Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.7. bls. 19-23
  • Unnið með skipuleggjanda alls alheimsins

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Unnið með skipuleggjanda alls alheimsins
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Viðhorf til skipulags fyrstu árin
  • Jerúsalem í ánauð
  • Hin frjálsa Jerúsalem
  • Að vinna með skipuleggjandanum mikla
  • Sáttmáli Guðs við „vin“ sinn er nú þegar milljónum til gagns
    Öryggi um allan heim undir stjórn Friðarhöfðingjans
  • Óbyrjan fagnar
    Spádómur Jesaja — ljós handa öllu mannkyni 2. bindi
  • Frásaga með „táknræna merkingu“ sem á erindi til okkar
    Varðturninn: Frásaga með „táknræna merkingu“ sem á erindi til okkar
  • Meiri blessun fyrir atbeina nýja sáttmálans
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1998
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.7. bls. 19-23

Unnið með skipuleggjanda alls alheimsins

„Samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.“ — 1. Korintubréf 3:9.

1. Hvaða orð vöktu athygli fyrir liðlega sex áratugum og hvaða áhrif höfðu þau á einlæga biblíunemendur á þeim tíma?

„SKIPULAG GUÐS.“ Þessi orð voru notuð af einum af ritstjórnarliði Varðturnsfélagsins í daglegum biblíuumræðum við matarborð Betelfjölskyldunnar fyrir liðlega 30 árum. Fjölskyldan í aðalstöðvunum í Brooklyn í New York varð mjög hrifin af orðunum „skipulag Guðs,“ og þau áttu eftir að leiðbeina hugsun, ræðu og skrifum þessara biblíunemenda. Þau víkkuðu andlegan sjóndeildarhring þeirra gagnvart öllu sköpunarverkinu og höfðu mikil áhrif á viðhorf þeirra til hins undursamlega skipuleggjanda alheimsins, Jehóva Guðs.

2. Hvernig má skilgreina orðið „skipulag“ miðað við uppruna sinn?

2 Okkur kann að þykja þetta undarlegt því að orðið „skipulag“ er notað mikið meðal votta Jehóva sem kunna að meta þau sérréttindi að vinna með skipuleggjanda alheimsins. (1. Korintubréf 3:5-9) Orðið, sem hér er þýtt „skipulag,“ er dregið af gríska orðinu or‘ganon. Meðal annars merkir það verkfæri eða áhald sem notað er til að vinna eitthvert verk. Það kemur margoft fyrir í Sjötíumannaþýðingunni og er notað þar um hljóðfæri svo sem hörpu Davíðs. Stofn þessa orðs er er‘gon, nafnorð sem merkir „vinna.“ Skipulag er því fyrirkomulag eða ráðstöfun gerð til að koma einhverju í verk eða láta vinna eitthvað á sem hagkvæmastan hátt svo að sem minnstur tími og kraftar fari í það.

Viðhorf til skipulags fyrstu árin

3. Hvað sagði þetta tímarit í mars 1883 um „skipulag okkar“?

3 Fyrir mörgum áratugum áttu biblíunemendurnir samt sem áður í nokkrum erfiðleikum með að heimfæra orðið „skipulag.“ Til dæmis var sagt í Varðturninum í mars 1883:

En þótt ómögulegt sé náttúrlegum manni að sjá skipulag okkar, því að hann getur ekki skilið það sem er af anda Guðs, treystum við að þú getir séð að hin sanna kirkja er skipulögð á mjög áhrifaríkan hátt og er í besta lagi sem hugsast getur. . . . Við höfum takmarkalausa trú á foringja okkar; og fullkomið skipulag hans, ósýnilegt heiminum, skundar áfram í átt að öruggum og dýrlegum sigri.

4. Hvaða viðhorf til skipulagningar var látið í ljós í þessu tímariti þann 1. desember 1894?

4 Þann 1. desember 1894 sagði Varðturninn hins vegar:

Það starf að skipuleggja kirkju hins nýja trúarkerfis fagnaðarerindisins tilheyrði ekki uppskerustarfi hins gamla trúarkerfis Gyðinganna. Hið núverandi uppskerustarf trúarkerfi fagnaðarerindisins er á sama hátt aðgreint og aðskilið starfi hins nýja trúarkerfis þúsundáraríkisins sem nú fer í hönd. . . . Auðsætt er að það væri úr samræmi við anda hinnar guðlegu áætlunar að mynda sýnilegt skipulag þeirra sem safnaðir eru; og ef það væri gert myndi það virðast gefa til kynna löngun kirkjunnar til að samlaga sig hugmyndinni, sem nú á fylgi að fagna, um skipulag eða bandalag. (Sjá Jes. 8:12) Starfið er núna fólgið í aðgreiningu, ekki skipulagningu, alveg eins og var á hinum gyðinglega uppskerutíma. (Matt. 10:34-36) . . .

Þótt við álítum því ekki sýnilegt skipulag hinna samansöfnuðu tilheyra áætlun Drottins í uppskerustarfinu, rétt eins og við byggjumst við að búa hér sem skipulag fram á aðra öld, teljum við það þó vilja hans að þeir sem elska Drottin skuli tala oft við hver annan um sínar sameiginlegu vonir og gleði, eða þrengingar og raunir, deili hver með öðrum gersemunum í orði hans.

5. Hvað var sagt í bókinni Hin nýja sköpun um skipulag?

5 Ekki var því litið á kristna söfnuðinn sem skipulag á þeim tíma. Þó var álitið rétt að góð regla væri í söfnuðinum. Til dæmis hét 5. námskafli bókarinnar The New Creation (Hin nýja sköpun), gefin út árið 1904, „Skipulag hinnar nýju sköpunar“ og hófst með þessum orðum: „Eins og hin nýja sköpun fullkomnast ekki eða fullnast fyrr en í fyrri upprisunni, eins verður skipulag hennar ekki fullnað fyrr en þá. Musterið skýrir það á ljóslifandi hátt: Við erum núna kallaðir sem lifandi steinar, boðinn staður í hinu dýrlega musteri.“

6. Hverja sagði bókin Komi ríki þitt vera ‚móður‘ þeirra sem mynda hina ‚nýja sköpun‘?

6 Athygli vekur að bókin Thy Kingdom Come (Komi þitt ríki), gefin út árið 1891, sagði um þá smurðu af hinni ‚nýju sköpun‘: „Páll postuli hefur varpað ljósi ofurmannlegrar visku á Jesaja 54:1-8 og heimfært á andlega Síon, móður okkar eða sáttmála, táknuð af Söru. Holdlegu sæði Abrahams hafði verið hafnað sem erfingja fyrirheitisins og hið sanna sæði, Kristur (táknað af Ísak og Rebekku), hafði fengið viðtöku sem hið eina sæði fyrirheitisins. — Gal. 4:22, 24, 26-31.

7, 8. Hver er eiginmaður ‚móður‘ kristna safnaðarins og hvað segir Jesaja 54:1-8 í því sambandi?

7 Þessi athugasemd stóð í engu sambandi við heimssamtök síonista, stofnuð af Theodor Herzl árið 1897. Þau samtök beindu athygli sinni að Jerúsalem hið neðra, hér á jörðinni, ekki „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ sem er „móðir“ kristna safnaðarins. (Galatabréfið 4:26) Bókin Thy Kingdom Come vann ekki nánar úr þeirri staðreynd að eiginmaður og eigandi ‚móður‘ kristna safnaðarins er Guðs sem átti sér Abraham að táknmynd. Jehóva er kvæntur, ekki Abrahamssáttmálanum eða nýja sáttmálanum heldur „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ sem táknuð var af Söru, móður Ísaks. Eins og hún og eins og „móðir“ hlýtur „Jerúsalem, sem í hæðum er“ að vera lifandi og eiga sér persónuleika.

8 Hver er þá „Jerúsalem, sem í hæðum er“? Til að komast að því skulum við fyrst skoða Jesaja 54:1-8 sem hljóðar svo að hluta:

Fagna þú, óbyrja, sem ekki hefir fætt! Hef upp gleðisöng, lát við kveða fagnaðaróp, þú sem eigi hefir haft fæðingarhríðir! Því að börn hinnar yfirgefnu munu fleiri verða en giftu konunnar, — segir [Jehóva]. . . . Því að hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, [Jehóva] allsherjar er nafn hans. Og Hinn heilagi í Ísrael er frelsari þinn, Guð gjörvallrar jarðarinnar heitir hann. [Jehóva] kallar þig sem yfirgefna konu og harmþrungna, og æskunnar brúður, sem verið hefir ein látin, — segir Guð þinn. Skamma stund yfirgaf ég þig, en með mikilli miskunnsemi tek ég þig að mér. Í ofurreiði minni byrgði ég auglit mitt fyrir þér um stund, en með eilífri líkn miskunna ég þér, — segir endurlausnari þinn, [Jehóva].

9. (a) Hvern eða hvað var Jehóva að hughreysta í Jesaja 54:1-8? (b) Hver er, samkvæmt Galatabréfinu 4:25, 26, hin táknræna ‚kona‘ sem ávörpuð er?

9 Hér var Jehóva ekki að tala við sáttmála. Hann var að ávarpa þjóð, sína útvöldu þjóð sem gengist hafði undir sáttmála Móselaganna við hann. Frá sjónarhóli Guðs var þessi þjóð eins og „kona“ er væri honum sem eiginkona. Samkvæmt bréfi Páls til Galatamanna var þessi „kona“ táknmynd, en hann segir ekki að hún sé sáttmáli. Ekki er hægt að hugga eða hughreysta sáttmála. Páll sýnir fram á að „konan,“ sem táknuð var, er lifandi eins og „móðir,“ alveg eins og „eiginmaður“ hennar, Jehóva, er lifandi sem persóna gæddur vitsmunum og hæfni til að hughreysta. Páll sagði um konur í hinni fornu biblíusögu: „En Hagar [ambáttin sem kom í stað húsfreyju sinnar með því að fæða Abraham Ísmael] merkir Sínaífjall í Arabíu og samsvarar [það er Hagar] hinni núverandi Jerúsalem [þegar Páll var á jörðinni], því að hún er í ánauð [Móselaganna] ásamt börnum sínum. En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor.“ — Galatabréfið 4:25, 26.

Jerúsalem í ánauð

10, 11. (a) Hvaða mikilvægur atburður tengdur Ísraelsmönnum átti sér stað við Sínaífjall? (b) Hvað gerðist árið 33 e.o.t. í sambandi við lagasáttmálann?

10 Hagar táknar ekki lagasáttmála Móse. Sá sáttmáli með sínum tíu boðorðum er ekki heldur táknaður af Sínaífjalli sem Hagar samsvarar. Að sjálfsögðu gerði Guð engan sáttmála við sjálft Sínaífjallið, en það var þar sem hann gaf Ísraelsmönnum, sem hann hafði frelsað úr fjötrum í Egyptalandi, sáttmálasamband við sig, og kom fram við þá sem frjálsa þjóð. Það gerðist mörgum öldum eftir að Guð gerði einhliða sáttmála við Abraham og hét honum karllegu sæði eða afkvæmi.

11 Þegar Móse, hann sem miðlaði lagasáttmálanum, kom niður af Sínaífjalli, stafaði svo sterkum, ofurmannlegum ljóma af ásýnd hans að hann varð að setja skýlu fyrir andlit sér til að Ísraelsmenn gætu horft á hann. (2. Korintubréf 3:12-16) Á Sínaífjalli var Móse þó ekki í beinni snertingu við Jehóva, því að það var fyrir milligöngu engils að Guð gerði sáttmálann við Ísraelsmenn. (Postulasagan 7:37, 38; Hebreabréfið 2:2) Þannig varð Ísraelsþjóðin undirgefin lagasáttmálanum. Mörgum öldum síðar var þessi sáttmáli hins vegar felldur úr gildi, negldur á kvalastaur Jesú árið 33 að okkar tímatali. — Kólossubréfið 2:13, 14.

12. (a) Hverra „móðir“ var hin jarðneska Jerúsalem? (b) Í hvaða ánauð var Jerúsalem á jörðinni fyrir nítján öldum og hvers vegna hlaut hún aldrei frelsi?

12 Páll skrifaði að Sínaífjalli samsvaraði Jerúsalem hið neðra á hans dögum. Að sjálfsögðu var Jerúsalem ekki sáttmáli; hún var mikils metin borg sem Gyðingar bjuggu í. Þar eð hún var höfuðborgin var hún samnefnari þjóðarinnar og táknræn „móðir“ ‚barna,‘ það er að segja allra sem mynduðu Gyðingaþjóðina eða Ísraels. (Matteus 23:37) Í Jerúsalem stóð musteri Jehóva, þess Guðs sem Ísraelsmenn voru í sáttmálasambandi við. Á þeim tíma hafði Gyðingaþjóðin samt sem áður ekki sjálfstætt konungsríki með afkomanda Davíðs konungs á veldisstóli. Hún var því ekki frjáls heldur í ánauð heiðinna, pólitískra yfirvalda. Það sem meira máli skipti var þó að hún var í trúarlegri ánauð. Aðeins hinn fyrirheitni Messías, Jesús Kristur, gat frelsað hana úr henni, svo og úr ánauð syndarinnar. En þessi Jerúsalem tók ekki við Jesú sem Messíasi og konungi og hlaut aldrei frelsi. Þess í stað var hún eyðilögð af Rómverjum árið 70 með hörmulegum afleiðingum fyrir ‚börn‘ sín.

Hin frjálsa Jerúsalem

13. Hvað sagði Páll um hina frjálsu Jerúsalem, og í hvaða frelsi áttu „börn“ hennar að vera stöðug?

13 Páll stillti upp sem andstæðum hinni þrælkuðu jarðnesku Jerúsalem og „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ en hún er „frjáls.“ Með tilvitnun í Jesaja 54:1-8 skrifaði hann:

En Jerúsalem, sem í hæðum er, er frjáls, og hún er móðir vor, því að ritað er: Ver glöð, óbyrja, sem ekkert barn hefur átt! Hrópa og kalla hátt, þú sem ekki hefur jóðsjúk orðið! Því að börn hinnar yfirgefnu eru fleiri en börn hinnar, sem manninn á. En þér, bræður, eru fyrirheits börn eins og Ísak. En eins og sá, sem fæddur var á náttúrlegan hátt, ofsótti forðum þann, sem fæddur var á undursamlegan hátt, svo er það og nú. En hvað segir ritningin? „Rek burt ambáttina og son hennar, því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með syni frjálsu konunnar.“ Þess vegna, bræður, erum vér ekki ambáttarbörn, heldur börn frjálsu konunnar. Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok. — Galatabréfið 4:26-5:1.

14. Hvers vegna var fæðing Ísaks ‚með undursamlegum hætti‘?

14 Hinir kristnu Galatar, sem þannig voru ávarpaðir, voru „börnin sem Guð gaf loforð um að fæðast myndu.“ (Galatabréfið 4:28, Lifandi orð) Sem fyrirmynd um þetta fæddist Ísak hinum tíræða Abraham og níræðri konu hans, Söru, til að uppfylla fyrirheit Jehóva við hinn trúfasta ættföður. Já, fæðing Ísaks var kraftaverk, alls ekki ‚með náttúrlegum hætti.‘ (1. Mósebók 18:11-15) Hún varð því að vera „á undursamlegan hátt.“ Já, anda hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs, þurfti til að endurvekja getnaðarmátt frjálsu konunnar Söru, svo og Abrahams. (Rómverjabréfið 4:!9) Vert er að gefa því gaum að ‚fyrirheitið‘ sjálft var ekki gamalt þegar Ísak fæddist árið 1918 f.o.t., því að það var aðeins 25 árum eftir að Abraham fór inn í fyrirheitna landið, Kanaan, árið 1943 f.o.t., en þá tók ‚fyrirheitið‘ gildi.

15. Hve lengi var „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ barnlaus og hvenær tók börnum hennar að fjölga?

15 „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ var ‚yfirgefin,‘ eins og barnlaus miklu lengur en Sara hafði verið. „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ var þannig á sig komin frá árinu 1943 f.o.t., þegar fyrirheitið við Abraham tók gildi, fram til skírnar Jesú árið 29. Þá var Jesús getinn af anda hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs, og smurður með anda hans til að vera Kristur eða hinn smurði, Messías. En „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ átti að eignast fleiri en eitt andlegt barn. Á hvítasunninni árið 33, eftir upprisu Jesú og uppstigningu til himna, voru því um 120 trúfastir læirsveinar hans getnir með anda hins meir Abrahams. Þeir voru þá smurðir með þeim anda til að verða andlegir bræður hins meiri Ísaks, Jesú Krists. Síðar þann sama dag létu um 3000 Gyðingar til viðbótar skírast sem lærisveinar Jesú og voru smurðir með heilögum anda. (Postulasagan 2:1-42) Á þeim degi varð „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ þannig „móðir“ margra barna.

16. Hver er „Jerúsalem, sem í hæðum er“?

16 Páll postuli opinberar okkur að konan, sem er ávörpuð í Jesaja 54:1-8, sé „Jerúsalem, sem í hæðum er.“ Jehóva Guð er „eiginmaður“ hennar og skapari. Á táknmáli er hún kölluð ‚kona‘ hans; hún er skipulag hans á himnum líkt við eiginkonu. Eins og eiginmaður er það hann sem gerir hana frjósama til að hún fæði hið sanna „afkvæmi“ sem heitið var á dögum Abrahams. — Galatabréfið 3:!6, 26-29.

17. Hvernig varð „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ „móðir“ aðalsæðis hins meiri Abrahams?

17 Til að verða aðalsæði hins meiri Abrahams hafði eingetinn sonur Guðs komið fram frá himnesku skipulagi Jehóva sem líkt er eiginkonu. Hún varð þannig eins og „móðir“ sonar Guðs. Jesús Kristur var ekki táknrænn sonur hinnar jarðnesku Jerúsalem á jarðvistardögum sínum, því að sú borg var í fjötrum eða ánauð ásamt „börnum“ sínum en Jesús var aldrei í ánauð. (Galatabréfið 4:25) Hin jarðneska Jerúsalem var „móðir“ þeirra Gyðinga að holdinu sem höfnuðu Jesú Kristi sem fyrirheitnu sæði eða ‚afkvæmi,‘ ekki aðeins ættföðurins Abrahams heldur einnig hins meiri Abrahams, Jehóva Guðs. — Matteus 23:37-39.

Að vinna með skipuleggjandanum mikla

18. Hvers vegna vakti hin jarðneska Jerúsalem mikla athygli á dögum Salómons konungs?

18 Jesús Kristur, sem átti sér himneskt skipulag Guðs að ‚móður,‘ var meiri og vitrari en Salómon konungur, hinn nafntogaði sonur Davíðs og stjórnandi í hinni jarðnesku Jerúsalem til forna. Viska og vegsemd Salómons vakti mikla athygli annarra þjóða eins og Jesús gaf til kynna þegar hann sagði: „Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt þessari kynslóð og sakfella hana, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.“ (Matteus 12:42; Lúkas 11:31) Þessi afburðarviska Salómons birtist að hluta í því hvernig hann hagaði stjórn sinni. Mönnum var það undrunarefni hvernig hann hafði skipulagt allt viturlega.

19. Hvað var það við stjórn Salómons konungs sem drottningin af Saba undraðist?

19 Við lesum því í 1. Konungabók 10:4, 5: „Er drottningin frá Saba sá alla speki Salómons og húsið, sem hann hafði reisa látið, matinn á borði hans, bústaði þjóna hans og frammistöðu skutilsveina hans og klæði þeirra, byrlara hans og brennifórn hans, þá er hann fram bar í húsi [Jehóva], þá varð hún frá sér numin.“ (Sjá einnig 2. Kroníkubók 9:4.) Drottningin af Saba hafði ástæðu til að verða hrifin af því hvernig starfslið Salómons var skipulagt. Og með því að hafa góða reglu og skipulag á öllu var hann í samræmi við Guð reglu og skipulags. — 1. Korintubréf 14:33.

20. (a) Hvað gaf Jehóva Salómon til svars við bæn hans? (b) Hvað gerir Jesús Kristur, sem er „meira en Salómon,“ og hvernig breyta fylgjendur hans?

20 Salómon bar fram þá auðmjúku bæn að Jehóva gæfi honum „gaumgæfið hjarta“ og Jehóva gerði það. (1. Konungabók 3:5-14) Hinn mikli skipuleggjandi alls alheimsins gaf Salómon skipulagsgáfu til að tryggja góða reglu og skilvirkni. Sú kvöð féll því á herðar konungi sáttmálaþjóðar Jehóva að vinna með hinum guðlega skipuleggjanda alls sköpunarverksins á himni og jörð. Hið sama gerir hinn dýrlega gerði Jesús Kristur sem er „meira en Salómon.“ Trúfastir fylgjendur hans á jörðinni þurfa þess einnig og gera það líka.

Til upprifjunar

◻ Hvernig skilgreinir þú orðið „skipulag“?

◻ Hverra „móðir“ var hin jarðneska Jerúsalem og hvaða ánauð var hún aldrei frelsuð úr?

◻ Hver er „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ og hver eru „börn“ hennar?

◻ Hvernig notaði Salómon viskuna, sem Guð gaf honum, og hvað er gert af hinum meiri Salómon og fylgjendum hans.

[Mynd á blaðsíðu 21]

Hvernig var hin jarðneska Jerúsalem í ánauð?

[Mynd á blaðsíðu 23]

Drottningin af Saba var furðu lostin þegar hún heimsótti Salómon. Hann vann með skipuleggjanda alheimsins. Starfar þú einnig með Jehóva Guði?

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila