getur túlkað „táknið“ rétt?
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • „Táknið“ á okkar dögum.
  • Tíminn þegar ‚táknið‘ átti að birtast
  • Verið þakklátir — Messíasarríki Jehóva stjórnar
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1991
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.6. bls. 8-12

Hver getur túlkað „táknið“ rétt?

„Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma?“ — Lúkas 12:56.

1, 2. Hvað gátu óvinir Jesú lesið úr útliti himsins en hvað gátu þeir ekki skilið?

FRÁ FORNU fari hafa menn kunnað að segja fyrir um veður. Oftast voru spár þeirra byggðar á útliti og hreyfingum skýja, vindátt og ljósfyrirbærum andrúmsloftsins, til dæmis hringjum um sól og tungl eða lit himinsins að morgni og kvöldi. Margir þóttu glöggir á hvernig veður myndi verða komandi dægur.

2 Drottinn Jesús Kristur tók þetta sem dæmi þegar hann einu sinni stóð frammi fyrir fjandmönnum sínum. Guðspjallaritarinn Lúkas greinir svo frá því atviki: „Hann sagði og við fólkið: ‚Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskótt: „Nú fer að rigna.“ Og svo verður. Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: „Nú kemur hiti.“ Og svo fer. Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma?‘“ — Lúkas 12:54-56.

3. Hvaða „tákn,“ sem sannaði að Jesús var Messías, gátu fjandmenn hans ekki falið?

3 Þessir drembilátu fjandmenn Jesú gátu sagt fyrir um veðrið en þeir voru of hræsnisfullir og andlega fáfróðir til að skilja mál sem hafði miklu meiri þýðingu. Jesús gerði ýmis tákn til að hjálpa hjartahreinum mönnum að trúa á sig. (Jóhannes 2:23) Einkum var þó dauði hans páskadaginn árið 33 og upprisa þrem dögum síðar „tákn“ sem sannaði að hann var Messías eða Kristur. (Matteus 12:38-41; Lúkas 11:30) Að sjálfsögðu reyndu fjandmenn Jesú að fela þetta „tákn.“ (Matteus 27:62-28:20; Postulasagan 4:1-4) En áður en Jesús steig upp til himna urð yfir 500 Gyðingar vitni að því að hann væri upprisinn. (1. Korintbréf 15:3-6) Núna er líka sýnilegt „tákn“ sem ekki er hægt að fela. Um líf og dauða er að tefla að skilja og túlka það rétt. En hvers konar „tákn“ er þetta? Hverjir geta túlkað það af nákvæmni?

„Táknið“ á okkar dögum.

4. Hvaða „tákn“ sést núna? Lýsið því nánar. (Matteus 24:3)

4 Lærisveinar Jesú höfðu spurt hann: „Hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?“ Kristur svaraði með því að segja fyrir um dæmalausar styrjaldir, matvælaskort, jarðskjálfta og önnur atriði ‚táknsins‘ um ósýnilega nærveru sína sem konungur Guðsríkis. Áberandi hluti táknsins skyldi vera prédikun Guðsríkis um allan hnöttinn sem yfir 2.840.000 vottar Jehóva vinna nú að í 203 löndum. Rit Varðturnsfélagsins hafa oftsinnis vakið athygli á þessu og öðru sem sýnir að ‚táknið‘ um ‚nærveru‘ Jesú blasir nú við. — Matteus 24. og 25. kafli; Markús 13. kafli; Lúkas 21. kafli.

5. Hvers vegna tók Jesús ekki of djúpt í árinni þegar hann kallaði Gyðinga fyrstu aldarinnar ‚vonda og ótrúa kynslóð‘?

5 Því verður ekki móti mælt að frá því að fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 hafa þau atriði, sem uppfylla ‚táknið,‘ orðið sífellt auðsærri. Hvaða þýðingu ætti það að hafa fyrir okkur? Við viljum ekki vera eins og Gyðingarnir fyrir nítján öldum sem voru veðurglöggir en vildu ekki sjá hin skýru sönnunargögn, sem voru fyrir augunum á þeim, eða draga rökrétta ályktun af þeim. Löngu fyrir þann tíma hafði Guð gefið Móse kraft til að gera þrjú tákn til að sanna hinum þjáðu Ísraelsmönnum það vald sem Guð hafði gefið honum. (2. Mósebók 4:1-31) Gyðingarnir á fyrstu öld fengu miklu fleiri en þrjú tákn en voru ófúsir til að viðurkenna Messías sem spámanninn meiri en Móse. (Jóhannes 4:54; Hebreabréfið 2:2-4) Jesús var því ekki að ýkja þegar hann kallaði þá ‚vonda og ótrúa kynslóð.‘ — Matteus 12:39.

6. Hvað segja upplýstir menn núna um ástand heimsmála?

6 Margir nútímamenn, sem vilja ekki eða trúa ekki á endurkomu Jesú Krists, kunna ekki að túlka rétt ‚táknið‘ um endalok þessa heimskerfis. Ástand mála í heiminum er þó ekkert uppörvandi eins og eftirfarandi dæmi bera með sér:

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Javier-Perez de Cuellar, hefur bent á að heimurinn sé kominn á mjög hættulegt stig í þróun alþjóðamála og að sóknin í átt til réttvísrar, friðsamlegrar og stöðugrar alþjóðaskipanar virðist hafa hægt á sér. . . . „Hið dvínandi gagnkvæma traust meðal þjóða er frjó jörð fyrir spennu og baráttu,“ sagði framkvæmdastjóri Sþ. — Indian Express, þann 22. október 1983.

Margir okkar hafa sagt það um árabil að kjarnorkustríð myndi drepa milljónir saklausra manna og gera stóra hluta jarðarinnar óbyggilegan. . . . Hópur virtra vísindamanna hefur komist að enn dapurlegri niðurstöðu — að kjarnorkustyrjöld, eða jafnvel einstök árás stórveldanna hvort á annað með kjarnorkuvopnum, gæti hleypt af stað loftslagshamförum sem gætu orðið milljörðum en ekki milljónum manna að fjörtjóni og hugsanlega gereytt mannlegu lífi á jörðinni. Rannsóknirnar, sem stóðu í tvö ár, voru gerðar fyrir ráðstefnu um langtímaáhrif kjarnorkustyrjaldar á lifheim jarðarinnar. Niðurstöður rannsóknanna voru staðfestar af liðlega hundrað vísindamönnum . . . Carl Sagan . . . lýsti afleiðingum kjarnorkustyrjaldar óblíðum orðum: „Veruleg hætta yrði á aldauða tegundarinnar maður.“ — The Express, þann 3. nóvember 1983.

7. Hvar verða þeir sem vænta lífs í betri heimi að leita vonar?

7 Ýmsir áreiðanlegir heimildarmenn telja því framtíðarhorfurnar ekki góðar. Þær eru sérstaklega slæmar vegna þess að þeir geta ekki bent á neina leið fram hjá þeim hamförum sem þeir sjá fram á. Allir sem vilja lifa í betri heimi þrá að sjálfsögðu að heyra boðskap sem gefur þeim von. Til allrar hamingju er leið út úr þessum ógöngum því að í fortíðinni lifðu menn af heimshamfarir sem ógnuðu lífi manna ekkert síður. Ef enginn hefði lifað af flóðið á dögum Nóa byggju ekki yfir fjórir milljarðar manna á jörðinni núna! Aðeins ein bók — heilög Biblía — greinir nákvæmlega frá því hvernig átta manns lifðu af þessar heimshamfarir ásamt mörgum mismunandi tegundum dýra.

8. Hvað áttu lærisveinar Jesú að gera, ólíkt öðrum, þegar núverandi heimskerfi væri í þann mund að hverfa?

8 Með því að þessi sama áreiðanlega bók geymir lýsingu Jesú á því ástandi sem myndi ríkja á jörðinni þegar hið deyjandi heimskerfi, sem nú er, væri að líða undir lok, ættum við þá ekki að reyna að túlka þetta „tákn“ rétt? Þrjátíu og sjö árum áður en herir Rómar eyddu Jerúsalem árið 70 greindi Jesús frá þeim mörgu atriðum sem til samans mynda ‚táknið‘ um yfirvofandi heimshamfarir sem flóðið var fyrirmynd um. Meðal annars sagði hann: „Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný. Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast. Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð. En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ — Lúkas 21:25-28.

9. Hvernig var ætlunarverk þessa tímarits látið í ljós á forsíðu þess á árunum 1895 til 1931?

9 Vitnað var í hluta af þessum spádómi á forsíðu enskrar útgáfu Varðturnsins allt frá 1. janúar 1895 til 1. október 1931. Yfir biblíutilvitnunni stóð varðturn sem sendi frá sér ljósgeisla en þungar öldur skullu á klettinum sem turninn stóð á. Þannig gaf tímaritið til kynna ætlunarverk sitt. Kynslóðin, sem þá var uppi, er enn ekki öll og sumir af henni eru að lesa þetta tölublað.

10. Hvernig getum við umflúið þann ótta sem þjakar mennska leiðtoga núna?

10 Framámenn í heiminum, sem eru að bugast af ótta og kvíða, túlka hina ýmsu þætti ‚táknsins‘ hver á sína vísu. En best getur Jesús Kristur túlkað það og ef við leggjum þann skilning í ‚táknið,‘ sem hann gerði, þurfum við ekki að vera haldin sama ótta og mennskir leiðtogar sem standa ráðalausir frammi fyrir glundroðanum í heiminum. Við fögnum því að lausn okkar undan þessu illa kerfi er í nánd.

Tíminn þegar ‚táknið‘ átti að birtast

11. Hvernig gaf Jesús til kynna að heimsatburðir, sem boðuðu endalokin, myndu gerast á tilsettum tíma?

11 Atburðirnir í heiminum gerast á þeim tíma sem þeim var ætlaður. Hvernig víkur því við? Áður en Jesús bar fram spádóminn í Lúkasi 21:25-28 sagði hann fyrir um aðra eyðingu Jerúsalemborgar. Eins og hann hafði sagt fyrir um átti hún sér stað árið 70 að okkar tímatali. Jesús sagði um Gyðingana: „Þeir munu falla fyrir sverðseggjum og herleiddir verða til allra þjóða, og Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“ (Lúkas 21:24) Hvenær lauk þeim tímum er heiðnar þjóðir skyldu fótum troða Jerúsalem? Hér er um meira að vera en aðeins það sem henti jarðneska Jerúsalemborg. Sá dagur þegar Ísraelar yfirtóku hinn forna borgarhluta Jerúsalem, og að hún er nú höfuðborg hins sjálfstæða Ísraelsríkis, hefur því ekki þýðingu í þessu sambandi. Það er stundatafla Guðs sem máli skiptir!

12. Hvenær hófust heiðingjatímarnir, hversu langir voru þeir og hvenær lauk þeim?

12 Hinir heiðnu Rómverjar byrjuðu að fótum troða Jerúsalem árið 63 f.o.t., en á undan þeim höfðu hinir heiðnu Grikkjar, Persar og Babýloníumenn fótum troðið þessa „borg hins mikla konungs,“ Jehóva. (Matteus 5:34, 35) Babýloníumenn lögðu borgina og musteri hennar í rúst árið 607 f.o.t. Allt frá þeim tíma var fótum troðið af heiðingjum það sem táknaði ríki Guðs, og þá hófust heiðingjatímarnir. Þessir heiðingjatímar áttu að vera sjö talsins, hver samsvarandi 360 daga löngu spádómsári. Samkvæmt reglunni dagur fyrir ár yrðu hinar „sjö tíðir“ alls 2520 ára langar. (Daníel 4. kafli; 4. Mósebók 14:34; Esekíel 4:6) Þar eð þær hófust með eyðingu Jerúsalem árið 607 f.o.t. hlutu þær að enda árið 1914 að okkar tímatali.

13. Hversu lengi hafa biblíunemendur vitað hvenær heiðingjatímunum skyldi ljúka?

13 Þá þegar árið 1880 sagði tímarítið Varðturninn (í enskri útgáfu) að heiðingjatímarnir næðu fram til ársins 1914. Þegar út kom bókin The Time Is at Hand (Tíminn er í nánd) árið 1889 var biblíunemendum um alla jörðina gert enn betur viðvart um þá staðreynd að heiðingjatímunum myndi ljúka haustið 1914.

14. Hvers vegna getum við sagt að heiðingjatímunum hafi lokið árið 1914 þrátt fyrir það sem gerðist í Jerúsalem árið 1948?

14 Nú, var þá hætt að fótum troða hina fornu Jerúsalemborg af heiðingjum, þjóðum öðrum en Gyðingum, það ár? Nei, árið 1914 var hin sögufræga borg enn undir yfirráðum Tyrkjaveldis sem var þá bandamaður þýska ríkisins. Þann 9. desember 1917 náði breskur her undir stjórn Allenbys hershöfðingja borginni af Tyrkjum. Jersúsalem var undir breskri stjórn í umboði Þjóðabandalagsins fram til ársins 1948. Þá risu Gyðingar upp og tóku vesturhluta Jerúsalemborgar utan gamla borgarhlutans. Múhameðstrúarmenn lögðu undir sig gamla borgarhlutann. Hvernig getum við þá sagt að heiðingjatímunum hafi lokið árið 1914? Vegna þess að það ár fæddist ríkisstjórn hins mikla konungs Jehóva á himnum.

15, 16. (a) Hvenær hætti hin forna Jerúsalem að vera „borg hins mikla konungs,“ Jehóva, og hvaða háleitari Jerúsalem er til? (b) Hvar hlýtur Jehóva þá að hafa sett Jesú Krist í embætti sem konung?

15 Þegar Jesús var á jörðinni stóð musteri Guðs í Jerúsalem og Jesús dýrkaði Guð þar. Jerúsalem gat því kallast „borg hins mikla konungs“ Jehóva. (Matteus 5:34, 35) En þegar Jesús dó páskadaginn árið 33 og innra fortjald musterisins rifnaði á undraverðan hátt hætti borgin að vera konungleg borg Jehóva. Eyðing sú sem hinir heiðnu Rómverjar leiddu yfir Jerúsalem árið 70 staðfesti það. Til allrar hamingju fyrir kristna Gyðinga á þeim tíma, svo og fyrir alla kristna menn upp frá því, er til önnur Jerúsalem og háleitar, ‚hin himneska Jerúsalem.‘ — Hebreabréfið 12:22.

16 Í samræmi við þetta byrjaði spádómur Jesú í Lúkasi 21:24 að rætast gagnvart jarðneskri Jerúsalem en hlýtur síðan að beinast að ‚himneskri Jerúsalem,‘ því að ‚himnesk Jerúsalem‘ er komin í stað hinnar jarðnesku Jerúsalem sem „borg hins mikla konungs“ Jehóva Guðs. Þar, í þeirri himnesku „borg,“ gat ‚konungurinn mikli‘ Jehóva sett sinn dýrlega gerða son Jesú Krist á hásæti við lok heiðingjatímanna árið 1914.

17. Hvaða boð gaf Guð konunginum Jesú Kristi þegar heiðingjatímunum lauk, og hverjir buðu sig fúslega fram til þjónustu við hann?

17 Þá rann upp tími, ákveðinn af Jehóva, til að gefa krýndum syni sínum Jesú Kristi þau boð sem felast í orðunum í Sálmi 110:2, 3: „[Jehóva] réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna! Þjóð þín kemur sjálfboða á valdadegi þínum. Í helgu skrauti frá skauti morgunroðans kemur dögg æskuliðs þíns til þín.“ Eins og spádómurinn sagði bauð vígð „þjóð,“ sem fetaði í fótspor Jesú og gerði sér ljóst að heiðingjatímunum lauk árið 1914, sig fúslega fram til að kunngera hið nýstofnaða ríki Jehóva Guðs á himnesku Síonfjalli í höndum Drottins Jesú Krists. En hinar svonefndu kristnu þjóðir beygðu sig ekki fúslega undir hinn nýkrýnda konung Jehóva. Þær reyndust vera ‚óvinir‘ hans því að þær tóku þátt í fyrstu heimsstyrjöldinni í sögu mannsins sem háð var um heimsyfirráðin. Um allan heim reyndu þær líka að leggja stein í götu þeirra sem boðuðu ríki Guðs.

18. Hvernig kom fjandskapur gegn ríki Guðs í ljós árið 1918?

18 Fjandskapurinn gegn ríki Guðs birtist sérstaklega skýrt árið 1918. Þann 8. maí 1918 var ritstjóri enskrar útgáfu Varðturnsins og fjöldi samstarfsmanna hans handtekinn í skjóli stríðsæsingsins. Síðar, þann 21. júní, voru þeir dæmdir til margra ára fangelsisvistar í alríkisfangelsinu í Atlanta í Georgia í Bandaríkjunum. Það var ekki fyrr en stríðinu var lokið og þessir þjónar Guðs höfðu setið níu mánuði í fangelsi að þeim var sleppt gegn tryggingu. Síðar voru þeir hreinsaðir af öllum hinum ranga áburði sem þeir höfðu mátt þola.

19. Hvaða afstöðu tók alríkisráð ameríska kirkna til Þjóðabandalagsins eftir fyrri heimsstyrjöldina?

19 Fyrri heimsstyrjöldinni lauk þann 11. nóvember árið 1918 og í mánuðinum á eftir lýsti Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku sig opinberlega stuðningsmann Þjóðabandalagsins sem þá var komin fram tillaga um. Þetta trúarlega ráð lýsti Þjóðabandalagið verið „pólitíska ímynd Guðsríkis á jörð.“ Bandaríki Norður-Ameríku létu þó þessi trúarlegu meðmæli sem vind um eyru þjóta og neituðu af pólitískum ástæðum að ganga í bandalagið. Þau gerðust aðeins aðilar að Alþjóðadómstólnum. Eigi að síður tók Þjóðabandalagið til starfa árið 1920 og meðlimir alríkisráðs kirknanna veittu því blessun sína og stuðning.

20. Hvaða afstöðu tóku þjónar Jehóva til Þjóðabandalagsins og hvað byrjuðu þeir að kunngera?

20 Tímaritið Varðturninn og þjónar Jehóva, sem dreifðu því, viðurkenndu þó ekki Þjóðabandalagið sem pólitískan staðgengil Guðsríkis. Þeir viðurkenndu aldrei að það væri uppfylling fyrirmyndarbænarinnar sem Jesús kenndi: „Til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ (Matteus 6:9, 10) Þeir buðu sig ekki fram í þjónustu þessarar varaskeifu mannanna, þessa falsaða Guðsríkis! Þess í stað studdu þeir hið sanna Guðsríki í höndum Jesú Krists í ‚Jerúsalem á himnum.‘ Með hjálp Guðs höfðu þeir túlkað rétt ‚táknið‘ um ‚nærveru Jesú og endalok veraldar.‘ Þeir hófust því handa við að kunngera Guðsríki um allan heim.

Hverju svarar þú?

◻ Hvaða „tákn“ sést nú á dögum og í hverju er það fólgið?

◻ Hvernig getum við umflúið þann ótta sem leiðtogar veraldar eru haldnir?

◻ Hvenær hófust heiðingjatímarnir og hvenær lauk þeim?

◻ Í hvaða „Jerúsalem“ hefur Jehóva sett Jesú Krist í embætti sem konung?

◻ Hvernig litu þjónar Jehóva á Þjóðabandalagið?

[Tafla á blaðsíðu 11]

Október árið 607 f.o.t. til október árið 1 f.o.t. = 606 ár.

Október árið 1 f.o.t. til október árið 1914 e.o.t. = 1914 ár

SJÖTÍÐIRHEIÐINGJANNA = 2520 ár

[Mynd á blaðsíðu 10]

Þeir sem skilja „táknið“ rétt geta lifað af endalok þessa kerfis, alveg eins og átta manns lifðu af flóðið

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila