Sjáðu „táknið“ og skildu þyðingu þess
„Þá er [Jesús] sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinar til hans og spurðu hann einslega: ‚Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?‘“ — Matteus 24:3.
1. Hvers vegna hafa hinir miklu atburðir frá 1914 ekki verið tilviljun og hvers spurðu lærisveinar Jesú hann?
ÞAÐ ER engin tilviljun að frá því að fyrri heimsstyrjöldin var háð á árunum 1914 til 1918, hafa átt sér stað atburðir sem hafa hrist heiminn. Þeim var spáð fyrir nítján öldum af Jesú Kristi. Hann hafði sagt lærisveinum sínum frá mörgu óvæntu sem ætti eftir að koma, og þess vegna spurðu þeir hann: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar [tákn nærveru þinnar og endaloka heimskerfisins, NW]?“ — Matteus 24:3.
2. Hvers vegna vildu postularnir fá að vita meira en aðeins það sem kæmi á undan eyðingu Jerúsalem árið 70?
2 Þessir postular vildu fá að vita meira en aðeins það sem myndi gerast frá þeirri stundu fram til eyðingar Jerúsalem. Jesús sneri hvorki sýnilegur né ósýnilegur aftur við það tækifæri, og kerfið, sem verið hafði til allt frá því að flóðinu lauk, leið ekki undir lok við eyðingu borgarinnar árið 70 að okkar tímatali. ‚Táknið um ósýnilega nærveru Jesú og endalok heimskerfisins‘ átti ekki að birtast fyrr en löngu eftir að lífi postulanna hér á jörð yrði lokið.
3. (a) Hvað sýnir að „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ var ekki prédikað af trúflokkum kristna heimsins á tímum fráhvarfsins eftir dauða postulanna? (b) Mun Guðsríki bregðast þegar Sameinuðu þjóðirnar bregðast?
3 Með dæmisögum um ríki Guðs, sem einnig voru spádómar, hafði Jesús sagt postulum sínum frá trúarlegri uppreisn sem myndi verða eftir burtför hans til himna og dauða þeirra. Yrði „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ prédikað í einhverjum mæli um allan heiminn meðan þetta fráhvarf stæði yfir? (Matteus 24:14) Að minnsta kosti var það ekki prédikað af trúfélögum kristna heimins, því að í desember 1918 hyllti Alríkisráð kirkna Krists í Ameríku Þjóðabandalagið, sem þá hafði komið fram tillaga um, sem „pólitíska ímynd Guðsríkis á jörð.“ Þrátt fyrir þennan stuðning trúarbragðanna brást Þjóðabandalagið þegar síðari heimsstyrjöldin braust út árið 1939. En brást hið sanna ríki Guðs um leið? Nei! Það mun ekki heldur bregðast þegar arftaki Þjóðabandalagsins, Sameinuðu þjóðirnar, munu bregðast innan tíðar. Guðsríki mun eyða Sameinuðu þjóðunum þótt til þess kunni að þurfa fjölmennar englasveitir!
4. Hvers vegna átti prédikun Guðsríkis að vera hluti ‚táknsins‘?
4 Það sem á undan er farið gefur okkur gleggri skilning á þessari þýðingarmiklu staðreynd: Það var til svars við beiðninni um „tákn“ að Jesús sagði fylgjendum sínum: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Þetta merkir að slík prédikun Guðsríkis um alla jörðina ætti að vera hluti hins samsetta ‚tákns um endalok veraldar.‘ Það yrði líka sýnileg sönnun um ósýnilega ‚nærveru‘ Jesú Krists. Vert er að gefa því gaum í hvaða röð Jesús skipaði atburðunum á undan spádómi sínum um prédikun Guðsríkis. Hann sagði meðal annars:
5. Nefnið sum atriði ‚táknsins‘ sem Jesús lýsti áður en hann sagði fyrir um prédikun Guðssríkis um heim allan.
5 „Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn. Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. . . . Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna. En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Matteus 24:6-13.
6. Hvers vegna er hið samsetta „tákn“ ekki aðeins framhald atburðamynstursins á undan?
6 Satt er að verið höfðu styrjaldir, matvælaskortur, jarðskjálftar og drepsóttir í gegnum alla mannkynssöguna — einnig fyrir 1914. (Lúkas 21:11) Þó hafði ekkert af því gerst í þeim mæli sem verið hefur frá því að heiðingjatímunum lauk á því örlagaríka ári. Þær alþjóðadeilur, sem komu óvænt upp sumarið 1914, mögnuðust upp í hernaðarátök sem 28 þjóðir blönduðu sér í áður en yfir lauk. Samfara stríðinu urðu jarðskjálftar. Þá varð matvælaskortur, hungur, og á síðasta ári heimsstyrjaldarinnar gaus upp drepsótt, sem kölluð var spánska veikin, og tók yfir 20 milljónir mannslífa. Þetta var ekki bara framhald þess atburðamynsturs sem verið hafði áður. Það var upphaf atburðarásar sem myndar „tákn“ þess að ‚endalok‘ þessa heimskerfis séu komin eins og spáð hefur verið um. (Daníel 12:4) Síðasta bók Biblíunnar, Opinberunarbókin, tekur af öll tvímæli um það.
7. Hvers vegna var Opinberunarbókin skrifuð og hvaða þýðingu höfðu margir þeirra atburða sem þar var lýst með táknum?
7 Jóhannesi postula, sem var gefin opinberunin, var boðið að færa hana í letur í sérstökum tilgangi. Hver var hann? „Að sýna þjónum [Guðs] það sem verða á innan skamms.“ Og í lok Opinberunarbókarinnar segir Drottinn Jesús Kristur: „Já, ég kem skjótt.“ Jóhannes svara: „Amen. Kom þú, Drottin Jesús.“ Þegar þeir atburðir yrðu, sem þar var lýst með táknum, myndi það merkja að ‚endalokatími‘ þessa heimskerfis væri runninn upp. (Opinberunarbókin 1:1; 22:20) Já, þeir myndu hjálpa okkur að sjá hið samsetta „tákn“ og skilja merkingu þess.
8. Hver er riddarinn á ‚hvíta hestinum‘ og hvenær bauð Guð honum að sækja fram gegn óvinum sínum?
8 Í 6. kafla Opinberunarbókarinnar er frásögn sem nefnd hefur verið „riddararnir fjórir í Opinberunarbókinni.“ Fyrsta hestinn, sem er hvítur, situr hinn dýrlega gerði Jesús Kristur og hann ríður fram til að heyja stríð við óvini sína. Guð hafði gefið honum umboð til þess við lok heiðingjatímanna þegar óvinir Jesú á himni og jörð hefðu átt að beygja sig undir stjórn hans. — Sálmur 2:1-12.
9. Hvað er táknað með riddaranum á (a) rauða hestinum? (b) svarta hestinum? (c) bleika hestinum?
9 Annar hesturinn er rauður og sá sem situr hann táknar alþjóðastríð því að honum var fengið hervopn, „sverð mikið.“ Þriðji riddarinn situr svartan hest og hann táknar matvælaskort. Hvernig vitum við það? Vegna þess að hann hélt á vog í hendi sér og mældi með henni daglegar nauðsynjar á uppsprengdu verði. Fjórði riddarinn situr bleikan hest og táknar drepsótt því að frásagan segir: „Hann hét Dauði, og Hel [gröfin] var í för með honum.“ Að vísu var þessum fjórða riddara gefið vald „til þess að deyða með sverði“ styrjaldar, „með hungri . . . og láta menn farast fyrir villidýrum jarðarinnar.“ Þó er vert að taka eftir að honum var líka gefið vald til að leggja menn að velli með „drepsótt.“ — Opinberunarbókin 6:1-8.
10. Hvað átti að gerast eftir að fimmta og sjötta innsiglið voru rofin og hvað yrðu jarðarbúar að viðurkenna?
10 Eftir að Jóhannes postuli sá í sýn þessi ýmsu atriði, sem áttu að einkenna ‚endalokatíð heimskerfisins,‘ sá hann rofið fimmta og sjötta innsigli spádómsbókrollunnar. Þá sá hann í sýn ógnvekjandi náttúrufyrirbæri sem hófust með ‚miklum landskjálfta.‘ Að síðustu neyddust jarðarbúar til að viðurkenna: „Kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra [Jehóva Guðs og Jesú Krists].“ Þegar þeim táknræna reiðidegi lyki væri endirinn loks upp runninn fyrir þá sem styðja þennar heim. — Opinberunarbókin 6:9-17.
Söfnun þeirra sem hljóta hjálpræði
11. Hvaða líkingu gaf Jesús til að sýna að það sem hann hafði sagt fyrir varðandi ‚nærveru sína og endalok heimskerfisins‘ kæmi örugglega fram?
11 Þegar Jesús lýsti ‚tákninu‘ um ‚nærveru sína og endalok heimskerfisins‘ sagði hann: „Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd. Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum. Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram. Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.“ — Matteus 24:32-35.
12, 13. (a) Hvað var þjóðarhörmung Gyðinganna árið 70 ekki tákn um? (b) Um hvað voru þær hörmungar spádómleg fyrirmynd? (c) Hverju spáði Jesús því áfram í sambandi við komu sína?
12 Þegar Rómverjar eyðilögðu Jerúsalem og musteri hennar árið 70, alveg eins og Jesús hafði spáð, táknaði sú skelfilega þrenging Gyðinganna ekki að Jesús væri kominn öðru sinni og ósýnileg nærvera hans hafin. (Matteus 24:15-21) Með því að Biblían notar Jerúsalem til forna sem táknmynd voru hin skelfilegu örlög borgarinnar árið 70 í rauninni spádómleg. Þau lýstu í smækkaðri mynd því sem átti að gerast á heimsmælikvarða eftir að heiðingjatímunum væri lokið árið 1914 og því eftir að Jesús Kristur hefði í reyndinni hafið ósýnilega nærværu sína. Þess vegna hafði Jesús líka sagt:
13 „En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast. Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvislir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð. Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.“ — Matteus 24:29-31.
14. Hvaða sáttmála og fórn er átt við í Sálmi 50:5?
14 Hin boðaða samansöfnun þessara „útvöldu“ á endalokatímum þessa heimskerfis er uppfylling á boði Guðs: „Safnið saman dýrkendum mínum, þeim er gjört hafa sáttmála við mig með fórnum.“ (Sálmur 50:5) Hér getur ekki verið um að ræða vígsluheit sérhvers einstaklings við Guð þegar hann gerist kristinn maður og hann gæti gert bindandi með því að fórna sér. Nei, þessi sáttmáli milli Jehóva og ‚dýrkenda‘ hans er hinn fyrirheitni ‚nýi sáttmáli‘ við hinn andlega Ísrael. Fórnin, sem þessi nýi sáttmáli er byggður á, er lausnarfórn „Mannssonarins,“ Jesú Krists. — Jeremía 31:31-34; Matteus 24:30.
15. Hverjir eru hinir drottinhollu dýrkendur og hvað eru þeir núna gagnvart heiminum?
15 ‚Dýrkendurnir,‘ sem fá aðild að nýja sáttmálanum, eru gerðir andlegir Ísraelsmenn. (Lúkas 22:19, 20) Guð skipar fyrir að samansöfnunin fari fram til að hann geti dæmt þá sem saman eru safnaðir, lýst velþóknun á þeim sem eru drottinhollir og hafnað þeim sem ekki lifa eftir fullyrðingum sínum um aðild að þessum sáttmála, nýja sáttmálanum. (Sálmur 50:16) Allt frá fyrri heimsstyrjöldinni hefur verið ljóst að kristni heimurinn, sem segist vera aðili að nýja sáttmálanum, hefur ekki verið velþóknanlegur Jehóva Guði. Gerólíkar honum eru litlar leifar vígðra, skírðra lærisveina meðalgangara nýja sáttmálans, Jesú Krists. Þeir hafa reynst vera andlegir Ísraelsmenn. Þessir drottinhollu stuðningsmenn nýja sáttmálans eru hinir „útvöldu“ sem Mannssonurinn lætur engla sína safna til sín. Þeir uppfylla þau skilyrði sem nýi sáttmálinn setur þeim. Með starfi sínu til stuðnings Guðsríki í höndum Jesú Krists eru þeir orðnir öllum heiminum „til tákns.“ — Jesaja 8:18; Hebreabréfið 2:13, 14.
16. (a) Hvenær voru leifar hinna drottinhollu dýrkenda Guðs vaktar andlega? (b) Hver er brúðguminn í dæmisögunni um meyjarnar tíu og hverjir mynda brúði hans?
16 Vekja þurfi andlega þessar leifar drottinhollra dýrkenda Guðs snemma á ‚endalokatíð heimskerfisins.‘ Það var áberandi þáttur í ‚tákninu‘ sem Jesús sagði fyrir um í sínum mikla spádómi. Þessi vakningartími var mikill gleðitími fyrir leifarnar; þær glöddust eins og hinar fimm hyggnu eða vitru meyjar sem vaktar voru um miðnætti með því að hrópað var: „Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.“ (Matteus 25:1-6) Þessi gleðilega vakning átti sér stað vorið 1919 þegar hinar smurðu leifar byrjuðu að ná sér eftir ofsóknirnar og hömlurnar sem þær höfðu mátt þola á hinum myrku dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Brúðguminn í dæmisögunni um meyjarnar tíu er auðvitað Jesús Kristur, og hin táknræna brúður hans er hinn drottinholli söfnuður 144.000 sem eiga að vera með honum í ríkinu á himnum. (Opinberunarbókin 14:1-4) Tímatal Biblíunnar og nútímaatburðir, sem svara til þess, gefa til kynna að brúðguminn og konungurinn hafi komið til hins andlega musteris vorið 1918. Þá byrjaði hann að reisa upp frá dauðum trúfasta meðlimi andlegrar brúðar sinnar til að þeir gætu verið með honum í ríkinu á himnum. Leifar brúðarinnar, táknaðar af hyggnu meyjunum, finna til þeirrar gleði sem Opinberunarbókin 19:7 talar um: „Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður han hefur búið sig.“
17. (a) Hvers vegna gat hópur ‚hyggnu meyjanna‘ fagna? (b) Hvað höfðu hyggnu meyjarnar meðferðis og hvað gátu þær því gert?
17 Það var tilefni mikillar gleði er að því kom að ‚hyggnu meyjarnar‘ skyldu vakna andlega og komast til skilnings um þýðingu ‚táknsins‘ sem byrjaði að koma í ljós árið 1914. Þá áttu eftirfarandi orð við þær: „Sælir eru þeir, sem boðnir eru í brúðkaupsveislu lambsins.“ (Opinberunarbókin 19:9) Í dæmisögu Jesú tóku hinar fimm hyggnu meyjar með sér aukalega ljósaolíu til að geta kveikt aftur á lömpum sínum og tekið þátt í brúðkaups-skrúðgöngunni með logandi lömpum. Þegar brúðguminn kom gengu meyjarnar, „sem viðbúnar voru, . . . með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.“ — Matteus 25:1-10.
18. (a) Hvað gátu hinar smurðu leifar gert eftir fyrri heimsstyrjöldina, vegna þess að þær höfðu enn nóg af upplýsandi orði Guðs og heilögum anda hans innra með sér? (b) Hvað var tilkynnt á fyrsta móti þeirra eftir stríðið?
18 Eins og hyggnu meyjarnar fimm í dæmisögunni buðu hinar smurðu leifar brúðgumann himneska velkominn með gleði og fögnuði þegar upp rann tími brúðkaups hans við ‚brúði‘ sína, söfnuðinn. Leifarnar höfðu orðið fyrir erfiðri reynslu í fyrri heimsstyrjöldinni, en þær áttu þó enn nóg af hinu upplýsandi orði Guðs og heilögum anda hans hið innra með sér, eins og „í leirkerum,“ til að hefja á ný það starf sitt að upplýsa mannkynið um ríki Guðs í höndum brúðgumans og konungsins. (2. Korintubréf 4:7) Því héldu ‚hyggnu meyjarnar‘ sitt fyrsta alþjóðamót þann 1.-8. september árið 1919 í Cedar Point í Ohio. Þar var tilkynnt að ætlunni væri að gefa út nýtt tímarit auk Varðturnsins. Þetta nýja tímarit átti að heita The Golden Age (Gullöldin) og átti nafnið að lýsa því hvers konar tíma hið endurreista mannkyn muni njóta í þúsundáraríki brúðgumans og konungsins Jesú Krists. Þetta tímarit er enn gefið út, nú undir nafninu Vaknið!
19. (a) Hvernig varð hópur ‚hyggnu meyjanna‘ áberandi þáttur ‚táknsins‘ um ‚nærveru‘ Jesú? (b) Hverjir geta nú kallast hamingjusamir?
19 Skömmu eftir þetta mót, þann 1. október 1919, birtist fyrsta tölublað Gullaldarinnar. Með því tímariti og öðrum ritum Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn hélt hinn drottinholli ‚meyjahópur‘ áfram því hlutverki sínu að upplýsa heiminn. Þessi hópur tók til við að ‚prédika þetta fagnaðarerindi um ríkið til vitnisburðar öllum þjóðum‘ áður en endalok þessa heimskerfis kæmu. (Matteus 24:14) Þannig urðu hinar smurðu leifar, ‚hyggnu meyjarnar,‘ áberandi þáttur í hinu samsetta ‚tákni‘ um ósýnilega ‚nærveru‘ Jesú sem krýndur konungur, og um ‚endalok veraldar.‘ Þetta upplýsingarstarf vegur þungt sem sönnun þess að ‚endalokatíminn‘ hafi hafist við lok heiðingjatímanna árið 1914. Sælir eru allir sem sjá þetta atriði ‚táknsins‘ og skilja hvaða þýðingu það hefur!
Hverju svarar þú?
◻ Hverju er prédikun Guðsríkis hluti af?
◻ Hverjir eða hvað er táknað með riddurunum á hvíta hestinum, þeim rauða, þeim svarta og þeim bleika?
◻ Hvað voru þjóðarhörmungar Gyðinganna árið 70 spádómsmynd um?
◻ Hverjir mynda hóp ‚hyggnu meyjanna‘ og hvers vegna geta þeir fagnað?
[Mynd á blaðsíðu 14]
‚Segðu okkur, hvert verður tákn nærveru þinnar?‘