Varðturninn VEFBÓKASAFN
Varðturninn
VEFBÓKASAFN
Íslenska
  • BIBLÍAN
  • RIT
  • SAMKOMUR
  • w85 1.11. bls. 12-17
  • Unninn sigur á „hinum síðustu dögum“

Ekkert myndband er til fyrir þetta val.

Því miður tókst ekki að hlaða myndbandið.

  • Unninn sigur á „hinum síðustu dögum“
  • Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
  • Millifyrirsagnir
  • Svipað efni
  • Friðarspámenn
  • Árás Gogs
  • ‚Leyndir hlutir opinberaðir‘
  • Árekstrar tveggja konunga
  • Spurningar frá lesendum
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2015
  • Góg í Magóg verður bráðum eytt
    Líf okkar og boðun - vinnubók fyrir samkomur – 2017
  • „Standið kyrrir og sjáið liðsinni Drottins“
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 2003
  • Míkael, hinn mikli höfðingi, gengur fram
    Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1987
Sjá meira
Varðturninn kunngerir ríki Jehóva – 1985
w85 1.11. bls. 12-17

Unninn sigur á „hinum síðustu dögum“

„Sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört . . . það, er verða mun á hinum síðustu dögum.“ — Daníel 2:28.

1. (a) Hvers vegna hafa spádómar Jeremía, Esekíels og Daníels mikla þýðingu fyrir okkur núna? (b) Hvers vegna voru þessi innblásnu rit varðveitt?

JEREMÍA, ESEKÍEL, DANÍEL — þessi nöfn minna okkur á hrífandi spádóma! Fyrir nærfellt 2600 árum bjuggu þessir þrír hugrökku þjónar hins alvalda Drottins Jehóva á ólíkum stöðum og við mjög ólík skilyrði, en allir lifðu þeir þá tíma sem voru síðustu dagar hinnar fráhverfu Jerúsalemborgar. Hver frá sínum sjónarhóli báru þeir fram spádóma sem myndu fullnast á „hinum síðustu dögum“ miklu síðar. Hin innblásnu rit þeirra hafa varðveist til hvatningar öllum sem elska Guð og réttlætið og þrá að lifa af ‚þrenginguna miklu‘ sem koma mun á okkar tímum. — Matteus 24:3-22; Rómverjabréfið 15:4.

2. Hvers vegna þarfnaðist Jeremía styrks frá Jehóva?

2 Jeremía spáði í Jerúsalem. Þegar ógæfan nálgaðist voru bæði valdhafarnir og almenningur sokkinn í lögleysi og spillingu. Því styrkti Jehóva spámann sinn eins og ‚rammbyggðan eirvegg‘ til að standa fastur fyrir mitt í illsku þeirra. — Jeremía 15:11, 20; 23:13, 14.

Friðarspámenn

3. Hvaða falskir spádómar voru bornir fram?

3 Um hina löglausu trúarleiðtoga Jerúsalemborgar sagði Jehóva fyrir munn Jeremía: „Hlýðið ekki á orð spámannanna, sem spá yður; þeir draga yður á tálar. Þeir voða vitranir, sem þeir sjálfir hafa spunnið upp, enekki fengið frá [Jehóva]. Sífelldlega segja þeir við þá, er hafa hafnað orði [Jehóva]: ‚Yður mun heill hlotnast!‘“ Þessir falsspámenn sögðu: „Friður! friður!“ þótt enginn væri friður. — Jeremía 23:16, 17; 6:14, Ísl. bi. 1859.

4. Hvaða von ríghalda margir í kristna heiminum í?

4 Í hinum fráhverfa kristna heimi nútímans eru líka friðarspámenn. Margir halla sér að því sem Páll páfi VI kallaði „síðustu vonina um samlyndi og frið,“ Sameinuðu þjóðunum. Þetta bandalag hefur lýst árið 1986 vera alþjóðlegt friðarár. Þegar Páfagarður lýsti þeirri ætlun sinni að taka þátt í því sem gert verður á því ári sögðu talsmenn hans að Páfagarður „bæri þá von í brjósti að þetta ár muni ná tilætluðum árangri og vera þýðingarmikið skref í áttina að friðsamlegum samskiptum manna og þjóða.“ En er raunhæft að búast við að þjóðirnar komi á sönnum friði?

5. Hvað segir Jehóva fyrir um og hvernig mun það rætast á „hinum síðustu dögum“?

5 Guð lýsir því sjálfur sem gerast mun: „Sjá, stormur [Jehóva] brýst fram — reiði og hvirfilbylur — hann steypist yfir höfuð hinna óguðlegu. Reiði [Jehóva] léttir ekki fyrr en hann hefir framkvæmt og leitt til lykta fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir [á hinum síðustu dögum, NW] munuð þér skilja það greinilega.“ (Jeremía 23:19, 20; sjá einnig 30:23, 24.) Já, leiðtogar falskra trúarbragða munu komast til skilnings á hvað “hinir síðustu dagar“ merkja fyrir þá — en þá verður það um seinan fyrir þá! — Samanber Opinberunarbókina 18:10, 16; 19:11-16; Matteus 24:30.

6. Hverjar verða lyktir málsins hjá mörgum?

6 Til allrar hamingju hafa þó margir einstaklingar, sem einu sinni voru í fjötrum falskra trúarbragða, ‚komist til skilnings á því.‘ Þeir svara kallinu: „Gangið út, mitt fólk, út úr henni [fölskum trúarbrögðum],“ vegna þess að þeir vilja ekki eiga hlutdeild í syndum falskra trúarbragða eða þeim dómi sem Guð fullnægir yfir þeim. Ef þú ert einn þeirra, megir þú halda áfram að hlýða því sem orð Guðs segir um „hina síðustu daga“ og hina dýrlegu friðartíma sem á eftir munu koma. — Opinberunarbókin 18:2, 4, 5; 21:3, 4.

Árás Gogs

7. Undir hvaða kringumstæðum spáði Esekíel?

7 Hvernig farnast fólki Guðs á „hinum síðustu dögum“? Látum spámanninn Esekíel segja okkur það. Sem ungur maður hefur hann vafalaust þekkt Jeremía en síðan var hann fluttur til Babýlonar. Þar, við Kerabfljótið, var honum falið árið 613 f.o.t. að vera spámaður Jehóva og varðmaður gagnvart Gyðingunum í útlegðinni, þjónusta sem hann veitti trúfastur í að minnsta kosti 22 ár. En spádómar hans ná miklu lengra en til hans eigin samtíðar. Í 38. og 39. kafla segir hann frá „Góg í Magóglandi.“

8, 9. (a) Hvaða meiriháttar deilumál þarf að útkljá og hvenær verður það gert? (b) Hver er Góg, hverjir fylgja honum og að hverju stefnir hann? (c) Hvað mun Jehóva gera við Góg?

8 Hver er þessi „Góg í Magóglandi“? Nú, hver er erkióvinur Jehóva sem hann verður að úkljá við hið stóra deilumál um drottinvaldið yfir alheiminum á „hinum síðustu dögum“? Það er Satan djöfullinn sem hirðirinn og konungurinn, Jesús Kristur, varpaði niður af himnum eftir krýningu sína árið 1914. Hinn niðurlægði og reiði Góg hefur nú takmarkað umráðasvæði, „Magógland,“ í nágrenni jarðarinnar. Það hefur í för með sér ‚vei fyrir jörðina‘ því að Góg veit að hann hefur nauman tíma til að reka sína glæpsamlegu stefnu að drottna eða eyðileggja. — Esekíel 37:24-28; 38:1, 2; Opinberunarbókin 11:18; 12:9-17.

9 Esekíel hefur eftir hinum alvalda Drottni Jehóva: „Ég skal finna þig, Góg, höfðingi . . . og ég skal setja króka í kjálka þína og leiða þig út, ásamt öllu herliði þínu, . . . mikinn manngrúa.“ (Esekíel 38:3-6; Jóhannes 12:31) Já, Góg hefur margar þjóðir með sér því að „allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesbréf 5:19) Samt sem áður getur Jehóva í táknrænni merkingu sett króka í kjálka Gógs til að stjórna honum. En til hvers og hvernig?

10. (a) Á hvað treysta vottar Jehóva, ólíkt þjóðunum? (b) Hvers vegna reiðist Góg og múgur hans? (c) Hvað þurfum við að gera til að bjargast?

10 Að undirlagi Gógs halda stórveldin því fram að heimsfriðurinn sé háður því að þau eigi sem mest af ógnvekjandi kjarnorkuvopnum. Aðrar þjóðir veita þeim stuðning. En þjónar Guðs, sem er ‚samansafnað frá heiðingjunum,‘ hafa hafnað ofbeldisvopnum. Vottar Jehóva eru eina ‚þjóðin‘ á jörðinni sem getur með sanni sagt: „Guði treystum vér.“ (Jesaja 2:4; 31:1; Orðskviðirnir 3:5) Þessir friðsömu vottar Jehóva „búa óhultir, þeir búa allir múrveggjalausir og hafa hvorki slagbranda né hlið.“ Þeir „búa á nafla jarðarinnar“ því að meðal allra þjóða eru þeir miðdepillinn, eina fólkið sem Góg hefur ekki náð yfirráðum yfir. (Esekíel 38:11, 12) Í reiði sinni leiðir því Góg frá Magóglandi allt djöflaskipulag sitt fram á stríðsvöllinn. Eins og öskrandi ljón býr hinn niðurlægði Satan sig undir lokaárás. Til að lifa af verðum við að ‚standa gegn honum, stöðugir í trúnni.‘ — 1. Pétursbréf 5:8, 9.

11. Hvernig leiðir Jehóva Góg gegn landi sínu og í hvaða tilgangi?

11 Jehóva býður Esekíel „Fyrir því spá þú, mannsson, og seg við Góg: Svo segir [Jehóva] Guð: Munt þú ekki á þeim degi, er lýður minn [hinn andlegi] Ísrael býr óhultur, leggja af stað?“ Góg og lýður hans öfunda votta Jehóva nútímans af því öryggi og velsæld sem þeir sjá meðal þeirra. Þeir eru ævareiðir yfir því að vottar Guðs skuli ‚ekki tilheyra heimi‘ Satans. Jehóva hæðir því Góg þannig að hann gerir sig líklegan til árásar á hina varnarlausu votta. Jehóva segir Góg: „Munt þú ekki . . . fara í móti lýð minum Ísrael eins og óveðurský til þess að hylja landið? Á hinum síðustu dögum mun ég leiða þig móti landi mínu, til þess að þjóðirnar læri að þekkja mig, þegar ég auglýsi heilagleik minn á þér, Góg, fyrir augum þeirra.“ — Esekíel 38:14, 16; Jóhannes 17:14, 16.

12. Hvernig fer árás Gógs samkvæmt Esekíel 38:18-23?

12 Hinn ævareiði Góg býr sig undir að ráðast inn í „land“ þjóna Jehóva þar sem velsæld ríkir. En er Góg sá eini sem reiðist? Hvað um reiði hins alvalda Drottins Jehóva gegn Góg og fylgisveinum hans? Í Esekíel 38:18-23 lýsir Jehóva hvernig hann ‚helgar sig í augum þjóðanna‘ með því að tortíma Góg og bjarga drottinhollum þjónum sínum. Í lok frásagnar sinnar af sigrinum yfir Góg og múgi hans segir hinn alvaldi Drottinn að ‚þær skuli viðurkenna að hann er Jehóva.‘ Hið dýrlega nafn hans verður þá hreinsað af smán!

‚Leyndir hlutir opinberaðir‘

13. Hvernig setti Daníel ungum vottum gott fordæmi?

13 Á meðan Esekíel spáði meðal hinna útlægu Gyðinga í grennd við Babýlon var hinn ungi Daníel, Gyðingur af höfðingjaættum, menntaður við hirð Nebúkadnesars konungs. Sem ráðvandur ungur maður setti hann gott fordæmi öllum ungum þjónum Jehóva nú á dögum. — Daníel 1:8, 9.

14. Í hvaða máli gaf hinn ungi Daníel Guði allan heiðurinn?

14 Á öðru ári eftir fall Jerúsalemborgar dreymdi Nebúkadnesar draum sem skelfdi hann. Þegar hann vaknaði gat hann ekki munað drauminn. En hinn guðhræddi Daníel kunngerði konungi bæði drauminn og þýðingu hans. Hann gaf Guði allan heiðurinn af því og sagði konunginum: „Sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti, og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum.“ (Daníel 2:28) Hvað lærum við af draumunum og merkingu hans „á hinum síðustu dögum“?

15, 16. Hvað átti draumur Nebúkadnesars að tákna?

15 Í draumnum segir frá risalíkneski sem var að mestu leyti gert úr mismunandi málmum. Daníel segir að hinir mismunandi hlutar þess tákni röð stórvelda og segir Nebúkadnesar: „Þú ert gullhöfuðið,“ og átti þá bersýnilega við konungaættina í Babýlon. Önnur heimsveldi fylgja á eftir — brjóst og armleggir af silfri tákna Medíu-Persíu, kviður og lendar af eiri tákna Grikkland og fótleggirnir af járni tákna Róm og síðar heimsveldið England-Ameríku. (Daníel 2:31-40) Í gegnum ‚tíma heiðingjanna,‘ frá 607 f.o.t. til 1914, hafa þessi heimsveldi farið með yfirráð í konungsríki ‚guðs þessa heims.‘ — Lúkas 21:24; 4:5, 6; 2. Korintubréf 4:4.

16 Það er á „hinum síðustu dögum“ að „afkvæmi mannkynsins,“ hinn almenni maður, fer að hafa áhrif. Í mörgum löndum víkja konungar og keisarar fyrir byltingaröflum og lýðræðisstjórnum. Óstjórn manna á jörðinni breytist í hrærigraut harðneskjulegra einræðisstjórna og meðfærilegri lýðræðisstjórna. Svona ólík stjórnkerfi blandast ekki frekar en leir og járn. Jafnvel innan Sameinuðu þjóðanna standa þær ekki saman heldur deila og skiptast á hótunum. Svo sannarlega er ‚ríkið skipt.‘ — Daníel 2:41-43, NW.

17. Hvernig rættist spádómurinn á „hinum síðustu dögum“?

17 Deilan um heimsyfirráðin nær því hámarki „á hinum síðustu dögum.“ Og hvernig lyktar henni? Nýtt afl er komið til skjalanna! Messíasarríki Guðs var stofnsett og ‚sett af stað‘ árið 1914. Það er „steinninn“ höggvinn úr ‚fjalli‘ sem táknar drottinvald Jehóva fyrir heiminum. Engir jarðneskir stjórnmálamenn eiga nokkra hlutdeild í því! Það nálgast og fylgir braut sinni með óbrigðulli nákvæmni. Og á tilsettum tíma Guðs molar það í sundur fætur líkneskisins og mylur það í sundur svo að það verður að dufti. Eins og hismi berst burt með vindinum hverfur stjórn manna og engar menjar verða eftir. En „steinninn“ — ríki hins mikla Guðs og Krists — verður að stóru fjalli sem fyllir alla jörðina. Þetta ríki ‚mun aldrei á grunn ganga né verða fengið í hendur annarri þjóð.‘ Það mun standa að eilífu. Við getum sannarlega þakkað Jehóva fyrir að hafa ‚opinberað‘ slíka leyndardóma fyrirfram! — Daníel 2:29, 44, 45.

Árekstrar tveggja konunga

18. (a) Hvaða sýn var Daníel gefin síðar? (b) Hvað er athyglisvert við hana?

18 Daníel hafði sitthvað fleira að segja um stjórn manna og „hina síðustu daga.“ Um 70 árum eftir að hann hafði sagt Nebúkadnesar drauminn og merkingu hans var hann enn í Babýlon. Hann var nú orðinn aldraður og þjónaði Kýrusi Persakonungi. Hann var staddur á bakka Híddekel-fljótsins þegar engill birtist honum og sagði: „Nú er ég kominn til að fræða þig á því, sem fram við þjóð þína mun koma á hinum síðustu tímum, því að enn á sýnin við þá daga.“ (Daníel 10:14) Engillinn lýsti síðan í smáatriðum valdhöfum og atburðum sem myndu koma fram undir stjórn Persa, Grikkja, Egypta, Rómverja og Germana, og í valdatíð ensk-ameríska heimsveldisins og undir sósíalískri stjórn. Eftirtektarvert er að hægt skyldi vera að skrifa fyrirfram þessa kafla sögunnar sem ná yfir meira en 2500 ára tímabil! Það gefur okkur mikið traust til hins innblásna spádómsorðs Jehóva Guðs!a

19. Hvaða nútímaatburði boðar spádómurinn?

19 Þessi spádómur segir að þegar fram liðu stundir myndu koma fram tvö stórveldi, „konungurinn suður frá“ og „konungurinn norður frá.“ Að síðustu, segir engillinn, mun konungurinn norður frá „ofmetnast gegn sérhverjum guði og mæla afaryrði í gegn Guði guðanna“ — ekki þó jákvæð orð því að hann mun heiðra og dýrka „guð virkjanna.“ „Konungurinn suður frá,“ sem ræður líka yfir miklum herstyrk, stendur grár fyrir járnum andspænis þessum stóryrta ‚konungi.‘ Eins og spádómurinn segir munu þessir tveir konungar „heyja stríð“ eða árekstrar verða milli þeirra. Hið „kalda stríð“ milli stórveldanna á okkar tímum er eitt dæmi um það. Stundum stjaka þau nokkuð ruddalega hvort við öðru, til dæmis þegar þau þrefa um jafnvægi í kjarnorkuvopnaeign samtímis og þau vígbúast eins hratt og verða má. — Daníel 11:36-45.

20. Af hverju ráðast málalokin og hvernig er „Míkael“ tengdur þeim?

20 Þótt spádómurinn tali um að „konungurinn norður frá“ muni geisast eins og stormur inn í mörg lönd ráðast úrslitin ekki af því. Það sem úrslitunum ræður er nefnt í Daníel 12:1: „En á þeim tíma mun Míkael, hinn mikli verndarengill, sá er verndar landa þína, fram ganga.“ Þessi Míkael er Jesús Kristur sem ‚gekk fram‘ í krafti ríkis síns árið 1914 til að gera Satan þá þegar rækan frá himnum. Og það er þessi „konungur konunga“ sem gengur til verks í Harmagedónstriðinu til að leggja að velli „konunga jarðarinnar,“ þeirra á meðal konungana norður frá og suður frá. — Opinberunarbókin 12:7-12; 19:11-19.

21. Hver verða endanleg málalok á „hinum síðustu dögum“?

21 Þegar „hinir síðustu dagar“ ná þannig hámarki sínu verða úrslitin ljós — ríki Guðs hefur sigrað. Engillinn lýsir því þannig: „Og það skal verða svo mikil hörmungatíð, að slík mun aldrei verið hafa, frá því er menn urðu fyrst til og allt til þess tíma.“ — Daníel 12:1; samanber Jeremía 25:31-33; Markús 13:19.

22. Hvernig ættum við, þjónar Guðs, að bregðast við þessum spádómum og með hvað í vændum?

22 Ættum við að óttast þessa þrenginga- og hörmungatíð? Ekki ef við stöndum Jehóva megin því að engillinn heldur áfram: „Á þeim tíma mun þjóð þín frelsuð verða, allir þeir sem skráðir finnast í bókinni.“ (Daníel 12:1) Við skulum því öll leggja okkur fram við biblíunám og vera kostgæf og kappsöm í þjónustu við Jehóva. Þá munum við á „hinum síðustu dögum“ geta fundið nöfn okkar rituð í „minnisbók“ Guðs sem er rituð „frammi fyrir augliti hans . . . fyrir þá, sem óttast [Jehóva] og virða hans nafn.“ (Malakí 3:16) Þá munum við hljóta þau sérréttindi að eiga hlutdeild í sigri hans „á hinum síðustu dögum.“

[Neðanmáls]

a Nánari upplýsingar er að finna í bókinni „Your Will Be Done on Earth,“ bls. 220-323, gefin út árið 1958 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Upprifjun atriða tengd „hinum síðustu dögum“

◻ Hverju spáði Jeremía í sambandi við heimsfrið?

◻ Hvaða deilumál verður útkljáð í og með árás Gógs og hvernig?

◻ Hvaða hápunkti lysir draumur Nebúkadnesars?

◻ Hvernig mun valdabaráttu ‚konunganna‘ tveggja lykta?

[Rammi á blaðsíðu 13]

MERKI hins alþjóðlega friðarárs (1986), sem Sameinuðu þjóðirnar hafa valið sér, sýnir ólifusveig, dúfu og mannshendur. Merkið er skýrt þannig: „Dúfan er tákn friðar ásamt ólífusveignum, merki Sameinuðu þjóðanna. Að mannshendurnar styðja dúfu sem er tilbúin til flugs undirstrikar hlutverk mannanna í varðveislu friðarins.“

Núna á kjarnorkuöldinni er svo sannarlega brennandi þörf á því að varðveita frið. En geta hendur manna gert það? Jeremía minnir okkur á þetta: „Ég veit [Jehóva], að örlög mannsins eru ekki á hans valdi, né það heldur á valdi gangandi manns að stýra skrefum sínu.“ Og spámaðurinn bætir við þessari bæn: „Úthell heift þinni yfir heiðnu þjóðirnar, sem ekki þekkja þig.“ — Jeremía 10:23-25.

Dúfan og ólífuviðurinn eru tekin að láni úr frásögn Biblíunnar af flóðinu á dögum Nóa. (1. Mósebók 8:11) Hvernig var komið á friði á þeim tíma? Með verknaði af hendi Guðs, alheimsflóðinu sem afmáði spillt mannkyn. Jesús sagði að „dagar Nóa,“ með ofbeldi sínu og illsku, væru spádómleg fyrirmynd um ‚nærveru‘ hans sem stendur núna yfir. — Matteus 24:37-39; 1. Mósebók 6:5-12.

Enn á ný verður „Guð friðarins“ að afmá heimskerfi Satans og eftir það mun ‚friðarhöfðinginn,‘ Jesús Kristur, koma á eilífum friði. — Rómverjabréfið 16:20; Jesaja 9:6, 7; 33:7.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Jeremía bendir á sanna friðarvon.

[Mynd á blaðsíðu 14]

Esekíel aðvarar: Við verðum að búa okkur núna undir árás Gogs.

[Mynd á blaðsíðu 16]

Daníel afhjúpar hverjar verða lyktir „hinna síðustu daga.“

    Íslensk rit (1985-2025)
    Útskrá
    Innskrá
    • Íslenska
    • Deila
    • Stillingar
    • Copyright © 2025 Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania
    • Notkunarskilmálar
    • Persónuverndarstefna
    • Persónuverndarstillingar
    • JW.ORG
    • Innskrá
    Deila