Munt þú halda þér við sannleikann?
EF ÞÚ ert byrjaður að nema Biblíuna með vottum Jehóva þarft þú að fá fullnægjandi svar við einni veigamikilli spurningu öðrum fremur: Er þetta sannleikurinn? Ef þú kemst að þeirri niðurstöðu að þetta sé sannleikurinn, munt þú þá halda þér við hann? Á dögum Jesú Krists og postula hans þurfti fólk að horfast í augu við sams konar spurningar.
Hver urðu viðbrögð fólks þegar postularnir prédikuðu um Jesú? Nú, það sem þeir sögðu um ríki Krists, kraftaverk hans, lausnarfórn, upprisu og eilíft líf hljómaði vel, og margir tóku við því sem þeir heyrðu sem sannleika. Þorri manna gerði það þó ekki. Meira að segja var hinu kristna skipulagi á þeim tíma alls staðar „mótmælt.“ (Postulasagan 28:22) Að taka við sannleikanum, sem lærisveinar Jesú prédikuðu, þýddi þess vegna að fara í bága við almenningsálitið og kalla yfir sig mótlæti. Áhugasamt fólk þurfti því að sanna fyrir sjálfu sér að kenningar kristninnar væru sannleikurinn. Þá fyrst gat það tekið óhagganlega afstöðu.
Þegar Páll og Barnabas komu til Antíokkíu í Litlu-Asíu hlustuðu margir á boðskap þeirra með miklum áhuga. Biblían segir: „Þegar þeir gengu út báðu menn um, að mál þetta yrði rætt við þá aftur næsta hvíldardag. Næsta hvíldardag komu nálega allir bæjarmenn saman til að heyra orð [Jehóva].“ (Postulasagan 13:42, 44) Hjá mörgum dvínaði þessi byrjunaráhugi þegar þeir heyrðu andstæðinga mæla gegn postulunum af miklum tilfinningahita.
Í 13. kafla Postulasögunnar 45. versi segir: „Er Gyðingar litu mannfjöldann, fylltust þeir ofstæki og mæltu gegn orðum Páls með guðlasti.“ Síðan segir í versi 50: „En Gyðingar æstu upp guðræknar hefðarkonur og fyrirmenn borgarinnar og vöktu ofsókn gegn Páli og Barnabasi og ráku þá burt úr byggðum sínum.“ Þeir sem áhuga höfðu urðu að gera upp við sig hvort þeir ætluðu að halda áfram að hlusta á fylgjendur Jesú þrátt fyrir andstöðuna sem var því samfara. Þeir urðu annaðhvort að viðurkenna sem sannleika það sem þeir höfðu heyrt eða loka eyrunum fyrir því.
Andstaða nú á tímum
Eins og var á fyrstu öld mæta kristnir menn nú á tímum andstöðu þeirra sem vilja loka eyrum áhugasamra einstaklinga fyrir sannindum ritningarinnar sem vottar Jehóva kenna. Vinir, ættingjar og trúarleiðtogar reyna oft í örvæntingu að fá áhugasaman einstakling ofan af því að nema Biblíuna með vottunum. Þessir andstæðingar mótmæla, án biblíulegra sannana, því sem verið er að kenna og slá fram fölskum ásökunum.
Hvað ættu þeir að gera sem sýna boðskap Biblíunnar áhuga? Ættu þeir að láta orð andstæðinga loka hugum sínum og eyrum eins og sumir gerðu í Antíokkíu, eða ættu þeir að sanna fyrir sjálfum sér með hjálp Biblíunnar hvort það sé sannleikur sem þeir eru að nema?
Einstaklingum í borginni Beroju var hrósað fyrir það að rannsaka Ritninguna til að sannreyna hvort það sem Páll sagði þeim væri sannleikur. Þegar þeir komust að raun um að hann talaði sannleikann tóku þeir eindregna afstöðu með því. Okkur er sagt: „Þeir [Berojumenn] voru veglyndari þar en í Þessaloníku. Þeir tóku við orðinu með allri góðfýsi og rannsökuðu daglega ritningarnar, hvort þessu væri þannig farið.“ — Postulasagan 17:10, 11.
Berojumenn leyfðu ekki fullyrðingum andstæðinganna að loka hugum sínum fyrir fagnaðarerindinu. Þess í stað rannsökuðu þeir ritningarnar daglega til að sannreyna að það væri rétt sem þeir höfðu heyrt. Þeir höfðu fundið dýrmætan fjársjóð og ætluðu ekki að láta andstæðinga verða til þess að þeir misstu hann úr greipum sér. Er það ekki hyggileg afstaða gagnvart þeim sama fagnaðarboðskap sem vottar Jehóva boða nú á dögum?
Hvers vegna eru sumir mótsnúnir?
Stundum eru það velviljaðir ættingjar, sem þú elskar og virðir, sem eru á móti því að þú nemir Biblíuna, og þú hefur fulla ástæðu til að ætla að þeim sé í einlægni annt um velferð þína. Eigi að síður þarft þú að íhuga hvers vegna þeir séu á móti því að þú nemir Biblíuna með vottum Jehóva. Hafa þeir biblíulegar sannanir fyrir því að það sé ekki sannleikur sem þú ert að læra, eða stafar andstaða þeirra af einhverju sem aðrir hafa sagt þeim? Skortir þá nákvæma vitneskju um það hvað vottarnir kenna? Margir voru mótsnúnir Jesú án þess að vita hvað hann kenndi og sökum þess að þeir trúðu lygum og óhróðri andstæðinga hans.
Þegar Jesús hékk á kvalastaurnum hæddu þeir sem gengu hjá hann, „skóku höfuð sín og sögðu: ‚Svei, þú, sem brýtur niður musterið og reisir það á þrem dögum! Bjarga nú sjálfum þér, og stíg niður af krossinum.‘ Eins gjörðu æðstu prestarnir gys að honum og fræðimennirnir og sögðu hver við annan: ‚Öðrum bjargaði hann, sjálfum sér getur hann ekki bjargað. Stígi nú Kristur, konungur Ísraels, niður af krossinum, svo að vér getum séð og trúað.‘ “ (Markús 15:29-32) Hvað lá að baki slíkum viðhorfum?
Fólk hafði leyft trúarleiðtogunum að móta viðhorf sín, en þeir hötuðu hann af því að hann afhjúpaði þá sem falska kennara er ekki lifðu samkvæmt þeirri staðhæfingu sinni að þeir væru fulltrúar hins sanna Guðs. Opinskátt hafði Jesús sagt þeim: „Hvers vegna brjótið þér sjálfir boðorð Guðs sakir erfikenningar yðar? Hræsnarar, sannspár var Jesaja um yður, er hann segir: Lýður þessi heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.“ — Matteus 15:3, 7-9.
Svo ákaft var hatur trúarleiðtoganna á Jesú og þeim sannindum, sem hann kenndi, að þeir tóku sig saman um að drepa hann og létu einskis ófreistað til að snúa fólki gegn honum. Margir trúarleiðtogar okkar tíma berjast af sömu heift gegn vottum Jehóva. Og vottunum er „mótmælt“ alls staðar eins og frumkristnum mönnum. En er hyggilegt að láta almenningsálitið móta viðhorf þín og hugsun?
Vottar Jehóva boða núna sömu biblíusannindi um ríki Guðs og Jesús og postular hans prédikuðu. Hundruð þúsundir manna um heim allan eru að taka við þessum fagnaðartíðindum, þrátt fyrir megna andstöðu vina, ættingja og trúarleiðtoga. Þeir sem taka við boðskapnum um Guðsríki hafa sannað fyrir sjálfum sér að hann sé sannleikurinn og eru staðráðnir í að halda sér við hann.
Hví skyldir þú vera eins og þeir menn á fyrstu öld sem leyfðu öðrum að teyma sig burt frá hinum lífgandi biblíusannindum sem óvinsælir fylgjendur Jesú færðu þeim? Þess í stað skalt þú halda áfram að nema Biblíuna með vottunum, að nota ritað orð Guðs til að sanna fyrir sjálfum þér að það sem þú ert að læra sé í raun sannleikurinn. (Jóhannes 8:32) Með hjálp Guðs skaltu halda þér fast við sannleikann.