Hversu dýrlegt er nafn Jehóva!
„[Jehóva], Guð vor, hversu dýrlegt er nafn þitt um alla jörðina!“ — SÁLMUR 8:2, 10.
1. Hvers vegna lét Jehóva landið ‚spúa‘ Kanverjum?
LOKSINS, árið 1473 f.o.t., stóðu Ísraelsmenn í fyrirheitna landinu. En nú var framundan nokkurra ára guðræðislegur hernaður, því að þeir þurftu að hreinsa landið af sínum spilltu íbúum. Voru þessir Kanverjar í raun svona slæmir? Já, svo sannarlega! Skurðgoðadýrkun þeirra og siðleysi var viðurstyggilegt í augum Jehóva og hættulegt þjóð Guðs. Því lét Guð Móse tilkynna að hann myndi nota heilaga þjóð sína, Ísrael, til að fullnægja dómi sínum. Þannig myndi Jehóva láta landið ‚spúa‘ þessari óhreinu þjóð. — 3. Mósebók 18:1-30; 5. Mósebók 12:29-32.
2. Hvaða ‚ávöxt‘ hafa trúfélög kristna heimsins borið?
2 Við gætum líka spurt hvort þessi heimur, sem nú er, sé svo slæmur að hann verðskuldi tortímingu. Nú, hvað um trúarkerfi heimsins? Því miður heiðra þau ekki skaparann, Jehóva Guð. Fólkið í kristna heiminum hefur yfirgefið hann, „uppsprettu hins lifandi vatns, til þess að grafa sér brunna, brunna með sprungum, sem ekki halda vatni.“ (Jeremía 2:13) Sértrú þess inniheldur ekkert ‚sannleiksvatn.‘ Það hefur sýnt sig vera hluta af heiminum með því að styðja styrjaldir hans og stjórnmál og samþykkja siðferði hans. Eins og Jesús sagði þekkist það ‚af ávöxtum sínum.‘ — Matteus 7:16, 17; samanber Galatabréfið 6:7, 8.
3. Hvaða afleiðingu hefur það haft að heimurinn skuli hafa brotið lög Guðs?
3 Hvað um siðferði heimsins? Á síðustu árum hefur fóstureyðingum fjölgað upp úr öllu valdi, svo og barnshafandi unglingsstúlkum og sundruðum fjölskyldum, sér í lagi í hinum svonefndu kristnu löndum. Í sumum löndum endar upp í helmingur allra hjónabanda með skilnaði. „Kynlífsbylting“ sjöunda áratugarins hefur haft aðrar skelfilegar afleiðingar. Ein þeirra var til umræðu á forsíðu dagblaðsins The New York Times þann 13. júní 1986 undir fyrirsögninni: „Búist við að dauðsföll af völdum alnæmis tífaldist til 1991.“ Í greininni var sagt að árið 1991 gætu alnæmissjúklingar í Bandaríkjunum einum verið komnir upp í liðlega 100.000 og árlegur sjúkrakostnaður af þeirra völdum allt að 16 milljarðar dollara. Þessi banvæni sjúkdómur berst aðallega við kynvillumök, fíkniefnaneyslu og blóðgjafir — en allt þetta er brot á lögum Guðs. — 1. Korintubréf 6:9, 10; Galatabréfið 5:19-21; Postulasagan 15:19, 20.
4. (a) Í hverju er hernaður okkar ólíkur hernaði Ísraels á dögum Jósúa? (b) Í hvaða mæli ættum við að hafa félagsskap við veraldlegt fólk og hvers vegna?
4 Á dögum Jósúa sendi Jehóva heilaga þjóð sína til að hreinsa fyrirheitna landið með bókstaflegum hernaði. Hernaður okkar nú á dögum er andlegur. (2. Korintubréf 10:3, 4) Við, vottar Jehóva, grípum ekki til ofbeldis í því skyni að afmá þá sem virða orð Guðs að vettugi. Jehóva mun þurrka þá út á sínum tíma og sinn hátt. (5. Mósebók 32:41, 43) Við höfum ekki náin tengsl við siðlaust fólk þótt við getum sýnt ósvikinn kærleika með því að kunngera því fagnaðarerindið um ríkið. (1. Korintubréf 15:33) Við getum numið orð Guðs með því og hvatt það til að ‚iðrast og snúa við til að syndir þess verði afmáðar.‘ — Postulasagan 3:19; Matteus 21:31, 32; Lúkas 5:27-32.
Rahab og heimili hennar
5, 6. (a) Hvers vegna fóru njósnamennirnir til Jeríkó og í hús Rahab? (b) Hvernig hefur Jehóva oft svarað hjálparbeiðni fólks nú á tímum? (c) Hvernig sýndi Rahab sig vera friðarverða?
5 Jafnvel áður en Ísraelsmenn fóru yfir Jórdan beindi Jehóva athygli þeirra að borginni Jeríkó. Jósúa sendi tvo njósnara, fulltrúa alls Ísraels, og sagði þeim: „Farið og skoðið landið og Jeríkó!“ Hvers vegna að njósna um Jeríkó? Þótt borgin væri lítil og hefði hvergi nærri í fullu tré við Ísraelsher réði hún yfir aðgönguleiðum að Kanaanlandi. Sú varð einnig raunin að nærvera njósnamannanna þar gaf Jeríkóbúum eitthvert tækifæri til að sýna skýra afstöðu með eða móti Jehóva. „[Njósnamennirnir] fóru og komu í hús portkonu einnar, er Rahab hét, og tóku sér þar gistingu.“ (Jósúa 2:1-7) Vafalaust var það fyrir handleiðslu Guðs að þessir njósnamenn fóru í hús Rahab, alveg eins og englar leiða oft votta Jehóva til fólks sem biður til Guðs um andlega hjálp! „Augu [Jehóva] hvíla á réttlátum og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ — Sálmur 34:16; sjá einnig 2. Kroníkubók 16:9.
6 En hví skyldu þessir njósnamenn hafa gengið í hús vændiskonu? Það var ekki gert í siðlausum tilgangi heldur sennilega til að slá ryki í augu Kanverja sem það sáu. Orð Rahab til njósnamannanna gáfu til kynna að hún hafði engan ósiðlegan áhuga á þeim. Hún vissi að þeir voru þjónar Jehóva og gat sagt þeim frá einlægum áhuga sínum á að verða tilbiðjandi hans. Hún hætti jafnvel lífi sínu með því að fela þá á þaki húss síns. Hún var eins og ‚sauðirnir‘ í dæmisögu Jesú sem sýna ‚bræðrum‘ Drottins góðvild. (Matteus 25:31-46) Vottar Jehóva nútímans hika ekki við að heimsækja og nema Biblíuna með slíku friðelskandi, áhugasömu fólki, þótt þeir sýni aðgát og dómgreind. — Lúkas 10:5-7.
7. (a) Hvernig lét Rahab í ljós trú sína á Jehóva? (b) Hvaða viðhorf ættu nýir að hafa og hvernig ættu þeir að breyta?
7 Rahab hafði heyrt af máttarverkum Jehóva. Hún gat látið í ljós trú við njósnamennina sem hún hafði falið: „Ég veit, að [Jehóva] hefir gefið yður land þetta og að ótti við yður er yfir oss kominn og að allir landsbúar hræðast yður.“ Eftir að hafa sagt frá því sem hún hafði heyrt um máttarverk Jehóva hélt hún áfram: „[Jehóva], Guð yðar, er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri. Sverjið mér nú við [Jehóva], að fyrst ég sýndi ykkur miskunn, þá skuluð þið og miskunn sýna húsi föður míns og gefið mér um það óbrigðult merki.“ (Jósúa 2:9-13) Eins og Rahab þurfa nýir, sem læra sannindi Guðs nú á tímum, ekki lengur að hræðast þann dóm sem fullnægt verður á ‚degi Jehóva.‘ (Sefanía 1:14-18) Þess í stað snúa þeir baki við veraldlegum háttum og leita hjálpar votta Jehóva til að hljóta hjálpræði. — Sálmur 3:7-9; Orðskviðirnir 18:10.
8. (a) Hverju nú á tímum samsvarar það að Rahab skyldi hengja ‚rauða festi‘ í glugga sinn? (b) Hvers vegna var Rahab lýst réttlát og með hvaða afleiðingum?
8 Táknið, sem njósnamennirnir gáfu Rahab, var ‚rauð festi‘ sem hún átti að binda í gluggann, en festina höfðu þeir notað til að síga út fyrir borgarmúrinn. (Jósúa 2:17-21) Ef Rahab sýndi þetta tákn yrði húsi hennar þyrmt þegar Jeríkó yrði lögð í eyði. Eins er það nú að þeir sem sýna trú líkt og Rahab verða að auðkenna sig til hjálpræðis sem vígðir, skírðir dýrkendur Jehóva. Opinberunarbókin 7:9, 10, 14 lýsir þeim sem ‚miklum múgi‘ manna sem hafa „þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Þeir iðka trú á fórnarblóð Jesú og sýna hana með kristnum verkum. (Rómverjabréfið 10:9, 10) Við lesum í Jakobsbréfinu 2:24, 25: „Þér sjáið, að maðurinn réttlætist af verkum og ekki af trú einni saman. Svo var og um skækjuna Rahab. Réttlættist hún ekki af verkum, er hún tók við sendimönnunum og lét þá fara burt aðra leið?“
9. (a) Í hverju fólust „verk“ Rahab? (b) Hvaða árangri hefur óttalaus vitnisburður skilað nú á tímum?
9 ‚Verk‘ Rahab fólu í sér að vernda njósnamennina tvo og safna öðrum saman í hús sitt til hjálpræðis. Á sama hátt er hinn ‚mikli múgur‘ okkar tíma önnum kafinn af dyggum stuðningi við hinn smurða ‚trúa og hyggna þjón‘ sem miðlar andlegum „mat á réttum tíma“ og hefur yfirumsjón með prédikuninni um allan heim. (Matteus 24:45-47) Rahab bar fyrir sitt leyti óttalaust vitni fyrir heimili föður síns — sem var áhættusamt því að hún átti á hættu að verða svikin. (Samanber Matteus 10:32-36.) Á sama hátt verða vottar Jehóva að vera hugrakkir í því að bera vitni í fjölmörgum löndum þar sem við andstöðu er að glíma. Það hefur haft í för með sér að miklum fjölda fólks hefur verið safnað saman, og oft hafa heilar fjölskyldur gengið út úr Babýlon hinni miklu til að taka afstöðu með hreinni tilbeiðslu Jehóva. — Sálmur 37:28; 107:21, 22.
Jeríkó — þá og nú
10. Hvaða sérstaka athygli átti Jeríkó að fá?
10 Við skulum líta á þessa stórbrotnu atburði frá öðrum sjónarhóli. Jeríkó var „harðlokuð vegna Ísraelsmanna, svo að enginn maður komst þar út né inn.“ Þetta var fyrsta borg Kanverja sem aftökusverð Jehóva var reitt að. Þar af leiðandi, sem frumgróði helgaður Guði, átti hún að fá sérstaka athygli. Jósúa sagi: „En borgin skal með banni helguð [Jehóva] og allt sem í henni er.“ — Jósúa 6:1, 17; samanber 2. Mósebók 22:29; 3. Mósebók 27:26.
11. (a) Hvaða áberandi hliðstæðu er að finna nú á dögum? (b) Nefnið dæmi um ‚ótta‘ Babýlonar hinnar miklu.
11 Hversu vel samsvarar þetta ekki Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða sem náð hefur hámarki spillingar sinnar nú á hinni blóði drifnu, 20. öld! Hún hefur reynt að loka hliðum sínum fyrir innrás votta Jehóva. Svo notuð séu orð Rahab er komin yfir hana „ótti“ við þjóna Guðs. Til dæmis birtist í ítalska dagblaðinu La Repubblica þann 12. nóvember 1985 grein með yfirskriftinni „Kirkjan rekur upp skelfingaróp gegn vottum Jehóva.“ Í greininni sagði frá fundi í Bologna, sem rómversk kaþólskur kardináli sat, en hann var haldinn til að vinna gegn þeirri „ógn“ sem stafar af vottum Jehóva. Páfi sendi skeyti til að hvetja fundarmenn og lýsa stuðningi sínum. Á fundinum var sagt: „Nú þegar er allur heimurinn morandi af þeim,“ og lýst var yfir að „kirkjan myndi nú búa sig undir stríð“ gegn þessari „hættu.“ En mun það takast? — Jeremía 1:17-19.
12. (a) Í hverju er hugmynd Babýlonar hinnar miklu um „guð“ ólík sannleikanum? (b) Hvers vegna mun Jehóva berjast fyrir votta sína?
12 Innan Babýlonar hinnar miklu er að finna ruglingslega guðamergð, allt frá hinni dularfullu þrenningu kristna heimsins til guðamilljóna austrænna trúarbragða. Áður en Móse skipaði Jósúa til starfa hafði hann sagt: „Heyr Ísrael! [Jehóva] er vor Guð; hann einn er [Jehóva]!“ Á okkar dögum standa vottar Jehóva einir í því að upphefja þennan ‚eina Guð og föður.‘ (5. Mósebók 6:4; Efesusbréfið 4:6) Jehóva mun berjast fyrir okkur eins og hann gerði á dögum Jósúa og annarra drottinhollra leiðtoga í Ísrael. — 2. Kroníkubók 20:15, 17; 32:7, 8; Jesaja 54:17.
Dómi fullnægt
13. (a) Hvað gerðist áður en umsátur Jeríkó hófst? (b) Hvaða hliðstæðu á það sér nú á dögum?
13 Jósúa undirbjó umsátrið um Jeríkó rækilega. Mennirnir, sem höfðu alist upp í eyðimörkinni, voru umskornir. Það táknaði að þeir segðu skilið við allt sem gæti hindrað óskipta hollustu við Jehóva. (5. Mósebók 10:16; 30:5, 6) Tekið var að halda páska á nýjan leik. Fólkið byrjaði að næra sig á afurðum landsins þegar Jehóva hætti að veita því hið undraverða manna. Auk þess birtist „fyrirliði fyrir hersveit [Jehóva],“ vafalaust Logos eða Orðið, Jósúa og hughreysti hann. Jósúa viðurkenndi auðmjúkur návist hans. Allt þetta á sér hliðstæðu hjá vottum Jehóva nútímans sem hafa helgað sig því starfi sem fyrir liggur. Andleg fæða okkur hefur orðið fjölbreyttari og kjarnmeiri eftir því sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur sótt fram skref fyrir skref undir forystu Drottins Jesú Krists. — Jósúa 5:1-15.
14. Hvaða undarlega baráttuaðferð fyrirskipaði Jehóva þegar Jeríkó var umsetin?
14 Líttu nú á vígvöllinn. Jehóva lætur Ísraelsmenn beita mjög óvenjulegum baráttuaðferðum! Í sex daga ganga prestar Ísraels fylktu liði einu sinni á dag í kringum Jeríkó berandi sáttmálsörkina sem táknar nærveru Jehóva. Á undan þeim fara sjö prestar sem blása í hrútshorn, og hermenn Ísraels ganga á undan þeim og eftir. En sjöunda daginn risu þeir snemma, „þegar er lýsti af degi,“ og gengu sjö sinnum kringum borgina. Jeríkómenn hljóta að hafa skolfið af ótta! — Jósúa 6:2-15.
15. Hvaða hliðstæðu sjáum við í starfi votta Jehóva núna?
15 Við sjáum athyglisverða hliðstæðu þessa í því sem vottar Jehóva eru að gera út um alla jörðina. Nýlega hefur starf okkar í þágu Guðsríkis aukist verulega. Á fimm árum fram til 1985 fjölgaði brautryðjendum um 134%. Hersveit brautryðjenda og annarra trúfastra boðbera Guðsríkis fer snemma á fætur, oft í bókstaflegri merkingu, og tekur kostgæfilega þátt í að boða dóma Jehóva. Í augum leiðtoga kristna heimsins hljóta þessir vottar að virðast „mikil og voldug þjóð.“ Klerkarnir „skjálfa“ þegar þeir sjá hvernig boðun sannleikans kemur fjölda hjartahreinna manna til að yfirgefa þá og taka afstöðu með Jehóva. — Jóel 2:1-3, 6.
16. (a) Hvaða kraftaverk einkenndu fall Jeríkó? (b) Hvernig var Rahab umbunuð trú sín?
16 Að síðustu býður Jósúa lýðnum: „Æpið nú heróp, því að [Jehóva] hefir gefið yður borgina.“ Voldugt heróp gellur. Jörðin nötrar og — kraftaverkið gerist — múrar Jeríkó hrynja. Hlýðnir hlaupa Ísraelsmenn fram til að tortíma öllu sem lifir í borginni. Þeir brenna hana í eldi. En sjá! Lítill hluti ytri múrsins stendur enn og út um húsglugga hangir rauð festi. Rahab og fjölskylda föður hennar eru leidd ósködduð út. Síðar hlýtur Rahab enn meiri umbun trúar sinnar þegar hún verður eiginkona Ísraelsmannsins Salmons og ein af formæðrum Jesú Krists. — Jósúa 6:16-26; Matteus 1:5.
17. Hvað tákna þessi kraftaverk?
17 „En [Jehóva] var með Jósúa, og barst orðstír hans um allt landið.“ Á svipaðan hátt verður hið tignarlega nafn Jehóva hátt upp hafið þegar Babýlon hin mikla verður lögð í rúst og svipt auði sínum og dýrð í byrjun ‚þrengingarinnar miklu.‘ — Jósúa 6:27; Opinberunarbókin 17:16; 18:9, 10, 15-17; Matteus 24:21, 22.
Fráhvarfsmaður fremur svik
18. (a) Hvers vegna „æðraðist lýðurinn og varð að gjalti?“ (b) Hvernig brást Jósúa við?
18 Skömmu eftir hinn algera sigur í Jeríkó gerist undarlegur atburður. Hersveitin, sem Jósúa sendir til að sigra grannborgina Aí, er gersigruð. „Þá æðraðist lýðurinn og varð að gjalti.“ Örvinglaður hrópar Jósúa í bæn: „Æ, [Jehóva] Guð, . . . hvað ætlar þú þá að gjöra til að halda uppi þínu mikla nafni?“ — Jósúa 7:2-9.
19, 20. (a) Hvernig tók Jehóva á óhæfuverki Akans og um hvað fullvissaði hann Jósúa? (b) Hvaða nútímahliðstæðu sjáum við?
19 Jehóva opinberaði þá Jósúa að „óhæfuverk“ hefði verið framið í Ísrael. Akan af ættkvísl Júda reyndist vera hinn brotlegi. Af herfanginu í Jeríkó hafði hann stolið ‚fagurri‘ babýlonskri skikkju, svo og gulli og silfri. Jehóva ‚stofnaði Akan í ógæfu‘ og hann og fjölskylda hans voru grýtt til bana. Síðan voru þau og eigur þeirra brenndar. Sem varanlegur vitnisburður um þennan dóm Jehóva var gerð steindys mikil yfir Akan og staðurinn nefndur „Akordalur“ sem merkir „útskúfun, erfiðleikar.“ Enn sagði Jehóva við Jósúa: „Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast.“ Nafn Jehóva var upphafið á þann veg að Jósúa beið aldrei aftur ósigur í bardaga. — Jósúa 7:10-8:1.
20 Á synd Akans sér nútímalega hliðstæðu? Já. Páll postuli varaði við ‚skæðum vörgum‘ sem myndu virða guðræðislega skipan að vettugi og fara sínu fram í eigingirni. Frá og með 1919 hafa slíkir ágjarnir einstaklingar stundum komið fram meðal fólks Guðs. Nefna má nýlegt dæmi frá miðjum áttunda áratugnum þegar sumir þekktir öldungar urðu óánægðir. Það var fyrir neðan „virðingu“ þeirra að bera vitni hús úr húsi, að boða fagnaðarerindið um Guðsríki að fyrirmynd postula Jesú. (Postulasagan 5:42; 20:20, 21, 29, 30) Það leit vel út í þeirra augum að snúa aftur til babýlonskra kenninga. Með slægð reyndu þeir að vekja efasemdir um að hinir ‚síðustu dagar‘ stæðu yfir og draga úr starfi votta Jehóva. (2. Pétursbréf 3:3, 4) Að lokum varð að gera þá ræka. — 2. Jóhannesarbréf 10, 11; samanber Filippíbréfið 1:15-17; Hebreabréfið 6:4-8.
21. (a) Hver virðist hafa verið ein ástæðan fyrir því að það hægði á starfinu síðla á áttunda áratugnum? (b) Hvað kann að hafa átt þátt í að „hraða“ starfinu síðan?
21 Varðturninn þann 15. júlí 1979 (1. janúar 1981 á íslensku) gekk hreint til verks í því að sýna fram á biblíulegan grundvöll þjónustunnar hús úr húsi og mikilvægi hennar. Drottinhollir vottar sóttu fram af miklum krafti þegar níundi áratugurinn rann upp! Líklega höfðu fáeinir fráhvarfsmenn átt sinn þátt í því að draga skyldi úr starfi Jehóva á síðari helmingi áttunda áratugarins — þegar meðalfjölgun starfandi votta Jehóva var innan við 1% á ári. Síðastliðin fimm ár hefur árleg aukning hins vegar numið rúmlega 6 af hundraði að meðaltali. Árið 1985 náðu boðberar Guðsríkis nýju hámarki, 3.024.131, í samanburði við 2.179.256 árið 1975. Jehóva heldur áfram að „hraða“ starfi sínu! — Jesaja 54:2, 3; 60:22.
22. Hvað hljótum við að gera okkur ljóst varðandi nafn Jehóva þegar við skoðum Jósúabók nánar?
22 Svo sannarlega er nafn Jehóva orðið dýrlegt um alla jörðina! En hann ‚boðar‘ okkur margt fleira í Jósúabók eins og við munum nú sjá. — Jesaja 42:8, 9.
Í Jósúabók —
◻ Hvaða fyrirmynd finnum við um heim nútímans?
◻ Hvað lærum við af frásögunni um Rahab?
◻ Hvað finnum við sem samsvarar auknu starfi okkar?
◻ Hvað fyrirmyndar fall Jeríkó?
◻ Hvað samsvarar því hvernig tekið var á synd Akans?